Sunnudagur 26.10.2008 - 01:31 - 6 ummæli

Misnotkun fjölmiðla.

Ekki vantar að bloggarar og brandarakarlar ryðjist fram núna og benda á hversu fullkomlega fáránlegt er að fjárhættuspilarinn Björgúlfur Guðmundsson skuli láta blaðið sitt taka við sig viðtal sem snýst að mestu um að hvítþvo karlgarminn af óráðsíunni.

Við sem höfum reynt án árangurs að benda á það árum saman að lög um eignarhald á fjölmiðlum skipta miklu máli látum okkur fátt um finnast. Besti vinur fjárhættuspilaranna, Ólafur forseti, tók að sér að tryggja þessu fólki þessi sérkjör um leið og hann þáði far í fínu einkaþotunum forðum.

Af hverju það þykir frétt núna að Björgúflur gamli skuli nú misnota moggann sinn skil ég ekki. Hinn fjölmiðla eigandinn, Jón Ásgeir er rétt nýbúinn að svívirða og eyðileggja fyrir lífstíð blaðamanns heiður starfsmanna sinna á stöð 2. Af hverju nennti enginn að nefna það?

Getur verið að það sé vegna þess að margir trúa því að hér sé verið að fjalla um pólitík? Hún snýst eins og allir vita um að halda með sínum hvað sem tautar og raular og varla er ég betri eða verrri en aðrir í þeim efnum. Það að þessu fólki var tryggður rétturinn til að eiga fjölmiðla voru án efa einhver mestu mistök sem gerð hafa verið í nokkurri forsetatíð frá upphafi.

Létt hugsandi fólk bendir réttilega á að kolkrabbinn gamli hafi ráðið hér öllu í fjölmiðlun árum saman. Það var afleitt og algerlega fráleit röksemdarfærsla að halda því fram að vegna þess að reynslan kenni okkur að það hafi verið mistök sé algerlega eðlilegt að viðhalda því að peningamenn þjóðarinnar eigi alla fjölmiðla líka. Ítalía hvað…

Hættum að láta stjórnmál rugla okkur gersamlega í ríminu. Gerendurnir í þjóðargjaldþrotinu hafa haft beinan hag að því að gera glæpi sína að pólitísku bitbeini. Framferði þeirra hefur ekkert með stjórnmál að gera. það mál snýst eingöngu um græðgi. og sjúkt viðskiptasiðferði.

Stjórnmál voru einfaldlega notuð hugvitsamlega. Og fjölmiðlarnir lika í skjóli þeirra sem töldu sig hafa hag af því að koma höggi á sjálfstæðisflokkinn hvað sem tautaði og raulaði.

Þess vegna ætti enginn að vera hissa á því að Björgólfur kallinn skuli nú beita eigninni í sína þágu. það er alltaf gert…

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 22.10.2008 - 10:39 - 4 ummæli

Viggó.

Handbolti getur verið skemmtilegt sport. Nú ætti að vera sóknarfæri eftir gott sumar. Jákvætt umhverfið hlýtur að hjálpa. Menn hafa verið að gera breytingar á keppnisfyrirkomulagi til að reyna að blása lífi í deildina og koma í veg fyrir að við körfuboltamenn kaffærum handboltann eitt árið enn. Íþróttir eru eins og menn vita söluvara í harðri samkeppni við aðra afþreyingu.

Þess vegna er mikilvægt að allir rói í sömu átt. Það gera ekki allir handboltamenn. Þeir eiga nefnilega Viggó. Hann hefur þrátt fyrir að vera kominn á sextugsaldur ekkert þroskast. Veit ekki hvort vanþroski hans og ruddaskapur er áunninn eða meðfæddur.

Alltaf skal honum takast að toppa viltleysuna í sjálfum sér. Hann þolir ekki dómara og hefur aldrei gert. það er sjálfur sér ekki endilega óalgengt en hitt er nánast einsdæmi að menn skuli nenna að trúa þvi að slakur leikur hjá dómara þýði að viðkomandi hafi viljandi verið að reyna að bregða fyrir menn fæti.

Frá mínum bæjardyrum séð er það rakinn skepnuskapur að saka menn um það opinberlega að vera óheiðarlegir. Ég bíð eftir því að einhver kæri Viggó til dómstóla fyrir svona þvætting. Greinilegt er að HSÍ er búið að gefast upp á því að reyna að aga manninn. Nú er ákveðið að að gera ekkert í þessum ummælum af því að hann sendi frá sér yfirlýsingu sem var í besta falli niðurlægjandi og hæðin og engin tilraun gerð til að draga til baka ummælin.

Í mínum bókum eru endurtekin brot og ítrekuð ærin ástæða til aðgerða. því oftar sem Viggó svívirðir starfsheiður dómara opinberlega því léttar sleppur hann! Þetta er sannarlega fín auglýsing fyrir sportið.

Sem betur fer búa ekki allar greinar að svona manni.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 22.10.2008 - 09:01 - 3 ummæli

Nú er þolinmæði dygð.

Nú gætir óþolinmæði hjá okkur. Við viljum fá lausn á peningavandræðum þjóðarinnar. það er eðlilegt. þessa óþolinmæði má greina vel hjá sumum sem vinna við að tala í útvarp. Ég hlusta stundum á Heimi og Kollu á bylgjunni á leið til vinnu á morgnana.

Oftar en ekki er ekki verið að kafa mjög djúpt hjá þeim skötuhjúum. Heimir lætur það fara í taugarnar á sér að ekki fæst upplýst hvað er að gerast nákvæmlega í viðræðum ríkisins við erlendar stofnanir. Í morgun lagði hann það til að ríkið myndi aðstoða „fólkið“ í vandræðum sínum!

Frábært heilræði finnst mér og í raun merkilegt að ríkisstjórninni skyldi ekki hafa dottið þetta snjallræði í hug. það tók fólkið sem á bankana nokkur ár að koma okkur í þessa stöðu. Gefum nú þeim sem eru að taka til tíma til að gera það.

Er einhver sem heldur að menn séu ekki að gera neitt? Ekki sé neitt mál að redda bara nokkur þúsund milljörðum sísona. Fjöldi fólks vinnur nótt og nýtan dag út um allar koppagrundir í vinnu sem ekki sést en er nauðsynleg þó hún sjáist ekki á fréttastofum.

Trúnaður og þagmælska eru örugglega mikilvægir þættir þegar svona vinna fer fram. Óþarfa innantómt gaspur er ekki líklegt til að skila neinu þó það þjóni hagsmunum fjölmiðlamanna til skemmri tíma.

Nú eru þeir eðlisþættir Geirs sem pirra stundum, rólegheitin og yfirvegunin, til bóta. Gefum þessu fólki tíma til að moka flórinn og það almennilega.

Hins vegar er afstaða Heimis og Kollu alveg týpísk fyrir okkar þjóð. Redda bara málinu og það fljótt. Loka bara augunum og vona að vandinn verði farinn þegar við opnum aftur. Patentlausna þjóðin lætur ekki að sér hæða.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 21.10.2008 - 16:13 - 4 ummæli

Er allt leyfilegt sem ekki er bannað?

Hér hamast margir við það að kenna stjórnvöldum um að dusilmenni áttu og ráku bankana. Eftirlit og reglur voru ekki nógu öflugar og þess vegna voru bankarnir misnotaðir. Við áttum þetta þá líklega skilið og sökin liggur ekki hjá þeim sem klúðruðu. Við áttum nauðgunina inni enda glannalega klædd og óvarlega…

Þetta er mögnuð söguskýring. Breska ríkisstjórnin er með bankana í gjörgæslu vegna þess að reglur og eftirlit gátu ekki komið í veg fyrir að svona færi. Og gott ef ekki nánast öll Evrópa..og bandaríkin. Svíar eru að dæla peningum núna en ekki dettur mönnum í hug að stjórnvöld séu vandinn.

Greinilega þarf þetta kerfi allt meira og strangara aðhald. Við vitum það núna eins og aðrir. Velti því samt fyrir mér hvort nokkrar reglur haldi aftur af mönnum sem vilja reka fyrirtæki sín illa eða fara óvarlega.

Við lifum í stóru alþjóðlegu lagaumhverfi þó sumir hér haldi að við séum einangraðir kotbændur. Fullkomlega er eðlilegt að dreginn verði lærdómur af þessu en algerlega er út í hött að kenna stjórnvöldum um. Síðan hvenær varð allt leyfilegt sem ekki er beinlínis bannað spyr ég enn og aftur?

Hverjum datt í hug að Guðmundur í Byrginu væri eitthvað annað en glæpamaður þegar hann fór óvarlega með peninga Byrgisins? Vissulega reyndist eftirlit með rekstrinum ekki fullkomið en glæpurinn lá ekki í eftirlitinu, hann lá í þjófnaðinum.

Sagan kennir okkur. þannig höfum við þróað með okkur reglur sem hafa breyst í tímans rás eftir þvi sem þekkingu hefur fleygt fram. Stundum höfum við þurft að fara erfiðu leiðina. það er heimsbyggðin að gera núna. Ekki bara Íslensk stjórnvöld heldur meira og minna allir.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 21.10.2008 - 10:01 - 8 ummæli

Ingvi Hrafn og silkihanskarnir.

það er ýmist í ökkla eða eyra. Silfurrefurinn Egill Helgason missti sig í vitleysu þegar hann fékk höfuðpaurinn í þjóðargjaldþrotinu í heimsókn til sín um daginn og í gær tók gamli strigakjafturinn Ingvi Hrafn á móti snillingnum.

Jón Ásgeir lék á alls oddi, brosti og var léttur. Enda ekki furða. Ingvi Hrafn var eins og maður sem hittir gamla kærustu á endurfundaballi. Vantaði ekkert annað en að hann ræki Jóni rembingskoss svo augljós var aðdáunin. Ömurlegt að horfa upp á þetta og án efa lægsti punkturinn hjá Ingva Hrafni lengi. Kallinn læddist um yfirborðið og passaði sig á að styggja ekki milljarðamæringinn enda hann í fullri vinnu við að bjarga því sem hann kallaði „eigur þjóðarinnar“. Þessar eigur eru í raun skuldirnar sem hann og hans líkar komu okkur öllum í með svívirðilegum viðskiptum árum saman. Þessar skuldir vildi bjargvætturinn kaupa af okkur um daginn fyrir 5 %. Er engum nóg boðið??? Þessar eigur/skuldir eru eina von þeirrra sem nú horfa fram á að tapa öllu sínu sparfé. Þær má ekki gefa.

Næst ætti hann að fá til sín feðgana sem hafa nú sett hvert fyrirtækið á fætur öðru á hausinn hér og eftirláta þjóðinni sinni að borga brúsann á meðan þeir rassgatast um heim allan að sinna fótboltafélögum sínum og öðrum arðbærum og vonandi skuldlausum fjárfestingum.

Við erum ekki öfundsverð af því hvernig menn hafa leitt okkur áfram í viðskiptum eftir að við opnuðum hér fyrir frelsið. Og ekki verður heldur sagt að fjölmiðlamenn okkar séu á vetur setjandi. það fólk kann eingöngu að tuskast í stjórnmálamönnum en annað hvort nennir ekki eða kann ekki að tala við þessa menn.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 17.10.2008 - 17:28 - 4 ummæli

Ritskoðun á stöð 2?!

Einar Már er grautfúll yfir þvi að fá ekki að skammast út í vinnuveitendur Sigmundar Ernis á stöð 2. Talar um ritskoðun og fer mikinn. Skil manninn vel en er í huganum að reyna að ryfja upp hvaða skoðun hann hafði á fjölmiðlafrumvarpinu…

það frumvarp var kæft af þeim sem mestra hagsmuna áttu að gæta. Persóna Davíðs var notuð óspart til að sverta það. Framganga 365 í baráttunni fyrir því að að drepa málið hefði ef allt væri hér með felldu átt að færa mönnum heim sanninn um gildi þess að koma málinu gegn.

Ólafur forseti kom svo og kláraði málið þegar hann neitaði að skrifa undir og tók fram fyrir hendurnar á þeim sem reyndu að koma í veg fyrir að auðmenn sem eiga hér allt kæmust í þá fáránlegu stöðu að geta líka átt fjölmiðlana.

Hvernig ætli sagan dæmi Ólaf sem hefur síðan þvælst um heiminn í einkaþotum eigenda þeirra fyrirtækja sem mest áttu undir þvi að fella furmvarpið? Varla hafa tengsl forseta við Sigurð G sem þá var að mig minnir forstjóri 365 skipt neinu í þessu samhengi??

Þessi gjörningur Ólafs er án efa vanhugsaðasti greiði sem nokkur forseti okkar stuttu sögu hefur gert. Hann sagðist vera að gera þjóðinni greiða en nú vita þeir sem ekki vildu vita þá að þjóðin þurfti ekki á þessum bjarnargreiða að halda.

Og nú er ljósið runnið upp fyrir Einari Má. Og kannski kviknar líka á perunni hjá þeim sem veittu vondu köllunum pólitískan stuðning allan tímann í viðleitni sinni til að klekkja á pólitískum andstæðingi.

Það er ekki bara slæmt að vera með stjórnmálamenn í seðlabanka. Þeir geta líka verið afleitir þegar þeir eru forsetar.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 12.10.2008 - 13:41 - 3 ummæli

Hann er þolandi….

Sit hér og fylgist með silfri Egils. Egill reynir að þjarma að Jóni Ásgeir sem virkar óöruggur og deigur. Egill byrjaði ekki illa en missti svo gersamlega dampinn. Endurteknar spurningar hans um það hvort Jón ætlaði að fara að vinna í bónus eða pælingar um lífsstíl fyndust mér hallærislegar. Tap Jóns Ásgeirs snýst í engu um það að hann þurfi að breyta ym lífsstíl. Nokkrar þúsundir milljóna tryggja það í allra nánustu framtíð. Póker spilarinn þolir bara ekki að tapa neinu spili. Og það jafnvel þó hann útvegi ekki spilapeningana sjálfur..

Jón Ásgeir kom því skilmerkilega til skila að hann og hans fólk hefur tapað peningum. Ég fann reyndar ekki til vorkunnar en Jóni svíður þetta augljóslega. Ekkert var honum að kenna eins og áður. Fyrirtæki í hans eigu öll í skilum og allt í dúddí. Hann finnur ekki til sektarkennadar eins og ég vissi. Það var ekkert fals hjá honum. Meira þarf varla að segja um hans karakter…

Auðvitað fengust engin svör. Sumpart vegna þess að Jón Ásgeir svarar engu og sumpart vegna þess að Egill var ekki nógu góður. Kannski hefði verið betra að Ragnar Önundarsson hefði rætt við Jón. Þá hefði hann ekki sloppið undan svíðandi spurningum.

En Jón er ekki að baki dottinn. Nú hefur hann sett pressu á að Björgvin viðskiptaráðherra selji sér skuldirnar sem við eigum inni hjá honum á niðursettu verði. Mr Green flaug með honum til landsins og hefur gefið okkur nokkra klukkutíma til að ganga að tilboðinu.

Þetta segist Jón vera að gera okkur öllum til heilla. Björgvin er að mínu viti nánast vanhæfur til að taka þessa ákvörðun. Stutt er síðan hann ók um nótt langveg til að láta Jón lesa sér pistilinn enda tengdur Sigurði G fjölskylduböndum svo hann munaði ekki um að skultast þetta. Björgvin ætti að segja sig frá þessari ákvörðun.

Fólkið sem tapar öllu sínu fékk ekki það sem það vildi út úr þessum þætti. Milljarðamæringurinn alsaklausi hefur nefnilega tapað líka. Það er niðurstaðan. Hann er nefnilega þolandi líka gott fólk eins og við hin. Góðir menn verða að setjast niður og endurskrifa kaflann um siðleysi..

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 11.10.2008 - 12:44 - 6 ummæli

Go Egill!

Þá styttist í að guðfaðir útrásarinnar og skuldsettra yfirtaka komi fram í silfri Egils. Bíð spenntur þó augljóst sé að ekkert nýtt muni koma fram í þættinum.

Hann mun nota sama trikkið og áður. Reyna að búa til stjórnmál úr málinu og fara með hefðbundna útgáfu af Davíðssálmum sem hann söng svo listilega í fjölmiðunum sínum með glæstum árangri í kringum baugsmálið. Kostnaðinn af þessum flutningi berum við svo öll eins og sumir hafa reynt að benda á árum saman.

Hvert stórfyrirtækið á fætur öðru rústir einar eftir kappann þó hann sjálfur hafi mokað undir sig tugþúsundum milljóna sem við sem þjóð skuldum útlendingum núna. Hann hefur margsýnt það áður að sómatilfinning er honum óþekkt.

Það geta menn séð á því hver viðbrögð Glitnismanna eru við ósómanum. Eins og venjulega er bara sparkað í allar áttir og núna í frekjukasti yfir því að fá ekki meira lánað til að setja í súpuna bragðvondu. Viðbrögð hinna bankanna gerólík.

Vonandi hefur Egill dug í sér til að þjarma að manninum. Margra ára svívirða hefur komið okkur á kaldan klakan á meðan þessir menn auðgast ótrúlega. Það er ekki okkur að kenna eða neinum öðrum. Ef Davíð hefur klúðrað þá er það gagnvart þjóðinni en ekki bankamönnum. Höfum það á hreinu.

Beinum spjótum okkar að þessum mönnum líka. Hættum að fjargviðrast eingöngu út í stjórnmálamenn þó þeir séu mistækir. Þeir hafa varla mikinn hag af því að klúðra. Jón Ásgeir og Bjöggarnir hafa hins vegar allan hag.

Ég hef ekkert á móti því að menn græði. Við eigum mikið af mönnum sem eru að græða án þess að skilja allsstaðar eftir sig rjúkandi rústir. Við ættum kannski að þakka okkar sæla fyrir það að Jón Ásgeir missti fljótlega áhuga á matvælabransanum hér heima og eftirlét pabba að græða þar. Þá væri sennilega búið að sjúga alla peninga þar út líka og yfir skuldsetja.

Ef augu þjóðarinnar opnast ekki núna þá er okkur ekki viðbjargandi. Þá eigum við svona menn skilið. Og hann og Thor fljúga á brott í fínu einkaþotunum sínum á vit auðæfa sina erlendis. Auðæfa sem við erum að stórum hluta greiðendur að þó við njótum aldrei kostanna.

Bind vonir við Egil. Nú er tími til kominn að sækja að þessum mönnum í stað þess að þeir komist upp með að ráðast að öllum með ásökunum. Láta menn svara óþægilegum spurningum. Það veitist fjölmiðlamönnum auðvelt þegar stjórnmálamenn eiga í hlut.

Þetta er dauðafæri. Höfuðpaurinn ætlar í vitnastúkuna.

Go Egill.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.10.2008 - 11:12 - Rita ummæli

Snilld og dylgjur…

Hvort sem mönnum finnst ástandið í dag vera ríkisstjórninni að kenna eður ei er morgunljóst að þar á bæ er verið að vinna ótrúlegt starf þessa dagana við ömurleg og nánast vonlaus skilyrði á meðan gerendur í málinu flugu burt í einkafákum sínum til eigna sinna erlendis. Geir og Björgvin standa í stefninu og reyna að halda andliti og berja í okkur ró og skynsemi. Frá mínum bæjardyrum séð eru þeir að brillera.

Ég hef aldrei verið ráðherra en veit að allajafna er það erfitt og erilsamt djobb. Takist ríkisstjórninni að koma plottinu í framkvæmd eins og vonast er til yrði það afrek. Hlýtur samt að vera erfitt að taka gjaldþrota fyrirtæki og liða það í sundur og hirða það sem er í lagi en henda skuldunum í lánadrottna erlendis. Vonum það besta…

Ríkisstjórnin stendur sterk sýnist mér og samhent. Í öllu nema einu. Sumir ráðherrar birtast nú og eru hreinlega hættir að reyna að tala undir rós þegar kemur að stjórn seðlabankans. Nú skal hreinsa til og það strax.

Burtséð frá því hvaða skoðun menn kunna að hafa á seðlabankanum er mikilvægt að ráðherra séu ekki að dylgja hver í sínu horni. Annað hvort er tekin ákvörðun um breytingar eða ekki. Ef ekki þá er eðlilegt að ráðherrar standi að baki þeirri ákvörðun.

Nóg er grafið undan bankanum og vandséð að stjórn hans lifi lengi úr þessu. Þá ganga menn hreint til verks og samhentir og gera breytingar vafningalaust. Þannig á að gera hlutina. Og þannig gerir ríkisstjórnin hlutina best eins og við sjáum nú dag eftir dag.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.10.2008 - 10:29 - Rita ummæli

Ekki benda á mig.

Þau eru mörg mögnuð augnablikin þessa dagana. Eitt af þeim var í gær þegar Gunnar Smári Egilsson var tekinn tali á förnum vegi. Umræðuefnið var að sjálfsögðu ástand mála…

Gunnar Smári var að vanda með munninn fyrir neðan nefið. Röskur í tali laus við tilgerð. En það voru efnistökin sem vöktu furðu. Hann nánast las útrásarmönnum og bankaeigendum pistilinn.

Menn hafi farið offari og ekki gáð að sér og nú væri komið að skuldadögum. Allt satt og rétt en umræddur Gunnar var á kafi í miðju peningasukkinu. Virkur þátttakandi og örlagavaldur. Og þiggjandi líka.

Nú forða menn sér á hlaupum hver á fætur öðrum…

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur