Miðvikudagur 27.7.2011 - 13:49 - Rita ummæli

Hver er Ólafur Arnarsson?

Þeir sem standa að amx vefnum geta auðvitað ekki kvartað undan því að þurfa að takast á við menn eins og Ólaf Arnarsson sem er rithöfundur og bloggari. Stundum eru mörkin þarna á milli alveg óljós og skáldaleyfið nýtt til fullnustu.

Ólafur getur skrifað skemmtilega og heggur í báðar áttir oft og hefur sérmenntað sig í „látum þá neita því“ aðferðinni. Sú tegund tjáningar þótti allvíða, og þykir víst enn hjá siðuðum þjóðum, afleit.

Ólafur er langt frá því eini maðurinn sem hefur náð sér í frægð með þessari aðferð og mér liggur við að segja að þetta sé að verða plagsiður. Steingrímur Hermannsson byrjaði þetta líklega en hann var sífellt að heyra eitt og annað í pottinum og gerði það án hiks að opinberri umræðu.

Rithöfundurinn Ólafur Arnarsson gefst ekki upp á því að fullyrða eftir upplýsingum sem hann segir skotheldar að hann viti það að LÍÚ styrki amx stórlega. Svo leynilegar séu þessar styrkveitingar að sumir stjórnarmenn viti ekki af þeim. Ekkert er þó svo leynilegt að Ólafur Arnarsson viti það ekki.

Þessu neitar LÍÚ ítrekað en rithöfundurinn situr við sinn keip. „Ég bara veit þetta“ ítrekar bloggarinn og þar við situr og sagan fær vængi. Og þeir sem hafa til þess áhuga geta svo smjattað eftir behag. Og bloggarinn snýr sér svo að næsta máli….

Það eru örugglega margar hliðar á þessu máli. Hversu lengi er normalt að menn haldi áfram að smyrja á fólk og fyrirtæki án þess að þurfa að færa minnstu sönnur á mál sitt eða að hafa nokkuð það fram að færa sem styrkir söguna annað en eigin sannfæringu? Það er nefnilega ekki LÍÚ eða amx að afsanna þetta eins og margir virðast halda.

Amx kallar reyndar ekki allt ömmu sína og kallar kannski svona lagað yfir sig með

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 25.7.2011 - 21:44 - 15 ummæli

Öfgar og geðveiki

Ritstjóri Eyjunnar hefur hugsanlega fengið væg einkenni bakþanka sem hann kannast þó ekki við eftir grein sem hann skrifaði af nokkurri vanstillingu um Hannes Hólmstein og amx og fleira vont í heiminum.

Ég veit ekki hvort tilefnið var grein um Össur Skarphéðinsson á amx eða hugarvakning sem ritstjórinn varð fyrir þegar aðhlátursefnið Árni Páll Árnason reyndi að gera sér, kannski undir rós, einhversskonar pólitískt mat úr hörmungaratburðunum í Noregi.

Ritstjórinn þarf svo ekkert að biðjast afsökunar á hatri sínu á amx og því sem þar er hvíslað eða ofnæminu fyrir Hannesi Hólmsteini. Sú saga er löng og merkileg og menn þumbast enn við í leðjuslagnum og ríghalda í fornar víglínurnar. Í þeirri baráttu virðist allt leyfilegt á báða bóga og má vart á milli sjá þó sumir þykist kannski sjá stigsmun er hann að mínu mati ekki eðlis.

En mér finnst verulega langt til seilst hjá þeim kumpánum að ætla að sýkna fjöldamorðingjann í Noregi af geðveiki heldur dylgja um að þetta sé í raun rökrétt afleiðing af skoðunum öfga hægrimanna sem hefði þá mátt búast við á hverri stundu frá fólki sem mælist alheilbrigt á geði.

Tal öfga hægri manna höfðar ekki til mín og það ryfjast upp fyrir mér að snarbilaðir menn finnast víst víða og ekki laust við að við þekkjum margar sögur um slíka sem hafa nýtt sér eiginlega hvaða hugmyndafræði sem er til voðaverka. Þar geta þeir horft til allra átta sem útbúnir eru víðsýni og þolgæði.

Ég tek þó auðvitað undir það að haturstal og neikvæðni er betri og frjórri jarðvegur en ekki en geld varhug við þeirri einföldun að það eitt og sér hafi, ásamt hugmyndafræði sem fjandinn Breivik aðhyllist, hafi ráðið öllum úrslitum. Hér þarf nefnilega geðveiki til þveröfugt við það sem ráðherrann heldur fram.

Hugsanlega eru öfgar geðveiki og geðveiki öfgar og kannski eru ýmsir einræðisherrar hvort sem litið er til skemmri eða lengri tíma barasta ekki geðveikir heldur bara lógísk afsprengi hugmyndafræði sem krefst þess að þjóðir séu beittar grimmd og sviptar mannréttindum og reisn.

það skyldi þó ekki vera…

Lífið hefur því miður að geyma sögur af fáránlegum frávikum brenglunar og geðveiki eins og helvítis skepnuna frá Noregi. Og mér er slétt sama þó menn setji nýtt heimsmet í orðhengilshætti.

Það er í besta falli ósmekklegt að reyna að slá pólitískar keilur af þessu ömurlega tilefni eins og ráðherrann og ritstjórinn létu eftir sér.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 24.7.2011 - 22:43 - Rita ummæli

Afar áhugavert að fylgjast með umræðunni sem hönnuð hefur verið eftir fjöldamorðin í Noregi. Ritstjóri Eyjunnar dregur sjálfan sig ofan í drullusvað sem aðhlátursefnið og flokksbróðurinn Árni Páll hóf að vaða í viðleitni sinni til að nýta sér frávikið sem þessi morðingi svo augljóslega er í afar hæpnum og að því er virðist langsóttum pólitískum tilgangi.

Kannski var Stalín ekki frávik heldur bara kommi og kommar enda alltaf á því að verða fjöldamorðingjar og mannréttindaníðingar. Og fólkið sem vildi aðskilnað þjóðarbotanna á balkanskaganum vildi auðvitað ekkert annað en grimmd og glæpi þjóðernishreinsana.

Ég er hræddur um að sagan kenni okkur að geðveikir menn hafa alltaf fundið leiðir til að nýta sér allt að því hvaða hugmyndafræði sem er til voðaverka og er nokkuð viss um að ritstjórinn gæti í snarhasti ryfjað eitt og annað í því efni hægri vinstri að ógleymdum trúarbrögðunum blessuðum….

Ég geri ekki athugasemdir við það þó Karl Th tapi gleðinni vegna pirrings út í Hannes Hólmstein eða amx en ég geri kröfu um að menn haldi lágmarks sönsum

Ofstæki og öfgar hefur margar birtingarmyndir og stundum er erfitt að greina hver er hvað í þeim efnum…

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 24.7.2011 - 22:10 - Rita ummæli

Hver er munurinn á kúk og skít?

Ritstjóri Eyjunnar fer með himinskautum í augljósu jafnvægisleysi í áunninni óbeit sinni á Hannesi Hólmsteini og eignar honum eiginlega allt það versta sem fyrirfinnst í manneskjunni. Og það sem tendrar ofsann í ritstjóranum í þetta sinn eru skrif AMX sýnist mér en Karl Th reiknar það út á milli atriða að Hannes eigi þau meira og minna og til vara að hann stjórni hugsunum þeirra sem þar skrifa.

Ég sé ekki betur en að ritstjórinn missi sig svo eiginlega að fullu þegar hann heldur því fram eins og vonarstjarna Samfylkingarinnar, aðhlátursefnið Árni Páll, að fjöldamorðinginn í Noregi geti ekki borið annað fyrir sig en fylgilag við hægri öfgastefnu, þar geti geðveiki ekki komið til.

Þetta er gömul saga og núna ný. Menn hafa nennt að halda því fram að Stalín hafi verið geðveikur og verk hans hafi ekkert með hugmyndafræði komunismans að gera. Kannski eru þeir feðgar í norður Kóreu ekkert geðveikir eftir allt. Þeir lifa bara eftir hugmyndafræði sem gerir út á skepnuskap.

Menn hafa drepið fyrir nánast hvaða málsstað sem er. Fólk er myrt vegna þess að það heldur með einu fótboltaliði en ekki öðru. Ísraelar drepa fyrir sinn og Palestínumenn einnig. Veikustu hlekkirnir, og reyndar þeir sterkustu líka, hafa svo endurtekið fundið sér leiðir til að nota hvaða málsstað sem er.

Er sjálfgefið að þeir sem vildu aðskilnað á balkanskaganum hafi þar með skrifað undir þá glæpi sem herforingjar þar ástunduðu? Hvurslags ofstæki er það að skrifa fjöldamorðin í Noregi á hugmyndafræði þeirra sem lengst liggja til hægri?

Vanstilling ristjórans og pólitísk fötlun leiðir hann hér ofan í drullusvað sem hann sakar aðra um að hafa fasta viðveru í. Ofstæki getur birst í mörgum myndum

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 13.7.2011 - 10:47 - 1 ummæli

Hleranir og ekki hleranir

Hvenær er skynsamlegt og gott að fjölmiðlar hleri síma eða lesi tölvupósta fólks? Í Bretlandi ætlar allt um koll að keyra vegna símahlerana fjölmiðlarisa. Almennt hefur fólk illan bifur á símahlerunum held ég, nema þegar vondu gæjarnir nást með þeim hætti.

Hver er munurinn á símahlerunum og að nýta sér illa fengna tölvupósta? Ég geri mér grein fyrir því að á góðum degi finnst flestum bara ekkert að því að hlera síma eða nýta sér tölvupósta vondu kallana en mælikvarðinn getur ekki legið þar. Helgar tilgangurinn algerlega meðalið þegar hann er góður? Hver gætir réttar þeirra saklausu?

Fjölmiðlamenn munu segja að ef taka eigi af þeim réttinn til að nýta upplýsingar sem ekki séu endilega fengnar með „löglegum“ hætti sé allt að því sjálfhætt. Ég hef vissa samúð með þessu sjónarmiði en þurfa ekki fleiri atriði að koma til heldur en þetta þrönga sjónarhorn?

Við fyllumst réttláttri reiði vegna frétta af skipulögðum símahlerunum fjölmiðils en látum okkur eiginlega í léttu rúmi liggja þó fjölmiðlar nýti sér tölvupósta fólks. Af hverju er það? Sumir vilja hengja sig á tæknileg atriði eins og að munur sé á skipulagðri hlerunarstarfsemi og „tilviljanakenndum“ upplýsingum sem fjölmiðlum berast í daglegu amstri.

En hvað segja lögin? Er mér leyfilegt að nýta tölvupósta sem eru ekki ætlaðir mér? Má ég hakka mig inn á pósta frá mönnum og ákveða svo síðar hvort þar er eitthvað sem ég tel nauðsynlegt að komi fyrir almennings sjónir? Og skiptir máli hvort ég hakkaði mig sjálfur eða fékk annan til þess?

Þetta er viðkvæmt og svæðið grátt og ég veit að fjölmiðlamenn telja nóg að sér þrengt fyrir og kannski eitthvað til í því. En getum við haft það þannig að hleranir beinar eða óbeinar séu í lagi þegar þær skila því sem við skilgreinum sem góðan árangur en afleitar þegar það gerist ekki?

Og spurningin sem mig vantar svar við er. Hver er munurinn á hlerunum símtala eða tölvupósta?

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 3.7.2011 - 13:02 - Rita ummæli

Það er ekki að spyrja að því. Fáist einhver til þess að tala nógu stórt og illa um stjórnarandstöðuflokkana er viðkomandi öruggur um fínan stað á Eyjunni hans Karls Th. Og það er eins víst og að sólin kemur upp á morgun að jonas.is er alltaf til í að svívirða þá sem ekki hafa skoðunina hans á hlutunum. Og banna svo fólki að komentera á delluna. Slíkur er styrkurinn karlsins….

Skoðanakannanir eru nýjasta tilefnið. Þær sýna ótvírætt að þjóðin er að læra að ekki gengur að hafa sama fólk í stjórnarráðinu og nú er. jonas.is er einn þeirra sem heldur að íslenskir ráðamenn hafi sett alþjóðlega bankakerfið á hausinn. það er barnaleg nálgun en hentug til heimabrúks til skamms tíma.

jonas.is telur þá sem kjósa stjórnarandstöðuflokkana næst heimska og siðblinda. Vissulega er það svo að jonas.is þekkir siðblindu þegar hann sér hana en virðing hans fyrir skoðunum fólks og viðhorfum er ekkert.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 1.7.2011 - 12:45 - Rita ummæli

Hvernig nennir Bubbi gúanórokkari að halda úti varðstöðu fyrir fyrrum eigendur bankanna? Hann er óþreytandi í baráttunni og snýr öllu sem hann getur ril varnar fyrir þá sem eru til rannsóknar. Eitt er að trúa þvi að þar fari saklausir menn en rökstuðningur Bubba er barnalegur svo vægt sé til orða tekið.

Þeir voru fjölmargir sem tóku undir það af pólitískum ástæðum að hagstætt væri að kenna nafngreindum stjórnmálamönnum um allt sem miður fór hér en þeim fer fækkandi af eðlilegum ástæðum.

Ef Bubbi réð öllu myndi hann kenna töllvörðunum sem sáu ekki dópið sem selt er á götunni um það svínarí en ekki þeim sem flytja það inn og selja. Kerfi sem gerir mönnum kleift að flytja inn dóp á ekkert betra skilið en að menn flytji það inn og allar tilraunir kerfisins til þess að koma lögum yfir innflutninginn eru ofsóknir.

Þetta er inntakið í dellulógík Bubba Morthens. Við eigum þetta skilið vegna þess að við innleiddum frelsi í viðskiptum eins og aðrar þjóðir. Kannski er Bubbi svo lesblindur á söguna að hann trúi því enn að bankahrunið sé séríslensk uppfinning sem hægt að klína á einn mann eða kannski tvo. Við vorum hluti að alþjóðlegu fjármálakerfi sem hrundi fyrir framan augun á stórþjóðum með áratuga reynslu af eftirliti án þess að nokkurn grunaði.

Ég er ekki að segja að þau mistök sem embættismenn kunnu að hafa gert eigi ekki að draga fram í sviðsljósið en að ætla að bera blak af fyrrum eigendum bankanna í skjóli þeirra mistaka er slík firra að engu tali tekur.

Vonandi er það ekki þannig að vondu kallarnir hafi verið á undan löggjafanaum

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 1.7.2011 - 12:32 - Rita ummæli

Á ég að vera að eyða tíma mínum í að halda uppi gagnrýni á málflutning Bubba gúanórokkara sem sífellt snýst til varnar þeim sem hafa haft hvað mest upp úr bankasamsæriskrafsinu? Bubbi hefur tekið sér þá stöðu og þola alls ekki að látið sé reyna á það fyrir lögum hvort aðgerðir manna séu lögmætar.

Bubbi þoli heldur ekki að fólk og fjölmiðlar skuli fjalla um mál sem rekin eru fyrir dómstólum og telur all slíka umfjöllun slæma. Þar séu menn dæmdir fyrirfram og slíkt særi fólk og fjölskyldur. Vissulega er hægt að hafa samúð með þessari afstöðu enda mikilvægt að farið sé fram af sanngirni og fagmennsku þegar um þessi mál er fjallað. En það er frétt þegar menn eru ákærðir fryrir stórglæpi…

Bubbi er enn haldinn þeirri mögnuðu þráhyggju að úr því að menn gátu ekki séð fyrir það sem eigendur bankanna aðhöfðust þá sé glæpurinn ekki þeirra heldur hinna sem áttu að fylgjast með. Hann vill sumsé kenna tollvörðunum sem ekki náðu dópinu sem selt er á götunni um það.

Af því að frelsi var aukið í viðskiptum þá hljóti að vera eðlilegt að kenna þeim sem opnuðu markaðina um glæpi sem hugsanlega voru unnir þar. Niðurstaða Bubba er að það sem er ekki beinlínis bannað sé löglegt.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 27.6.2011 - 14:38 - 8 ummæli

Guðjón, rasismi og KSÍ

Sumt breytist seint og enn einu sinni virðist Guðjón þórðarson ekki geta unnið undir neikvæðri pressu. Af einhverjum ástæðum er hann nú þjálfari í næst efstu deild á Íslandi og gustar um kallinn sem hefur afrekað það á stuttum tíma sínum fyrir vestan að henda mönnum á dyr og nú síðast ýjar hann að rasisma hjá dómurum.

Guðjón er einn þeirra sem gleðst mjög á góðum degi og á þá ekkert nema vini en er þegar á móti blæs umkringdur vondu fólki. Ég veit ekki hvað þarf til þess að þjálfarar í Íslensku deildinni gangi fram af framkvæmdastjóra KSÍ en fyrir mig er svona tal allt að því óþolandi. Það er almennt viðurkennt meðal siðaðra manna í íþróttum að kynþáttafordómar eru síðasta sort. Og að saka menn um slíkt því grafalvarlegt mál jafnvel þó það komi frá Guðjóni Þórðarsyni.

Það er eitt að hafa þá skoðun að dómari sé slakur, hafi átt afleitan dag og þess háttar. Þjálfarar hafa að sjálfsögðu allan rétt á slíku mati. Framsetning þeirra á þessu faglega mati sínu skiptir þó alltaf máli. Það er ekkert faglegt við þessi ummæli Guðjóns og í alvöru deildum yrðu þessi ummæli Guðjóns litin alvarlegum augum og honum refsað í samræmi við það.

EF KSÍ gerir ekkert í þessu máli er varla hægt annað en að draga þá ályktun að þeir séu hreinlega sammála þessu mati þjálfarans. Knattspyrna er stór business og æskulýðsstarf og KSÍ þarf ekki á svona skemmdarstarfsemi á vörumerkinu að halda.

Ég sé að fyrstu viðbrögð KSÍ eru það að dómarastjóri segir viðkomandi dómara dreng góðan og þetta geti því ekki komið til. Einnig telur þessi maður að ummælin dæmi sig sjálf. Þessi viðbrögð KSÍ hljóta að vera þeirra framlag til áramótaskaupsins 2011……

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 24.6.2011 - 16:52 - 2 ummæli

Bensingjald og samanburðarhagfræði Steingríms

Ég veit að það þjónar kannski engum tilgangi að pirra sig á fjármálaráðherra og skilningi hans á hlutunum en ég varð fyrir því að heyra viðtal við hann á stöð 2 í gær. Umræðuefnið var hlutur ríkissins í bensínverðinu.

Steingrímur er ekki slæmur maður en barnatrú hans í pólitík er bara svo afleit. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að bensínverð hér sé lágt og hlutur ríkissins lægra en víðast og því sé bráðhollt að halda áfram niður brekkuna og gefa ekki eftir álögur ríkissins.

Allt ber þetta að sama brunni hjá fjármálaráðherranum. Hann skilur hvorki upp né niður í hagfræði og fattar ekki gildi hagvaxtar og nú nýverið hefur hann brugðið á það ráð að halda því fram að hagfræði og hagkvæmni sé ekki endilega góður mælikvarði þegar rætt er um afkomu atvinnugreina!

Þó fréttamanninum hafi ekki dottið í hug að trufla ráðherrann með athugasemdum um að samanburður á bensinverði hér og annars staðar ætti að vera í samhengi við laun og kaupmátt þá er bara ekki hægt að ræða þessa hluti án þess samhengis vilji menn láta taka eitthvert mark á sér. Steingrímur kemst þó upp með þetta slag í slag í fjölmiðlum…

En burtséð frá þessu pælingum þá situr alltaf eftir hið magnaða áunna skilningsleysi á hagvexti og þeirri staðreynd að betra er að launin okkar komi við á nokkrum stöðum áður en þau lenda í vasa fjármálaráðherra.

Með eftirgjöf Steingíms á bensingjaldi ykkust líkurnar á meiri notkun og meiri ferðalögum sem aftur þýðir fleiri atvinnutækifæri í ferðaþjónustu og tengdum greinum sem þá leiða af sér allskonar afleidd störf og svo framvegis og framvegis.

Hreyfing kæmist á hlutina og hjól sem stöðvast hafa og eru að stöðvast tækju að snúast á ný. Blóð í æðar atvinnulífs….

….og það allt þýðir hvað fyrir ríkissjóðinn hans Steingríms?

Bingó!!

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur