Mánudagur 14.2.2011 - 18:45 - 3 ummæli

Svivirða Steingríms J

Steingrímur Sigfússon hefur setið lengur á þingi enn flestir og hann er refur af gamla skólanum, mælskari en andskotinn og skemmtilegur vel þegar þannig liggur á honum. Í dag var hann í knappri nauðvörn vegna þess að hann, fulltrúi hins nýja Íslands, var að reyna að halda uppi vörnum fyrir lögbrjótinn sinn hana Svandísi Svavarsdóttur.

Steingrímur gékk auðvitað ótrúlega langt yfir strikið þegar hann svívirti Landsvirkjun, sveitarstjórn og hæstarétt í sömu setningunni þegar hann ýjaði að því að fyrirtækið hefði mútað sveitarstjórn og fengið stimpil á allt saman hjá hæstarétti.

Það er ekkert fyndið hjá réðherranum að tala með þessum hætti. Hann veit auðvitað að hæstiréttur dæmir eftir lögum sem hann og hans kollegar setja réttinum en í þessu tilfelli skipta slíkir smámunir engu.

Hvað þarf til þess að ráðherra stígi til hliðar ef ekki brot á lögum? Steingrímur segist sjálfur bera fullt traust til ráðherrans og það dugar honum. Heldur ráðherrann að hann sé Guð almáttugur og að hans álit skipti öllu máli og ekki annarra eins og t.d. þjóðarinnar?

Alþingi hefur eiginlega ekki efni á umræðu eins og hæstvirtur fjármálaráðherra stóð fyrir í dag. Steingrímur er klassíkst dæmi um það þegar byltingin étur börnin sín….

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 10.2.2011 - 10:43 - Rita ummæli

Stundum langar mig svo mikið að skilja af hverju ég get ekki skilið þá sem eru algerlega á annarri skoðun en ég. Ég hef fyrir nokkru lært að flestir eru vel meinandi og varla er ég betur gefinn en gengur og gerist og ég veit að ég hef óþægilega oft rangt fyrir mér þó ég geti líka dottið niður á rétta hluti.

Mig langar alveg ofboðslega mikið að fatta hvaða trix núverandi ríkisstjórn sér í því að kaffæra okkur í álögum og sköttum. Við erum flest sammála um að tekjur ríkissins þurfa að aukast til muna og draga verður úr kostnaði sem enn er að mesta sniðin að þörfum gamla landsins sem var fyrir kreppu.

Tekjur ríkissjóðs detta ekki af himnum ofan. Þær renna úr vösunum mínum og þínum og þannig verða til peningar til að standa straum af sameiginlegum rekstri. Og flest viljum við gott öryggisnet og blandað hagkerfi og ættum ekki að þurfa að þrasa um það.

Hægri og vinstri menn rífast um megingildi í pólitík og hafa gert alla tíð og munu gera áfram Hægri menn telja lága skatta góða en vinstri menn sjá þetta pínu öðruvísi. Þeir telja almennt orðað að best sé að ríkið, og þá stjórnmálamenn, hafi sem mest með það að gera hvað verður um launin okkar.

Meira að segja í eðlilegu árferði gengur mér ekkert að skilja þau fræði að jarðfræðingur sem kosinn er til þings sé betur til þess fallinn en ég að ákveða hvað verður um peningana mína þó ég vilji auðvitað borga mitt til samfélagsins og halda þeirri samfélagsgerð sem við búum við.

Núna eru harðindatímar. Atvinnuþref og hörmungar miklar. Allt virðist hækka nema launin og skuldir ríkissins ótrúlegar. Þá þarf að fá meira í ríkisskassann, eðlilega….

Við þurfum meiri skatttekjur. Þannig er það bara og við erum sammála þar. Hvernig verða skatttekjur til spyr ég eins og fávís kona? Steingrímur J virðist telja að þær verði til með því einu að sækja bara nógu mikið í veskið mitt alveg óháð því hvernig veskinu mínu reiðir af.

Hvað er hagvöxtur? Er ég líklegur til þess að eyða að rúlla peningum mínum í gegnum hagkerfið ef þeir eru ekki til og komnir í kassann hjá Grímsa? Hvaða hlutar atvinnulífsins hagnast á því ef einkaneysla dregst saman? Hver hefur sýnt fram á það að ríkið framleiði peninga? Hvernig verða skatttekjur til?

Við erum öll sammála um að ríkið þarf auknar tekjur til að mæta útgjöldum og flest erum við líka sammála um að báknið verður að minnka verulega.

Ég hef reynt af öllum mætti að reyna að skilja prinsippin í því að lemja á bæði launþegum og atvinnulífinu með auknum álögum í mjög harkalegri niðursveiflu en fæ ekki botn í málið. Samt langar mig svo mikið að fatta trixið.

Hvað er það sem ég fatta ekki?

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 10.2.2011 - 09:39 - 4 ummæli

Eigendaskiptin

Ég er eins og margir hugsi vegna eigendaskiptanna á Eyjunni. Ég ber afar takmarkað traust til nýja eigandans og þeirra sem hafa makkað með honum í hans fjölmiðlabusiness. það er einhver spillingarára yfir Birni Inga…

Almennt er það óþolandi staðreynd að ekki virðist hægt að reka fjölmiðla á Íslandi nema með tapi og þeir einir sem kunna að reka fyrirtæki þannig að tapið lendi ekki á þeim sjálfum enda með öll fjölmiðlaspilin á hendi.

Ég ætla þó ekki að stökkva til og hverfa héðan enda skrifa ég fyrir sjálfan mig og úr því ég lifði af ritstjóratíð Þorfinns Ómarssonar hlýt ég að lifa hvað sem er af. Karl Th. er skemmtilegur fýr og hefur þann kost að allir vita hvað hann stendur fyrir í pólitík öfugt við margan manninn sem fer um með leynd í þeim efnum í klæðum hlutleysis.

Ég vona að nýjir eigendur muni ekki skemma Eyjuna. Það er vel hægt enda eru það fleiri en ég sem setja ósjálfrátt fyrirvara þegar afar pólitískur ritstjóri tekur við og vinnur fyrir aðila sem hafa notast við peninga frá mönnum sem ekki teljast beint til vinsælustu manna samfélagsins.

Spennandi tímar og ég fer ekki fet…

…þangað til annað kemur í ljós.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 8.2.2011 - 15:19 - 6 ummæli

„Tæknilegur“ stuðningur ESB

það var lítil frétt um ferðir Árna Páls Árnasonar viðskiptaráðherra í kvölfréttum í gær. Hann lagði land undir fót blessaður og kíkti á Ollie Rhen hjá ESB og svo héldu þeir blaðamannafund. Kampakátir menn og Rhen lofaði okkur Íslendingum að við fengjum allan mögulegan „tæknilegan“ stuðning við að losna við gjaldeyrishöftin.

Þetta minnti mig óneitanlega á það þegar þessi sami Árni Páll lofaði því að bara við það eitt að við færum í aðildarviðræður við ESB myndi allt lagast hér með ógnarhraða. Þetta var fljótlega eftir hrun og við fórum svo að tala við ESB…

..og erum enn að því og núna kemur þessi merkilega yfirlýsing og ég hef ekki hugmynd um vægi hennar. Hvað þýðir það að ESB veiti okkur tæknilegan stuðning en alls ekki fjárhagslegan? Vissulega er fínt að fá móralskan stuðning héðan og þaðan en tæknilegan skil ég ekki.

Ég hlakka til þegar fjölmiðlar taka til við að galdra skýringu á þessari yfirýsingu upp úr Árna Páli…..

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 4.2.2011 - 10:49 - 6 ummæli

Bjarni Ben fer að heiman…

það var fyrirséð að Mogginn myndi vaða í formann Sjálfstæðisflokksins í kjölfar þess að hann og fleiri úr þingflokknum hafa gert samkomulag um að greiða götu Icesave samningsins í þinginu. Bjarni Ben hefur varla getað búist við neinu öðru.

Margir hafa haldið því fram að Bjarna sé fjarstýrt beint og óbeint en mér sýnist Mogginn staðfesta í morgun að svo er ekki. Og nú verður áhugavert að fylgjast með hvort „sambúðin“ við þá sem eru þessu andsnúin muni versna og einhversskonar VG ástand skapist innan flokksins.

Sumum gæti jafnvel dottið í hug að hugsa þetta þannig að með þessum gjörningi sé Bjarni Ben farinn að heiman…

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 3.2.2011 - 15:47 - Rita ummæli

Þau eru mörg sjónarmiðin í Icesave málinu. Fyrir mér er augljóst að við „eigum“ ekki að greiða þessa peninga en þetta eigum þarf þó að vera í gæsalöppum er það ekki?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 2.2.2011 - 21:14 - 3 ummæli

Icesave; Nú reynir á Bjarna Ben

Nú sýður á mörgum Sjálfstæðismanninum þegar flokkurinn ákveður að samþykkja nýjasta icesave samkomulagið. Það verður ærið dagsverk hjá forystu flokksins að sannfæra vantrúaða og skapa frið um þessa ákvörðun. það verður forystan þó að gera afdráttarlaust og án tafar.

Ekki síst vegna þess að sá hópur sem er í hvað mestri andstöðu við þetta samkomulag er einnig sá hópur sem er óánægðastur með stöðu flokksins almennt og getur illa þolað að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ekki getað gengið milli bols og höfuðs á gagnslausri ríkisstjórn sem bíður þess eins að vera bolað frá.

Þessir flokksmenn þykjast nú sjá forystuna rétta Steingrími Sigfússyni og co hjálparhönd sem með afgreiðslu málsins á þennan hátt ryðja úr vegi einni erfiðustu hindrun ríkisstjórarinnar sem hún hefur engan veginn getað hnikað til. Hindrun sem sett var upp undir forystu Sjáfstæðisflokksins á þingi og Indifence utan þings og sem þjóðin svo studdi 98% gegn einbeittri ríkisstjórn sem þráði ekkert heitar en að fá að borga 500 milljarða af þessari „skuld“.

Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki kosningar, hann vill ekki í ríkisstjórn og nú bakkar hann frá grundvallarprinsippi í icesave og treystir í leiðinni handónýta ríkisstjórn í sessi. Þannig sjá þetta margir og sætta sig illa við..

Sjálfstæðismenn flestir telja Bjarna Ben sanngjarnan mann og vel gerðan. Hann þykir maður sátta og gengur ekki um skellandi hurðum með stóryrði í munni. En mörgum finnst vanta döngun í drenginn, jafnvel kjark og sumir ganga svo langt að segja, pólitíska ósvifni. Hvort þessi ákvörðun flokkast undir pólitíska ósvífni veit ég ekki en hún krefst kjarks vitandi það að þessu munu mjög margir flokksmenn ekki kyngja þegjandi.

Nú bíður það Bjarna að sannfæra óánægjuraddirnar um að þessi ákvörðun sé skynsamleg og hafi verið eini og besti kosturinn í stöðunni. Þar gefst Bjarna tækifæri til þess að sýna hvað í honum býr. Ég öfunda Bjarna þó ekki af því að þurfa að taka upp málflutning Steingríms J í þessu máli en ætla að gefa forystu flokksins tækifæri á að selja mér dílinn.

Nú reynir á pilt og takist honum ekki að sigla farsællega í gegnum þetta minnka likurnar á því að honum takist að gera flokkinn að flokknum sínum til mikilla muna.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 2.2.2011 - 09:08 - 1 ummæli

Fagmennska DV og ábyrgð fjölmiðla almennt

Í kjölfar hrunsins er mikið rætt um umræðuna á Íslandi. Hvernig við tölum við hvert annað og um hvert annað. Margir hafa orðið til þess að benda á að stjórnmálamenn virðast ekki kunna að ástunda þroskaða þrætugerð. Upphrópanir, stóryrði og útúrsnúningar sem miðast helst við það eitt að hafa betur þann daginn eða það kvöldið einkenni of oft umræðu á Íslandi.

Vissulega er heilbrigt að tuskast með orðum en málefnlegt innlegg er þó að jafnaði nauðsyn en á slíkt skortir oft. Fjölmiðlar dagsins í dag eru að því er mér virðist komnir í hreint ótrúlegar stellingar í þessum efnum þar sem „slagurinn“ snýst um að reyna að finna snöggann blett á mismerkilegum óvinum og hafa betur þann daginn.

Kvöldvakt DV í gær settist niður og horfði á návígi á RÚV í gær enda óvinur blaðsins þar til viðtals. Jón Steinar Gunnlaugsson heitir óvinurinn og eftir þáttinn birtist eitthvað sem vakthafandi hefur þótt stórsniðugt að búa til. Ég veit að heitttrúaðir hafa gaman af því að lesa svona „fréttir“ af vonda fólkinu en auglýsi eftir fagmennskunni hjá fjölmiðlinum.

„Það er hægt að ásaka mig um að vera vinur Davíðs Oddssonar“. Þetta er fréttin meira og minna. Þessi ummæli eru tekin úr samhengi og látin standa ein og sér. Þeir sem horfðu á þáttinn vita að þetta er sagt í ákveðnu samhengi og að það þarf meira en kvöldsyfju blaðamanna til þess að geta komist niður á það plan að birta þau með þessum hætti.

Tilgangurinn helgar meðalið og hefur lengi gert hjá DV og ekki eru nema tveir dagar síðan Mogginn birti á forsíðu sinni „frétt“ um blaðamann DVsem er ekki frétt vegna þess að fyrir henni er ekki flugufótur. Hvert stefna Íslenskir fjölmiðlar? Hver vinnur svona stríð?

Mikilvægi fjölmiðla er gríðarlegt og ábyrgðin stór. Ef vel er á málum haldið geta fjölmiðlar farið fyrir jákvæðum breytingum á umræðunni. Fært hana upp úr farinu sem við erum svo mörg orðin þreytt á. Farinu sem skilar okkur ekki neinu og gerir fátt annað en að ríghalda okkur í molbúasporunum sem við þurfum hreint endilega að komast up úr.

Því miður sýnist mér ekki margt gefa tilefni til bjartsýni fyrir hönd okkar í þessum efnum…..

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 1.2.2011 - 23:05 - Rita ummæli

Stórmögnuð „frétt“ hjá kvöldvakt DV.

Þar er reynt að snúa út úr orðum Jóns Steinars Gunnlaugssonar dómara við hæstarétt þegar hann ræðir það að menn viti að hann sé vinur Davíðs Oddsonar og að menn geti ef þeir vilji reynt að gera það að stórmáli. Þeir sem sáu viðtalið geta með engu móti skilið ummæli Jóns Steinars um þetta mál eins og DV reynir að láta þáu líta út. Nauðsynlegu samhengi orða Jóns Steinars er sleppt annað hvort af skorti á fagmennsku eða einbeittum vilja til að villa um fyrir lesandanum.

Við horfum orðið upp á fullorðið fólk sem vinnur á fjölmiðlum í óhemjubarnlagu stríði við mismerkilega ímyndaða óvini. Málefnaleg umræða um grundvallarmál víkur fyrir kreddum á báða bóga.

Í gær virðist Mogginn hafa búið til frétt um blaðamann DV og í kvöld nennir einhver á kvöldvaktinni á DV að skrifa svona frétt. Mér sýnist fjölmiðlar á Íslandi ekki vera stjórnmálamönnum sumum mikill eftirbátur þegar kemur að sandkassaleikjum.

Þessi tæki, fjölmiðlar, ættu ef vel væri á málum haldið að geta verið í farabroddi þegar kemur að því að reyna að búa til vitræna umræðu, ekki síst á hinu pólitíska sviði.

Mér sýnist vanta eitthvað aðeins meira en herlsumuninn þar….

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 31.1.2011 - 19:49 - 5 ummæli

Ástráður Haraldsson í kastljósi

Ástráður Haraldsson fyrrverandi formaður landskjörstjórnar ræddi dóm hæstaréttar í kastljósi í kvöld. Hann er auðvitað ekki hlutlaus maður og hann velur að líta svo á að hæstiréttur túlki lögin mjög þröngt og að það sé ekki gott. Hann sjálfur kýs svo að túlka lögin mjög vítt og það er gott að hans mati.

Ástráður stóð sig ekki vel í þessum þætti. Hann dylgjar um hæstarétt og endurtekur það sem innanríkisráðherra hefur staglast á um að reglur skipti engu máli nema fullsannað sé að einhver ætli sér að brjóta þær.

Ástráður er klassískur pólitíkus þó hann hafi ekki lagt stjórnmál fyrir sig. Hann er gamaldags embættismaður þó ungur sé.

Að hæstiréttur þjóðar telji svo marga ágalla á kosningunni að upp geti komi vafi um lögmæti hennar er yfirdrifið nóg til að ógilda hana. Þannig vinna siðmenntaðar þjóðir svona mál en hér kemur formaðurinn og sakar hæstarétt um að hengja sig á léttvæg tækniatriði. Ástráður kemst reyndar að þeirri niðurstöðu að í einu atriði hafi rétturinn haft mikið til síns máls en samt hafi það ekki skipt máli…

Hann tekur afgerandi og prýðilega rökstuddan úrskurð fjölskipaðs réttar og hártogar og kýs auk þess að líta á hluti sem ÖSE telur almennt mjög mikilvæga í kosningum sem léttvægt nöldur og tuð.

Við höfum of mikið af fólki með þetta viðhorf í okkar stjórnsýslu og of margir nenna ekki að hafa grundvallarskoðun á svona málum. Þeir sem hafa lagst í það að kóa með klúðraranum í málinu eru nefnilega í pólitík og láta þrána eftir stjórnlagaþingi ráða skoðun sinni á áliti hæstaréttar eingöngu. það er hæpin nálgun í meira lagi.

Þetta er mál sem ekki snýst um það sem kosið var um. Þetta snýst um sterk og mikilvæg prinsipp og hvort við viljum gefa afslátt af þeim eftir smekk hverju sinni.

Ekkert mál svo mikilvægt að við getum látið það spyrjast um okkur að lögmæti kosninga hér sé háð duttlungum embættis og stjórnmálamanna.

Upp upp úr afdalnum……

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur