Við erum oft óttalegir molbúar. Hvergi sést það betur en í stjórnmálum. Stjórnmál eru í eðli sínu þannig að þar er tekist á um ólík sjónarmið. Þeir sem hyggjast stunda stjórnmál ættu að leggja allt kapp á að skilja að ágreiningur sem upp kemur snýst ekki um persónur, og taka slaginn svo þaðan.
Jóhanna Sigurðardóttir er af eldgamla skólanum. Hún hefur fyrir margt löngu hætt að taka þátt í umræðum um stjórnmál. Þá sjaldan hún tekur til máls er það með ólund og leiðindi á vörum. Og oftar en ekki snýst tal hennar um að þeir sem hún er ekki sammála séu hitt eða þetta.
Rökræðan er henni framandi heimur. Rökræða þar sem hún tekur málefnalegan slag við andstæð sjónarmið vopnuð eigin málsstað. Í huga Jóhönnu snýst pólitíkin um að ráðast að persónum, og þetta hefur því miður smitast inn í marga úr hennar pólitíska ranni.
Stefán Ólafsson sem er mikilvægur hlekkur í okkar háskólasamfélagi er prýðilegt dæmi um þetta. Hann stillir þeim sem hann rökræðir við að jafnði upp á vondum stað að hans mati, spyrðir þá hugsanlega við aðra vonda menn, áður en hann reynir að takast á við það sem málið snýst um.
Þetta er arfleifð Jóhönnu. Þetta er gamli skólinn. Svona var pólitíkin og svona vilja margir hafa hana, því miður. Fjölmiðlar dansa svo dansinn líka. Ég veit ekki hvort það er vegna pólitískrar stöðutöku eða bara vanhæfni.
Núna berast fréttir af uppákomu á ríkisráðsfundi. Þetta er auðvitað ekki gott mál en við getum heldur ekki gert ráð fyrir að þetta sé óeðlilegt þó þetta sé óvenjulegt.
Ég bíð spenntur eftir viðbrögðum Jóhönnu og Steingríms, og ekki síður fjölmiðla. Mér finnst líklegra en ekki að þau viðbrögð sem berist frá Jóhönnu snúist um að ala á áunnini andúð á forsetanum, en alls ekkert um þau málefni sem málið varðar.
Þegar ég sit hér og skrifa þessa grein dúkkar upp einn mesti orðhákur þingsögunnar og tjáir sig um þetta mál. Þetta er alveg klássískt dæmi um það sem ég fjalla hér um. Allt snýst um að ata menn auri en ekkert um það sem máli skiptir. Þessi maður er glæstur fulltrúi þeirrar umræðuhefðar sem vinstri menn ætluðu að innleiða undir heitinu, samræðustjórnmál.
Við þurfum að gera þá kröfu til fólks að það hafi styrk til að takast málefnalega á um málin.
Röggi