Fimmtudagur 23.8.2012 - 21:35 - 2 ummæli

Hatursfull ummæli Björns Vals

Ekki er að því að spyrja þegar Björn Valur tekur til máls. Þá er talað stórt og DV fær fyrirsögn. Nú hefur hann bannfært útvarpsstöð sem gerðist svo bíræfin að boða til umræðu menn sem félagi Björn Valur telur vonda hægri menn og þá sjálfkrafa með ónýtar skoðanir.

Og þar af leiðandi dagskrárgerðarfólkið með hatursfulla afstöðu. Fyrirmyndir þingmannsins í gamla austrinu kæmust við yrðu þeir vitni að málflutningum standandi í stórræðunum við að loka inni listamenn sem gerast sekir um svipað hátterni.

Líklega telur félagi Björn Valur að eini almennilegi miðillinn sé smugan enda eru þeir sem þar ráða með stimplað kort og réttar skoðanir. Og vita auk þess að gagnrýni á ríkisstjórn að ég tali nú ekki um aðalritarann er ekki rétt söguskoðun.

Það er svo einmitt félagi Björn Valur sem elur með sér hatur og hefur uppi stóryrði til þeirra sem eru honum ekki samstíga í skoðunum. 

Í mínum huga er Björn Valur óþarfur og gagnslaus öðrum en léttsiglandi fjölmiðlum í leit að söluvænum fyrirsögnum. 

Hann eitrar umræðuna og dregur niður á plan sem margir helstu fylgismenn hans þykjast vilja eyða þegar aðrir missa sig. Björn Valur kann ekki að vera ósammála fólki og bera virðingu fyrir þeim sem sjá hlutina öðrum augum en hann sjálfur.

Reyndar er það rétt hjá félaga Birni Val að fjölmiðlar gera allt of mikið að því að smala saman fólki með sömu skoðanir og kalla það svo rökræðu. En það er svo langt frá því að bylgjan sé þar eina dæmið.

Enda er það svo að í fyrradag hafði félagi Björn Valur ekki þessa skoðun á því útvarpi. En við sjáum að ekki tekur langan tíma að falla í ónáð og kalla yfir sig dónaskap og fúkyrði hins rétthugsandi stjórnmálamanns.

Félagi Björn Valur hefur ekkert á móti þvi að fólk sem hefur sömu skoðanir hittist í útvarpi. Hann vill bara að það fólk hafi réttar skoðanir.

Það liggja ekki flóknari tilfinningar að baki þessari nýjustu vanstillingu kallangans.

Röggi





Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 21.8.2012 - 15:18 - Rita ummæli

Steingrímur J er magnaður stjórnmálamaður. Lengi héldu margir að hann væri af sérstakri  gerð slíkra. Stefnufastur prinsippkall sem gat verið gaman að hlusta á þegar vel lá á honum.

Þrátt fyrir þá virðingu sem menn báru fyrir honum og hans skýru pólitísku sýn var það nú samt þannig að fáir vildu velja flokkinn hans í konsingum. Fyrr en allt sigldi í strand og heimurinn hrundi yfir heimsbyggðina. 

Þá kom röðin að Steingrími sem myndaði hreinræktaða vinstri stjórn og allt varð sögulegt eins veður gjarnan þegar vinstri menn eru kátir. Laminn var saman sáttmáli sem VG samþykktu í snarhasti undir ylnum af ráðherrastólunum.

Í sem stystu máli hafa mál þróast þannig að VG hafnar að jafnaði öllu sem í þessu grundvallarplaggi samstarfsins en formaðurinn heldur bara sinn sjó og færist án afláts burt frá flokknum sínum.

Steingrímur hefur eiginlega gefið öll helstu baráttumál sín upp á bátinn eftir að hann komast á ráðherralaun og klofið flokkinn í herðar níður þó hann neiti að láta þennan klofning trufla ráðherraleikinn…enn sem komið er.

Steingrímu veitist það auðvelt að fljúga til útlanda og mæla þar með aðferðum í efnahagsmálum sem hann sjálfur var eindregið á móti. Þetta er dæmigert fyrir hann.

Steingrímur er í dag mesti tækifærissinni sem stundar stjórnmál. Nú er það snilld að hafa sett neyðarlög en stutt er síðan hann og Jóhanna ákváðu að lögsækja manninn sem mestan heiðurinn á af þeim lögum.

Hversu djúpt geta menn sokkið? Hversu lengi hafa menn styrk til þess að kannast ekki við sjálfa sig?

Eina prinsippið sem Steingrímur á eftir er það að vera ráðherra. Skoðanafesta og drenglyndi sem ýmsir töldu á meðal hans mannkosta virðast honun gleymd. 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 16.8.2012 - 21:59 - Rita ummæli

Umföllun um vask á ferðaþjónustu

Þá hefur ríkisstjórnin fundið sér nýja grein atvinnnulífs til að berja á, nefnilega ferðaiðnaðinn en þar eru augljós merki um bætta afkomu og vöxt. Sem ef vel er á málum haldið mun skila ríkinu umtalsverðum tekjum með ýmsum beinum og óbeinum hætti.

En þar finnur vinstri stjórnin matarholu. Greinin skuldar vask segir fjármálaráðherra og hlýtur að bregðast eins við gagnvart öðrum greinum sem borga lægra þrepið í vaski eins og kvikmyndagerð þar sem smjör drýpur af hverju strái.

Rúv og sumir aðrir vinsamlegir fjölmiðlar stökkva til og gera það að frétt að greinin hafi ekki borgað vask í nokkur ár. Og tónninn í fréttum rúv í kvöld var sigri hrósandi. 

Ég er svo galinn að ég hélt að vaskurinn væri greiddur af kúnnanum og legðist ofan á verðið. Stórfréttin snýst víst um endurgreiðslur…..

Hækkun á vaski í ferðaþjónustu mun leiða til hærra verðs og alls ekki er víst að það muni laða að fleiri ferðamenn sem er nú undirstaðan að þessu öllu saman. 

Hann er sérkennilega landlægur misskilningurinn um að atvinnulífið greiði vask. Það er að sjálfsögðu kúnninn sem gerir það en atvinnulífið innheimtir og skilar. 

Innheimtur vaskur er ekki tekjur atvinnulífsins heldur skattur ríkissins sem er lagður á viðskiptin. Hvort viðkomandi atvinnurekandi á svo rétt að því að fá vask endurgreiddan er eitthvað allt annað.

Umfjöllunin er öll á þá leið að þessar endurgreiðslur séu í raun undanskot ef ekki hreinlega svindl. Það er fáránlegur útgangspunktur.

Frétt rúv í kvöld er því ef ég er ekki alveg úti að aka hræódýr og líklega í neðra skattþrepinu.

Röggi



Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 12.8.2012 - 18:24 - Rita ummæli

Ríkisstjórn í jafnvægi

Ríkisstjórnarsamstarfið er í fínu jafnvægi og hefur verið frá upphafi. Þetta samstarf minnir á hagkvæmnishjónaband þar sem hjónin hafa fyrir löngu síðan hætt að sofa í sama herbergi eða að hafa nokkur samskipti sem máli skipta í venjulegum hjónaböndum.

En hafa samt undarlegan hag af því að láta samstarfið ganga upp. Nú gerist það einn ganginn enn að burðarásar hjá VG þurfa af innanflokksástæðum að lýsa því yfir að eina mál Samfylkingar, aðildin að ESB, sé í raun ónýtt mál og eina vitið að láta staðar numið.

Viðbrögð Samfylkingar eru ef reynslan hefur kennt mér eitthvað annað hvort þögn eða að gert verður lítið úr málflutningnum og þeim sem hann stunda persónulega og pólitískt. Auk þess mun forsætisráðherra væntanlega úthúða Sjálfstæðisflokknum af þessu tilefni….

Svo verður auðvitað bara haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist við að smíða tillögur að skattahækkunum og næra óvildina í garð hvors annars í leiðinni. 

Slagurinn við andstæðingana verður léttvægur samanborðið við þann slag sem verður milli flokkanna sem mynda þessa ríkisstjórn þegar límið sem heldur flokkunum saman leysist upp á endanum. 

Hvort sú stund er upp runnin veit auðvitað enginn því þegar þessi stórn á í hlut eru öll eðlileg lögmál um samskipti og samstarf úr gildi fallin fyrir löngu.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 12.8.2012 - 10:52 - 1 ummæli

dv.is fjallar um bíóferð

Algerlega geggjuð „frétt“ á dv.is blasti við augum mínum áðan. Það er engin frétt hvort Egill Helgason fer í bíó og enn síður hvort honum endist áhugi fram að hléi eða allan tímann.

Enda virðist þessi frétt vera einhverskonar tæki til þess að fjalla um og koma persónulegu og pólitísku höggi á annan mann sem hefur skoðanir sem hann viðrar á facebook á þessum stórviðburði í lífi Egils.

Hvað fer í gegnum blaðamannshugann þegar svona rusl er skrifað? Hvaða hæfniskröfur þurfa þeir að standast sem fá vinnu við fjölmiðil til þess að „búa“ til svona? 

Fagmennska er undantekning þegar dv.is á í hlut og algerlega valkvæður hlutur. Þessi della á að vera kennsluefni í fjölmiðlafræði og væri í raun hlægilegt ef maður vissi ekki að á bak við „fréttina“ af manninum sem sagði skoðun sína á bíóferð Egils sem er reyndar „tilefni“ skrifa dv.is…..

…er því miður hugsun sem einhver á dv heldur að sé normal fjölmiðlun. 

Röggi




Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.8.2012 - 19:08 - Rita ummæli

Bjarni Benediktsson gerir því skóna að ríkisstjórnin sé að spila taktík þegar hún ítrekað lætur það til sín spyrjast að skattahækkanir séu í pípum og dragi þær svo að einhverju leyti til baka eftir mótmæli hagsmunaaðila og nái sér með því í punkta hjá sumum.

Ég er ekki viss um þetta og hallast fremur að því að hér sé ekki spiluð taktík. Það er nefnilega þannig að í grunninn hafa þeir sem stýra ríkisstjórninni þá hugsjón öðrum sterkari að skattar séu eina leið ríkissins til að afla tekna. 

Sem leiðir það svo eðlilega af sér að þegar einhver starfsemi hvort heldur sem hún er einkarekstur hvers og eins eða atvinnu sýnir bætta afkomu þá kemur ríkið og gerir þessa bættu afkomu allt að því upptæka. 

Einmitt til þess að afhenda stjórnmálamönnum til ráðstöfunar. Þeir hafa sýnt það alla tíð að þeir kunna ekki að fara með kaleikinn. Refsum þeim sem standa sig vel með skattlagningu sem hækkar ráðstöfunartekjur ráðherra um stund áður en skattarnir kæfa allt á endanum.

Kannski er þetta taktík því auðvitað er sniðugt að „hækka“ skatta og „lækka“ þá svo áður en hækkunin tekur gildi og gera sér upp skilning á stöðunni.



Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.8.2012 - 19:22 - 2 ummæli

Björn Valur, innsetning forseta og óvirðing

Nú brestur á með stórtíðindum því ég er að hluta til sammála Birni Val Gíslasyni þegar hann talar um að hugsanlega eigi að gera breytingar á því hvernig forseti er settur í embætti.


Ég aftur á móti er honum ósammála þegar hann telur það fínt hjá sér að mæta ekki þegar forseti er settur í embætti. Hann hefur heilsu til þess að saka Ólaf um óvirðingu gagnvart þingi og kýs að svara í því sama gagnvart honum en sér ekki að Ólafur Ragnar er þjóðkjörinn forseti, öfugt við Björn Val,  sem svívirðir lýðræðið með þessu háttarlagi.


Innsetningin snýst nefnilega ekki um Ólaf Ragnar eða pólitísk fýluköst þeirra sem ekki þola hann. Hún snýst um það að þessa aðferð notum við til þess að setja þann í embætti sem þjóðin hefur kosið til þess og menn með snefil af pólitískum þroska og virðingu fyrir niðurstöðunni mæta hvort sem þeirra maður vinnur eða ekki.


Nú er það þannig að þingið nýtur ekki nægilegrar virðingar alveg óháð því hvaða mælikvarða við miðum við. Það hefur ekki mikið með Ólaf Ragnar að gera heldur miklu frekar þingmenn eins og Björn Val sem er eins og fíll í postulínsbúð sem kann ekki að bera virðingu fyrir neinu öðru en eigin skoðunum.


Björn Valur ætlar að gera dónaskap og viðvarandi óvirðingu fyrir skoðunum þeirra sem eru honum ósammála að karrier. Þar er allt undir…..


Röggi



Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 29.7.2012 - 12:30 - 5 ummæli

Hversu fátæk er Sigríður Ingibjörg Ingadóttir?

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hefur metnað til þess að verða formaður Samfylkingarinnar. Til þess að svo megi verða þarf hún að gera sig gildandi í umræðunni og finna sér markhóp.


Í viðtali sem hún lætur DV taka við sig slær hún um sig með drullumallspólitík þegar hún telur það hafa eitthvert gildi að kalla formenn flokka pabbadrengi og ekki bara það heldur líka ríka pabbadrengi. 


Engu er líkara en að Sigríður hafi verið í dvala árum saman því hún heldur einnig að eitthvert kjöt sé á vinsældabeininu ef hún nefnir Davíð Oddsson á nafn í leiðinni.


Ég veit að slíkt er að einhverju leyti brúklegt á spjallfundum í klíkunum í Samfylkingunni en flestir aðrir eru orðnir heldur lúnir á gömlu komplexunum gagnvart þessum gamla formanni Sjálfstæðisflokksins.


Þegar hún velur að tala um það hverjir þeir eru sem eru henni ósammála í stjórnmálum og hvernig foreldra þeir eiga á hún að mínu mati lítið erindi upp á dekk. 


Bætt umræðuhefð og betri stjórnmálamenning eru faguryrði sem samræðustjórnmálafólkið í Samfylkingunni skreytir sig stundum með en það er ætlað öðrum til afnota.


Hverra manna ætli Sigríður sé og hvað á það fólk af peningum og hún sjálf? Þetta er upplýsingar sem hún hlýtur að telja mikilvægar og vægi hennar sem stjórnmálamanns meira því minna sem til er.


Er þetta er pólitíkin sem Sigríður Ingibjörg Ingadóttir vill standa fyrir?


Röggi

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 27.7.2012 - 21:15 - Rita ummæli

Það er nú bara þannig með mig að ég er andvígur boðum og bönnum þó ég verði svo uppvís að því eins og flestir að vilja samt sum bönn. Einstaklingar eiga að hafa sem mest frelsi til að velja sér sitt líf.


Svo setjum við ramma utan um þetta frelsi og ætlumst til þess að allir haldi sig þar innan við. Sumt af því sem við „leyfum“ er svo verulega óhollt sumum en þó ekki svo að við bönnum öllum.


Einhverntíman var tekin ákvörðun um að leyfa fólki að reykja og drekka áfenga drykki. Og það jafnvel þó alltof margir ráði ekki við drykkjuna og reykinn. 


Samt er þetta leyft og við höfum þrasað um það lengi hvernig á að umgangast þetta. Reykinn höfum við afgreitt í bili með því að skrifa á pakkana kjarnyrtar heimsendaspár til handa neytendunum og svo felum við eitrið frá augum á sölustöðum í viðleitni til þess að friða eitthvað sem gæti kallast samviska.


Fyrir alltof stuttu síðan leyfðum við svo hvort öðru að drekka bjór við hávær mótmæli þeirra sem starfa að forvörnum og meðferðum sjúkra. Þá áttum við öll að vera sauðölvuð seint og snemma á heimilum og til og frá vinnu og allsstaðar þar á milli.


Nú árið 2012 gerist það að Hrafnista hugðist selja áfengi í kaffihúsi staðarins.   Og? Hver er fréttin? Ekki eru dvalarheimili fyrir aldraða þurrir staðir svo ég viti. 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.7.2012 - 21:51 - 3 ummæli

Úrskurðurinn

Þá hefur hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að vísa frá ógildingarkröfu vegna forsetakosninganna. Að vonum sýnist hverjum sitt en ég sé ekki betur en að sumir haldi að þarna hafi rétturinn verið að taka afstöðu öðru sinni til kæru vegna kosninga til stjórnlagaráðs.


Margir skilja helst ekki hvernig skipting valds virkar, eða á að virka. Og of margir geta ílla horft á nokkurn skapaðann hlut nema með pólitískum gleraugum og þurfa því ekki að lesa rökstuðning áður en afstaða er tekin.


Sjá þá að sjálfsögðu skandal og pólitískan óþef í niðurstöðu réttarins. Benda í blindninni á niðurstöðu kærunnar vegna stjórnlagaráðs máli sínu til stuðnings. Mér finnst mikilvægt að halda því til haga að það hér er um annað mál að ræða.


Svona eins og gengur hjá dómstólum enda ekki hægt að gefa sér að þó einn sé sakfelldur fyrir morð hljóti næsti maður alltaf að vera sekur einnig. Ég ber þó fulla virðingu fyrir því að menn vilji bera saman en sá samanburður verður að snúast um lögfræði en ekki réttlæti sem menn sjá eftir á að lögin gerðu ekki ráð fyrir.


Hæstiréttur var einróma í spillingunni sem hinir skilningslausu tala um. Almennt gruna ég einn og einn um að halda að dómarar við hæstarétt setji lög um leið og þeir dæma eftir þeim. 


Þannig er þetta ekki og þó er líklegt að einhver fulltrúi á löggjafarþinginu freistist til þess að ná sér í prik með því að gagnrýna niðurstöðuna sem er fengin með tilvísan í lög. 


Dómskerfið er ekki til þess að túlka tilfinningar eða stemningu hverju sinni. Ekki heldur til þess að þjónusta hópa eða að taka „vinsælar“ ákvarðanir og sem betur fer sitjum við ekki uppi með system þar sem vinsældakeppni stjórnmálamanna dagsins ræður umgengni dómara við landslög.


Það hljóta allir að geta fundið sig ósammála slíku hafi menn á annað borð burði til að hugsa í öðrum prinsippum en pólitískum.

Dómstólar dæma eftir þeim lögum sem fulltrúar þínir á þingi setja þeim. Punktur. 


Það háttarlag réttarins hefur ekkert með pólitík að gera en getur líklega stundum virkað ósanngjarnt en þá er að fara með þær kvartanir þangað sem þær eiga heima. 


Hvernig getur þetta verið öðruvísi spyr ég? 


Vill einhver breyta lögum eftir á eftir stemningunni hverju sinni???


Röggi

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur