Miðvikudagur 22.7.2009 - 11:54 - Rita ummæli

Um tengingar og ekki tengingar.

Samfylkingin gæti varla verið óheppnari með tímasetningu og samstarfsflokk þegar draumurinn stóri um ESB virðist í sjónmáli. Hverjum einasta manni er augljóst að taugaveiklun flokksins er nú í hámarki og félagi Össur æðir um og reynir allt hvað af tekur á nýju hraðameti að koma málum þannig fyrir að umsókn okkar inn í draumalandið komist í einhvern þann farveg að ekki verði aftur snúið.

Ég hef margsagt það að andúð þjóðarinnar á ESB muni bara vaxa þegar fram líða stundir. Ekki endilega bara vegna þess að menn sannfærist málefnalega um að ESB sé ekki góður kostur heldur meira vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru. Hollendingar og Englendingar ætla sér að beita ekki bara sínum eigin aflsmunum í samskiptum sínum við okkur vegna Icesave heldur ætla þeir grímulaust að beita Samfylkinguna ESB þrýstingi. Fáir trúa eintóna málfutningi ráðherra sem þykjast hneykslaðir á tali um tengingu milli Icesave og inngöngu í ESB.

Enda hefur þetta blasað við lengi og verður augljósara með hverjum deginum. Og á meðan Samfylking er í ríkisstjórn með flokki þar sem andstaða við ESB er mest er staðan í besta falli flókin. Tíminn er að hlaupa frá ESB flokknum. Og enn eykst vandinn…

.. því VG mun líklega ekki ráða við Icesave samninginn. Kannski fer að renna upp fyrir Steingrími að ekki dugar að fórna flokknum til þess að gera Samfylkingu til geðs og sitja í ráðherrastólum. Ekki síst í því ljósi að hann er í grunninn algerlega á móti flestu því sem hann predikar af krafti daglega.

Hver sérfræðingurinn ofan í annan mælir eindregið gegn því að samþykkja Icesave dílinn frá Svavari Gestsyni og félögum og einu viðbrögðin sem boðið er upp á er hræðsluáróður um að við verðum sett út á gaddinn fyrir fullt og fast ef við kyngjum ekki hverju sem er.

Mér gengur illa að skilja hvernig hægt er að ætlast til þess að þjóðþing landa megi ekki hafa afstöðu til samnings eins og hér liggur fyrir. Með undirskriftinni erum við væntanlega búin að viðurkenna ábyrgð okkar en það er ekki þar með sagt að framkvæmdavaldið geti bara komið með hvaða samning sem er og heimtað sjálfkrafa stimplum löggjafans.

Samfylkingu tókst með þunga og hótunum að plata VG til að samþykkja aðildarviðræður við ESB. Nú er sami söngur hafinn aftur undir stjórn utanríkisráðherra og Bretar og Hollendingar sjá um undirspilið.

Mjög verður spennandi að sjá hvernig VG lætur að stjórn núna.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 16.7.2009 - 22:54 - 3 ummæli

Ekki sopið kálið.

Þá er það frágengið að við sækjum um inngöngu í ESB. Það er enginn heimsendir fyrir mig enda vantar stórlega inn i umræðuna um ESB þegar við vitum ekki hvað þar stendur okkur til boða. En það er eitt og annað mjög áhugavert bæði í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar í dag og ekki síst í því sem koma skal.

Engum manni dylst að VG kýs þvert gegn eigin stefnu og áhuga. VG hleypti þessu í gegn eingöngu til að halda samstarfinu gangandi. Það kann að vera einhverjum skiljanlegt en ekki mér og skaðinn sem unninn hefur verið á trúverðugleika þess flokks er varanlegur.

Þeir þingmenn stjórnarliðsins sem hingað til og ekki síst í búsáhaldabyltingunni gerðu sig gildandi í umræðum um aðskilnað framkvæmda og löggjafavalds hljóta að vera hugsi núna þegar framkvæmdavaldið tók þá bókstaflega kverkataki og svínbeygði menn til hlýðni. Ekkert orð annað en pólitískt ofbeldi kemur upp í hugann.

Fyrir þá sem hafa raunverulegan áhuga á að við náum skotheldum samningi við ESB er auðvitað mikilvægt að val á fólki í samninganefnd einkennist ekki af sama metnaðarleysinu og í síðustu samninganefnd sem rikisstjórnin sendi úr landi.

Fyrir utan afleita samningstöðu okkar almennt hlýtur að vera undarlegt fyrir Samfylkinguna að fara í þennan leiðangur í samstarfi við flokk sem hefur í reynd ekki nokkurn áhuga á að fara inn í ESB. Baklandið hreinlega ekki til enda þarf ekki sérlega glöggan aðila til að sjá að þessi þvingaða niðurstaða þingins í dag er varla vatnsþétt og höggþétt varla.

Hvernig fer fyrir málinu ef upp kemur ágreingur í ferlinu eins og mér sýnist einboðið að hljóti að gerast fyrr en seinna? Ég tel það nánast kraftaverk ef þessi stjórn lifir þetta af. VG eru lemstraðir eftir barsmíðarnar og skal engan undra. Það getur varla verið léttvægt dagsverk að svíkja ekki bæði kjósendur sína heldur og eigin samvisku á einu síðdegi til þess eins og halda ráðherraembættum innandyra. Þessi saga er ekki öll sögð…

Min spá er að þessi atkvæðagreiðsla sé upphafið að endi samstarfs þessara tveggja flokka vegna þess að særindi innaflokks hjá VG munu ekki gróa og Steingrímur mun ekki splæsa á sig klofningi til þess að halda Samfylkingu í góðu skapi.

Stórmerkilegur dagur er að baki en þeir verða ekki síður merkilegur sem í hönd fara. Stríðið sem Samfylkingin vann í dag var ekki við andstæðinga sína. Það var háð við samherjana. það veit ekki á gott.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 15.7.2009 - 14:54 - 2 ummæli

Einkaréttur Samfylkingar á klækjum.

Ekki vantar neitt upp á að Samfylkingarmenn, bloggarar og aðrir, væla nú allt hvað af tekur vegna aðferðafræði Borgarhreyfingarinnar í þinginu. Hreyfingin er sökuð um að skipta um skoðanir og svik við kjósendur og ég veit ekki hvað. Talað er um tengja ólík mál og bla bla. Ekki ætla ég að bera í bætifláka fyrir vinnubrögðin hjá Borgarahreyfingunni enda eru þau út í hött.

En Samfylkingin er á sama tíma að tengja ýmislegt við inngöngu í ESB. Icesave samninginn verður að kokgleypa hráan eins og hann er matreiddur af viðsemjendum okkar svo ekki styggist ESB. VG situr undir hótunum í samstarfinu góða en eins og aðrir þekkja er ekki heiglum hent að vera í því sem Samfylking kallar samstarf. það fær VG nú að prófa..

..og virðist vera að sligast undan en þumbast þó við og svíkur kjósendur sína svo myndarlega í grundvallaratriðum í leiðinni að annað eins hefur ekki sést hér fyrr. Allt til að þóknast Samfylkingu og halda í embættin.

þannig að víða virðist potturinn brotinn í þessu en Samfylkingin þolir ekki klækjastjórnmál eða pólitískar tengingar nema þau séu rétt ættuð.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 13.7.2009 - 11:15 - 4 ummæli

Hvað kom fyrir VG?

það er snúið stundum að vera í ríkisstjórn og það sannast mest og best á VG þessa dagana. Þessi flokkur með staðfastan formanninn í broddi fylkingar hefur í óratíma staðið fyrir staðfestu og einurð en nú er þeirri arfleifð allri hent á haugana til að þóknast Samfylkingu og til að ríghalda í ráðherrastóla.

Hnarreystir menn eins og heilbrgðisráðherra eru nú kveðnir í kútinn og láta lítið fyrir sér fara á milli þess sem smíðaðir eru mergjaðir vafningar utan um algeran viðsnúning í grundvallaratriðum pólitískum. Ekki eru margir dagar síðan þessir aðilar gengu á fund kjósenda og hnykktu hraustlega á skoðunum sínum varðandi ESB. Og fengu brautargengi..

Nú eru þjóðaratkvæðagreiðslur nýjasta skammaryrðið í munni VG og óþarfar vegna þess að kjósendur skilja hvort eð er ekki flókin mál! það bókstaflega stórsér á VG þessa dagana og enginn vafi í mínum huga að Steingrímur teflir á tæpasta vað innandyra.

Auðvitað er eðlilegt að fólk og flokkar skipti um skoðanir en þá er mikilvægt að því fylgi sannfærandi röksemdir og það jafnvel þó skoðanirnar séu léttvægari en hér um ræðir og lengra sé frá kosningum en nú er. Einu alvöru röksemdir sem fram hafa verið bornar er óttinn við stjórnarslit.

þess vegna er eðlilegt að spurt sé hvað hefur komið fyrir forystumenn VG? Og sú spurning brennur ekki bara á stjórnarandstæðingum….

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 2.7.2009 - 09:51 - Rita ummæli

Meira tuð um þrískiptingu valds.

Núna tala margir um að við þurfum breytingar. Nýtt fólk með nýja sýn og ný viðhorf. Við þurfum gagnsæi og upplýsingar. Opna umræðu og heiðarleika. Við viljum ekki leynd og pukur lengur. Við viljum öðruvísi stjórnmál og öðruvísi fólk til að stjórna. Nýtt Ísland. Auðvitað…

Þetta er allt gott og blessað og við getum flest skrifað undir þetta. En hvernig viljum við ná þessu fram? Það hlýtur að vera spurningin. Viljum við kjósa upp á nýtt og skipta út persónum og leikendum? það er aðferð sem er alkunn og hefur ekki dugað algerlega til. Getur verið að við þurfum að breyta systeminu svo að hin nýja hugsun og hin nýju viðmið njóti sín?

Við erum enn einu sinni að horfa upp á framkvæmdvaldið traðka á löggjafanum í kringum Icesave málið. Við erum í raun hætt að taka eftir þessu. Í vetur varð þingmanni það á að vilja frekari upplýsingar um mál frá ríkisstjórn til að geta gert upp hug sinn og hann var úthrópaður fyrir vikið. Þvílík ósvinna. Hann þvældist fyrir framkvæmdavaldinu!

Löggjafinn á að vera framkvæmdavaldinu aðhald. Þingmenn eru kosnir til þess að setja lög. Þeir eiga ekki að sitja í ríkisstjórn á sama tíma. Af hverju er flókið að breyta þessu? Þingmenn þurfa að gerast hálfgerðir liðhlaupar til þess að geta fylgt sannfæringu sinni frá einum tíma til annars eins og staðan er í dag. Framkvæmdavaldið ræður þessu öllu.

Það ákveður hvernig reglurnar skulu vera og framfylgir þeim svo. Er báðu megin borðs. Er það heilbrigt? Svoleiðis þykir ekki fínt í viðskiptalífinu en eigum við að sætta okkur við það í stjórnmálunum? Nei segi ég. Og burt með framkvæmdavaldið úr þinginu. Ráðherrar setja ekki lög. Hvusrlags dónaskapur er það gagnvart löggjafanum að framkvæmdavaldið geti bara haldið mikilvægum upplýsingum frá þinginu eins og gerist ítrekað í Icesave farsanum? Lýðræðinu og þingræðinu er nauðgað aftur og aftur og við rífumst um dægurmál á meðan.

Breytum grundvallarreglunum því að þar liggur vandinn að stórum hluta. Notum tækifærið núna þegar jarðvegurinn er frjór og tökum til í rótinni. Þrískipting valds er ekki léttvægt atriði. Núna er hrópað á nýtt siðferði á torgum.

Frá mínum bæjardyrum séð er siðlaust að framkvæmdavaldið meðhöndli löggjafann eins og við sjáum endurtekið reglulega.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 24.6.2009 - 22:04 - 1 ummæli

Icesave: Upptaktur að stóru deilunni um ESB.

Litlu máli virðist skipta hvort menn vilja borga Icesave reikningana eður ei eða hvort menn telja að við „verðum“ að borga þá eða ekki. Lúsaleitun virðist að þeim manni sem trúir því í fullri alvöru að samkomulagið sem Svavar Gestsson kom með heim sé nothæft.

Sem fyrr stendur Samfylking straurblind og sér ekkert annað en götuna inn í ESB og tekur afstöðu út frá þeim hagsmunum einum og engum öðrum. Samfylking mun því aldrei hlusta á neinar efasemdir sér í lagi ef þær styggja ESB.

Allt þetta brölt er svo augljóslega farið að skipta fólki í þær tvær fylkingar sem munu takast á um ESB. Ég sagði það fyrir mörgum mánuðum síðan að andstaðan við ESB aðild muni eflast og ekki hefur sú sannfæring mín rénað undanfarna daga.

Jafnvel þeir sem vilja eindregið þangað inn og borga Icesave sem aðgangseyri blöskrar aðferðafræðin sem beitt er í samningum við okkar vegna þessara hábölvuðu innistæðureikninga, ef samninga skyldi kalla.

Þó allt bankakerfi Evrópu sé undir og algerlega sé nauðsynlegt að senda rétt skilaboð þá finnst mér þessar upphæðir sem um er að tefla vera svo litlar fyrir risana en svo risavaxnar fyrir okkur smáfólkið. Af hverju þarf að svínbeygja okkur í duftið?

Hvers vegna er ekki hægt að koma málum þannig fyrir að okkur sé gert mögulegt að borga þetta og halda sæmilegum dampi sem þjóð á meðan? þeim fer óðum fækkandi sem telja að okkar hagsmuna hafi verið nægilega vel gætt hver sem ástæðan fyrir því er…

.. og þeim mun fara mjög fækkandi í nánustu framtíð sem munu vilja ganga til liðs við bandalagið sem tók svo afgerandi þátt í að svínbeygja þessa litlu þjóð.

Mér finnst það næstum því einboðið og deilan um Icesave er kannski bara upptaktur að stóru deilunni sem við stöndum frammi fyrir.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 19.6.2009 - 13:53 - 2 ummæli

Niðurrifsmaðurinn.

Margir segjast hafa skilning á hegðun niðurrifsmannsins á Álftanesi. Ég tilheyri ekki þeim hópi. Vissulega er þetta afgerandi yfirlýsing á reiði og afdráttarlaus en við hljótum að fordæma svona háttarlag. Hér hefur skynsemin verið skilin frá annarri hugsun.

En kannski trúa margir því að hennar sé bara ekki þörf á þessum tímum og hugsanlega vilja margir líka gefa ríflegan afslátt af góðum gildum sem gera okkur að siðmenntuðu fólki í siðuðu þjóðfélagi. Kannski er best að innleiða bara hnefaréttinn að fullu.

Nú berast svo fréttir af því að þessi tiltekni maður hafi sjálfur ekki staðið sig sérlega vel gagnvart sínum eigin viðskiptavinum og þá snýst dyntótt almenningsálitið trúlega við. Fordæmingin á þessu fáránlega athæfi á alls ekki að vera skilyrt að neinu leyti.

Og vonandi dettur engum öðrum í hug að þetta sé sniðugur leikur eða gott innlegg í nýja Ísland.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 19.6.2009 - 09:50 - 8 ummæli

Rétttrúnaðurinn.

Ritsjóri fréttablaðsins skrifar pistil þar sem hann vogar sér að hafa skoðanir á Evu Joly. Og það er eins og við manninn mælt. Hver stjörnubloggarinn á fætur öðrum fyllist heilagri vandlætingu. Ég spyr. Af hverju má Jón Kaldal ekki hafa þessa skoðun á konunni? Er nóg að afgreiða skoðanir hans með því einu að hann ritstýri blaði í eigu Jóns Ásgeirs? Þessi botnlausi rétttrúnaður er fyrir löngu orðinn óþolandi og allir og allt skal dregið í dilka eftir behag og meginstraumum.

Lengi var öllum þeim sem voguðu sér að hafa skoðanir á Baugi og útrásarvíkingum velt upp úr skítugu pólitísku svaði og í þeim skollaleik drógu menn ekki af sér enda sannfæringin þung og vissan og rétttrúnaðurinn alger. Þá var tískan öðruvísi og magnað að fylgjast með fullkominni umpólun margra upp á síðkastið.

Það er einmitt þessi fötlun sem hefur staðið okkur fyrir þrifum og það var í þessum jarðvegi sem dónarnir fengu vinnufriðinn sem þurfti til að sölsa landið undir sig. Í heimi réttrúnaðarins er lítil ástæða til málefnalegrar umræðu eða umfjöllunar.

Þeir sem gagnrýndu Baug voru bara sagðir ganga erinda einhverra og því engin ástæða til að ræða málið. Jón Kaldal og fréttablaðið fær nú sömu meðferð. Hann vinnur fyrir Jón Ásgeir og þess vegna fást efnisatriðin ekki rædd.

Ég hef svo sannarlega ekki minni áhuga á því en næsti maður að þeir menn sem stálu þjóðarauðnum verði dregnir til ábyrgðar. En við megum ekki gleyma okkur gersamlega þó reiðin sé réttlát og stór. Gerum ríka kröfu til allra sem að málinu koma og það má ekki bara gilda um ríkissaksóknara.

Leyfum okkur að efast því ef sagan á að hafa kennt okkur eitthvað þá er það að ekki er alltaf allt sem sýnist og heilög vandlæting og fanatík rétttrúnaðar með dass af pólitík skilar okkur ekki alltaf áleiðis.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.6.2009 - 16:53 - Rita ummæli

Steingrímur og Icesave viðsnúningurinn.

Varla er sjón að sjá Steingrím Sigfússon þessa dagana. Hann situr uppi með Icesave vandræðin og finnur sig í þeirri geggjuðu stöðu að tala og gera akkúrat það sem hann taldi nánast landráð fyrir ekki mjög mörgum vikum síðan. Og aldrei þessu vant…

..gengur mér ekkert að trúa á sannfæringuna hans. Þótt ég sé í öllum aðalatriðum ósammála flestu sem hann stendur fyrir í pólitík hef ég oftast talið mig geta gengið að því sem vísu að hann talar af krafti hins sannfærða manns og fyrir þvi geta allir borið virðingu.

Af hverju segir hann okkur ekki hvað breytti skoðun hans svo algerlega á stuttum tíma? það myndi auðvelda honum lífið talsvert og kannski hjálpa vantrúuðum. Og skapa frið um mál sem verður að vera friður um.

Er ástæðan kannski sú að ekki er talið skynsamlegt að ala á enn meiri óánægju með gjaldeyrissjóðinn að ég tali nú ekki um ESB sem virðist hafa beitt sér af afli í málinu? Allir menn vita að Samfylkingin hugsar fyrst og síðast um hvernig hægt að halda dyrunum að ESB galopnum og þá er slagur af Icesave taginu ekki líklegur til vinsælda. Forræði í þessari deilu hefur verið á hendi Samfylkingar frá fyrsta degi og sitt sýnist hverjum með hagsmunagæsluna…

Steingrímur er ekki líkur sjálfum sér. það er erfitt að kokgleypa skoðanir sínar í stórum stíl eins og hann virðist þurfa að gera til að halda í ráðherrastólinn sinn. Mér finnst þögn Samfylkingar í málinu ærandi og það sem Steingrímur segir ósannfærandi.

Ég legg eindregið til að hann opni sig og segi okkur afdráttarlaust hvað það var sem snéri honum svo fullkomlega í þessu máli. Það hjálpar ekki bara honum heldur líka okkur hinum sem erum ekki alveg sannfærð.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 8.6.2009 - 10:18 - 5 ummæli

Icesafe, er tvístígandi….og þó.

Ég er að reyna að átta mig í Icesafe málinu. Spurningin um það hvort við eigum að borga eða ekki er nánast heimspekilegar vangaveltur þvi góð og gild rök virðast hníga til beggja átta. Auðvitað er gersamlega óþolandi að lenda í því að borga skuldir óreiðumanna erlendis….

Það held ég að enginn geri glaður í sinni. Mér sýnast afleiðingar þess að borga ekki verða afleitar og ekki fæ ég betur séð en að við getum varla borgað heldur! Af nokkrum ástæðum. Ég dauðöfunda ekki stjórnvöld af valkostunum í þessu máli.

Mér finnst samt eins og við höfum aldrei tekið til varna í málinu. Vissulega er það ekki fögur framtíðarmynd að einangrast ef við ekki borgum en hún er heldur ekki falleg myndin af okkur ofursett skuldum svo langt sem augað eygir þó við fáum fríspil til 7 ára.

Við erum auðvitað ekki þannig þjóð að okkur finnist par gott að láta svínbeygja okkur en það er nú tilfinningin sem ég fæ þegar samkomulagið er í höfn. Samninganefndin virðist ekki hafa verið að semja um eitt eða neitt heldur aðeins að útfæra tæknilega það sem viðsemjendurnir hafa ákveðið að okkur beri að greiða.

Það er megn óþefur af þessu máli öllu saman og kannski ekki öll kurl til grafar komin því aðrir erlendir kröfuhafar hljóta að bíða andaktugir eftir niðurstöðu í þessu máli því kröfuhafar eru jú alltaf kröfuhafar og þó við setum lög sem mismuna þeim er allsendis óvíst að þau lög haldi alþjóðlega. Þá fyrst væri fjandinn laus…

Kannski hafa allir rétt fyrir sér í þessu máli en það stendur upp á stjórnvöld að sannfæra þjóðina að fullu um nauðsyn þess að skrifa undir. Upp á það vantar stórlega og það þrátt fyrir að nú ríki flokkar sem lofuðu öllu fögru í upplýsingagjöf en hafa helst sérhæft sig í trúnaði og leynd. Um þetta stóra mál má ekki liggja nein leynd. Trúnaður stjórnvalda er við þjóðina en ekki fjandsamlega erlenda viðsemjendur.

Ég veit ekki með vissu í hvorn fótinn best er að stíga en hef á tilfinningunni að stjórnmálamenn hafi gefist upp og finnist ljómandi gott að ýta vandanum 7 ár fram í tímann. Þá er vandinn vandi annarra stjórnmálamanna en þjóðin situr alltaf upp með skuldina sem þessi bévítans óreiðumenn stofnuðu til.

Og ég þoli bara helst ekki að þurfa að láta neyða mig mig til að borga ósómann…..

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur