Sunnudagur 30.06.2013 - 15:46 - 5 ummæli

Segðu mér Illugi

Ekki er öll vitleysan eins. Bjarni Ben vill ganga í það þjóðþrifaverk að leggja landsdóm niður. Illugi Jökulsson leggur út af þessu í nýlegri færslu. Þar kennir ýmissa grasa…

Illugi er upptekinn af því að Bjarni hafi mögulega ekki vitað að til þess að leggja þessa ömurlegu stofnun niður þarf að breyta stjórnarskrá. Í framhaldi af þessu talar Illugi um að ef Bjarni hefði bara stutt tillögur stjórnlagaráðs væri þessi vandi úr sögunni. 

Illugi virðist í sérkennilegri afneitun þegar kemur að vinnu þessa merkilega ráðs. Hún reyndist því miður ekki nógu góð og hvorki þjóðin sjálf né  fræðsamfélagið hafði neinn stuðning við þetta plagg. Kannski þarf að breyta stjórnarskrá en þá er allt eins víst að önnur aðferð verði notuð til þess en sú misheppnaða nú síðast.

Einnig er áhugavert að lesa ummæli Illuga um þessa stofnun, landsdóm. Hann er að mati Illuga það sem hann kallar barn síns tíma, ef ekki handónýt hugmynd frá upphafi.

Hvernig skilgreinir Illugi þetta hugtak, barns síns tíma? 

Þeir eru ekki svo ýkja margir mánuðirnir síðan Illugi og vinstra slettið allt saman notað þetta „barn“ til þess að svívirða pólitiskan andstæðing, í von um atkvæði úr kjörkössum, með þeim hætti að aldrei mun gleymast eða mást af þeim sem tóku þátt í. 

Mig langar að spyrja Illuga að því hvað honum finnst hafa breyst hjá „barninu“ frá því að síðasta ríkisstjórn notaði það?

Svo langar mig mjög að vita hvort hann finni ekkert til skammar gagnvart Geir Haarde….

Röggi

Flokkar: Bloggar

«
»

Ummæli (5)

  • Einar Steingrimsson

    „Þjóðin sjálf“ studdi ekki þetta plagg (frumvarp Stjórnlagaráðs)? Gerði yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni það? Og er það ekki í samræmi við þær skoðanakannanir sem gerðar hafa verið um málið?

    Á hverju byggirðu þessa staðhæfingu?

  • Haukur Kristinsson

    Sigmundur Davíð minnir þegar á Geir Haarde, embættið er honum ofvaxið.
    Báðir þjást af minnimáttarkennd. Birtist á ýmissa vega, hárkollan og ákall GH til Guðs, og allskyns fábúlur hjá SDG um doktotsnám sem og hallærisleg þjóðremba.

    Tveir undirmálsmenn. Gætu verið einkabílstjórar alvöru ráðherra.

  • Steinarr Kr.

    Einar, þjóðin hafnaði þessu plaggi í síðustu Alþingiskosningum. Þeir sem mest púkkuðu upp á þetta plagg skíttöpuðu.

    Haukur það voru verk Haarde sem síðasta ríkisstjórn byggði sitt starf á. Merkilegt að henni tókst ekki að eyðileggja meira, enda voru þeir á móti því sem Geir gerði.

  • Illugi Jökulsson

    Heill og sæll. Ég á dálítið erfitt með að átta mig á því hverju ég á að svara, en úr því ég er ávarpaður sérstaklega þykir mér það þó kurteislega.

    Ég reyni þá að svara spurningunni hvað mér finnist hafa breyst við landsdóm.

    Svarið er ekkert.

    Í fyrsta lagi hefur mér alltaf þótt fyrirkomulag landsdóms ómögulegt. Það er ekki – eins og berlega hefur komið í ljós – gott að þingmenn taki afstöðu til málshöfðunar á hendur þingmanna vegna embættisafglapa. Jafnvel þótt þeir væru allir af vilja gerðir að taka eingöngu ákvörðun á „faglegum“ forsendum, þá verður slíkt háttalag alltaf tortryggt.

    Ef ég man rétt hvarflaði ekki að nokkrum manni í stjórnlagaráði að viðhalda þessu fyrirkomulagi í sambandi við ráðherraábyrgð.

    Í öðru lagi var ég og er enn skoðunar að úr því að lög um ráðherraábyrgð eru í gildi, þá hlutum við að láta á þau reyna eftir hrunið. Hvenær á að ganga úr skugga um hvort ráðherrar hafi brotið embættisskyldur sínar með gáleysi eða aðgerðum ef ekki við svo massíft hrun eins og hér varð? Hrun sem langstærstur hluti þjóðarinnar sýpur enn seyðið af.

    Það var ekki gott að lögin um ráðherraábyrgðina skyldu snúin saman við landsdóm en úr því alþingismenn höfðu ekki – þrátt fyrir mörg tækifæri – haft vit á að breyta þessu fyrirkomulagi (heldur ekki þingmenn Sjálfstæðisflokksins), hvaða annað tól átti þá að nota til að ganga úr skugga um þetta?

    Í þriðja lagi er mér ekki verr við neitt en það að vera lögð orð í munn. Því gremst mér setning eins og sú að þar til fyrir fáum mánuðum hafi ég notað landsdóm til að svívirða pólitískan andstæðing. Þú munt eiga erfitt með að finna þeim orðum einhverja stoð. Ég var alla tíð þeirrar skoðunar að fyrst lögin væru svona úr garði gerð, þá þyrfti að ákæra alla fjóra ráðherrana sem nefndir voru til sögu. Raunar fannst mér persónulega allt í lagi að þáttur allra ráðherranna í ríkisstjórninni hefði verið skoðaður – (auk þess sem mér fannst líka sjálfsagt að kanna ábyrgð bankastjóra Seðlabankans, þótt ekki yrði það reyndar gert með landsdómi).

    Þessi skoðun byggðist ekki á því að ég væri sannfærður um að allir ráðherrar fyrri ríkisstjórnar ættu heima í tugthúsi, heldur á því prinsipi að fyrst þessi lög væru í gildi, hvenær ætti þá að nota þau ef ekki við þetta tröllaukna hrun – sem alveg augljóslega mátti rekja að einhverju leyti til þess að ráðherrar sinntu ekki starfi sínu? Og það væri sjálfsagt að kanna formlega að hve miklu leyti þeir bæru ábyrgð. Ekki aðeins Geir Haarde heldur einnig hinir.

    Þegar Alþingi ákvað hins vegar að ákæra Geir Haarde einan fannst mér málið missa allmjög marks. Vissulega mátti réttlæta að rétt eins og skipstjóri er einn dreginn til ábyrgðar þegar skip strandar, þá væri meiri ástæða til að kanna ábyrgð hans en hinna – en í reynd dró þetta mjög úr öllum málatilbúnaðinum.

    Í fjórða lagi ítreka ég að það er ekki uppáfinning Bjarna Benediktssonar að leggja niður landsdóm. Það var áhugamál okkar allra í stjórnlagaráði, til dæmis, og margra málsmetandi manna á undan okkur.

    • Rögnvaldur Hreiðarsson

      Sæll Illugi,

      Ekki ætlaði ég að vega að þér þegar ég leyfði mér að túlka stuðning við landsdómsferlið eins og ég gerði í færslunni.

      Gott svar hjá þér og takk fyrir það.

      En spurningunni er ekki svarað….

      Hvað hefur breyst sem sannfærir þig um það nú að landsdómur sé úrelt fyrirbæri. Fjölmargir reyndu að benda á þá, ja ég leyfi mér að segja staðreynd, þegar ferlið hófst, en þá var talað fyrir daufum eyrum. Ef mig misminnir ekki stórlega þínum líka….

      Rökstuðningur þinn um að úr því lögin buðu ekki upp á annan valkost hafi þessi aðferð verið eina og besta leiðin finnast mér þunn. Þú segist nú hafa komist að því að landsdómur sé úreltur en ég fæ varla annað séð þegar á líður svarið en að þú reynir þrátt fyrir allt að réttlæta pólitísk réttarhöld. Af því að þá heimild sé að finna í lögum.

      Þú leiðréttir mig ef ég rangtúlka.

      Það ferli að stefna stjórnmálamönnum fyrir hóp af lögfræðingum vegna skoðana sinna eða pólitískra aðgerða fær hvarvetna falleinkun. Veit ekki með norður Kóreu.

      Við erum sammála um að landsdómur er barn síns tíma. Það er ekki að renna upp fyrir mér núna en það er, ef ég skil þig rétt, að renna upp fyrir þér núna.

      Samt hefur ekkert breyst varðandi þennan „dómstól“.

      Hitt er rétt að það er sko ekki uppfinning Bjarna Ben að leggja þetta apparat niður og ekki sérstök ástæða til að eigna honum sérstaklega þá hugsun. En það er fjandakornið ekki verra að hann skuli taka þessa afstöðu en það tókst fyrri valdhöfum ekki að gera þrátt fyrir það sem þér finnst nú svo augljóst. Ég fagna því að ekki skuli hvarla að honum að skjóta málum þangað og leggja svo landsdóm niður…

      Fyrir okkur sum er það bara svo ömurlega aumt að hafa notað þetta apparat fyrir svo stuttu síðan og tala svona núna.

      Við eigum að takast á og vera ósammála og við megum alveg vera pínu óvægin á stundum. En þetta var einum of ef ekki ekki tveimur.

      Ég er viss um að þú veist það…

      Hvernig finnst þér staða Geirs Haarde í þessu núna?

      Kær kv

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur