Laugardagur 31.10.2009 - 13:56 - 1 ummæli

Slátrun villifjár og fréttamat.

Hún var frábær fréttin í hádegisfréttum ríkisútvarps áðan. Nefnilega fréttin um að ríkisstjórnin hafi tekið fyrir stórmálið um slátrun villifjár sem smalað var af fjalli og fargað af opinberum aðilum. Þarna er um að ræða hvorki fleiri né færri rollur en 15 að talið er og því ekki furða að ríkisstjórnin hafi þurft að taka málið föstum tökum.

Hvorki fleiri né færri en þrjú ráðuneyti eru með málið á sinni könnu ef eitthvað er að marka fréttina. Mér er stórlega létt enda hefur þetta legið á mér og þjóðinni eins og mara og þægilegt að vita að ráðherrar skuli ekki sofa á verðinum.

Þessi stórfrétt var sett ofar en aðrar smærri eins og til dæmis stórfellt svind á atvinnuleysisbótum og þess háttar. Ef maður hefði nú bara þessar áhyggjur…

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 30.10.2009 - 13:59 - 3 ummæli

Ætlum við að gefa þeim Haga?

Ég veit að Hagar eru stórt fyrirtæki og það er flókið ferli að taka þá af „eigendunum“. Ég veit líka að sú fjölskylda sem „á“ Haga hefur alltaf haft efni á því að kaupa sér bestu lögfræðinga fáanlega til að sinna sínum málum. Ég hef mjög lengi vitað hvernig þetta fólk vinnur og hagar sér og þurft að horfast í augu við heila þjóð loka augunum fyrir því í áratug eða meira. Ég get eiginlega ekki sagt meira en ég hef sagt um það mál.

En ég neita að trúa því að við látum þessa fjölskyldu komast upp með stórglæpi og svik við okkur öll og verðlaunum þau svo með því að taka að okkur skuldirnar og lána þeim svo aðeins meira fé til að þau geti haldið gullkálfinum sínum óskertum.

Ég vill að skilanefndir þeirra banka sem eru að framkvæma akkúrat þetta núna komi fram og útskýri þetta fyrir mér. Í hvers umboði starfa þeir ríkisstarfsmenn sem þessar nefndir skipa? Hver borgar þeim laun og hver borgar þeim laun sem borgar þeim laun? Hvaða fólk er þetta?

Og af hverju þurfa skilanefndirnar eða bankastjórnir nýju bankanna ekki að réttlæta neitt sem þær gera?

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 29.10.2009 - 18:36 - 3 ummæli

VG í stríði við verkalýðinn.

Árni Þór einn af æðstuprestum VG ræðst á Gylfa Arnbjörnsson formann ASÍ vegna þess að hann er ekki nógu hlýðinn. Vinstri menn telja sig nefnilega þinglýsta eigendur verkalyðsbaráttunnar og reiðilestur Árna Þórs er ekkert minna en hótun af hans hálfu um að Gylfi verði ekki langlífur í starfi með þessu áframhaldi.

VG er að vaxa sjálfstraust og um leið kemur eðlið í ljós. Stórfyrirtæki, fjármagn og auðvald eru óvinurinn í munni Árna Þórs. Eða í stuttu máli, atvinnulífið enda sjáum við hvaða afstöðu þessi flokkur hefur til þess geira þjóðfélagsins. Þetta eru raunar ekki ný tíðindi en margir höfðu gleymt þessu þegar þeir merktu við vinstri.

Nú verður spennandi að sjá hvort framkvæmdavaldinu tekst að beygja verkalýðinn undir sig og til hlýðni. Vinstri stjórnin hefur sagt verkalýðsbaráttunni stríð á hendur og því stríði mun hún tapa.

Gylfi Arnbjörnsson sækir nefnilega umboð sitt ekki til Árna Þórs eða annarra stjórnmálamanna. Og hver kaus Árna Þór til að skipta sér af málefnum verkafólks? Hér fer Árni fram af óvenju miklum hroka og frekju og greinilegt er að óþol stjórnarinnar gagnvart aðilum vinnumarkaðarins er á þrotum.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 29.10.2009 - 14:12 - 1 ummæli

Hvernig losnar Samfylkingin við VG?

Jóhanna Sigurðardóttir segist sjá til lands og að bjart sé framundan. Vonandi hefur hún rétt fyrir sér en ég held að hér sé í besta falli um barnaskap af hennar hálfu að ræða eða óskhyggju nema hvoru tveggja sé.

Núna þegar búið er að ganga frá „stóru“ málum þessarar ríkisstjórnar tekur ekki betra við. Samfylkingin hefur algerlega áttað sig á að hún getur ekki látið Indriða H og Félaga í VG stýra för í efnahagsmálum og þráir heitt að finna útgönguleið sem ekki rústar því litla sem eftir er af orðspori flokksins sem samstarfsaðila. Sú leið er ekki auðfundin núna en ekki skyldi neinn vanmeta Össur…

Margir eru að bíða eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn verði tekinn af lífi þegar rannsóknarnefnd þingsins talar í febrúar. Ég held reyndar að ekki sé mikil innistæða fyrir þeirri aftöku því að flokknum hefur fram til þessa verið kennt um allt sem aflaga hefur farið og ekki loku fyrir það skotið að niðurstöður nefndarinnar muni einmitt leiða í ljós að fleirum er um að kenna…

… og þar er allt eins víst að bæði Framsókn og Samfylking eigi eitthvað inni sem fjömiðlar og spunakarlar hafa ekki hirt um. Þessi kvíði læsist nú um Samfylkinguna ofan á allt annað og svo er stutt í sveitarstjórnarkosningar.

Sem verða haldnar í skugga skattaæðis Vinstri grænna og lamaðs atvinnulífs og fjandskapar við samtök hinna vinnandi stétta. Og hver á að taka við skútinni þegar Jóhanna fær hvíldina ef að erfðaprinsinn hans Össurar, Dagur B, vinnur ekki borgina. Situr Samfylking þá uppi með Árna Pál? Hversu grimm örlög yrðu það?

Spennandi tímar framundan í pólitíkinni og mjög verður gaman að fylgjast með því hvernig Samfylkingin losar sig frá VG því það verður hún að gera af öllum ástæðum því flokkarnir eiga litla sem enga samleið í öðru en að upplifa gamlan draum um vinstra vor.

En nú er haust og það er fimbulkalt þetta haust og það er lengst til vinstri og stefnir enn lengra þangað…

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 27.10.2009 - 21:42 - 4 ummæli

Ríkisstjórn á eindaga.

Nú gengur maður undir manns hönd til að reyna að bjarga friðnum á vinnumarkaði. Að ríkisstjórninni undanskilinni reyndar en hún vill helst vera fyrir og mikið held ég að nú reyni á langlundargeð Samfylkingar. Þeir Sjálfstæðismenn eru til sem telja að sniðugt væri að vera í samstarfi við VG en ég tilheyri ekki þeim hópi. Efnahagspólitík þeirra er bara þannig og ósveigjanleiki.

Með efnahags og atvinnustefnu sinni er ríkisstjórnin að bíta aðila vinnumarkaðarins algerlega af sér og þá er líf hennar búið. Vel má vera að takist að halda einhverju lífi í samstarfinu út veturinn þrátt fyrir fullkomið ósætti um alla hluti ef friður helst á vinnumarkaði.

VG er í kjörstöðu núna. Leiðtogalaus Samfylking engist um í samstarfi sem hún vill ekki lengur vera í en kemst ekkert annað. Vinstri grænir ráða för eftir að þeir slepptu Samfylkingu lausri í ESB málinu og Steingrímur hefur aftur náð nokkrum tökum á flokknum sínum. það sést meðal annars á því að hann lyfti ekki fingri til varnar Svandísi fyrr en óróa deildin var orðin sátt og innri friður í VG nánast tryggður. Allt er það þó fallvalt eins við höfum séð.

Brátt mun Steingrími vaxa sjálfstraust á ný og hefja eyðileggingarstarf á aðildarumsókn okkar að ESB. það verður þó ekki fyrr en við höfum að mati VG tryggt okkur nægilega mikið af okurlánum frá ESB/AGS.

Samfylkingin hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu ekki sé hægt að vinna með VG í þeirri stöðu sem við erum í en kemst bara ekkert. Takist ekki að tryggja frið á vinnumarkaði stefnir í kosningar fyrr en margan hefði grunað.

En eitt er alveg víst að það eina sem heldur þessum flokkum saman enn er löngunin til að vera í stjórn og kannski er eitthvað eftir af gamla draumnum um tandurhreina vinstri stjórn.

Sá draumur er að breytast í martröð Samfylkingar og við vitum alveg hvernig sá flokkur vinnur þegar þannig stendur á.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 21.10.2009 - 20:18 - 11 ummæli

Hvenær er starfsmaður starfsmaður?

Páll Magnússon forstjóri RÚV blandar sér í umræðuna um Egil Helgason og hlutleysi hans eða öllu heldur skort á því. Ég játa það að ég þekki ekki reglurnar um hlutleysi en mér finnst röksemdafærsla forstjórans merkileg.

Hann segist ekki bera ábyrgð á miðlinum sem Egill bloggar á og því séu reglur RÚV um hlutleysi ekki brotnar. Skilur þetta einhver? Hættir fólk sem vinnur hjá Páli að vera starfsmenn hans þegar það er ekki í útvarpshúsinu?

Reyndar rekur mig minni til þess að ráðherra einn hafi reynt að halda því fram að hann geti haft skoðanir á þjóðmálum sem manneskja en ekki sem ráðherra. það er kannski það sem Páll á við.

Skoðanir hans og afstaða sem hann hefur á Eyjunni og í andsvörum á bloggsíðum hingað og þangað eru bara þar. Þar fer ekki sjónvarpsmaðurinn heldur bloggarinn á Eyjunni. Þeir menn eru alls óskyldir….

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 21.10.2009 - 17:49 - Rita ummæli

Illugi og klíkurnar.

Illugi Jökulsson tilheyrir engri klíku, þannig séð. Þess vegna getur hann haft hlutlausar skoðanir á mönnum og málefnum. Hann þjáist að vísu af Davíðsheilkenninu og allir sem hann segir Davíðsmenn eru ekki verðir skoðana sinna.

Illugi telur að þeir sem ekki eru í skoðana samfélagi við hann megi ekki efast um hlutleysi Egils Helgasonar starfsmanns ríkisfjölmiðils. Fólk sem gékk nánast af göflunum þegar Davíð var ráðinn ritstjóri einkafjölmiðls telur nú að staða Egils sé ekki til umræðu.

Munurinn á þeim tveimur er alger. Enginn þarf að efast um hvaðan Davíð kemur og hann þarf ekki frekar en hann vill að gæta hlutleysis. Ekkert frekar en Illugi sem skrifar sínar greinar í blað sem er í eigu manna sem ekki hika við að stýra sínum fjölmiðlum með handafli eins og við vitum, þökk sé nútíma upptökutækni.

Egill Helgason er ekki í þessari stöðu og ekkert er að því að menn ræði það að maður sem hefur með jafn afgerandi hætti og hann tekið afstöðu bæði á bloggi sínu og annarra til manna og málefna sé ekki hæfasti maður landsins til að stýra hlutlausri umræðu í fjölmiðli sem á að gæta hlutleysis.

Ekki frekar en að ég gæti það, nú eða Illugi sjálfur. Óþol Illuga gagnvart þessari umræðu snýst auðvitað um pólitískan rétttrúnað og ekkert annað. Honum finnst sín sannfæring vera sú eina rétta og á meðan þáttastjórnandinn heitir Egill en ekki Hannes Hólmsteinn er allt í góðu. Dýpra ristir þetta nú ekki hjá bloggaranum.

Hún er ekkert betri klíkan sem Illugi tilheyrir. Hún er bara annarrar skoðunar.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 21.10.2009 - 10:53 - 8 ummæli

Hlutleysi Egils Helgasonar.

Egill Helgason er ekki og hefur aldrei verið hlutlaus þátttakandi í þjóðfélagsumræðum. Varla dettur nokkrum manni í hug að trúa því. Hann hringsnýst frá einum tíma til annars eftir vindátt í mörgum málum og velur sér vini og viðmælendur eftir hentugleika og stöðu hverju sinni.

þetta vita menn sem annað hvort lesa bloggið hans eða horfa á sjónvarpið hans. Ég reyndar veit ekki hvernig nokkur maður getur verið alveg hlutlaus í dag en Egill gerir hið minnsta ekki tilraun til þess heldur ræðst með látum að þeim sem benda á. Aðferðin sem hann notar er gamalkunnug.

Hann sleppir því að ræða málefnalega um málið heldur lætur sér nægja að benda á hvaða stjórnmálaflokki og skoðanir þeir hafa sem gagnrýna. Ekki veit ég hvort hann telur að ekki megi neinir gagnrýna hann aðrir en þeir sem hafa sömu skoðanir og hann en mér sýnist handónýt nálgun hans á faglega gagnrýni fara langt með að staðfesta gruninn.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 19.10.2009 - 11:07 - 4 ummæli

VG og Samfylking finna flöt.

Þá er það ákveðið.

Við göngumst inn á allt sem að okkur er rétt í Icesave og þrek forystumanna okkar á þrotum. Eða ætti ég kannski að segja forystumanns okkar því Steingrímur hefur staðið einn í stafni og ekki að undra að af honum sé dregið.

Fátt kemur mér orðið á óvart í pólitík en ég er þó gersamlega bit yfir þanþoli ginsins á Ögmundi og félögum. Engu skiptir hversu stór bitinn er, öllu er hægt að kyngja til að halda í stólana.

En díllinn er er ljós. Samfylking fær að spila sóló í sínu sem er skilyrðislaus undangjöf og hlýðni svo við getum gengið í ESB, sem þjóðin vil reyndar ekki, og VG fær að sinna sínum sérmálum sem er að tefja fyrir atvinnuuppbyggingu og mögulegum virkjunum og álversframkvæmdum.

Kannski hef ég rangt fyrir mér í spádómum minum um endalok þessara stjórnar. Flokkarnir virðast hafa fundið fínt jafnvægi sín á milli og geta dundað sér við áhugamál sín án þess að hinn sé að fetta fingur.

þetta er að sönnu gleiðiefni fyrir þá sem fá þá að halda stólum sínum en býsna sorglegt fyrir okkur hin því sagan er rétt að hefjast því nú tekur við herfðbundin efnahagsstjórn vinstri manna. Hún nefnist einu nafni, skattahækkanir.

Ballið er rétt að byrja því miður.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 17.10.2009 - 20:52 - 4 ummæli

Hvenær á prestur söfnuð?

Prestar eru merkileg starfstétt. þeir eru venjulegt fólk sem er fer í háskóla og les guðfræði og ef allt gengur upp fá þeir svo brauð og söfnuð sem þeim er ætlað að þjóna. þetta er ágætt system í sjálfu sér ég ber fulla virðingu fyrir guðfræðingum hvort sem þeir enda sem prestar eða eitthvað annað.

En stundum gerist það að þessum riddurum Guðs semur ekki við söfnuð sinn og þá er úr vöndu að ráða. Þessi starfsstétt virðist ekki lúta sömu lögmálum og aðrar og eru allt að þvi eins og heilagar kýr sem ekki má hreyfa við. þetta höfum við séð ítrekað nánast frá upphafi vega.

Nú er Gunnar Björnsson enn einu sinni kominn í vandræði í sínum störfum fyrir almættið. Guðsmaðurinn stóð af sér kæru um einhversskonar kynferðislegt áreiti og ég hef enga skoðun á þeirri niðurstöðu. Söfnuðurinn hans Gunnars er og hefur eðlilega verið með böggum hildar vegna þess máls og sýkna í dómsmáli hans skiptir þar ekki öllu.

Biskup tekur einu réttu ákvörðunina þegar hann ákveður að færa Gunnar til í starfi. það er ekki til marks um að hann telji niðurstöðu dómstóla ranga eins og stuðningsmenn Gunnars virðast telja kjarna málsins. Hér er hugsað stórt og langt og um heildarhagsmuni safnaðarins. þeir hagsmunir eru Gunnari ekki ofarlega í huga.

Hann bara „á“ þetta fína djobb! Söfnuðurinn er til fyrir hann en ekki öfugt. Hugsanlega mun klerkurinn reyna að kæra sig aftur til starfans af því að hann var ekki hnepptur í fangelsi.

Er það nógu góð ástæða? Prestar eru að vinna með manneskjur við merkilegustu augnablik lífsins í sorg og gleði. Þeir eru ekki í pólitík þar sem reglurnar eru að þeir sem geta sýnt fram á að að meirihluti atkvæðisbærra manna styðji þá tryggi yfirráð. Þessu gleyma prestar of oft.

Ég skil vel þau prinsipp að ekki er gott að fólk geti bara komið með ásakanir út í loftið til að losna við prest úr starfi og aldrei má gefa afslátt af sönnunarbyrði þeirra sem ákæra. Þetta mál snýst bara alls ekki um þessi gildi.

Æra Gunnars er hrein og enginn biskup getur breytt þvi en Gunnar Björnsson þarf að sætta sig við að sýknudómurinn dugar bara ekki til að um hans starf skapist sá friður sem nauðsynlegur er. Um þetta snýst málið og ekki annað.

Ég skil ekki það hugarfar að vilja starfa í óþökk umbjóðenda sinna. Menn geta hugsanlega kært sig til vinnu sem lagerstjórar séu þeirra ranglega bornir sökum en um preststarfið gilda allt önnur lögmál.

Prestur sem ekki nýtur trausts eða trúnaðar safnaðar verður aldrei sá sálusorgari sem hann var ráðinn til að vera. Sumir prestar virðast láta slíka smámuni í léttu rúmi liggja.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur