Ekki vantar að bloggarar og brandarakarlar ryðjist fram núna og benda á hversu fullkomlega fáránlegt er að fjárhættuspilarinn Björgúlfur Guðmundsson skuli láta blaðið sitt taka við sig viðtal sem snýst að mestu um að hvítþvo karlgarminn af óráðsíunni.
Við sem höfum reynt án árangurs að benda á það árum saman að lög um eignarhald á fjölmiðlum skipta miklu máli látum okkur fátt um finnast. Besti vinur fjárhættuspilaranna, Ólafur forseti, tók að sér að tryggja þessu fólki þessi sérkjör um leið og hann þáði far í fínu einkaþotunum forðum.
Af hverju það þykir frétt núna að Björgúflur gamli skuli nú misnota moggann sinn skil ég ekki. Hinn fjölmiðla eigandinn, Jón Ásgeir er rétt nýbúinn að svívirða og eyðileggja fyrir lífstíð blaðamanns heiður starfsmanna sinna á stöð 2. Af hverju nennti enginn að nefna það?
Getur verið að það sé vegna þess að margir trúa því að hér sé verið að fjalla um pólitík? Hún snýst eins og allir vita um að halda með sínum hvað sem tautar og raular og varla er ég betri eða verrri en aðrir í þeim efnum. Það að þessu fólki var tryggður rétturinn til að eiga fjölmiðla voru án efa einhver mestu mistök sem gerð hafa verið í nokkurri forsetatíð frá upphafi.
Létt hugsandi fólk bendir réttilega á að kolkrabbinn gamli hafi ráðið hér öllu í fjölmiðlun árum saman. Það var afleitt og algerlega fráleit röksemdarfærsla að halda því fram að vegna þess að reynslan kenni okkur að það hafi verið mistök sé algerlega eðlilegt að viðhalda því að peningamenn þjóðarinnar eigi alla fjölmiðla líka. Ítalía hvað…
Hættum að láta stjórnmál rugla okkur gersamlega í ríminu. Gerendurnir í þjóðargjaldþrotinu hafa haft beinan hag að því að gera glæpi sína að pólitísku bitbeini. Framferði þeirra hefur ekkert með stjórnmál að gera. það mál snýst eingöngu um græðgi. og sjúkt viðskiptasiðferði.
Stjórnmál voru einfaldlega notuð hugvitsamlega. Og fjölmiðlarnir lika í skjóli þeirra sem töldu sig hafa hag af því að koma höggi á sjálfstæðisflokkinn hvað sem tautaði og raulaði.
Þess vegna ætti enginn að vera hissa á því að Björgólfur kallinn skuli nú beita eigninni í sína þágu. það er alltaf gert…
Röggi.