Laugardagur 5.1.2013 - 15:17 - 2 ummæli

Jóhanna og samræðustjórnmálin

Við erum oft óttalegir molbúar. Hvergi sést það betur en í stjórnmálum. Stjórnmál eru í eðli sínu þannig að þar er tekist á um ólík sjónarmið. Þeir sem hyggjast stunda stjórnmál ættu að leggja allt kapp á að skilja að ágreiningur sem upp kemur snýst ekki um persónur, og taka slaginn svo þaðan.

Jóhanna Sigurðardóttir er af eldgamla skólanum. Hún hefur fyrir margt löngu hætt að taka þátt í umræðum um stjórnmál. Þá sjaldan hún tekur til máls er það með ólund og leiðindi á vörum. Og oftar en ekki snýst tal hennar um að þeir sem hún er ekki sammála séu hitt eða þetta.

Rökræðan er henni framandi heimur. Rökræða þar sem hún tekur málefnalegan slag við andstæð sjónarmið vopnuð eigin málsstað. Í huga Jóhönnu snýst  pólitíkin um að ráðast að persónum, og þetta hefur því miður smitast inn í marga úr hennar pólitíska ranni.

Stefán Ólafsson sem er mikilvægur hlekkur í okkar háskólasamfélagi er prýðilegt dæmi um þetta. Hann stillir þeim sem hann rökræðir við að jafnði upp á vondum stað að hans mati, spyrðir þá hugsanlega við aðra vonda menn, áður en hann reynir að takast á við það sem málið snýst um.

Þetta er arfleifð Jóhönnu. Þetta er gamli skólinn. Svona var pólitíkin og svona vilja margir hafa hana, því miður. Fjölmiðlar dansa svo dansinn líka. Ég veit ekki hvort það er vegna pólitískrar stöðutöku eða bara vanhæfni.

Núna berast fréttir af uppákomu á ríkisráðsfundi. Þetta er auðvitað ekki gott mál en við getum heldur ekki gert ráð fyrir að þetta sé óeðlilegt þó þetta sé óvenjulegt.

Ég bíð spenntur eftir viðbrögðum Jóhönnu og Steingríms, og ekki síður fjölmiðla. Mér finnst líklegra en ekki að þau viðbrögð sem berist frá Jóhönnu snúist um að ala á áunnini andúð á forsetanum, en alls ekkert um þau málefni sem málið varðar.

Þegar ég sit hér og skrifa þessa grein dúkkar upp einn mesti orðhákur þingsögunnar og tjáir sig um þetta mál. Þetta er alveg klássískt dæmi um það sem ég fjalla hér um. Allt snýst um að ata menn auri en ekkert um það sem máli skiptir. Þessi maður er glæstur fulltrúi þeirrar umræðuhefðar sem vinstri menn ætluðu að innleiða undir heitinu, samræðustjórnmál.

Við þurfum að gera þá kröfu til fólks að það hafi styrk til að takast málefnalega á um málin.

Röggi

 

Flokkar: Bloggar

Fimmtudagur 3.1.2013 - 10:38 - 3 ummæli

Örn Bárður

Hinn virti Guðsmaður Örn Bárður skrifar merkilegt Guðspjall á eyjunni. Þar fer embætttismaðurinn á kostum bæði hvað varðar innihald, afstöðu og orðbragð. Hann bætist þarna í hóp þeirra sem telur sig þess umkominn að taka af lífi þá sem ekki kunna að hafa skoðanir sem hann telur réttar. Sálusorgarinn hugprúði notar svo þetta mál til að fá útrás fyrir krampakennt ofnæmi sitt fyrir hægri mönnum hvar sem þeir kunna að fyrirfinnast.

Þetta atriði sérans er gagnlegt mjög. Hafi forsetinn þurft óyggjandi dæmi um það hvernig umræðan um stjórnarskrármálið er komin í öngstræti gæti hann alls ekki fundið sterkara dæmi. Sérann er risaeðla. Fulltrúi gamals tíma þar sem allt snýst um níða niður þá sem ekki kunnu að ganga í réttum takti. Og í tilfelli prestsins er allt undir.

Reimar Pétursson hæstaréttarlögmaður tekur þetta miklu betur saman en ég.

Upphrópanir þar sem farið er í fólk fremur en málstaðinn verður að vera liðin tíð.

Hættum að hossa fólki eins sem dregur umræðuna niður á þetta plan.

Röggi

 

Flokkar: Bloggar

Miðvikudagur 2.1.2013 - 01:19 - 20 ummæli

Of seint fyrir hvern?

Ég veit ekki nema ég sé orðinn of seinn með þetta, en það verður þá bara svo að vera. Mér finnst þó eiginlega alls ekki orðið of seint að hafa rökstuddar skoðanir í tillögum stjórnlagaráðs. Af hverju er það orðið of seint? Of seint fyrir hvern? Lýðræðið kannski…..?

Ég skil ekki svona. Hvaða vald hefur Þorvaldur Gylfason til að tala svona? Í hvers umboði hefur hann ákveðið þetta?

Standi hugur þings eða ríkisstjórnar til þess að setja ólög, hvenær telur prófessorinn „of seint“ að grípa til þess ráðs að skoða gagnrýni á slíkar fyrirætlanir? 

En það er ekki bara forsetinn sem fær þessar móttökur núna, en eins og margir vita hefur hann rætt þessar tillögur áður.

Ég sé ekki betur en að fræðimannasamfélagið fái hreinlega yfir sig gusur frá þingmönnum sannfærðum, og það jafnvel þó þær rökstuddu áhyggjur kæmu inn í umræðuna áður en prófessorinn taldi síðasta dag liðinn. 

Þetta er ekki alveg eins og það á að vera. 

Er það nokkuð?

Röggi

 

Lesa áfram »

Flokkar: Bloggar

Miðvikudagur 26.12.2012 - 12:24 - 7 ummæli

Fangavarða andúð Evu

Eva Hauksdóttir er firnaskemmtilegur pistlahöfundur. Hefur skemmtilegt sjónarhorn og stíllinn er brattur. 

Núna skrifar hún pistil um þá ákvörðun um að setja strokufangann á litla hrauni í einangrun. Flottur pistill og ég er viss um að margir hafa mikla samúð með því sem hún hefur fram að færa.

Eitt stingur mig þó. Það er þegar höfundurinn fer að runka sér ósmekklega  á andúð sinni á fangavörðum af þessu tilefni. Allir vita þó að fangaverðir tengjast þessu máli hreint ekkert.

Þeir hafa ekkert með málið að gera. Bara alls ekkert. 

Merkilegt…..

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 21.12.2012 - 12:31 - 13 ummæli

Lögreglan

Mér finnst eins og lögreglumenn og fulltrúar löggæslu hafi frá upphafi vega talað um að verulega vanti upp á að nægilegt fé sé til umráða. Það er án efa laukrétt.

Runólfur Þórhallsson varðstjóri skrifar fína grein um þessi mál. Þar dregur hann upp heldur dökka mynd. Margt sem að málaflokknum snýr er, ef eitthvað er að marka pistilinn, í skötulíki hjá okkur.

Ég er sammála Runólfi þegar hann segir að fyrsta skylda hvers samfélags sé að tryggja öryggi borgaranna. Það gerum við ekki með því að setja málið til hliðar, ekki einu sinni á niðurskurðartímum.

Ég hef skrifað um það ítrekað að ég tel að þeir sem hafa það það í sér að grafa undan þeim sem sjá um lög og rétt í hverju samfélagi eru að gera mikið ógagn.

Búsáhaldabyltingin dró fram fólk sem sumt telur að störf lögreglu séu í eðli sínu meira og minna ofbeldi. Ábyrgðarmenn þeirrar byltingar gerðu fátt til þess að stöðva ofbeldi borgaranna sjálfra, gagnvart laganna vörðum sem ekki gerðu annað en að sinna störfum sínum af fagmennsku, eða þeirra umbjóðendum. 

Sem er alltaf þjóðin sjálf hvorki meira né minna og sú löggjöf sem lýðræðið setur okkur. Tilraunir til þess að rjúfa þennan sáttmála er ógnun við grunnstoðirnar. Í þannig andrúmi mun smátt og smátt verða rof í skilningi á mikilvægi lögreglunnar og dómstóla. 

Við það vill auðvitað enginn kannast en ég tel mikinn skaða hafa hlotist af því hvernig ýmsir hafa leyft sér að tala.

Ekki er mjög langt síðan alltof margir gerðu stólpagrín að Birni Bjarnasyni þegar hann í sinni ráðherratíð vildi gera veg lögreglu meiri. Stofna sérsveit og tala um skipulagða glæpastarfsemi og hryðjuverk í Íslensku samhengi. Það grín var ekkert fyndið og er ekki fyndið.

Sumt af því fólki fer nú beint eða óbeint með völd í okkar samfélagi í dag. Ég ætla þó helst ekki að gera fólki það upp að hafa ekki raunverulegan áhuga á að efla og styrkja lögregluna. 

Auðvitað vill enginn að skipulögð glæpastarfsemi skjóti rótum hér á landi. 

Við viljum að lögreglan sé sýnileg og okkur til aðstoðar hvar sem er, öllum stundum sólarhrings. 

Við viljum að til þessara starfa veljist einvalalið karla og kvenna.

Og við viljum ekki ala börnin okkar upp í því hugarfari að laganna verðir séu ofbeldismenn þegar þeir vinna vinnuna sína.

Við þurfum að spyrja okkur að því hvort við teljum að gott lögreglulið detti af himnum ofan þegar við teljum okkur þurfa á þeim að halda, fyrir lítinn pening helst.

Röggi




Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 19.12.2012 - 13:32 - 2 ummæli

Drullumall rétttrúnaðarins

Sjaldan hefur hið nýja rétttrúnðarland, Ísland, opinberast eins rækilega og í kringum stjórnarskrármálið. Stjórnalagaráð átti að vera merkisberi nýrra tíma. Glæst merki þess að byltingin hafi skilað okkur fram veginn.

En þannig hefur það varla orðið. Vandræðagangur málsins, allt frá ömurlegri þátttöku þjóðarinnar þegar valið var í ráðið, til þess að stjórnmálamenn aftengdu réttarríkið og skipuðu ólöglega kosið ráð, er ekki til að styrkja ferlið.

En gott og vel. Þeir gerðu það og gátu rétt eins og aðrir stjórnmálamenn sem misnota vald sitt og við lesum stundum um í erlendum blöðum og hneykslumst stórum.

Og ráðið tók til við að smíða ráðgefandi tillögur að breytingum. Ráðgefandi tillögur sjáðu til kæri lesandi, til handa löggjafanum.

Þegar þær koma fram og um þær er kosið líta sumir hinna sérvöldu fulltrúa ráðsins svo á að ekki megi hrófla við þessum tillögum í meðförum löggjafarvaldsins. Og til vara að athugasemdirnar komi of seint. Of seint fyrir hvern spyr ég?

Nú er það þannig að nokkrir þeirra sem sátu í þessu ríkisskipaða ráði gera hverjum þeim sem hefur eitthvað við tillögurnar að athuga upp annarlegar hvatir. 

Þorvaldur Gylfason og Þórhildur Þorleifsdóttir fara mikinn í þessu. Þau vita sannleikann og hafa á honum einkarétt. Þeir sem ekki gangast undir þeirra sannleika eru að ganga erinda vondra manna. 

Rökræður hafa á þeim fjórum árum sem ríkisstjórn byltingarinnar hefur setið átt undir högg að sækja. Það sem hefur fengið aukið stóraukið vægi er pólitísk stöðutaka. Og svo er unnið þaðan og þeir sem eru ekki samferða þurfa að verja þá hegðun fyrir erindrekum sannleikans.

Í þessum falla alls konar múrar. Menn sem hingað til hafa þótt afburða fagmenn fræðilegir þykja nú skyndilega handónýtir kerfiskallar með dulin markmið og skemmandi.

Slíkum sleggjudómum er að jafnaði ekki fylgt eftir með neinum hætti né reynt að sýna fram á hverjir hagsmunir þeirra sem ekki eru sannfærðir geti verið, aðrir en faglegir.

Stjórnmálamenn sem alla jafna geta ekki samþykkt að færa til steinvölu fyrr en fagmenn hafa gert rannsóknir og kannanir mega nú ekki til þess hugsa að smámunir eins og úttektir hlutlausra fræðimanna og stofnana „tefji“ málið.

Eins og í sumum öðrum góðum málum eru þeir sem rífa mestan kjaft og tala stærst hægt en örugglega að fara með málið. Kannski finnst einhverjum áköfum fylgismönnum tillagnanna gaman að hlusta á þau Þorvald og Þórhildi lesa þeim pistilinn sem ekki standa gapandi án gagnrýninnar hugsunar.

En það er Þórðargleði. Þessi aðferð til að ræða saman er eyðileggjandi þó hún geti glatt viðhlægjendur í matarboðum á meðan en er eitthvað á borðum.

Langtímaáhrifin af þessu eru þau að málið lamast. Það festist í drullusvaði þeirra sem ekki hafa þrek og styrkt til þess að takast á um það. Á endanum snýst umræðan minna og minna um það sem skiptir máli en mest um leðjuna.

Svona nálgun er alger uppgjöf. Og langtímaáhrifin eru þau að þjóðin missir áhuga. Enn eitt málið sem festist í öfgum pólitískum og kafnar í eigin leiðindum þar sem eigendur hinna réttu skoðana taka til við að níða niður skóinn af þeim sem ekki kunna að skilja.

Hættum að hylla þessu lukkuriddara rétttrúnaðarins. Hömpum þess í stað þeim sem þora að vera málefnalegir og fögnum þeim sem vilja rökræðuna. 

Hættum að leyfa fólki eins og Þorvaldi og Þorhildi að draga málið niður í svað sem við erum orðin svo þreytt á. 

Röggi







Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 18.12.2012 - 12:44 - 1 ummæli

Flóttinn

Hvenær eru ríkisstjórnir í raun fallnar? Sú sem nú situr hreinlega kann ekki að falla. Flokkarnir sem hana mynda hanga saman á einhverju áður óþekktu lími.

Nýjasta nýtt í stöðunni er að Jón Bjarnason burtrekinn ráðherra VG myndar meirihluta með stjórnarandstöðu í utanríkismálanefnd um þá tillögu að setja aðildarviðræður við ESB á ís.

Nú gætu einhverjir sagt að þetta sé týpískur Jón Bjarnason og haldið áfram sínum störfum. En er þetta þannig? Einmitt vegna þess að þetta er týpískur Jón vaknar sú spurning af hverju hann er settur í þessa stöðu af formanni sínum, Steingrími Sigfússyni.

Flóttinn er hafinn. Flótti flokkanna sem mynduðu þessa vonlausu stjórn. Nú taka þeir sig til og reyna að lágmarka skaðann. Ná aftur í sérstöðu sína. Á meðan Össur fagnar opnun nýrra kafla í viðræðum okkar við ESB er VG að róa af fullum þunga í gagnstæða átt.

Skrípaleikur.

VG þarf að sanna það fyrir sjálfur sér og öðrum að þeir séu VG en ekki bara  ráðherraævintýri fyrir Steingrím Sigfússon. Þá er ekki úr vegi að stökkva til og fara að vera á móti aðildarviðræðum við ESB. Í verki vel að merkja.

Héðan af er engu að tapa fyrir þessa flokka. Engum dettur í hug að þeir muni starfa saman aftur, líklega um langa hríð. 

Þetta er bara rétt að byrja.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 18.12.2012 - 01:24 - Rita ummæli

Villta vinstrið

Nú húmar að hjá vinstrinu. VG og Samfylking þurfa ekki aðra óvini en hvert annað, þó vissulega mætti ætla annað miðað við það hvernig formenn flokkanna umgangast þá sem ekki eru fylgispakir og trúaðir innan sem utan flokka.


Menn virðast hafa skilgreint markmiðin þannig að allt, bókstaflega allt, sé til þess vinnandi að sitja i þessari vondu ríkisstjórn í fjögur ár.

Þau ár eru til blessunar að klárast og þá fer hver að bjarga sér sem betur getur. Samfylkingin þarf að finna sársaukalitla aðferð til að skera sig burt frá VG fyrir fullt og allt.

Það verður þrautin þyngri án þess að afneita um það bil öllu því sem ríkisstjórnin hefur gert og smyrja því á VG um leið og VG verður svo líka kennt um það sem ekki tókst að gera. 

Einnig þarf flokkurinn að velja Árna Pál sem formann. 

Árni Páll er ferskur og kraftmikill núna. Hann slapp tiltölulega snemma úr þeirri prísund sem veran í þessari ríkisstjórn er. Hann getur því látið vaða aðeins á súðum. 

Og það gerir hann og tal hans er eins og tónlist í eyrum kratanna sem hafa verið utangarðs á meðan gamla allaballagengið hefur rænt draumnum um stóra jafnaðarmannaflokkinn og jarðsett hann á undraskömmum tíma með bálhvassan meðvind frá vinstri í seglum.

Verði hann fyrir valinu er fyrirséð stórstyrjöld milli vinstri flokkanna þegar árin fjögur verða gerð upp.

Guðbjartur hins vegar er uppfærð útgáfa af Jóhönnu, þá sjaldan henni tekst að fela ólundina og óþolinmæðina til þeirra sem eru henni ósammála. 

Guðbjartur virkar prýðilega góður maður og áheyrilegur en óspennandi og hefur fátt nýtt fram að færa, auk þess sem hann telur það sniðugt að útiloka samstarf við Sjálfstæðisflokkinn en það er í besta falli barnalegt.

Hann er uppdubbaður fulltrúi þeirra sem ráða núna í flokknum. Ef klíkan sú hefði haft trú á því að einhver annar ætti mestan möguleika á að fella Árna Pál hefði Guðbjartur aldrei verið maðurinn. 

VG aftur á móti siglir sjó sem þeir örfáu kjósendur flokksins sem enn eru til, skilja lítið í. Þessir fáu hafa þó ákveðið eins og stuðningsmennirnir hinu megin víglínunnar, Samfylkingarmenn, að halda með ríkisstjórn en ekki pólitískri sannfæringu og lífsskoðunum.

VG þarf nú að grafa upp gömlu markmiðin á ný og koma þeim aftur í gagnið. Og vona að eitthvað sé eftir af trúverðugleika formanns sem yfirgaf stefnumið flokksins að flestu ef ekki öllu leyti, í skiptum fyrir ráðherrastól og völd.

Ríkisstjórnin er fullkomlega einangruð í hverju málinu á fætur öðru. Hún er að bíta alla af sér en lætur bara eins og það sé ekki að gerast, og eyðir restinni af orkunni í að tala um stjórnarandstöðuna og halda uppi almennu þrasi við allt og alla.

En bráðum breytist það og fyrrum samherjar taka til við að lumbra hver á öðrum á flóttanum undan verkum og verkleysi ríkisstjórnarinnar. Þau sár sem svíða nú þegar eru smáskeinur miðað við þau svöðusár sem enn á eftir að rífa ofan af. 

Röggi


Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.12.2012 - 12:15 - 5 ummæli

Er Gunnar Helgi með rangar skoðanir?

Búsáhaldabyltingin skall á þjóðinni með látum fyrir bráðum fjórum árum. Þá spratt fram fólk vopnað réttlátri reiði í kjölfar þess að bankakerfi heimsins riðaði til fals með ömurlegum afleiðingum fyrir okkur.

Lengi héldu margir að bylting þessi hefði verið sögulega stórmerkileg með allskyns skírskotunum í lýðræði og þjóðarvilja. Síðar kom svo í ljós að svo var ekki. 

Í vímunni sem fylgdi sigrinum yfir óvininum var talað um nýtt Ísland. Nýja orðræðu, nýtt samtal milli þjóðar og þings. Samræðan skyldi ræktuð. Virðing fyrir mismunandi skoðunum allsráðandi.

Ekkert af þessu hefur ræst. Í dag ræður rétttrúnaður öllu. Þeri sem ekki hafa réttar skoðanir eru brytjaðir niður án miskunar og helst ekki gerð tilraun til þess að rökræða. 

Öfgar eru málið. Feminisminn er að lenda í því að rétttrúnaðarofstæki er að taka hann eignarnámi. Herstöðvaandstæðingar fyrri tíma flýðu unnvörpum undan öfgafólki sem hertóku annars virðingarverðan málsstað. Það sama er að gerast með feminismann. Sagan endurtekur sig….

Einn merkilegur angi byltingarinnar var góður og heiðarlegur vilji margra til að gera metnaðarfulla tilraun til endurskoðunar á stjórnarskrá. Löggjafinn hafði að vísu gert breytingar á henni af og til en betur fannst mörgum að þurfti að gera.

Þá var blásið til sóknar og málið sett í farveg. Farveg sem mér og mörgum öðrum finnst hafa mistekist. Á þeirri vegferð tókst hinum rétttrúuðu að sannfæra sjálfa sig um að óþarft væri að taka mark á stofnun eins og hæstarétti sem hafði úrskurðað kosningar til stjórnlagaráðs ógildar. 

Hinir rétttrúuðu eru nefnilega vopnaðir sannleikanum og réttum málsstað. Og svo töfraorðinu sem er notað sem svipa á þá sem vilja rökræða, lýðræðinu.

Þeir sem vilja rökræða og koma fram með málefnalegar athugasemdir þurfa ekki að búast við öðru en að að þeim sé vegið persónulega og þeim gerðir upp annarlegir hlutir. 

Gunnar Helgi stjórnmálafræðiprófessor hefur margt við allt þetta ferli að athuga og kemur því skilmerkilega á framfæri. Fyrstu viðbrögð kollega hans úr fræðimannasamfélaginu, Þorvalds Gylfasonar, sem er vel að merkja dómari í eigin sök í þessu máli, eru dæmigerð.

Gunnar Helgi kann að ekki að hugsa um lýðræðið. Gunnar Helgi er einmitt að hugsa um lýðræðið. Ekki endilega vegna skoðana sinna heldur vegna þess að hann nýtir sér rétt sinn til þess að ræða málið. 

Gunnar Helgi verður seint sakaður um að vera vondur hægri maður. Né heldur nánast allt fræðimannasamfélagið sem hefur bent á ýmsa ágalla. En allt kemur fyrir ekki.

Þetta stórmál er fast í farvegi rétttrúnaðarfólks sem ætlar ekki að fást til þess að ræða neitt. Gagnrýni sama hvaðan hún kemur eða hvernig sem hún er framsett er afgreidd á einn hátt.

Á þann hátt að þeir sem ekki kunna að vera með rétta skoðun séu andstæðingar lýðræðis og þjóðarinnar. Punktur.

Ég held því fram hér að þeir sem ekki fást til þess að rökræða málið séu hinir raunverulegu andstæðingar opinnar umræðu og lýðræðis. Þetta stóra mál er ekki dægurþras.

Þetta snýst ekki að gera lítið úr þeim einstaklingum sem skipaðir voru til setu í stjórnalagaráði, öðru nær, og því óþarfi að taka athugasemdir sem fram koma persónulega. 

Þetta snýst heldur ekki um að hafa pólitíska andstæðinga undir. 

En þetta er prófsteinn á byltinguna. Byltinguna sem átti að færa okkur opna umræðu. Rökræður og samræðu þjóðarinnar. Og virðinguna fyrir hvort öðru. 

Þau markmið nást ekki ef hið nýja Ísland ætlar að gróa fast í höndum fólks vopnað sannleikanum og hinum einu réttu skoðunum. 

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 10.12.2012 - 11:26 - Rita ummæli

Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að skrifa enn einu sinni um DV og fréttastjóra þess blaðs. Sigurður G. Guðjónsson lögfræðingur talar enga tæpitungu í grein sem um fréttastjórann fjallar. Og það hyggst ég ekki heldur gera.

Málsmetandi menn héðan og þaðan þykjast bera hag orðræðunnar fyrir brjósti. Við belgjum okkur út og tölum um nýtt Ísland. Samt eru til fjölmiðlar eins og DV.

Á því blaði er ekki unnið eftir neinum viðurkenndum vísindum um fjölmiðlun. Einn mælikvarðinn sem notast er við er vogarskálin um það hvar standa í pólitík. 

Þeir sem falla röngu megin þar eru allt að þvi réttdræpir. Um þetta er mörg dæmi. Annað er ef einhver, og þá skiptir í orðsins fyllstu merkingu alls engu máli hver eins og nýlega hefur sést, vill tala illa um Sjálfstæðismann, þá er viðkomandi öruggur um 15 mínútna frægð, DV style.

Ég geri ekki lítið úr þörf manna til þess að þola ekki Sjálfstæðisflokkinn, til þess hefur hver maður fullan rétt, en verðum við ekki allra helst að gera lágmarkskröfur til fjölmiðla um eðlileg viðmið siðferðisleg jafnvel þó þessi þörf sé yfirþyrmandi?

Vissulega er það þannig að einungis lítill hluti landsmanna les þetta blað og það er einhver huggun harmi gegn. 

DV má auðvitað tapa peningum á því að reka allskonar áróður um hvað eina, allt eftir smekk þeirra sem fjármagna tapið og borga launin. Annað eins hefur nú sést..

….en má allt í þeim slag? Er sannleikurinn aukaatriði? Ingi Freyr hugsar bara um næstu forsíðu og sest svo kannski niður og les kommentin frá hirðinni sem aldrei skrópar. 

Umfjöllun og nálgun hans um vafningsmálið slær flest annað út og þó er af ýmsu að taka. Tilgangurinn helgar meðalið. Ingi Freyr veit að fyrirsögn fréttarinar um formann Sjálfstæðisflokksins er alger della. 

En honum virðist vera sama. Hann er ekki alvöru fjölmiðlamaður þegar kemur að því að fjalla um þá sem hann heldur ekki með heldur pólitískur málaliði illa eða lítt dulbúinn. 

Sannleikurinn er afstætt hugtak fyrir sumum. Teygjanlegt atriði sem hægt er að nota með ýmsum hætti. Í tilfelli DV til þess að koma höggi á fólk sem lendir á aftökulista blaðsins. 

Röggi




Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur