Föstudagur 18.11.2011 - 09:53 - Rita ummæli

Ég styð Bjarna Ben

Við Sjálfstæðismenn erum að velja okkur formann nú um helgina. Sumum finnst það heilbrigðismerki á meðan öðrum finnst óþarfi að rugga bátnum og láta landsfund snúast um það en ekki ástandið í efnhagsmálum og ríkisstjórn á villigötum.

Ég held eftir íhugun að þetta sé það besta sem gat gerst. Bjarni Ben þarf allra vegna að fá sterkt og skýrt umboð og nýtt og það fær hann hafi hann betur gegn Hönnu Birnu sem er sterkur kandítat sem virkar séxý fyrir kjósendur á þessum tímapunkti.

Bjarni Ben fékk svo sannarlega enga hveitibrauðsdaga á formannsstóli. Enginn maður hefur þurft að glíma við erfiðari stöðu flokksins en Bjarni hefur þurft að gera. Þar lagðist allt á eitt og þeir sem halda að það sé eitthvert íhlaupaverk að taka við flokknum við þær aðstæður sem Bjarni gerði það hafa ekki djúpa innsýn í pólitík.

Sjálsftæðisflokkurinn er vanur því að vera burðarás. Hann er stór og sterkur og valdamikill. Við sem kjósum flokkinn treystum honum og trúum á ákveðin grunngildi. Þetta var flokkurinn sem færði okkur frelsi og aukna velsæld og við vorum stolt af því. Og erum…

En samt hrundi heimurinn yfir okkur. Einn daginn varð allt svart og fyrstu viðbrögð voru að kenna Sjálfstæðisflokknum einum um og kannski einni persónu sérstaklega. Seinna erum við svo að læra það að heimshrunið varð ekki til á Íslandi. Heimsins öflugustu hagkerfi og stærstu fjármálaeftirlit eiga í dag fullt í fangi með að glíma við sama vanda og við gerðum og flutu sofandi að sama feigðarósi og litla landið okkar.

Það var við þessar aðstæður sem Bjarni var kosinn formaður Sjálfstæðisflokksins. Ekki glæsilegur heimamundur og enn átti eftir að kárna gamanið og heimatilbúinn vandi af ýmsu tagi tryggði flokknum svo háðulega útreið í kosningum sem enginn maður sanngjarn held ég að reyni að skrifa á Bjarna Benediktsson.

Alltof lítill og smánaður Sjálfstæðisflokkurinn þurfti að finna leiðina áfram. Gríðarleg vonbrigði hangandi yfir og eins og ekki hafi verið nóg að takast á við það verkefni að gera upp við sjálfan sig og endurmeta að þá voru óhemju þung og stór mál að koma inn í myndina.

Þeir sem ekki trúa því núna munu læra það fyrr en seinna að hlutur Sjálfstæðisflokksins í þeirri vegferð að koma okkur frá landráðasamningi í Icasave máli Steingríms og Svavars er stórlega vanmetinn og þar er ekki hægt annað en að eigna formanni flokksins það sem honum ber.

Og hvort sem mér líkar það betur eða verr þá er stór hluti Sjálfstæðismanna verulega svag fyrir því að ganga inn í ESB. Stór hluti kjósenda flokksins vilja líka klára viðræðurnar og kjósa svo um samning. En hann er ekki minni hópurinn eða lágværari sem er algerlega á annarri skoðun. Þarna mætast stálinn stinn og millivegur vandrataður.

Það virðist hafa farið framhjá mörgum að Sjálfstæðisflokkurinn hefur lifað með þessum staðreyndum sameinaður en slíkt hefur öðrum ekki tekist við svipaðar aðstæður. Heldur einhver að hlutverk formanns flokksins í þessu sé léttvægur eða skipti kannski bara engu máli?

Það sem sumir kalla vingulshátt kalla ég stjórnskænsku með jákvæðum formerkjum. Það þarf leiðtogahæfni og kunnáttu í samræðustjórnmálum til. Ég tel að Bjarni Ben hafi leitt flokkinn afar vel fram í þessari stöðu og tekið skynsamlega á málinu.

Stundum finnst mér Sjálfstæðismenn taka undir með andstæðingum flokksins í ómaklegri gagnrýni á formanninn. Ef ég vissi ekki betur mætti halda að margir gleymi þvi að Bjarni hefur verið formaður í rúm tvö ár en ekki áratugi.

Krafan um að hann skjótist upp fullskapaður og ljónsterkur og taki flokkinn á hálftíma og geri hann að 45% flokki í skoðanakönnunum við þær aðstæður sem hann hefur búið við er í besta falli ósanngjörn og alltaf óraunhæf.

Sjálfstæðisflokkurinn þurfti tíma til að ná áttum og sumir segja þann tíma ekki einu sinni liðinn. Við þær aðstæður tel ég mann með eiginleika Bjarna Ben og skapgerð hafa verið réttann mann á réttum stað. Fremur hófstillt yfirbragð og afstöðu til þess að leita lausna með málefnalegri umræðu fremur en hurðaskellum og stóryrðum tel ég vera réttu leiðina. Kannski ekki alltaf stórglæsilegt í ræðustólnum í leikhúsinu við Austurvöll en örugglega hagstæðara til lengri tíma litið.

Bjarni Ben er nefnilega ekki fæddur í hlutverkið eins og kenningasmiðir silfurkeiðarinnar halda fram. Reyndar held ég að enginn hafi beinlínis verið fæddur til þess að leiða Sjálfstæðisflokkinn í gegnum boðaföllin síðustu rúm tvö ár. En það hefur Bjarni þó gert og fáum dylst að hann hefur lært og styrkst mjög verulega um leið og flokkurinn sjálfur.

Ég veit að andstæðingum Bjarna innanflokks sem utan liggur vel við að ýta undir tortryggni í hans garð fyrir það hverra manna hann er. Hvurslags er það og ég spyr hvort einhver sérstök tegund skyldmenna sé annarri hentugri þegar valinn er leiðtogi. Menn standa einir og sér og eru dæmdir af verkum sínum og skoðunum.

Ég er ekki ánægður með allt hvorki hjá Bjarna sjálfum né flokknum mínum og þannig er vísast um alla menn sem hugsa um pólitík hvar í flokki sem er. En mér finnst bæði skynsamlegt og sanngjarnt að Bjarni leiði flokkinn áfram.

Bjarni hefur fengið eldskírn og öðlast reynslu sem er á við áratuga starf undanfarin tvö ár. Hann hefur staðið með Sjálfstæðisfólki og Sjálfstæðisflokknum síðustu rúm tvö ár og á skilið að fá að fara með flokkinn í næstu kosningar.

Það yrði í raun fyrstu kosningar Bjarna Ben sem formanns og hann hefur unnið til þess að leiða flokkinn áfram.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og átta? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur