Fimmtudagur 31.1.2008 - 21:40 - Rita ummæli

Landsliðsþjálfari í handbolta.

Nú þarf að finna landsliðsþjálfara í handbolta. Ég verð að hafa skoðun á því. Fjorir eru helst nefndir. Geir Sveinsson,Dagur Sigurðsson, Aron Kristjánsson og svo útlendingur.

Frambærilegt allt saman. Margir veðja á Geir. Hann hlýtur að vera augljós kostur. Frábær ferill og einn magnaðasti leiðtogi sem við höfum átt. Ég er samt ekki sannfærður. Hann var ekki sannfærandi þjálfari Vals og hefur verið frá þjálfun um tíma. Auk þess tel ég að það vinni gegn honum að hafa verið gagnrýninn á landsliðið undanfarin ár. Neikvæð ára í kringum hann.

Aron er spennandi. Virkar mjög heilsteyptur og einbeittur í sínum störfum. Eyðir ekki orkunni í óþarfa sem er landlægt vandamál í Íslenskum handbolta. Kemur úr danska boltanum og þar eru menn að vinna gott starf. Ferskur og líka augljós valkostur.

Dagur hlýtur þó að vera fyrsti kostur. Frábær leiðtogi sem nýtur virðingar. Þorir þegar aðrir þegja. Fæddur fyrirliði með gríðarleg keppnisskap. Hefur talsverða reynslu og náði góðum árangri. Vann landstitil oft í Austurríki og var með liðið í meistarkeppninni. Ég kannast aðeins við gripinn og get alls ekki fundið neinn ókost.

Nema að hann yrði þá að hætta störfum sínum hjá stórveldinu þar sem hann er framkvæmdastjóri og hugsanlega næsti þjálfari liðsins.

Hef enga trú á að HSÍ ráði útlending þó það væri vissulega spennandi og metnaðarfullt. Að því gefnu að um alvöru mann yrði að ræða.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 31.1.2008 - 10:25 - 3 ummæli

Hver er sætastur?

Fegurðarsamkeppnir eru grafalvarlegt mál. Hávísindalegar og endanlegur dómur um fegurð, hið ytra allavega. Sigur í svona samkeppni getur rutt brautina hefði maður haldið. Eitt sinn fegurðardrottning ávallt fegurðardrottning.

Eða fegurðarprins kannski. Mér vitanleg hefur engin stúlka verið svipt titlinum til þessa en Óli Geir varð fyrir því. Ekki vegna þess að hann hafi ófríkkað eftir keppnina heldur vegna þess að hann þótti dónalegur í framgöngu í sjónvarpi.

Mér vitanlega var öllum sléttsama. Enda jafn erfitt að skera úr um það hver er sætastur og hver er dónalegastur. Engir staðlar til. Hvernig dómstólar komust að því að drengnum beri skaðabætur vegna þessa er mér hulin ráðgáta.

Er eitthvað í landslögum sem segir til um það hvernig standa skuli að fegurðarsamkeppnum? Og hver skilyrði skulu vera. Dómari hefur væntanlega horft á þættina og líkað vel.

Kannski mátti ekki svipta hann krúninni, veit það ekki. En samt finnst mér einhvernveginn hlægilegt að kæra. Og niðurstaðan.

Mannorðið er 500 000 króna virði.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 31.1.2008 - 08:53 - Rita ummæli

Bankar.

Í starfi mínu hitti ég oft bankamenn. Þeir eru eðli málsins samkvæmt ólíkir, þannig séð. Samt eitthvað svo líkir. Einsleit hjörð. Öndvegismenn allt saman.

Bankarnir eru eins og þjóðin sjálf, ferlega óstöðugir. Sem er verra. Þeir ættu að vera mjög stöðugir. Sjá hluti fyrir og haga seglum eftir vindi og þá helst til lengri tíma en ekki skemmri.

Það virðast þeir ekki gera. Það er annað hvort heiðskýrt eða niðadimmt. Allt á útopnu og smjör á hverju strái eða eins og nú. Nú skal stígið þéttingsfast á bremsuna. Allt kælt langt niður fyrir frostmark.

Hvorug staðan getur verið æskileg. Hvernig stendur á því að ekki er hægt að reka þessi fyrirtæki öðruvísi? Nú blasir gríðarlegur vandi við því fólki sem bankarnir sannfærðu um að fínu íbúðarlánin þeirra myndu færa öllum gæfu.

Ég veit vel að efnahagsástand hér er ekki nógu stöðugt en það virðist samt alltaf koma bönkunum í opna skjöldu. Þeir gersamlega missa sig þegar útlitið er bjart. Þá er ekkert aðhald. Greiningardeildir þeirra virðast ekki skila nógu góðu starfi.

Forstjóri Glitnis vill auka innlán. Hvernig ætlar hann að gera það? Bankarnir hafa nær eingöngu hugsað um að koma nógu af peningum í vinnu. Hjá fólki sem vill taka lán. Og margir eru viljugir og treysta á bankana.

Það dugar greinilega ekki. Bankinn tapar sjaldan. Yfirdráttarþrælarnir borga á endanum brúsann. Bankar hugsa meira um að fyrir lánum séu traust veð en að lántakandinn hafi viðskiptasöguna jákvæða, geti staðið í skilum. Þetta er ávísun á vandræði.

Finnst næstum því að bankarnir séu enn á bernskuskeiði eftir einkavæðinguna. Vanti reynslu og vigt. Hvað á maður að halda?

það er annað hvort brjáluð gleði eða algert svartnætti. Er ekki einhver millivegur fær?

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 30.1.2008 - 12:04 - Rita ummæli

Byrgið.

Var að enda við horfa á kompás. Umfjöllunarefnið; byrgismálið frá ýmsum hliðum. þvílík hörmungarsaga. Nenni ekki að tala um Guðmund. Það hafa allir sömu skoðun á honum.

Áhugaverðara er að tala um „kerfið“ okkar. Hvernig getur staðið á því að fólk heldur því fram að þrátt fyrir áform um að koma fórnarlömbum til aðstoðar þá hafi ekki verið við það staðið og þvert á móti? Framkvæmdastjóri geðhjálpar orðstór mjög og foreldrar eðlilega harmi slegin og reið.

Landlæknir sýnist mér ekki hafa nokkurn áhuga á málinu og reyndar hefur þetta mál lengi slegið mig þannig að þar á bæ séu menn í fýlu. Ekki benda á mig, mórallinn. Starfaði þetta apparat kannski í óþökk embættisins?

Mér þótti byrgið miklu frekar vera pólitískt PR mál en heilbrigðisstofnun eða meðferðarstofnun. Fjölmiðlar og alþingismenn tóku byrgið upp á sína arma og stjórnvöld stigu dansinn. Svo vildi enginn kannast við krógann þegar hann reyndist skrímsli.

Er það ekki grafalvarlegt þegar fólk vænir starfsfólk í heilbriðgisgeiranum nánast um mannvonsku? Þar starfi fólk sem taki það upp hjá sjálfu sér að neita fársjúku fólki um aðstoð. Eða að reglurnar bjóði ekki upp á annað en neitun.

Á bágt með að trúa því. Þekki sem betur fer ekki nógu vel til í þessum efnum en eitthvað vantar inn í jöfnuna hjá mér. Finnst harla ólíklegt að vont fólk og illa meinandi veljist til þessara starfa. Þarna er eitthvað annað sem ræður.

Hér þarf að halda áfram að grafa. Ekki endilega til þess að finna ónýta embættismenn og alþingismenn þó það væri auðvitað bónus. Heldur miklu frekar til þess að sníða af vankanta og tryggja að svona þvæla endurtaki sig ekki.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 29.1.2008 - 21:43 - 4 ummæli

Ráðist á garðinn.

Þá er Óskar Bergsson mættur til leiks. Og ræðst á garðinn þar sem hann er lægstur. Hann er sumsé að tuða yfir því að borgin kaupi húsræflana á laugaveginum. Ég hélt að enginn sem tilheyrði gamla meirihlutanum ætlaði sér að ræða þetta mál.

Þetta ekkisens klúður fékk nýji meirihlutinn í arf. Ef törfusamtökin hefðu ekki skipt sér af þessu og ef Dagur fengi ekki hræðslukast í hvert skipti sem einhver andæfir því sem hann segir þá væru þessir kofar á bak og burt.

það var fyrri meirihluti sem var búinn að koma málum þannig fyrir að bótaskylda var alveg klár. Kannski hefði verið hægt að þæfa málið þannig að ríkið hefði borgað en það er þó mannsbragaur að því að hysja brækurnar upp um sig og ganga almenilega frá þessu gagnvart eigendunum sem ekki höfðu gert annað af sér en að semja við borgina.

Þetta er klassískt dæmi um það þegar stjórnmálamenn fara á taugum vegna smá þrýstings minnihlutahóps. Með ærnum tilkostnaði fyrir skattborgarana.

Sé ekki í fljótu bragði að um neina sérlega rismikla útgönguleið hafi verið að ræða. Óskar Bergsson segir okkur kannski hvernig hann hefði leyst úr þessu rugli sem gékk í pólitískar erfðir.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 29.1.2008 - 09:00 - 4 ummæli

Hvenær er nóg að gert?

Ég er varla mikið betri en aðrir með það að verja út í eitt það sem mér dettur í hug að gera að skoðunum mínum. Miklu auðveldara virðist að gera það heldur en að sjá að sér. Þess vegna held ég ótrauður áfram.

Enginn vafi er í mínum huga að sagan mun fara ófögrum orðum um þá sem nú fjargviðrast út í Ólaf F vegna veikinda hans. Ræturnar eru að mínu mati pólitískar og eingöngu pólitískar. það eru einu prinsippin í málinu. Blandað saman við hæfilega blöndu af fordómum gagnvart þeim sem þurfa að leita sér aðstoðar vegna andlegra báginda tímabundið.

Nýjir vinklar fundnir á flóttanum því þeir sem ekki eru gersneyddir tilfinningum finna það hjá sér að hér er of langt gengið. Dettur einhverjum í hug að Ólafur sé eini stjórnmálamaðurinn sem hefur leitað sér aðstoðar á þessi sviði? Við bara vitum það ekki. Af hverju ætli það sé?

Svarið blasir við okkur daglega. Nú er það orðið sérstakt veikleikamerki að Ólafur ræðir málið ekki opinskátt! Framkoma þeirra sem kjósa að vega að honum vegna þessa er ekki hvetjandi í þeim efnum. Það er þessi afstaða sem hefur staðið umræðu um þennan málaflokk fyrir þrifum áratugum saman.

Litlir menn grínast með þetta og tala um í hálfkæringi. Slá úr og í og segjast ekki vera að gera neitt annað en það sem eðlilegt er. Legg hér með til að hver og einn setji sjálfan sig í spor Ólafs eða geri sér í hugarlund hvernig menn myndu bregðast við ef „þeirra“ maður fengi svona meðferð. Fyrr eða síðar rennur sóttin af mönnum og þá munu einhverjir þurfa að skammast sín. Stjórnmál skipta okkur öll máli. En þau eiga ekki að draga okkur niður á þetta plan. Þau snúast ekki um þetta.

Kjarni málsins er þessi. Ólafur þótti fullfrískur þegar hann var gerður að forseta borgarstjórnar í tíð fyrri meirihluta en allt því geðveikur nokkru síðar þegar hann skipti um lið. Þetta er ekkert flóknara en það.

Umræðan um siðleysi og heilindi í stjórnmálum getur vissulega átt fullan rétt á sér í kringum borgarstjórn en að taka þá umræðu niður í þennan forarpytt er fyrir neðan allar hellur.

Við megum ekki gleyma okkur í hita leiksins. Engin stjórnmál er þess virði. Þessi umræða skaðar bæði stjórnmálin og ekki síður þá vinnu sem gott fólk hefur reynt að byggja upp í kringum þá sem eiga við andleg og geðræn vandamál að stríða.

Frábið mér allt tal um væl.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.1.2008 - 12:13 - Rita ummæli

Þórunn umhverfis.

Ég hef verið að bíða eftir því að Þórunn umhverfisráðherra fari að láta að sér kveða. Hún og Geir virðast ekki sammála um neitt. Held reyndar að fáir menn kunni eins vel að meðhöndla svoleiðis í samstarfi en Geir.

Og það mun örugglega reyna á þessa hæfileika hans á kjörtímabilinu. Hún er nefnilega fyrsti alvöru umhverfisverndarsinninn sem sest í þetta embætti. það þýðir að hún er sjálfkrafa á móti flestu sem tengist stóryðju. Þannig er eðlið bara.

Álver og ólíuhreinsunarstöð hljóta að vera eitur í hennar beinum. En staðan er flókin því landsbyggðin vill endilega iðnaðinn til að bjargar. Og atkvæðin vega meira þar en annarsstaðar.

það geta ekki allir fengið að ráða. Spennandi að sjá hvernig henni tekst að koma sér fyrir í þessari ríkisstjórn. Ég er hálf meðvitundarlaus þegar kemur að umhverfisvernd í samanburði við marga en finnst samt á einhvern hátt gott að fá einarðan umhverfisverndarsinna í ríkisstjórn.

Þnnig gætu hlutirnir leitað jafnvægis.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.1.2008 - 10:25 - 1 ummæli

Fýlukast.

Hvenær skyldi fýlukastið ná hámarki? Fúllyndið lekur af vinstri mönnum. Gamlir kommar skríða undan og kalt stríð skollið á. Í þeirra hugum. Blóðið ekki runnið svona ótt í mörg ár.

Allt vegna þess að Dagur og félagar klúðruðu borginni. Og átta fulltrúar ráða en sjö ekki. Hvenær skyldi reiðin beinast að Degi? Af hverju gat hann ekki gert það sem þurfti til þess að allir yrðu ánægðir? Ingibjörg gat það en ekki Dagur. Og samt var hún ekki að kljást við lamaðan sjálfstæðisflokk eins og Dagur nú Hvenær skyldu menn hætta að fá fró út úr því að svívirða persónu Ólafs og líta í eigin barm?

Ekki dregur það úr ólundinni að tómt mál er að tala um að samfylkingin slíti ríkisstjórn. Þar er flest í sómanum. Auk þess sem samfylkingin hefur ekki í nein önnur hús að vernda. Hvert ætti hún að fara?

Segi eins og Egill silfurrefur.

Þetta er væl.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 27.1.2008 - 23:56 - 3 ummæli

Þrískipting valds.

Ólafur Páll heimspekingur fékk alltof lítinn tíma til þess að ræða þrískiptingu valds í silfrinu í dag. Ég hef verið með þetta á heilanum síðan ég heyrði Vilmund ræða þessi mál fyrir 1000 árum eða svo.

Það á ekki að vera umsemjanlegt að vald á að vera þrískipt hér. það fæst af einhverjum ástæðum ekki rætt. Gildir einu um hvaða stjórnmálaflokk er að ræða. Fyrir því geta verið margar ástæður en engin þeirra góð.

Hættum dægurþrasi um heimskupör ráðherra sem komast upp með hvað sem þeim dettur í hug meðal annars vegna þess að ekki er tryggt að valdið sé þrískipt. Mennirnir breytast ekki svo glatt sama hvaða flokksskírteinum þeir flagga. Sagan bara segir okkur það.

Þess vegna er reynt að fyrirbyggja mögulega misbeitingu með skiptingu valds í þrennt. Ráðherrar skipa ekki dómara. Hver skilur ekki af hverju? Notum nú tækifærið og tökum málið á dagskrá. Ekki til þess endilega að ganga milli bols og höfuðs á Árna Matt heldur af því að við eigum skilið að systemið okkar sé í samræmi við stjórnarskránna. Við ræðum þessi mál helst þegar einhver notar tækifærið og misbýður okkur. Þá er erfitt að fá málið rætt því stjórnmálaflokkar eru þannig að þeir verja hvaða bull sem er hjá sínum. það er þeirra eðli. Þetta er ekki flokkspólitískt mál. Hagsmunir okkar allra fara hér prýðilega saman.

Ráðherrar eru ekki heldur þingmenn. Hver skilur það ekki heldur? Hverjum finnst þetta ekki skipta máli? Rökin fyrir því að framkvæmdavaldið ráði því ekki hver er dómari eru skotheld. Hvernig viljum við styrkja þingræðið og deyfa áhrif framkvæmdavaldsins þar?

Aðskiljum að fullu, löggjafar, dóms og framkvæmdavald. Það yrði góð byrjun.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 27.1.2008 - 13:14 - Rita ummæli

Ný hugsun dana í handbolta.

Meira um handbolta. Viggó og Óskar Bjarni eru að tala um handbolta í sjónvarpinu núna. Þar er rætt um dani og aðferir danska þjálfarans. Ryfjast þá upp fyrir mér það sem ég skrifaði um muninn á Alfreð og danska þjálfaranum í heimsmeistaramótinu í fyrra.

Mín skoðun er sú að aðferðir Alfreðs og reyndar flestra þjálfara í dag séu á undanhaldi. Gamli austurevrópski hugsunarhátturinn hlýtur að víkja. Þar eru þjálfarar eru guðir sem allt vita og reynt er að hafa mikla fjarlægð milli leikmanna og þeirra.

Heimspekin gengur út á að nota fáa leikmenn. „Bestu“ leikmennirnir eru þeir sem byrja leikinn. Varamenn eru ekki heilir leikmenn heldur leikmenn sem eru settir inná þegar „bestu“ leikmennirnir ná sér ekki á strik. Frammistaða varamannanna skiptir svo ekki máli. Um leið og bestu leikmennirnir eru búnir að kasta mæðinni eða að fá ræðuna eru þeir svo settir inná aftur.

Varamennirnir eru frekar notaðir sem viðbrögð við slökum leik bestu spilaranna eða sem refsing. Þeir hafa ekkert hlutverk, þeim er ekki endilega treyst. Á sama tíma er talað um skort á breidd. Hvernig verður hún til spyr ég?

Þessi ofurhræðsla við að leyfa þeim sem ekki byrja leikinn að spila hefur lengi verið mér óskiljanleg. Landslið eru eðli máls samkvæmt skipuð góðum leikmönnum eingöngu. Stórkeppnir spilast þéttar en önnur mót og því mikil þörf á að dreifa álaginu og BÚA til breidd.

Leikur okkar við dani á heimsmeistaramótinu í fyrra er kennslubókardæmi um þetta. þar lentu danir í meiðslum í rétthentu skyttunni og það var í raun þriðji valkostur í stöðuna sem vann okkur. Enda hafði hann leikið mjög mikið í mótinu. Hann byrjaði reyndar illa í þessum leik og klúðaði þremur sóknum. Því hefði hann aldrei náð hjá Alfreð. Miklu betra að láta byrjunarliðsmann klúðra en varamann.

Stórstjarnan Lars Cristhiansen fékk kærkomna hvíld í síðari hálfleik. Varamaður hans stóð sig vel og hann kláraði því leikinn, sem var framlengdur og æsispennandi. Þarna gerðist tvennt.

Lars fékk mjög góða hvíld og varamaðurinn hans spilatíma. þetta styrkir liðsheildina og býr til breidd. Við þekkjum svona vinnubrögð helst ekki. Betra er að láta Guðjón Val spila örþreyttan en að leyfa öðrum að spreyta sig í stöðunni. Við förum í hvert æfingamótið á fætur öðru þar sem okkar styrkustu stoðir spila allt of mikið.

Við eigum ekki marga heimsklassaleikmenn. Þess mikilvægara er að búa til breidd og skapa liðsheild. Til þess þarf nýja hugsun. Hugsun þar sem menn endurhugsa fyrirbrigðið, varamenn. Varamenn eru leikmenn sem byrja á bekknum. Þeir eru ekkert úrkast.

Vona að danir vinni Króata. Jafnvel þó það gerist ekki í dag þá vona ég að hugmyndafræðin sem er að baki liðinu er nái fótfestu.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur