Sunnudagur 21.4.2013 - 22:35 - 1 ummæli

Össur

Össur Skarphéðinsson hrasar að jafnaði í furðulegan ham þegar nálgast kosningar. Össur sem hefur verið á ferðalögum á kjörtímabilinu hefur nú gert stopp hér heima og gerir sig gildandi. 

Við sjáum að hvatinn er þekktur. Þráin eftir áframhaldandi embætti knýr karl til gamalkunnra bellibragða sem allar miða að því að búa til gott veður hjá þeim flokki sem mælist stærstur þá og þegar. Fátt er nú nýtt undir sólinni….

Össur hefur sumsé komið sér upp hentugri ást á framsóknarflokknum. Gat nú verið sagði kerlingin og ryfjar upp að það gerði hann fyrir ekki svo löngu síðan með mælanlegum árangri, því miður. 

Brúarsmiðurinn klækjótti skrifar greinar til að sannfæra sjálfan sig um að auðvitað gæti framsókn dugað fallega til að tryggja honum ráðherrastól. Ljúf saga og hjartnæm…

Nú bregður svo við að varaformaður flokksins er með uppivöðslu og sér á því einhver tormerki að mynda stjórn til vinstri. 

Þetta hentar Össurri ekki og hjólar því í þennan mann. Nema hvað….

Fáir aðrir en Össur hafa betri tök á því að bulla upp úr sér allskonar kenningum og upplifa bullið sem staðreynd. Og ætlast svo til þess að við orðum hans sé brugðist eins og um staðreynd sé að ræða. 

Ég veit ekki hvort þetta er meðvituð hegðun hjá honum eða hvort hann trúir sjálfum sér jafnóðum. Það gildir auðvitað einu, þannig séð, en sorglegt er það.

Össur, sem er skollans skemmtilegur, er sífellt að plotta eitthvað. Þessa dagana fer öll hans orka í að tala um aðra flokka en sinn eigin.  Og hann kann að tala í fyrirsögnum…

Ég held að ekkert gagn sé að svona stjórnmálum í dag. Og vonandi lítil eftirspurn.

Hvorki fyrir né eftir kosningar.

Röggi

 

 

Flokkar: Bloggar

Þriðjudagur 5.3.2013 - 19:14 - 2 ummæli

Að kenna öðrum um

Ekki er að spyrja að Össuri. Hann sér víða pólitískar matarholur. Þá skipta staðreyndir stundum litlu máli. Nýjast hjá klækjastjórnmálamanninum er að reyna að sækja atkvæði með því að úthúða Sjálfstæðisflokknum vegna þess að ríkisstjórnin heykist á því að reyna að koma stjórnarskrármálinu áfram.

Þegar Össur iðkar samræðustjórnmálin sem Samfylkingin kynnti síðast þá birtast þau svona. Og til þess að fá nú örugglega nógu marga viðhlægjendur til að gapa af aðdáun þá bregður hann fyrir sig gömlu stefi. Það er stefið, tölum illa um útgerðarmenn. 

Staðreyndin um stjórnarskrármálið hvað varðar þingið og meðferðina þar er auðvitað sú að Össur og félagar eru ekki tilbúin að greiða frumvarpinu atkvæði sitt, Ríkisstjórnin hefur ekki meirihluta fyrir því.

Þetta hefur Össur vitað lengi og málið því geymt það þangað til að fyrirséð var að ekki ynnist tími til að koma því í farveg. Þannig vonast Össur til þess að geta bullað upp fjarvistarsönnun og slegið keilur í leiðinni.

Það er merki um pólitískt hugleysi Össurar að ætla að kenna Sjálfstæðisflokknum um hvernig fyrir þessu máli er komið. Árni Páll hefur ekki hugmyndaflug til þess að haga sér með þessum hætti en freistingin varð Össurri ofviða. 

Þetta mál er himnasending fyrir ref eins og Össur. Enn eitt málið sem ríkisstjórninni tekst alls ekki að leiða til neinna lykta. Mál sem ekki liggur á að hraða í gegn en allt er undir að vanda vel til og ná um það samstöðu þó það taki einhvern tíma. 

En þetta nýtist afar vel til þess að fá fólk til að hugsa um eitthvað annað en það sem raunverulega er að gerast. Yfirgripsmikið dugleysi og ósamsætti ríkisstjórnarflokkanna í nánast öllum málum brennur á fólki. 

Ýmist eru lausnir ríkisstjórnarinnar til mikilla vandræða eða að úrræðaleysið ætlar allt að drepa. Þá er alltaf best að tala illa um Sjálfstæðisflokkinn sem er vel að merkja ekki í ríkisstjórn.

Það er stórmagnað að fylgjast með umfjöllun um pólitík á Íslandi þessa dagana. Fyrir ókunnuga nýkomna til landsins er bara ekki annað að sjá en að Sjálfstæðisflokkurinn sé við völd. Össur og félagar taka varla til máls án þess að ræða þann flokk og innvígðir taka undir í rétttrúnaðar takti.

Og flestir fjölmiðlar dansa líka með. Margt má kenna Sjálfstæðisflokknum um enda fólk þar ekki óskeikult umfram aðra. En það er hreinlega magnað að fylgjast með ríkisstjórn kenna stjórnarandstöðu um allt sem miður fer.

Hvernig væri að gengið yrði á þetta fólk um loforðin og lausnirnar? Og jafnvel mætti þá í leiðinni spyrja Össur og félaga að því af hverju Samfylking og VG treysta sér ekki til að koma þessu máli í gegnum þingið?

Röggi

 

 

Flokkar: Bloggar

Mánudagur 4.2.2013 - 17:09 - 6 ummæli

Að hafa tvo leiðtoga

Gunnar Helgi Kristjánsson prófessor telur Samfylkinguna koma illa undirbúna til kosninga. Þetta stöðumat hans fer í fínar taugar margra Samfylkingarmanna. Fyrir okkur hin er þetta staðreynd sem blasir við og ætti í raun ekki að koma neinum á óvart. Kannski þola menn Gunnar Helga ekki að benda á þetta enda hann fallinn í ónáð.

Vissulega verður allt annað yfirbragð á flokknum nú þegar hann hefur skipt um eigendur. Árni Páll er brattur og talar mikið um margt og flest er það áferðafallegt. Þá er undan skilinn hrokinn sem hann getur illa dulið þegar hann talar um skyni skroppnu þjóðina sem ekki skilur að hann hefur rétt fyrir sér. 

Flokkurinn er í merkilegri stöðu. Ekki bara vegna þess að hann mælist fylgislítill heldur ekki síst vegna þess að hann mun líklega hafa tvo leiðtoga eitthvað áfram. Það er frumlegt en ég efast um að það sé góður undirbúningur. Kannski á prófessorinn við þetta.

Ef ekkert breytist mun annar formaðurinn, þ.e. sá sem hefur hætt, stjórna Samfylkingunni sem situr í ríkisstjórn fram að kosningum og reka þann hluta áfram eins og ekkert hafi í skorist.

Hinn formaðurinn, sá nýkjörni, mun aftur á móti stjórna flokknum sem hann fær í arf að kosningum loknum. Fær að búa til kosningabaráttu sem að líkindum inniheldur eitthvað allt annað en Samfylkingin er að ástunda undir stjórn Jóhönnu í ríkisstjórn sem gat ekki þolað hinn nýja leiðtoga.

Ef eitthvað er að marka það sem hann hefur sagt um Jóhönnu er alls ekki ólíklegt að hann verði í liði með stjórnarandstöðunni á þingi þegar hún heldur áfram að reyna að koma stórmálum í gegn með látum eins og hennar er siður.

Fyrir okkur sem horfum á úr fjarlægð er þetta dálítið skrýtið. Ljóti burtrekni andarunginn hefur stolið senunni en hann fær samt ekki að ráða alveg strax. Samt er hann aðal…

Kannski er þetta fínn undirbúningur fyrir kosningar. Smart að vera með tvo leiðtoga. Einn fyrir Samfylkinguna sem fundaði um helgina og annan fyrir Samfylkinguna sem situr í ríkisstjórn. 

Þetta verður eitthvað

Röggi

 

Flokkar: Bloggar

Fimmtudagur 31.1.2013 - 11:39 - Rita ummæli

Eru kjósendur með einelti?

Hver vill láta ókunnugt fólk kalla sig hyski? Ekki ég hið minnsta. Það er bévítans dónaskapur jafnvel þó hið meinta hyski sé stjórnmálahyski. Þeir sem grípa til þannig orðfæris dæma sig að einhverju leyti sjálfir.

Jón Gnarr upplifir svona aggressíva framkomu sem einelti. Það er auðvitað út í hött, er það ekki? Ég ætla ekki að segja að þeir sem ramba á það að verða stjórnamálamenn eigi að sætta sig við eða að búast við svona framkomu, en einelti er þessi dónaskapur ekki. 

Ég kemst ekki hjá því að velta því fyrir mér hvað hefði orðið um búsáhaldabyltinguna ef sumir þeir sem nú stökkva upp á nef sér vegna þessa hefðu fengið að vera málfarsráðunautar þeirra byltingar. 

Þar slettu menn nú heldur betur skyrinu, börðu ráðherrabíla og fleygðu múrsteinum í vinnandi menn með fúkýrðaflaum í ofanálag. Það var nú meira helvíts fokking fokkið maður. En einelti datt engum í hug.

Byltingin étur börnin sín……

Röggi

Flokkar: Bloggar

Miðvikudagur 30.1.2013 - 17:19 - 6 ummæli

Að verða vitni að tilviljun

Þetta var þá allt saman tilviljun. Árni Þór Sigurðsson þungaviktarþingmaður VG hefur greint icesave málið og dregið þessa ályktun. Það var í raun tilviljun hvernig málið þróaðist. Tilviljun að málið endaði fyrir dómstólum og vannst þar. Það var og…

Það eru alls engar tilviljanir í því hvernig þetta mál þróaðist. Áralöng barátta þjóðar gegn ríkisstjórn í þessu máli á betra skilið en þessa einkun. Var það kannski tilvljun að Árni Þór barðist með kjafti og klóm fyrir öllum útgáfum af icesave?

Sjálfseyðingarhvöt vinstri manna á sér lítil takmörk. 

Röggi

 

 

Flokkar: Bloggar

Miðvikudagur 30.1.2013 - 15:21 - 1 ummæli

Sanngirni bandalags listamanna

Ég rakst á furðufrétt þar sem segir að bandalag íslenskra listamanna telji það sanngirnismál að það ágæta bandalag fái hlut af lottótekjum til ráðstöfunar. Af hverju ekki félag íslenskra bifreiðaeigenda? Félag skipstjórnarmanna? Hundaræktarfélag íslands.

Hvað með happdrætti blindrafélagsins? 

Auðvitað er eðlilegt bandalag listamanna þefi uppi matarholur. Ég þarf þó að hafa talsvert fyrir því að skilja hvaða sanngirnisrök hníga að því að taka þessar smánarlegu tekjur, og færa þær frá íþrótta og ungmennastarfi til listamanna sem fá nú þegar mun meira frá opinberum aðilum en íþróttahreyfingin.

Af hverju að stoppa þarna? Hvað með hlutdeild í seldum aðgöngumiðum á kappleiki? Hlut í greiddum æfingagjöldum barna…?

Ég vill endilega heyra þessi sanngirnisrök og reyndar hin líka.

Röggi

 

Flokkar: Bloggar

Mánudagur 28.1.2013 - 12:02 - 3 ummæli

Að hafa rangt fyrir sér

Ég hafði rangt fyrir mér sem betur fer. Ég sagði já við síðasta Icesave samningnum með þeim orðum að ég vildi miklu frekar segja nei, fannst þetta samt skynsamlegt á þeim tíma. Ég myndi segja af mér ef ég bara gæti!

Sjaldan hef ég verið jafn kátur með að hafa haft rangt fyrir mér. Ég ætla þó ekki að halda veislu eins og Össur sem mun að líkindum reyna að fagna þessu eins og hann eigi  einhvern þátt í sigrinum.

Ég las þessa frábæru bók sem strax varð því miður eins og besti reyfari, sem er ágætt þannig séð, ef ekki væri um grafalvarlega hluti að ræða. Í dag er nauðsynlegt að lesa hana aftur yfir því við vitum svo miklu meira. Þessi bók verður klassík…

Hvað er hægt að segja um þá sem reyndu með allskyns bægslagangi að traðka Icesave inn á okkur frá fyrsta degi? Hvað er líka hægt að segja um ritstjóra Morgunblaðsins og forsetann, en þeir tveir menn hafa ásamt svo mörgum öðrum eins og indefence barist af einurð allan tímann, alltaf, fyrir því að við ættum ekki að greiða? 

Og síðast en alls ekki síst. Hvað er hægt að segja um Steingrím og Jóhönnu? Fólkið sem hlustaði ekki á 98% þjóðarinnar, og hefur aldrei hlustað á meirihluta þjóðarinnar í þessu efni?  Mig minnir meira að segja að frú Jóhanna hafi ekki mætt til að greiða atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu, eða var það Steimgrímur?

Hvað þarf að ganga á til þess að það fólk axli pólitíska ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut? Um hvað ætli það séu að tala akkúrat núna? Þau eru kannski að bölva forsetanum, eða Davíð.  Eða eru þau kannski að furða sig á dómnum sötrandi kaffi með Svavari og vona í leiðinni að lögum um landsdóm verði breytt með hraði?

Ég neita að trúa því að ríkisstjórn byltingarinnar hafi ekki manndóm í sér til að rifa seglin núna. Og til vara neita ég eindregið að trúa því að þeir kjósendur sem höfðu von um ný alvöru stjórnmál á Íslandi hafi eftir þennan dag áframhaldandi þrek til að styðja það fólk sem fer fyrir ríkisstjórninni. 

Röggi

 

 

Flokkar: Bloggar

Föstudagur 25.1.2013 - 10:46 - 3 ummæli

Össur og klækjastjórnmálin

Það má vissulega segja um Össur Skarphéðinsson að hann þekkir klækjastjórnmál þegar hann sér þau. Maðurinn fann þau upp. Hann hefur þegar þannig hefur legið á honum talað um eigin snilld í skákinni sem stjórnmál eru fyrir honum. Þess vegna kemur það ekki mjög á óvart að hann telji það merki um klæki hjá stjórnmálamönnum að skipta um skoðun.

Össur vandar þeim ekki kveðjurnar Guðmundi og Marshall vegna þess að þeir hafa, eins og eiginlega allir aðrir en Samfylking og hluti þeirra sem sátu í stjórnlagaráði, komist að þeirri niðurstöðu að stjórnarskrármálið er að daga uppi, af öllum ástæðum.

Er ekki óhætt að segja að hver einasta stofnun eða aðili sem fengin hefur verið til að gefa frumvarpinu einkun hefur fellt málið? Fylgjendur málsins hafa að jafnaði lagt því fólki öllu til annarlegan tilgang og til vara sagt að álit þeirra skipti í raun engu máli ef það kom hreinlega ekki of seint fram.

Össur er ekki fæddur í gær þó stundum kunni það að læðast að manni. Hann veit auðvitað að málið er ónýtt á þessu stígi en getur ekki neitað sér um að nota þessa eðlilegu en breyttu afstöðu Bjartar framtíðar, sem les stöðuna auðvitað laukrétt, í pólitískum klækjaleik úr eigin smiðju.

Þarna sér hann kærkomið og upplagt tækifæri til að reyna að koma höggi á litlu Samfylkinguna sem virðist næstum því vera orðin stóra systir, ef marka má skoðanakannanir. Ekki skemmir svo fyrir að geta hnýtt í Sjálfstæðisflokkinn í leiðinni. Þetta var dauðafæri og Össur gat ekki sleppt því…

En hann brennir af blessaður. Björt framtíð kýs að hlusta og lesa salinn og aðlaga sig að raunveruleikanum. Það er kannski einhver framtíð í slíku háttarlagi þó Össur upplifi slikt framandi.  

Það er skynsemi hjá þeim félögum að ganga í lið með fræðasamfélaginu og stjórnarskránni og okkur hinum og horfa af raunsæi á stöðuna. 

Össur á hinn bóginn lokaðist inni með þetta mál en sér í þessu útspili Bjartar framtíðar síðbúinn möguleika á að nýta sér vonda stöðu þess flokknum sínum til framdráttar í aðdraganda kosninga.

Þar fer meistari klækjastjórnmálanna en mig grunar að uppskeran verði rýr.

Röggi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 16.1.2013 - 12:48 - 3 ummæli

Stefán Ólafsson og myrku öflin

Stefán Ólafsson stjórnmálamaður á launaskrá við háskóla Íslands heldur áfram að láta til sín taka í opinberri umræðu. Hann settist niður til að svara Sigurði G. Guðjónssyni lögmanni sem hafði að mati Steáfns gerst sekur um að hnýta í Egil Helgason. Það er höfuðsynd greinilega og Stefán setur lögmanninn þá án frekari umsvifa í hóp myrkrahöfðingja.

Og tekur til við að lista upp „glæpi“ lögmannsins. Þetta er gott og blessað allt saman. Eitt hnaut ég þó um. Það er mögnuð stöðutaka prófessor Stefáns með Gunnari Andersen en hann virðist vera einhverskonar hetja hjá sumum vinstri mönnum. 

Stefán vill ekki uppfæra sig. Hann trúir því enn sem hann las í málgagninu, DV, að vondir menn hafi komið Gunnari Andersen úr starfi. Stefán virðist í raun sannfærast þegar hann les eigin skrift að lögmaðurinn hafi með hæpnum málatilbúnaði komið Andersen úr starfi. Þetta er fáránleg söguskoðun og í engu samræmi við það sem við vitum.

Stefán tók sjálfvirka afstöðu með Gunnari þegar Gunnar ákvað að hjóla í vondan hægri mann og mölbrjóta allar reglur skráðar og óskráðar. Þá eru ónefnd þau atriði er snúa að fortíð hins ákærða í viðskiptum. Þetta eru aukaatriði í huga Stefán og hans heimsmynd, sem er mynd kaldastríðsins.

Hvernig hyggst Stefán skýra það verði Gunnar sakfelldur? Hvaða myrku öfl finnur hann þá í dómstólum og hjá embætti saksóknara? 

Hvaða öflum tilheyrir Stefán Ólafsson?

Röggi

 

Flokkar: Bloggar

Mánudagur 14.1.2013 - 11:05 - 1 ummæli

DV og meiðyrðin

Heiða, auglýsingastjóri DV, skrifaði pistil nú nýlega. Í þessum pistli reynir hún að höfða til reiði gagnvart þeim sem „settu landið á hausinn“. Þeir sem höfða mál gegn DV eru vondir menn sem hafa grætt ólöglega um leið og þeir steyptu okkur í glötun og fylltu eigin vasa. Þetta hljómar án efa vel í eyrum margra.

Vonandi verður það aldrei svo að fjölmiðlar, eða nokkrir aðrir, þurfi ekki að standa ábyrgir orða sinna. Orðum fylgir ábyrgð auðvitað og löggjöfin um meiðyrði tekur ekkert tillit til þess hvort þeir sem þau viðhafa telja sig hafa „góðan“ málsstað að verja, né heldur hvort viðkomandi er upptekin við  rekstur fjölmiðils sem á í kröggum fjárhagslega.

Allir menn, og allir fjölmiðlar, hafa fullan og óskoraðan rétt til að verja sig og sitt mannorð. Og það hlýtur að vera skylda fjölmiðils eins og annarra að standa ábyrgur gagnvart því sem hann lætur frá sér fara. Hvað annað spyr ég fávís? Hver á að ákveða hverjir eru þess verðugir að fá að sækja rétt sinn? Stundum er lýðræðið þreytandi….

Ég get haft prívatskoðun á því hvað mér finnst um sumt af þvi sem blaðinu er stefnt fyrir, en sú skoðun skiptir í raun litlu þar sem ég sjálfur er ekki til umfjöllunar og veit því fátt. Verði ég hins vegar til umfjöllunar í DV og finnist ég hart leikinn áskil ég mér fullan rétt til þess að sækja rétt minn.

Og tek þá ekkert tillit til þess hvort mikið er að gera í ritstjórn eða hart í ári. Svona eru leikreglurnar og fjölmiðill sem kvartar undan þeim er í vanda og sá vandi snýr ekki að annríki eða fjárhagsáhyggjum.

Röggi

Flokkar: Bloggar

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur