Þriðjudagur 14.2.2012 - 20:26 - 3 ummæli

Kastljósið, Bjarni og ábyrgð fjölmiðla

Bjarni Benediktsson var í Kastljósinu hjá Helga Seljan í kvöld. Þar var hann að bregðast við umræðum sem hafa magnast undanfarið um viðskiptasögu Bjarna. Þessi umræða er rekin af DV sem hefur eins og svo oft áður ekki þörf fyrir annað en eigin sannfæringu þegar þar eru felldir dómar.

Helga Seljan tókst á endanum að gera Bjarna reiðann og það fór honum bara býsna vel og Seljan var á flótta eftir það og virtist brugðið og fann ekkert betra á blaðinu en spurningu sem verður án efa klassík í fjölmiðlafræði 101, nefnilega spurninguna um það hvað Bjarni hefði gert við peninga sem hann fékk fyrir hlutabréfasölu…….

Ég hygg að Helgi hafi sérgáfu á því sviði að reita menn upp enda hefur hann sérstakt lag á því að hlusta í engu á svör viðmælenda heldur þrástagast við spurningar sem hefur verið svarað og frammígrip formanns Framsóknarflokksins á þingi smámunir miðað það sem Helgi býður upp á.

Ég ætla ekki að halda því fram að það sé óskastaða fyrir stjórnmálamann að standa í svona löguðu en skil að Bjarni grípi til varna nú. Ég hef sterka samúð með því sjónarmiði að óþolandi er að fjölmiðill sem rekinn er áfram af pólitík telji sig ekki þurfa að taka þátt í umræðum sem byggja á rökum og grundvallaratriðum í lögfræði þegar ásakanir á hendur einstaklingum um lögbrot er haldið á lofti.

Kostulegt var að sjá Helga reyna að fá Bjarna til að bera ábyrgð á því sem bankarnir gerðu. Krafan um að þau fyrirtæki sem Bjarni kom eitthvað að séu einu fyrirtæki Íslands sem urðu ónæm fyrir falli bankanna er út í hött en spurningar Helga sem hlýtur að hafa átt betri daga byggðust á þeirri heimspeki stundum.

Það er svo staðreynd að Bjarni Ben var ekki einn um þá vitneskju að bankarnir voru í veikri stöðu þegar hann seldi bréf í banka. Þetta var enda ekki leyndarmál hvorki fyrir honum né öðrum á þessum tíma og hver sérfræðingurinn ofan í annan skrifaði lærðar greinar um málið og gott ef ekki Bjarni sjálfur auk þess sem mikil lækkun á bréfum bankanna var ekki einkavitneskja nokkurs manns.

Ég hef sterka tilfinningu fyrir því að þau gildi sem vestræn ríki hafa valið sér um réttarríkið sé góð leið til að kveða upp úr um sekt eða sakleysi manna. Þannig er best tryggt að allir verði jafnir þegar gert er upp.

Þessu hafna margir nú um stundir eða reyna að vera með valkvæða skoðun á slíku. Skoðun sem byggir á því að rannsakendur og dómstólar séu til skrauts nema þegar þeir komast að réttri niðurstöðu.

DV og þau 12% sem treysta blaðinu telja að skoðun á málum Bjarna hafi ekkert gildi. Niðurstöður þeirra athugana hlutlausra aðila skipta ekki máli ef sannfæring blaðsins er nógu mikil fyrir öðru. Enginn þarf þó að efast um að öndverð niðurstaða í sama máli yrði burðaratriði í umfjöllun blaðsins.

Ég skil vel að stjórnmálamenn eru í viðkvæmari stöðu en margir aðrir og til þeirra verður að gera kröfu um traust. En ef þeir sem stunda stjórnmál geta ekki með neinum rökum varið sig fyrir umfjöllun fjölmiðla þá verður að spyrja á hvaða vegferð erum við? Hafa stjórnmálamenn enga möguleika og enga leið til andsvara gagnvart fólki sem gefur út blöð?

Þeir sem gleðjast nú af pólitískum ástæðum ættu að skoða þessi mál í stærra samhengi. Fjölmiðar hafa ekki bara réttindi heldur einnig skyldur og ábyrgð þeirra er stór. Enda nota þeir sem gefa út blöð röksemdina um ábyrgð og skyldur alltaf sér í hag og hirða oft lítið um réttindi þeirra sem um er fjallað.

Hvernig væri staðan hjá okkur ef dómstólar lifðu eftir prinsippum sem sumir fjölmiðlar lifa eftir? Þar sem sönnunarbyrðin er ávallt hjá þeim sem er borinn sökum og meðferð málsins lýkur ekki fyrr en vitnið hefur játað hvað sem rök og leikreglur segja. Þannig hagar DV sér stundum og þeir sem hafa hagsmuni af öllu saman láta glepjast af stundarhagsmunum stórpólitískum.

Ég velti því fyrir mér hvernig fólk sem fjölmiðill hefur sakfellt getur í raun losnað undan refsingunni sem fylgir því að fá fleiri hundruð greinar um sig í blaði þar sem engin svör hvernig svo sem reynt er eru tekin gild.

Það er ein stærsta spurningin sem er ósvarað eftir heimsókn Bjarna í Kastljósið.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 10.2.2012 - 08:38 - 3 ummæli

Meirihluti og pólitískir sóðakarlar

Það er skemmtilegt á vissan hátt að fylgjast með viðbrögðum við myndun nýs meirihluta í Kópavogi. Allt að því fullkomin móðursýki og gildishlaðin stóryrði einkenna tal margra. Reyndar er ósanngjarnt að gera miklar kröfur til Björn Vals. Hans framlag er að jafnaði dónaskapur um persónur á milli þess sem hann hefur skoðanir á þingi sem eru fyrir neðan allar hellur og er ég þá ekki endilega að vísa í Icesave 1……….

Menn láta eins og nýr meirihluti hafi rænt völdum með vopavaldi að næturlagi. Hvurslags afstaða er það? Það hafði lítið með Sjálfstæðisflokkinn að gera að oddviti Samfylkingar fékk augastað á bæjarstjórastól og linnti ekki látum fyrr en allt sprakk.

Það hafði einnig ekkert með Sjálfstæðisflokkinn að gera að ekki tókst með nokkru móti að búa til nýtt samstarf utan um þennan draum oddvitans. Allt var reynt dögum saman…..og vikur liðu. En allt kom fyrir ekki.

Það er nú þannig að lög um sveitastjórnir gefa ekkert svigrúm. Ekki verður kosið aftur fyrr en að fjórum árum liðnum. Þess vegna verður að mynda meirihluta og auðvitað endar það þannig.

Þess vegna er áhugavert að fylgjast með því hversu mikið pláss pólitískir sóðakarlar eins og Björn Valur og fleiri fá þegar menn nú úthúða þeim sem tókst að mynda meirhluta eins og þar hafi menn framið glæp.

Hin sorglega niðurstaða fyrir þá sem ekki geta unað því að búa við lýðræði í þesssum efnum hlýtur að vera að ekki virðist hægt að stjórna Kópavogi án aðkomu Sjálfstæðisflokksins. Hvernig ætli standi á því?

Það er nauðsynlegt fyrir þá sem ekki geta haldið aftur af andúð sinni á Sjálfstæðisflokknum en vilja samt láta taka mark á sér að gera sér fulla grein fyrir því að það hafði ekkert með þann flokk að gera að fyrrverandi meirihluti sprakk vegna deilna um vegtyllur fyrst og fremst…..

…og það er eðlilegur gangur mála að sveitarstjórnarmönnum í Kópavogi bar skylda til að mynda nýjan meirihluta. Það tókst og ekkert þarf að vera að því að menn hafi skoðanir á honum. En skilningur og virðing manna eins og Björns Vals fyrir lýðræðinu er bundinn við að hann og hans fólk fái að ráða.

Pólitíska umræðuhefðin sem sumum verður tíðrætt um á sunnudögum þarf ekki á því að halda að þeir sem bjóða best í kjafthætti og stóryrðum hafi að jafnaði orðið óháð innihaldi og inntaki.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.2.2012 - 08:33 - Rita ummæli

Eitt af því sem var fyrirséð að myndi gerast í kjölfar hrunsins var að skilin á milli hægri og vinstri hlutu að skerpast. Hér er við völd glerhörð vinstri stjórn sem vinnur eftir hugmyndafræði sem var notuð með ömurlegum afleiðingum fyrir austan gamla járntjaldið sem flestir fagna að tilheyrir nú sögunni til.

Eftir nokkra mánuði af slíku stjórnarfari hafa flestir fengið nóg bæði þolendurnir þ.e. þjóðin og svo auðvitað vinstri flokkarnir sjálfir. Það er ekki bara stíllinn sem er vandamálið heldur stefnan sjálf alveg ofan í rót.

Til að bregðast við þessu hafa vinstri menn brugðið á það ráð að tala alls ekki um vinstrið heldur eingöngu um hægri. Einn þeirra er gamli þráhyggjufanturinn jonas.is. Hann er enn með Davíð á heilanum og virðst ekki hafa tekið eftir því að nú stjórna aðrir menn.

Ég tel að kenningin um að heimskreppuna megi skrifa á örfáa Íslenska ráðamenn sé alveg út í hött og skiptir auðvitað engu þó menn eins og jonas.is þrástagist. Engu skiptir hvaða stjórnarfar var við lýði þegar systemið hrundi. Allsstaðar varð hrun og eini munurinn á okkur og flestum öðrum löndum var að við gátum ekki staðið storminn af okkur eins og margir aðrir.

En menn eru auðvitað frjálsir að þeirri skoðun að grunn lögmál hins vestræna viðskiptaheims séu vandinn. Ég hef séð og heyrt öfluga menn sem ekki eru uppfullir af kreddum eins og gamli ritstjóri DV halda uppi áhuaverðum umræðum um slíkt.

En enga menn hef ég samt heyrt tala af sannfæringu um eitthvað annað og betra en það sem vestræn ríki hafa valið. Alveg er víst að þær vonlausu hugmyndir sem menn höfðu í austanverðri Evrópu voru og eru ónýtar þó enn sé verið að þumbast við hér.

Og meira að segja jonas.is veit þetta og hefur því fundið nýjan vinkil. Hann persónugerir vandann í klassískum DV stíl og heldur upp linnulausu rugli um að örfáir menn búsettir hér á landi hafi sett landið á hliðina.

Þetta hljómar eins og tónlist í eyrum sárþjáðra vinstri manna sem fagna þessu hálmstrái.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 8.2.2012 - 15:54 - Rita ummæli

Ég rakst fyrir tilviljun á facebook status hjá Jóni Þórissyni sem ég held örugglega að sé arkitektinn sem varð aðstoðarmaður Evu Joly. Þar spyr hann hvort vinir hans á fésinu muni ekki eftir því hvernig mokað hafi verið yfir verðsamráð olíufélaganna með því einu að þröngva Þórólfi Árnasyni út úr pólitík.

Þeir dúkka upp lukkuriddararnir núna hver um annan þveran og skrifa söguna upp á nýtt eftir smekk. Þessi söguskýring var vinsæl um tíma og þótti pólitískt hentug og hér reynir Jón að endurnýta hana og treystir á að fólk muni einmitt alls ekki eftir málinu.

Það er nefnilega þannig ef mig misminnir ekki gróflega að löggjöfin okkar gerir ekki ráð fyrir því að eigendum fyrirtækja eða starfsmönnum sé refsað fyrir ólöglegt verðsamráð þeirra fyrirtækja sem þeir jafnvel stýra og eða eiga.

Þetta er ekkert nýtt og við sjáum eigendur og forstjóra símafyrirtækja eða matvörurisa dæmda fyrir ólöglegt samráð og viðskiptahætti og kennitölunni er refsað með fjársektum sem fyrirtækin sækja svo samviskusamlega í vasa neytenda sem er þar með refsað öðru sinni.

Fælingarmáttur slíkra refsinga virðist enginn vera en þrátt fyrir það má ekki breyta þessari löggjöf. Í sumum löndum eru forstjórar settir í járn en hér er það kennitala sem hlýtur refsingu eins og kennitölur taki ákvarðanir.

Ég hef oft áður lýst þeirri skoðun minni að þessu eigi að breyta og kannski Jón Þórisson gauki því að samflokksmönnum sínum sem ráða á löggjafarþinginu úr því þetta er honum hugleikið.

Saga Þórólfs var þannig að hans sekt í málinu var hið minnsta allnokkur og mig minnir að hann hafi haft verðsamráð á sínu verksviði. Eftir þetta varð Þórólfur að gefa frá sér pólitíska drauma sína og fannst ýmsum eins og honum væri þar með einum gerð refsing.

Það er í besta falli áunninn misskilningur. Eigendum og starfsmönnum var ekki gerð refsing persónulega og það kom þeim víst ekki á óvart sem þekkja til þeirra laga sem um málið gilda.

Þórólfi var því ekki gerð refsing fyrir lögum frekar en öðrum þó hann hafi haft lifibrauð sitt af svínaríinu en af eðlilegum ástæðum varð snöggt um pólitíska drauma hans. Ég hef fulla sannfæringu fyrir því að eins hefði farið fyrir hinum stjórnendum olíufélaganna hefðu þeir gengið með stjórnmálamann í mallanum þarna.

Þetta er einmitt prýðilegt dæmi um það að þó löggjafinn refsi einstaklingum sem gerast brotlegir við hegningarlög ekki getur almenningur og siðferðisþrek þjóðar gert það. Þetta ætti að vera heilbrigðisvottorð til handa þjóðinni en Jón Þórisson sér þetta ekki þannig af einhverjum ástæðum.

Þessum lögum þarf að breyta á þann veg að þeir aðilar sem taka ákvarðanir og hafa af því atvinnu að stunda verðsamráð sé refsað en ekki kennitölunni og þar með neytendum upp á nýtt.

En kannski finnst Jóni Þórissyni að fyrrum stjórnendur verðsamráðsolíufélagnna ættu að eiga bjarta og skæra framtíð fyrir sér í pólitík. Öðruvísi er ekki hægt að skilja söguskýringar hans.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 8.2.2012 - 09:13 - 3 ummæli

Feluleikur Steingríms

Það er ekki verið að fela neitt eða fegra segir Steingrímur J þegar ríkisendurskoðandi skilur ekki af hverju 47 milljarða skuldbinding ríkissins vegna lífeyris er ekki gjaldfærð í reikningum Steingríms. Hér er því væntanlega um misskilning að ræða hjá embættismanninum.

Ég ekki von á því að mikið verði gert með þessa uppivöðslusemi ríkisendurskoðunar. Reynslan hefur sýnt að athugasemdir þaðan fara inn um eitt og út um hitt þegar pólitíkinni hentar.

Ég er hvorki endurskoðandi né bókari og er því kannski fyrirgefið þó ég skilji trauðla útskýringar ráðherrans. Steingrímur talar um að allt sé þetta nú normal hjá sér enda óeðlilegt að færa til gjalda þessa skuldbindingu þar sem enginn veit nákvæmlega hversu mikil hún verði þegar hún kemur til greiðslu.

Þetta er skemmtileg nálgun og nýstárleg nokkuð. Ég get þá samkvæmt þessu sleppt því að færa til gjalda lán vegna þess að ég veit ekki nákvæmlega hver endanleg upphæð verður til greiðslu hvorki mánaðarlega né endanlega.

Mér finnast útskýringar ráðherrans út í hött. Staðan varðandi þessa skuldbindingu er sú að ríkissjóður skuldar þessa upphæð núna og ríkisreikningurinn hlýtur að verða að sýna stöðuna eins og hún er. Hvort hún mun hækka eða lækka er algert aukaatriði.

En Steingrímur notar margþvælda Íslenska aðferð. Skuldin er einfaldega ekki til fyrr en reikningurinn dettur inn um lúguna!

Annars er það þannig að fáir hafa á þessu máli áhuga eða gera sér grein fyrir því hversu alvarlegt það er ef ríkið getur ekki staðið við lífeyrisskuldbindingar sínar. Spyrjið þið bara Grikki sem eru að súpa seyðið eftir svona bókhaldsæfingar ráðamanna.

Þegar Geir Haarde tók við ríkiskassanum á sínum tíma í bullandi góðæri og sölu ríkisfyrirtækja notaði hann einmitt afgang af ríkissjóði til að greiða niður skuldir ríkissjóðs vegna þessara skuldbindinga.

Þá eins og nú hefur varla nokkur maður áhuga á svona málum. En það kemur að skuldadögum í þessu og þeir sem einu sinni héldu að bankar og ríkisstjórnir gætu ekki farið á hliðina ættu að vita að það voru einmitt svona bóhaldsæfingar sem hjálpuðu til í þeim efnum.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 7.2.2012 - 20:50 - 5 ummæli

Lífeyrissjóðir og eftiráspekin

Nú er það vandi lífeyrissjóðanna sem fólk talar um. Þeir töpuðu stórfé í hruninu og virðist koma mörgum á óvart. Og nú vilja menn sjá blóð renna og finna einhverja til að axla ábyrgð. Mér finnst umræðan áhugaverð fyrir margar sakir.

Á Íslandi er glæpur þeirra sem eru gabbaðir talinn meiri en þess sem stundar gabbið og hleypur á brott með gróðann. Það er vel kunn staðreynd að fjármálakerfi heimsins hrundi með látum. Loftbóluhagkerfi byggt á allsherjar blekkingu undir það síðasta.

Og það er bókstaflega leitun að þeim sem ekki bitu á agnið hvort heldur er um að ræða eftirlitsstofnanir, ríkisstjórnir, efnahagsbandalög, matsfyrirtæki eða fagfjárfesta. Enginn sá þetta fyrir í tíma.

Og nú viljum ganga milli bols og höfuðs á þeim sem stjórnuðu lífeyrissjóðunum og fjárfestu í fyrirtækjum sem þóttu sallafín, sum meira að segja löngu eftir hrun. Flestir eru búnir að gleyma háværum kröfum um virka þátttöku þeirra í atvinnulífinu. Hvar eru þeir nú sem vildu koma heim með eigur sjóðanna til að „bjarga“ bönkunum dagana örlagaríku þegar Guð gleymdi að blessa Ísland?

Umræðan hefur snúist að ótrúlega miklu leyti um það hvort ferðir starfsmanna eru vinnuferðir eða hreinlega mútuferðir eins og lýðskrumarinn Saari kallar þær en hann fer mikinn núna og gleymir því þá að hann á sæti á löggjafarsamkomu okkar og þar eru sett lög m.a um lífeyrissjóði.

Stutt er síðan ráðherra einn varð að biðjast afsökunar þegar hann nefndi vinnuferðir og hagsmuni í sömu setningunni en nú tekur umræðan skrýtinn krók og allt er leyfilegt. Auðvitað verður að fara vel og gagnsætt með slíka hluti en ég ber litla virðingu fyrir tali um að allar slíkar ferðir séu alltaf óeðlilegar. Slík prinssipp hitta þá án efa mun fleiri en starfsmenn lífeyrissjóða illa.

Nú er tími eftiráspekinga sem allt vita nú en þögðu þá. Rithöfundur einn þótti orðsnjall þegar hann sagðist hreinlega ekki viðurkenna þau vísindi að menn segðu auðvelt að vera vitur eftir á. Heimurinn væri betri staður ef bara væri hægt að skrifa söguna áður að hún gerist eins og sumir bæði utan rithöfundastéttarinnar og innan virðast telja mögulegt. Það er staðreynd að stundum er ekki við öllu séð þrátt fyrir einbeittan vilja og sum mistök eru heiðarleg mistök.

Auðvitað á ekki að gefa afslátt hafi menn gerst sekir um lögbrot og ég ber mikla virðingu fyrir málefnalegri og uppbyggilegri gagnrýni á bæði strúktur lífeyrissjóðanna, restrarkostnað, fjölda þeirra og því hvernig valið er í stjórnir og valdinu dreift eða viðhaldið.

Ég er auðvitað ekki ósnortinn af umræðum um fjárfestingar lífeyrissjóðanna en mér sýnist þeir sem bjóða hæst og stundum ódýrast í umræðunni hafa orðið því miður og þá er hætta á að lítið gagn verði að til lengri tíma litið.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 6.2.2012 - 21:32 - Rita ummæli

Lífeyrissjóðirnir eru brennidepli núna í kjölfar frétta af gríðarlegu tapi þeirra þegar fjármálakerfi heimsins hrundi. Mér sýnist veruleg hætta á að umræðan verði yfirborðskennd og þeir sem hæst láti og bjóði mest muni hafa orðið.

Vinsælt er að gagnrýna boðsferðir lífeyrissjóða og vissulega hlýtur að verða að umgangast þær af gagnsæi og fagmennsku enda skilin á milli þess sem menn kalla vinnuferðir og boðsferðir að verða dulítið óljós og ekki sama hver talar og um hvað.

Stutt er síðan heill ráðherra varð að bjðjast afsökunar þegar hann talaði um ferðir til Brussel og hagsmunarekstra í sömu setningunni. Í prinsippinu er snúið fyrir einfeldning eins og mig að sjá allan eðlismun þarna. Hvenær eru vinnuferðir fjölmiðlamanna boðsferðir og hvenær ekki?

Margir virðast halda að Íslenskir fagfjárfestar hafi verið undanþegnir þegar systemið hrundi og telja það sjálfkrafa og augljóst merki um svindl að við skulum tapa. Af hverju skyldu forráðamenn lífeyrissjóða einir manna átt að sjá það sem engir aðrir sáu þó gaumgæfilega væri skoðað og faglega af til þess bærum eftirlitsstofnunum innlendum sem erlendum?

Krafan um að sjóðirnir væru virkir þátttakendur í atvunnulífinu var og er alltaf mjög hávær og margir vildu meira en sjóðirnir gerðu. Nú er það gleymt og þeir sem vildu t.d. að sjóðirnir kæmu heim með eignir sínar allar til að setja inn í ónýta banka síðustu dagana sem Guð gleymdi að blessa Ísland eru sumir í dag mestu gagnrýnendur sjóðanna. Mikið var nú gott að ekki var farið að þeirri vel meinandi ráðgjöf.

Ég get sagt það þó ég skil þá ágætlega sem gagnrýna málefnalega hvernig þessir sjóðir eru samansettir. Og auðvitað er ekki nokkur ástæða til að gefa afslátt af réttvísinni hafi menn gerst brotlegir við lög.

Ég skil þá líka sem sjá ofsjónum yfir kostnaðinum við að halda úti þessu kerfi. Og hef einnig vissa samúð með þeim sem vilja sjá meiri valddreifingu en veit ekki alveg hvernig það skal útfæra.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 6.2.2012 - 21:22 - Rita ummæli

Lífeyrissjóðirnir eru í brennidepli núna. Það kemur ekki til af góðu enda fréttir af miklu tapi þeirra eftir hrun ekkert gleðiefni. Mér sýnist umræðan um lífeyrissjóðina ætla að sn

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 6.2.2012 - 12:17 - Rita ummæli

Það ER gott að vera vitur eftir á

Ekki er það fallegt. Lífeyrissjóðirnir töpuðu peningum á hruninu. Það er að koma í ljós núna og tölurnar eru hrikalegar. Sér í lagi er hægt að gera þær stórar þegar dregin er upp dramatíseruð mynd af því hvernig peningar sem lífeyrissjóðirnir hafa til umráða eru til komnir. Nefnilega með brauðstriti almennings.

Ég ætla ekki að bera blak af mönnum hafi þeir gerst sekir um lögbrot. En ég ætla heldur ekki að vera sá sem allt veit best eftir á eins og sumir vel skrifandi menn leyfa sér stundum. Engu skiptir þó menn af hentisemi gefi ekkert fyrir það að auðvelt sé að vera vitur eftir á. Það er auðvelt að vera vitur eftir á og ekkert sérstaklega smart heldur alltaf.

Ég hef heldur ekki dregið lappirnar í gagnrýni á eigendur banka sem stálu úr þeim peningum en þó leyft mér að benda á að bankakreppan var ekki fundin upp á Íslandi og ekki fjárfestingakreppan heldur.

Það voru ekki bara Íslenskir fagfjárfestar hvort sem þeir heita lífeyrisssjóðir eða annað sem töpuðu. Margar af stærstu peningstofnunum heims á þeim tíma hafa nánast farið á hliðina eftir viðskipti og fjárfestingu í Íslenska undrinu. Ég man varla hversu mikið var verið að afskrifa núna síðast í Actavis….

Þetta er stofnanir sem hafa kennitölu í löndum með mikla reynslu af fjárfestingum og virkt eftirlit en allt kom fyrir ekki.

Krafan um að lífeyrissjóðirnir fjárfestu í Íslensku viðskiptalífi var gríðarmikil allan velgengnistímann og þá auðvitað ekki síst í fyrirtækjum sem voru að skila góðum tölum. Ekki fór mikið fyrir gagnrýni á þetta þá hvorki frá frístundasérfræðingum eða fagmönnum hvar sem þá var að finna.

Ekki voru eftirlitsstofnanir með viðvörunarorð hvorki hérlendis né erlendis. Öðru nær. Öll mælitæki möguleg sýndu að fjárfesting í undrinu okkar var bæði skynsamleg og vænleg leið. En nú spretta upp menn sem taka ekki mark á sögunni.

Margir vilja sjá blóð renna og því liggja lífeyrissjóðirnir nú vel við höggi. Tölurnar eru sláandi og óþolandi og gera verður kröfu um að skýringar verði gefnar að svo miklu leyti sem það er mögulegt og ekki er ástæða til að gefa afslátt sé maðkur í mysunni.

Tap lífeyrissjóðanna er vissulega grafalvarlegt mál en datt einhverjum í alvöru í hug að lifeyrissjóðir einir fjárfesta slyppu við tap og hversu sanngjarnt er það?

Margir hafa mikla andúð á lífeyrissjóðunum af öllum ástæðum mögulegum og ég get skilið eitt og annað í þeirri afstöðu. En það verður að skoða mál eins og þessi af yfirvegun og einmitt að læra af sögunni og skoða þær ákvarðanir sem teknar voru í sannsjörnu ljósi þess sem sagan kennir okkur.

Menn sem hugsa eins og Guðmundur Andri þykjast ekki þurfa að taka mark á neinu eftir á. Við hvern var hann að tala öll góðærisárin? Af hverju skrifaði hann ekki pistil?

Ég man reyndar eftir fólki sem fékk þá afbragðshugmynd að lífeyrissjóðirnir kæmu „heim“ með eigur sínar og reyndu að „bjarga“ bönkunum þegar allt var þar brunnið innandyra sem brunnið gat á síðustu dögum fyrir hrun.

Þá voru til sérfræðingar sem voru tilbúnir að setja öll eggin í eina körfu. Ég fagna því að ekki voru til menn í lifeyrissjóðunum þá sem létu undan þess tíma fyrirfram sérfræðingum.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 31.1.2012 - 10:53 - Rita ummæli

Nú tókst Ögmundi að móðga opinbera starfsmenn duglega. Ögmundur missti sig í baráttunni gegn ESB og sagði óvart það sem hann hugsaði sinnum tveir. Ég er nokkuð viss um að hann trúir því enn að embættismenn séu hallir undir ESB vegna bitlinga og ferðapeninga.

En það bara gengur ekki fyrir mann eins og Ögmund að hafa þannig skoðun og því biðst hann bara afsökunar en ekki auðmjúklega eða af trúverðugleika. Þeir sem vilja inn í ESB hyggjast svo blóðmjólka þetta pr klúður Ömma til að koma höggi á nei fólkið.

Og tala um að þetta sé týpískt dæmi um umræðu neiaranna. Ég sjálfur sé ekki mikinn mun á kúk og skít þegar kemur að orðræðunni í þessum efnum. Sýnist fylkingarnar hamast við að saka hvor að aðra um að vilja Íslandi ekki gott með afstöðu sinni.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur