Fimmtudagur 15.8.2013 - 15:47 - 2 ummæli

Vigdís og RÚV II

Er hægt að ætlast til þess að ég trúi því að Vígdís Hauksdóttir viti ekki hvað hún meinar þegar hún talar?

Ég hef oft gaman að henni enda er hún ekki með neinn stoppara og lætur bara vaða. Við þolum að mínu viti aðeins meira af slíku í pólitíkinni…stundum.

Vigdís er ekki meistari hins talaða orðs, um það eru mörg dæmi, en mér finnst það sérkennileg tilætlunarsemi hjá stuðningsfólki hennar að gera þá kröfu til mín að haldi að hún viti ekki hvað hún er að segja eða meina þrátt fyrir þennan oft meinlega ókost.

Umræða um kostnað við rekstur RÚV er þörf, meira að segja mjög þörf. 

Fyrir mér eru þetta tvö mál. 

Annars vegar debatið um RÚV og þann rekstur allan…

…og hins vegar hvernig formaður fjárlaganefndar leyfir sér að hugsa um það vald sem hún svo sannarlega hefur sem formaður. 

Í alvöru, það er ekkert smámál að reyna að verja nálgun hennar í þessu jafnvel þó menn vilji skera niður framlög til RÚV. 

Bæjarstjórinn í vestmannaeyjum telur að gagnrýnin á Vigdísi sé hitt og þetta stjórnað af hinum og þessum. Að mínu viti liggur hún merkilega oft vel við höggi og er sinn versti óvinur langtímum saman.

Andstæðingar hennar á þingi og annarsstaðar hafa ekki látið hjá líða að nýta sér það. Um það má kannski hafa langt mál og hversu málefnalegt það er. En þetta mál snýst ekki um þetta meinta samsæri…

Þetta er ekkert mjög flókið. Annað hvort finnst henni afstaða sín og nálgun í góðu lagi eða að hún skilur ekki hvað hún var að segja.

Niðurstaðan ætti að vera sú sama hvora leiðina sem menn vilja velja.

Hún getur ekki setið áfram. Þeir sem efast ætti að prófa að setja einhvern annan málaflokk sem Vigdís gæti haft áhuga á inn í þessa jöfnu. 

Svo skulum við endilega ræða RÚV og fjármál enda tímabært og mikilvægt.

Röggi

Flokkar: Bloggar

Miðvikudagur 14.8.2013 - 15:33 - 3 ummæli

Vigdís og RÚV

Ég er ekki sérlega hrifinn af hugmyndinni um inngöngu í ESB þó ég áskilji mér rétt til að hafa aðra skoðun gerist eitthvað spennandi og í dag ófyrirséð í þeim málum….

Ég er heldur ekki sérlega ánægður með RÚV alltaf. Ekki bara vegna slagsíðunnar sem ég þykist sjá þar í umfjöllun um ESB,  og reyndar eitt og annað, heldur líka vegna þess að forstjóri þess fyrirtækis bregst að jafnaði við allri gagnrýni með vanstillingu þess sem veit að hann gerir ekki mistök…

En ég hef þó sýnu meiri áhyggjur af því þegar stjórnmálamenn ætla sér í krafti pólitísks valds að hafa bein áhrif  á rekstur fyrirtækisins eins og Vigdís Hauksdóttir segist vilja gera.

Ég geri mér grein fyrir því að fjárveitingar til RÚV eru ekki náttúrulögmál, og reyndar langt frá því, en forsendur Vigdísar í þessu eru afleitar ef ekki hættulegar. 

Þetta er mér prinsippmál og snýst ekki um hægri eða vinstri. 

Þessum þankagangi má enginn fagna þó menn finni tilfallandi þörf til að „rétta“ RÚV af…

Við viljum ekki færa stjórnmálamönnum þessi völd

Röggi

Flokkar: Bloggar

Þriðjudagur 9.7.2013 - 19:35 - 2 ummæli

Deilt við útvarpsstjórann

Það er ekki andskotalaust að vera dómari. Dómarar skulu vera fólk sem gerir ekki mistök. Geri þeir hins vegar mistök geta þeir þurft að búa við það að sumir trúa því að mistökin hafi ekki verið mistök heldur sértæk aðgerð gegn öðru liðinu.

Í dag skrifaði útvarpsstjóri merkilegan pistil vegna leiks ÍBV og KR í bikarnum. Páll heldur með ÍBV en þeir telja sig illa leikna vegna ákvarðana dómarans. Hlutlausir hafa flestir talsverða samúð með þeim málsstað.

En sú nálgun að um annarleg sjónarmið dómarans geti verið að ræða er fáránleg. Allir gera mistök og krafan um að dómarar í íþróttum séu þar undanskildir er auðvitað barnaleg. 

Hvaðan sú hugsun kemur að þeir séu til sem ekki vilja gera vel, standa sig og fá klapp á bakið, er mér óskiljanleg. Af hverju er þessi afstaða ekki heimfærð á alla þátttakendur leiksins?

Þjálfara sem gera mistök. leikmenn sem klúðra vítum, stjórnarmenn. Allt er þetta fólk,  fagmenn, sem gera mistök. Sum alvarlegri en önnur en allt heiðarleg mistök. 

Dómarar eiga ekki að kveinka sér undan umfjöllun um þeirra störf. En allir menn, dómarar sem útvarpsstjórar, eiga heimtingu á því að umræða um störf þeirra og persónur séu hafin yfir forað þar sem fólk er beinlínis sakað um óheiðarleika þó eitthvað fari ekki nógu vel. 

Röggi

 

Flokkar: Bloggar

Fimmtudagur 4.7.2013 - 05:23 - Rita ummæli

Minning um mann

Við erum á árlegum haustfundi sem þetta árið er haldinn á laugarvatni. Góður hópur dómara sem þar kemur saman til undirbúnings fyrir tímabilið. Ólíkt fólk úr ýmsum áttum, með allskonar vonir og væntingar, en allir með sama markmiðið. Að standa okkar plikt fyrir leikinn sem við öll elskum, körfubolta.

Það er þarna sem mörg okkar kynntumst Óla Rafns fyrst er hann heiðraði samkomuna með nærveru sinni. Óli var þannig að við sem hittum þarna stoltan formann KKÍ í embættiserindum fundum fyrir því að honum var þetta ekki síðri heiður en okkur. Hann skynjaði fljótt mikilvægi þess að rækta garðinn út í öll horn og að gefa af sér.

Þannig þekktum við Óla alla tíð. Hann gaf af sér, bæði faglega og ekki síður persónulega. Hafði yndislega nærveru og reisn, strangheiðarlegur maður og traustur. Eindrægni hans fyrir velferð körfuboltans í stóru og smáu duldist engum hvorki fyrr né síðar, hérlendis sem erlendis.

Körfuboltafjölskyldan kveður stóra manneskju þegar við kveðjum Óla Rafns. Við skulum halda merki hans hátt á lofti þar sem metnaður og skipulag einkenndi vinnuna, en auðsýnd hlýja og virðing fyrir öllum persónuna.

Hugur okkar allra er hjá fjölskyldu hans og vinum. Venjuleg orð duga skammt til að lýsa þeirri sorg sem við finnum en við hugsum með þakklæti til þess tíma sem við fengum með einum af bestu sonum íslensks körfubolta.

Minning um einstakan dreng lifir

Röggi

Flokkar: Bloggar

Sunnudagur 30.6.2013 - 15:46 - 5 ummæli

Segðu mér Illugi

Ekki er öll vitleysan eins. Bjarni Ben vill ganga í það þjóðþrifaverk að leggja landsdóm niður. Illugi Jökulsson leggur út af þessu í nýlegri færslu. Þar kennir ýmissa grasa…

Illugi er upptekinn af því að Bjarni hafi mögulega ekki vitað að til þess að leggja þessa ömurlegu stofnun niður þarf að breyta stjórnarskrá. Í framhaldi af þessu talar Illugi um að ef Bjarni hefði bara stutt tillögur stjórnlagaráðs væri þessi vandi úr sögunni. 

Illugi virðist í sérkennilegri afneitun þegar kemur að vinnu þessa merkilega ráðs. Hún reyndist því miður ekki nógu góð og hvorki þjóðin sjálf né  fræðsamfélagið hafði neinn stuðning við þetta plagg. Kannski þarf að breyta stjórnarskrá en þá er allt eins víst að önnur aðferð verði notuð til þess en sú misheppnaða nú síðast.

Einnig er áhugavert að lesa ummæli Illuga um þessa stofnun, landsdóm. Hann er að mati Illuga það sem hann kallar barn síns tíma, ef ekki handónýt hugmynd frá upphafi.

Hvernig skilgreinir Illugi þetta hugtak, barns síns tíma? 

Þeir eru ekki svo ýkja margir mánuðirnir síðan Illugi og vinstra slettið allt saman notað þetta „barn“ til þess að svívirða pólitiskan andstæðing, í von um atkvæði úr kjörkössum, með þeim hætti að aldrei mun gleymast eða mást af þeim sem tóku þátt í. 

Mig langar að spyrja Illuga að því hvað honum finnst hafa breyst hjá „barninu“ frá því að síðasta ríkisstjórn notaði það?

Svo langar mig mjög að vita hvort hann finni ekkert til skammar gagnvart Geir Haarde….

Röggi

Flokkar: Bloggar

Sunnudagur 19.5.2013 - 15:20 - 10 ummæli

Skammistykkar

Merkileg staða staðan í pólitísku umræðunni. Ýmist dauðaþögn eða svo stórlega barnaleg umræða að litlu tali tekur. 

Nú er verið að mynda ríkisstjórn. Það er að vonum ekkert íhlaupaverk, vel þarf að vanda til þeirrar vinnu. Umræðan í kringum þá atburðarás er á löngum köflum í besta falli bjánaleg.

Össur blessaður neitar að horfast í augu við kjósendur og ekki síst sjálfan sig. Hann reyndi öll trixin til þess að komast að Sigmundi og þegar það gékk ekki hóf hann herferð í ætt við morfís sem gengur í megin atriðum út á tvennt. Að hræra í gruggugu vatni og vona að  eitthvað klúðrist og röðin komi að honum, og ekki síður hitt, að lina eigin pólitískar og persónulegar kvalir.

Uppnefnir formenn flokkana þegar hann vísar í fjárhagsleg efni þeirra og hlýtur að launum lófaklapp sellunnar sem telur stundum svo mikilvægt að hefja umræðuna upp á hærra plan. Lágar hvatir en þetta módel setur því miður tóninn fyrir of marga.

Ég vorkenni Árna Páli að vera með þennan aftursætisformann. Ég segi það enn og aftur. Tími svona stjórnmálamanna ætti að vera liðinn og ef eitthvað er að marka útkomu úr þjóðaratkvæðgreiðunni um þingið í vor er hann liðinn.

Hrunflokkarnir eins og þeir voru kallaðir sem töpuðu búsáhaldarbyltingar kosningunum áttu að skammast sín. Það var viðkvæðið. Þeir töpuðu þó minna en þeir hrunflokkar sem  hrundu í þjóðaratkvæðagreiðslunni nýafstöðnu. En við vitum að  þjóðaratkvæðagreiðsla er ekki endilega þjóðaratkvæðagreiðsla.

Flokkarnir tveir eru að bisa við að mynda ríkisstjórn um þau loforð sem þau gáfu kjósendum. Það er eðlilegt, heiðarlegt og sanngjarnt og hreinlega skylda þeirra. Samt er það svo að fulltrúar þeirra sjónarmiða sem hafnað var með nýju þjóðarmeti í fylgishruni telja sig þess umkomna að lesa þeim pistlinn í þessu ferli. Hæðni er þar regla en málefnaleg umræða undantekningin.

Tapararnir ganga um eins og einhver hafi svikið þá, stolið einhverju af þeim. Þeir hafi staðið sig vel en þrátt fyrir það eru aðrir menn en þeir að fara að stjórna. Þeir vita best en skilja þó stundum ekki. Sitja svo við og skrifa greinar um vonda menn sem þó hafa ekki unnið sér annað til saka en að fá fleiri atkvæði hjá þjóðinni. Hvernig væri að vinstrið myndi bara skammast sín?

Það er ekki Framsókn eða Sjálfstæðis að kenna að þjóðin hafnaði vinstri flokkunum. Og það er fjandakornið ekki þjóðinni að kenna heldur…

Skammistykkar bara

Röggi

Flokkar: Bloggar

Fimmtudagur 2.5.2013 - 22:24 - 5 ummæli

Valdaþrá vinstra vorsins

Lengi er von á einum, eða tveimur. Félagi Össur tekur ekki á heilum sér núna þegar hann sér að stjórnmálin hans eru eiginlega komin á öskuhaugana og leggst kylliflatur fyrir Framsóknarflokknum daglega í von um að fá að fljóta með. 

Og nú birtist Björn Valur í glimrandi góðu skapi og reynir eins og félagi Ögmundur að búa til gott veður pólitískt svo gamla maddaman Framsókn íhugi að taka gjaldþrotin frá vinstri upp í.

Rökstuðningur Björns Vals fyrir því að Framsókn ætti að taka þennan farangur með er auðvitað brandari. Vinstri flokkarnir eru svo þægilegir í taumi og þeir eru svo rosalega viljugir að taka á skuldavanda heimilanna. 

Þeir höfðu bara ekki tíma til þess síðustu fjögur árin enda uppteknir af því að lumbra hvor á öðrum, en nú er stundin loks runnin upp. Og það undir gunnfánum Framsóknar en á þeirra loforð trúði hvorki Björn Valur né aðrir sneyptir vinstri menn fyrir aðeins örfáum dögum.

En þegar vonin um ráðherrastólana vaknar er allt hægt. Nú efast VG og Björn Valur ekki um að loforð Framsóknar er lausnin. Á maður að hlægja eða gráta?

þetta er ótrúlega afhjúpandi. Engin prinsipp önnur en völd. Sem er í auðvitað í rökréttum takti við VG allt síðasta kjörtímabil. 

þar var prinsippum VG hent fyrir völd. Björn Valur er til í annað þannig  kjörtímabil.

Ég veit eins og aðrir að þjóðin er það ekki.

Ætli Framsókn sé það?

Röggi

Flokkar: Bloggar

Miðvikudagur 1.5.2013 - 11:53 - 6 ummæli

Sumt breytist ekki

Sumt breytist eiginlega ekki. 

Spegillinn á rúv er þannig, þar er jafnan á vísan að róa. Ég vikunni fékk Jón Guðni Svan Kristjánsson til samtals. Svanur Kristjánsson er einn af þessum víðáttuhlutlausu fræðimönnum þjóðarinnar.

Umræðuefnið; stjórnarmyndun.

Tóninn í fræðimanninum var sérkennilegur. Mildilegur þegar talað var um Ólaf Ragnar og taldi hann búa að mikilli yfirsýn og visku. Þess vegna mátti búast við því að hann tæki góða ákvörðun um það hver fengi umboð til stjórnarmyndunum. 

Þetta er það sem koma skal. Nú munu gömlu „eigendur“ Ólafs Ragnars taka hann í sátt smám saman…

En Svanur hafði fleira til málanna að leggja. Honum tókst með býsna merkilegu blaðri að finna því allt til foráttu að sterk meirihlutastjórn væri góð hugmynd. Þar vísaði fræðimaðurinn í orð forseta um breiða skírskotun og lét eins og herrann á himnum hefði talað.

Stundum tala fræðimenn eins og að sigurvegarar kosninga, sem getur reyndar verið erfitt að finna, eigi að sjálfsögðu allt tilkall til þess að mynda stjórn í góðu umboði kjósenda, þ.e. þjóðarinnar. 

Nú bregður svo við að vinstri menn voru kaghýddir af þessu fólki, þ.e. þjóðinni, í kosningunum. Þá ber nýrra við eins og maðurinn sagði. 

Við erum að bíta úr nálinni eftir einhverja mest absúrd ríkisstjórn samanlagðrar mannskynssögu þar sem hver höndin var uppi á móti annarri og naumur meirihluti varð hennar helsi alla tíð. Svanur missti af því greinilega…

Ekki að spyrja að fræðimennskunni…

Á meðan SDG er ekki að tala við BB eru merkilegt hljóð í vinstri mönnum. Spunakarlar vinstri manna sitja á sér og eru heldur vinsamlegir Framsókn, rétt á meðan. Og vel að merkja, harla sáttir með „sinn“ mann á Bessastöðum.

Þetta getur allt breyst á einu augabragði. Og mun gera það ef SDG snýr sér til hægri…

Sumt breytist nefnilega aldrei

Röggi

Flokkar: Bloggar

Sunnudagur 28.4.2013 - 11:43 - 4 ummæli

Að tapa með reisn

Já já, auðvitað tapaði Sjálfstæðisflokkur þessum kosningum. Ekki er annað að heyra ef maður rennir í gegnum ummæli vinstri manna hvar sem til þeirra sést eða heyrist. Venjulegt fólk sér auðvitað fátt annað en herfilega flengingu Samfylkingar sem er sér enga hliðstæðu, hvorki fyrir eða eftir hrun. 

Þetta eru tíðindin. Meira að segja VG, algerlega afleitur flokkur, sem hafnaði sjálfum sér rækilega ítrekað á kjörtimabilinu í sjálfstortímingaræði, fékk miklu þægilegri magalendingu. 

Ég veit ekki hvort afneitun nær að lýsa ástandinu á sumum Samfylkingarmönnum þessa klukkutímana. Jóhanna og Árni Páll keppast við að segja okkur að þau hafi bjargað því sem bjargað varð en samt skilja kjósendur hvorki upp né niður. Icesave og landsdómur náðu ekki að sannfæra kjósendur að þessu sinni…..

Ekki þurfti flokkurinn að berjast við hrunumræðu eins og sumir gerðu fyrir rúmum fjórum árum. Ó nei. Flokkurinn barði höfðinu við steininn. ESB og stjórnarskrá voru vegarnestið. Þetta segja menn vera mistök. Mistök hverra og af hverju? Þetta voru einfaldlega baráttumálin. 

Árni Páll birtist mér í dag sem grjótharður baráttumaður fyrir því sem hann trúir á. Ræður hans og fas benda til þess að hann finni raunverulega til. Að vísu hefur hann tekið í gagnið gamla hrokatakta sem gera honum lítið gagn. En hann trúir á eitthvað…

Svo eru aðrir Samfylkingarmenn sem trúa, reyndar á annað. Það eru þeir sem trúa að flokkurinn eigi undir öllum kringumstæðum að vera í ríkisstjórn. Nú heyrast ekki raddir um að flengdir flokkar eigi að halda sig fjarri ríkisstjórn.

Þetta er menn eins og Össur sem sér alltaf leið jafnvel þó öllu sem hann og hans flokkur stendur fyrir hafi verið hafnað. Stefán Jón Hafsteinn er einnig þessarar gerðar. Kannski eru þessir kallar og aðrir einn vandi flokksins. 

Hrokinn sem lá í orðum Árna Páls um skini skroppnu þjóðina er kannski einn hluti skýringarinnar. Valdþráín sem birtist okkur heilt kjörtímabil þar sem flokkurinn var pikkfastur í dauðgildru VG en lét sér í léttu rúmi liggja. 

Eftirspurn eftir stjórnmálamönnum sem sjá pólitík eins og skák þar sem taflið er aldrei tapað er bara ekki meiri en þetta, í bili allavega. Samfylkingin þarf að varast að túlka niðurstöður kosninganna eins og hún viti ennþá allt best…

..en kjósendur ekki.

Röggi

 

 

Flokkar: Bloggar

Laugardagur 27.4.2013 - 21:49 - 3 ummæli

Hroki og heimska

Nú líður að fyrstu tölum í kosningunum. Að venju sigra allir óháð niðurstöðunum. Samt er það þannig að sumir munu vinna eitthvað meira en aðrir, nákvæmlega eins og venjulega.

Hroki fylgismanna ríkisstjórnarflokkanna hefur verið eftirtektarverður. Sauðheimsk þjóðin ætlar bara að kjósa ranga flokka…..

Auðvitað snérust þessar kosningar um efnahagsmál, hvað annað. Vinstri stjórnin hefur að jafnaði ekki klárað önnur mál en að halda úti linnulausum heimlisófriði á stjórnarheimilinu. Á meðan hver ráðherrann á fætur öðrum böðlaðist áfram í gæluverkefnum gerðist alltof fátt af viti í efnahagsmálum.

Stjórnarandstaða með hjálp góðra manna lágmarkaði skaðann i sumum málum. Icesave er klassík og lætin í liðinu sem vildi borga upp í topp án tafar til að bjarga okkur líður aldrei úr minni.

Gæluverkefnin voru margvísleg. Allt frá því að þvælast fyrir atvinnuuppbyggingu hvar sem til hennar spurðist til þess að hafa þá skoðun eina að innganga í ESB sé svarið og önnur ekki helst ekki.

Þegar xb og xd hófu kosningabaráttuna og reyndu að gera sér einhverja grein fyrir því hvernig næstu fjögur ár gætu lítið út eyddi vinstri stjórnin allri sinni orku í mál sem fáir virðast hafa talið stórt mál, nefnilega stjórnarskrármálið. 

Lítill en verulega hávær hópur manna hefur lagt nótt við dag á facebook og vefsíðum rauðum að gera það að málinu sem allt snýst um. Ekki verður betur séð en að þessi fyrirgangur hafi haft lamandi áhrif á vinstri menn. Frú Jóhanna hafði ekki annað áhugamál en að tala um þetta ekkisens klúður seint og snemma. Þjóðin var að hugsa um annað….

Kannski velur skini skroppin þjóðin ranga flokka í þessum kosningum. 

Hvort ætli fulltrúar vinstri stjórninnar muni túlka þá niðurstöðu sem heimsku kjósenda eða flokkanna sem mest fá fylgið?

Röggi

 

Flokkar: Bloggar

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur