Ég er spurður hvort ég sé bókstafstrúarmaður
Í þeirri neikvæðu merkingu sem það orð hefur fengið í nútímans rás. Ég kýs að hártoga þetta allt í mínu svari enda spurningin ekki já eða nei spurning,
Auðvitað er biblían grundvöllurinn. Kristnir hafa ekki í önnur plögg að leita. Trúin á Jesú krist er ekki eins og stofnun einkahlutafélags þar sem menn með einföldum hætti breyta samþykktum,
Það er þó þannig að biblian datt ekki fullsköpuð af himnum ofan, það voru dauðlegir menn sem ákváðu hvað þar skyldi vera. Sú saga öll, sú þróun er mjög áhugaverð fyrir guðfræði dellukarl eins og mig….
Ég trúi á biblíuna vegna þess að þar er Orðið sem hefur breytt heiminum meira en nokkuð annað. Þar er vissulega ýmislegt sem ég skil ekki og annað sem ég er merkilega ósammála og ég geng út frá því að þannig muni það alltaf vera,
Þetta orð er lifandi umfram annað sem ég hef lesið. Það sem er satt í dag efasemdir á morgun. En grunnurinn er skotheldur og ekki efi í mínu hjarta að þarna er mitt líf, min von og framtíð auk nútíðar,
Menn hafa gert það að lífsstil að vera ósammála um allskonar og stofnað allt að því óteljandi kirkjudeildir. Af því má draga þá ályktun að þessi bók sé ekki venjuleg bók, heldur bók sem mætir hverjum og einum misjafnlega þó allir játi í grunninn sama hlutinn,
Jesús kristur er sannleikurinn og lífið,
Ég trúi því fyrir mína parta að hver maður hefði afspyrnugott af því að lesa þess bók. Kristnir ættu vissulega að gera það og þeir sem þekkja hana einungis af afspurn, annað hvort þeirra sem elska hana eða þola hana ekki, ættu líka að prófa sjálf…
Vegna þess að þessi bók er einstök og hana lesa tveir menn sjaldan alveg sömu augum,
Er ég bókstafstrúar…
Veit það ekki en veit að mér tekst aldrei að lifa til fulls það sem Jesús kennir, þó mig langi mjög að lifa, nánast hvern staf, en það get ég með engu móti og fyrir því gerir Jesús ráð á hverri blaðsíðu,
Ég les bókina, líka það sem mér finnst torf, líka það sem ég get ekki tengt mig við, líka það sem mér reynist næsta vonlaust að lifa og af hverju geri ég það?
Vegna þess að ég veit, ekki bara af eigin reynslu, heldur reynslu kynslóðanna, sögunnar, að þar liggur leyndardómur. Ég bara veit ekki allt þó mér líði reyndar stundum þannig fyrir misskilning,
Mikið er það samt lamandi hugsun að við séum komin með þetta, munum ekki geta bætt við eða dregið frá…
Sumu er auðveldara að trúa en öðru, auðveldara að fylgja og hvergi held ég því fram að ég sé algerlega laus undan því að handvelja hverju er hagstætt að trúa og hverju eitthvað aðeins minna,
Jesús boðar okkur að elska óvini okkar og biðja fyrir ofsóknarmönnum. Stórglæsilegur boðskapur en hvernig hefur okkur sem gengið? Kennir líka að það sé vont að stela, að girnast, að myrða og allskonar sem okkur gengur líka misvel með en er undurfagurt í grunninn og ferlega erfitt að framkvæmd,
Ég reyni að þiggja fyrirgefninguna sem ég á þegar mér mistakist og þola mér að skilja hvorki né samþykkja Guðs orð í einu og öllu. Ber samt alla virðingu fyrir þessari bók og les hana og bið Jesús um opna augu mín þar sem þess þarf, og þau geta opnast og hjálpa mér að ganga betur fram í dag en í gær,
Hvernig sem það svo gerist,
Jesús kennir okkur ekki að vera dómhörð og Hann kom ekki til þess að dæma þó Guðs orð geti fundið okkur dæmd. Þar er Jesús ekki að dæma heldur við sjálf að eignast ný viðmið byggð á góðum gildum og hvar er sá sem ekki getur tekið gildin sem Jesús boðar að einhverju leyti eða öllu til gagns í sínu lífi?
Kannski er svarið við spurningunni það að mig langar til þess að vera bókstafstrúar, í jákvæðasta skilningi, en tekst það sjaldnast,
36 „Meistari, hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?“
37 Jesús svaraði honum: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. 38 Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. 39 Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. 40 Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“
Matteus 22
Þetta er nú bókstafurinn börnin min og á þessu hvílir trúin. Svo eru allskonar hitt og þetta og þegar við lesum þessa mögnuðu bók þá mættum við muna eftir þessu fyrst og fremst,
Vegna þess að Jesús var og er bókstaflega besti kærleikssölumaður allra tíma
Rita ummæli