Ég er dálítið sérstakur með það að hafa eindreginn áhuga á þrískiptingu valds. Ég hef burðast með þetta síðan Vilmundur Gylfason tók það mál upp á sína arma. Þeir sem fóru með völdin þá fussuðu og þeir sem hafa farið með þau síðan hafa fundið öllum hugmyndum um þessa þrískiptingu allt til foráttu.
Fólk sem ég ber virðingu fyrir segir mér stundum að ég misskilji málið. Okkar kerfi bjóði helst ekki upp á svona lagað. Ég man ekki í augnblikinu hvað þær heita skilgreiningarnar á fagmáli og mér er í raun sama. Þrískipting valds er ekki eitthvað ofan á brauð. Skiptingin er grunnatriði í okkar stjórnarskrá og ekkert samningsatriði.
Ef systemið okkar passar ekki utan um þrískiptingu valdsins þá þarf að breyta systeminu en ekki öfugt. Þorsteinn Pálsson er einn besti rýnir okkar i dag og skrifar læsilegasta texta allra. Hann var að tæpa aðeins á þessu máli af kögunarhóli sínum í Fréttablaðinu.
Tilefnið var hugmynd Samfylkingar um að ráðherrar flokksins ættu ekki að sitja á þingi en það gera þeir reyndar enn. Þorsteinn er ekki hrifinn af þessu og telur að þetta myndi ekki styrkja stöðu þings gagnvart framkvæmdavaldinu og myndi auk þess auka á ójafnvægi milli meiri og minnihluta þings ef ég skil hann rétt.
Vel kann að vera að þetta sé rétt enda held ég að það eitt að ráðherrar sitji ekki sem þingmenn dugi hvergi nærri til þess að skilja að framkvæmda og löggjafarvald. Það „lúkkar“ kannski vel en dugar ekki.
Kjósum framkvæmdavaldið, forseta eða forsætisráðherra, beint og löggjafann í öðrum kosningum. Framkvæmdavaldið sæi ekki ekki um að setja lög, skipa dómara og svo framvegis enda gerir stjórnarskráin ráð fyrir að svo sé ekki.
Ég veit að þetta er stórt mál og að mörgu er að hyggja ef við viljum færa þetta til betri vegar hjá okkur. En af hverju ekki? Voru menn að grínast þegar þetta var sett í stjórnarskrá? Er það kannski hluti af endurskoðun hennar að hverfa frá hugmyndum um þrískiptingu valds af því að það er flókið?
Ég hvet Þorstein Pálsson til að setja saman grein um þrískiptingu valds, kosti þess að skerpa á henni af hverju við höfum sleppt því að praktisera hana.
Röggi