Mánudagur 26.3.2012 - 14:09 - FB ummæli ()

Flugþjónar í flugstjórnarklefann?

Myndlíkingar geta verið góðar í umræðu sem er á villigötum, til að almenningur og stjórnvöld skilji málin betur. Í gær flaug ég heim frá útlöndum. Mér var hugsað til samferðamannanna á leiðinni, eins og oft áður í slíkum ferðum og þegar tíminn er allt í einu nógur. Vélin var full af fólki sem segja má að hafi verið einskonar þverskurður af þjóðfélaginu í þessari sögu. Fólk á öllum aldri. Þjónustan um borð var ágæt og allt gekk nokkuð vel fyrir sig. Flugstjórinn kom líka með sínar tilkynningar í hátalarakerfið eins og vera ber og varaði við ókyrrð í lofti tvisvar á leiðinni og bað farþegana að spenna beltin. Lendingin var síðan óaðfinnanleg. Allir komust öryggir í höfn. Þökk sé góðri flugvél en ekki síður góðum flugmönnum. Nokkuð sem ég gekk reyndar að þegar ég pantaði flugfarið upphaflega. Sennilega hefði annað verið upp á teningnum ef ég hefði vitað að flugþjónarnir yrðu látnir fljúga í þessari ferð og fyrst og fremst ætti að treysta á sjálfstýringuna. Jafnvel þótt sumir flugþjónanna væru komnir með sólópróf í flugi. Flugstjórar á stórum flugvélunum eru einfaldlega menntaðir og þjálfaðir til þessara verka og flugþjónar til annarra, þótt allir vinni síðan að sama markmiði. Að gera flugferðina örugga og um leið ánægjulega.

Meira þá um staðreyndirnar í heilbrigðiskerfinu og sem myndlíkingin í sögunni er dregin af. Um lyfjamál landans sem mörgum finnst nóg um þessa daganna en vefst fyrir öðrum og sem mikið hefur verið í fréttum. T.d. um mikla notkun sýklalyfja og svefnlyfja sem hefur í för með sér alvarlegan samfélagslegan vanda og oft hefur verið varað við. Sýklalyfjaónæmi og aukningu á slysatíðni í umferðinni. Þróun sem hefur átt sér stað í mörgum löndum og veruleg ógn stendur af. Þegar ekki tekst að meðhöndla jafnvel einfaldar sýkingar á öruggan hátt og þar sem svefn og verkjalyf eru algengari orsök slysa í umferðinni en sjálft áfengið. 

Nú stendur til með nýju frumvarpi velferðarráðherra að stefna markvist á að auka aðgengi og ávísanir á hormónagetnaðarvarnarpillur til ungra kvenna til að draga úr ótímanbærum þungunum. Jafnvel í grunnskólum landsins og heimila jafnvel skólahjúkrunarfræðingum að ávísa á lyf sem geta haft ýmsar frábendingar og jafvel hættulegar aukaverkanir í för með sér og sem hjúkrunarfræðingar og ljósmæður hafa ekki grunnþekkingu í, í námi sínu. Einfaldlega þar sem þessar starfstéttir eru ekki menntaðar sem læknar í læknisfræði. Í sjúkdómafræði og lyfjafræði meðal annars til margra ára. Frumvarp sem var unnið að  á síðustu metrunum án aðkomu lækna til að fá lyfjaávísanaréttinn í gegn. Hvað er að þessari þjóð? Er stefna heilbrigðisyfirvalda virkilega að slaka á öryggri notkun lyfja og þynna heimilislæknaþjónustuna enn frekar á höfuðborgarsvæðinu? Eða útvatna hana jafnvel alveg? Væri ekki nær að nýta hjúkrunarfræðingana betur til ráðgjafar um getnaðarvarnir almennt og kynheilsu eins og frumvarpið fjallaði um í grunninn. Í meðförum undirbúningsnefndarinnar þar til á síðustu metrunum. Eins og með aðra ráðgjöf sem brýtur nú enn og aftur á og er til umfjöllunar. Þ.e.um svefnvanda okkar Íslendinga og sem felst allra síst í að skrifa upp á meira af svefnlyfjum. Að læknarnir ákveði meðferðina í byrjun og lög gera ráð fyrir til ákveðins tíma, en hjúkrunarfræðingarnir hjálpi til með ráðgjöf og stuðning í kjölfarið eða jafnvel áður. 

Fjölga þarf  í starfstétt heimilislækna á höfuðborgarsvæðinu þar sem mikil undirmönnun á sér stað, ólíkt ágætri mönnun í hjúkruninni. Sérstaklega til að læknar geti unnið betur eftir alþjóðlegum stöðlum í heilsugæslunni og við erum í raun skuldbundin til að gera sem nútímanleg vestræn þjóð. Að skyndiúrlausnirnar og ómarkvissar lyfjaávísanir takmarkist sem mest, en sem því miður hafa fengið að þróast allt of lengi af illri nauðsyn og fyrirhyggjuleysi stjórnvalda hér á landi sem oft hefur verið bent á. En hvernig vilja stjórnmálamennirnir og þá stjórnvöld sjá heilsugæsluna þróast með tímanum? Með eða án læknanna? Væntanlega þó að færri óvelkomin börn fæðist í heiminn og að við komust sem flest í örugga höfn að lokum. Með samvinnu, samráði og skynsemina að leiðarljósi.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 21.3.2012 - 10:16 - FB ummæli ()

Hin „saklausa“ unga sjálfstæða þjóð

Síðastliðna mánuði hefur umræðan fyrir utan stjórnmálakreppur og landsdóm vegna hrunsins þar sem allir virðast jafn saklausir, snúist m.a. um ógnvænlegar staðreyndir um heilsuleysi þúsunda kvenna sem eru með misleka brjóstapúða. Sem þjóðfélagið hefur í raun ekki getu eða burði til að meðtaka ofan á allar aðrar hörmungar og þess sem misfarist hefur í okkar þjóðfélagi sl. áratugi. Hundruð kvenna með varanlegt heilsutjón og jafnvel örkumlun vegna brjóstaíhlutana á vitlausum forsendum. Þar sem gengisáhættan var talin í örfáum prósentum á líftíma púðanna og sem áttu jafnvel að endast út lífið, en sem byrjuðu að leka í tugprósenta tilfella á innan við áratug. Sem síðan eitra út frá sér í umhverfið með bólgum og stífla kirtla og sogæðakerfið. Með allskonar óljósum einkennum og verkjum, enda virðist bæði skel og innihald tærast upp að stórum hluta og safnast upp annars staðar. Eitt er víst, eins og komið hefur í ljós í svo mörgu öðru, að vandinn gufar ekki bara upp og hverfur.

„Guð“ einn ætti sennilega að vita best hver vandinn er mestur í þjóðfélaginu og hvar allt sílikonið liggur, en við sjálf lokum augunum eða bítum á jaxlinn. Hin saklausa, unga og hrausta víkingaþjóð. Sama, hvað á gengur og þannig hefur það alltaf verið. Sjálflæg þjóð en svo fyllilega sjálfstæð. Þar sem að því er virðist æviráðinn forseti dásamar þjóð sína við öll tækifæri. Hvað við séum frábær og góð. Líka heilbrigðiskerfið á sama tíma og heimilislækningarnar eru látnar þynnast út á höfuðborgarsvæðinu. Ekki þó um daglegar áhættur eins og með vinsælu brjóstapúðaígræðslurnar og sem aldrei væru teknar ef um aðrar læknismeðferðir væri að ræða og þaðan af síður ef litið er til öryggis lyfjameðferða almennt talað. Til dæmis eins og við höfum verið að ræða, þar til nýlega, tengt p-pillunotkun ungra en ekki alltaf svo saklausra íslenskra stúlkna og sem horfa stutt fram á veginn. Með hinu tilbúna dagatali þar sem við seinkum eða flýtum nútímanum að vild og tryggjum þeim sem mest öryggi, ef vel er staðið að málum. Líka hjá tugþúsundum ungra kvenna á ári hverju, og þannig hefur það lengi verið.

En vitleysan hefur aldrei verið meiri, vegna óupplýstar umræðu á landinu góða. Ekki síst eins og sést í brjóstapúðamálinu öllu og sem með sama áframhaldi stefnir í að snerta líka tugþúsundir kvenna og óbeint börn þeirra og okkar allra auðvitað í framtíðinni. Nú einnig á allt annan hátt tengt ungri kynímynd, með ómarkvissari en auknu aðgengi að getnaðarvarnarhormónum og þá ólíkum og nýjum aukaverkunum ef nýtt frumvarp velferðarráðherra verður að veruleika. Þar sem ganga á fram hjá bestu þekkingunni á lyfjaávísununum, hvað tilheyrir best hverjum líkama og sem tilheyrir fyrst og fremst læknisfræðinni. Með hugsanlega þá minni notkun á smokknum og hugsanlega aukningu á allskonar kynsjúkdómum. Eitthvað sem heilbrigðiskerfið allt situr uppi með að lokum og við öll borgum fyrir. Fyrir rest eins og alltaf þegar kemur að skuldadögunum og við höfum séð svo oft áður að undanförn. Jafnvel í þróun sýklalyfjaónæmis sem ég hef mest rannsakað með félögum mínum. Mest þar sem heilsugæslan er mest svelt og útþynnt, síðan í öllu þjóðfélaginu.

Akkúrat í dag snýst málið hins vegar mest um ungu íslensku stúlkurnar sem margar vilja „hugsanlega“ byrja að stunda fyrr kynlíf en við sem eldri erum teljum æskilegt. Jafnvel án vitundar foreldranna og sem geta jafnvel óskað eftir getnaðarvarnahormónum hjá skólahjúkrunarfræðingunum í grunnskólunum eins og fram hefur komið í fréttum að undanförnu. Lyfjameðferð sem getur haft mikil áhrif á allt þeirra líf og afar mikilvægt er að standa eins vel að málum og kostur er í byrjun. Jafnvel lífshættulegar aukaverkanir og sem ég læt alltaf vita um þótt sjaldgæfar séu. Nú líka um óskir ungra kvenna að fá brjóstapúða, ekki síst eftir fyrsta barn og svo rækilega er búið að kynna fyrir þeim í fjölmiðlunum sl. misseri. Sem við öll höfum samþykkt með þögninni. Hvað er eiginlega að þjóðfélagi sem þarf mest á þessum umræðum að halda? Af illri nauðsyn, vanþekkingu og ef til vill sakleysis þjóðarinnar.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 18.3.2012 - 15:26 - FB ummæli ()

Frumhlaup að heilbrigði ungra stúlkna?

Sjaldan hefur maður orðið meira undrandi í umræðunni um heilbrigðismál og viðhorfunum sem nú koma fram í frumvarpi velferðarráðherra um hverjir eigi að geta ávísað getnaðarvarnahormónum til ungra kvenna. Ekki síst þar sem frumvarpið slakar á kröfum um þekkingu á lyfjunum sem um ræðir og mati með tilliti til aukaverkana. Eins að breyttu hlutverki heilsugæslunnar, ekki síst störfum og vinnuumhverfi heimilislækna. Hins vegar nýju hlutverki hjúkrunarfræðingar og ljósmæðra, sem að undangengnu sérstöku námsskeiði eiga að gefa þeim löglegan rétt á að ávísa getnaðarvarnarhormónum til ungra stúlkna sem byrjaðar eru að stunda kynlíf, m.a. skólahjúkrunarfræðingum í grunnskólunum. Frá allt að 11 ára aldri eins og fram hefur komið í viðtölum og sem í mínum huga telst barnsaldur. Jafnvel án vitundar foreldra og væntanlega fylgja margar vinkonur á eftir. Viðtal var við skólahjúkrunarfræðing í Ríkisútvarpinu og Sjónvarpinu og við landlæknir af þessu tilefni í lok síðustu viku.

Í viðtali við Smuguna í fyrir helgi lét svo Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra  hafa eftir sér eftirfarandi innlegg til málsins; „Og ég leyfi mér bara að fullyrða að margir í þessum stéttum eru ekkert síður undirbúnir til að fjalla um þetta mál heldur en sumir af þessum læknum sem eru þarna að koma inn, með fullri virðingu fyrir þeim. Þetta er líka spurning um að heilsugæslan verði teymisvinna þannig að menn vinni saman. Og í dag er þetta þannig að endurútgáfa á sumum lyfjaávísunum er ekki bara beint frá læknum. Þetta er líka kjarabarátta að sumu leyti. Við skulum bara taka þetta eins og þetta er. Þetta er bara mjög góð umræða til að meta hvernig við getum aukið aðgengi almennings að þjónustunni á þeim stað þar sem hún er best veitt. “

Þar sem þetta er „góð umræða“ vil ég halda áfram með hana frá því sem frá var horfið fyrir viku síðan. Rétt er að byrja að benda aftur á að læknar eru í 12-14 ára námi til að tileinka sér fyrst og fremst sjúkdómafræði og lyfjafræði. Hormónalyf geta haft alvarlegar aukaverkanir ef ekki er gáð að heilsufarinu almennt og annarri lyfjanotkun á sama tíma. Val á réttu hormónalyfjunum og fræðsla að umgangast p-pilluna eins og hvert annað lyf er því afar mikilvægur boðskapur til ungra stúlkna. Ekki síst þegar þessum lyfjum er ávísað í fyrsta sinn og að þær skilji vel hvað að baki býr. Þessi ákveðna ávísun er líka mikilvæg í tengslamyndun við ungar stúlkur, þar sem ræða má marga aðra góða hluti í leiðinni í viðtalinu við lækninn sinn,  sem e.t.v. smá veganesti út í hið flókna líf. Meðal annars fræðsla um alla kynsjúkdómana sem leynast bak við hornið . Mikilvægi þess að nota smokkinn við öll skyndikynni og Alþjóðlega heilbrigðisstofnunin (WHO) leggur hvað mesta áherslu á. Helst að hafa smokkinn ókeypis. Sem sagt meiri fræðslu þar sem margir koma að málum, alls ekki síst skólahjúkrunarfræðingarnir. Eins læknanemar og sem hafa reyndar þegar gert í samtökum sínum, Ástráði, með góðum árangri í mörg ár.

Varðandi hugmyndir velferðarráðherra um frekari útþynningnu á starfi heimilislæknisins sem fellst í frumvarpinu nú og fram kemur í orðum hans hér að ofan þar sem hann segir að heimilislæknar séu nú í einhverskonar kjarabaráttu, verður að nefna nokkrar staðreyndir því til andmælis. Uppbygging heilsugæslunnar á sjálfu höfuðborgarsvæðinu hefur verið látin sitja á hakanum sl. ártatugi og sem mikið hefur verið rætt um og skrifað. Verulega þyrfti því að styrkja hana og ekki síst fjölga heimilislæknum til að hún geti staðið undir alþjóðlegum skuldbyndingum um klínísk vinnubrögð og til að hún geti farið eftir viðurkenndum alþjóðlegum gæðastöðlum varðandi úrlausnir, eins og lyfjaávísanir í hinum ýmsu lyfjaflokkum. Samráðsleysi stjórnvalda og viðhorf til starfs heimilislæknisins í dag verður hins vegar því miður ekki til að auka áhuga ungra lækna að sérnámi í heimilislækningum. Þetta kalla ég frekar tilvistarkreppu en kjarabaráttu.

Til að upplýsa velferðarráðherra nánar og ef til vill gleðja hann aðeins í leiðinni, að þá má fullyrða að furðu gott starf sé samt unnið miðað við afar erfiðar aðstæður í heilsugæslunni í dag. Þrátt fyrir allt og að álagið sé allt of mikið og vissulega megi margt bæta, m.a. með meiru samráði. Um þetta eru flestir sammála. Félag íslenskra heimilislækna (FÍH) hefur fyrir löngu mótað stefnu í fjölskylduheilbrigði (1994) auk þessa að hafa gefið út staðal um uppbyggingu sérfræðináms í heimilislækningum sem tekur a.m.k. 4 ár og starfsaðstöðu á heilsugæslustöðvum. Þar sem teymisvinna er lykilatriðið og sem ráðherrann minntist á. Að hluta vegna skorts á uppbyggingunni á höfuðborgarsvæðinu og allt of lítilli fjölgun heimilislækna, hefur hins vegar orðið að leysa mörg vandamál sem ættu að tilheyra heilsugæslunni á bráðamóttökum og grípa oftar til bráðaúrlausna en æskilegt getur talist, svo sem lyfjaávísana hverskonar. Sem undirritaður skal vera fyrstur til að viðurkenna. Afleiðingar af mikil notkun sýklalyfja meðal barna hér á landi hefur t.d. verið eitt skýrasta dæmið sem af þessu hefur leitt og bent hefur verið ítrekað á sl. tvo áratugi. Án mikilla eða góðra undirtekta stjórnvalda eða með ósk um samvinnu til að laga. Til dæmis í baráttunni við sýklalyfjaónæmið og skynsamlega notkun sýklalyfja sem ég þekki hvað best til.

Frekari útþynnig er nú að færa lyfjaávísanir á torgin og yfir til skólaheilsugæslunnar og skólahjúkrunarfræðinga sem þegar hafa nóg á sinni könnu, eftir því sem ég best get séð, enda unnið sem skólalæknir í grunnskóla í meira en 20 ár. Aðilar sem hafa engan veginn sambærilega þekkingu á lyfjum og sjúkdómum og læknar, eðli málsins samkvæmt. Þeir sem það vilja geta hins vegar farið í læknisfræði. Og gleymum ekki að hér eiga börn og unglingar stærstan hlut að máli. Ekki læknarnir sem slíkir eða hjúkrunarfræðingarnir.

Varðandi lyfjamálin og ávísanavenjur lækna almennt og hvað betur má fara, hefur ítrekað verið bent á ýmislegt, m.a. með bréfum til fyrrverandi tveggja heilbrigðisráðherra. Bréfunum sem ekki var svarað. Aðilar sem ekki hafa viljað ræða málin við heilsugæsluna, þótt jafnvel heilsuhrun blasir við. Eins og nú vegna aukinnar hættu á alvarlegra sýklalyfjaónæmi helstu sýkingarvaldanna hér á landi næstu misseri. Og sem tengist líka baráttunni gegn kynsjúkdómunum.

Þrátt fyrir áratuga gæðaþróun heilsugæslunnar sjálfrar, hvernig best er að standa að lyfjanotkun almennt og þar sem mikil reynsla hefur skapast. Hins vegar eru skipaðar nefndir á bak við tjöldin án aðkomu heimilislækna, eins og er varðaði undirbúning fyrir þetta ákveðna frumvarp velferðarráðherra nú. Þrátt fyrir upphaflegan góðan ásetning um að reyna að bæta kynheilbrigði ungs fólks, en sem síðar á einhverjum tímapunkti snerist um sérhagsmuni ákveðinna heilbrigðisstétta. Sem lýtur að sérstökum ávísanarétti hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra á hormónalyf m.a. fyrir ungar stúlkur og engar sérstakar forsendur eru fyrir hendi hér á landi. Sérstaklega ef litið er til fjölda ótímabærra þungana ungra stúlkna á Íslandi, samanborðið við nágranalöndin. Frumvarp sem tekur heldur ekki á því mikilvægasta sem er ódýrt aðgengi að getnaðarvörnum og öruggari smitvörnum gegn kynsjúkdómum, m.a. með auðveldu aðgengi að smokknum. Því vil ég kalla tillögur velferðarráðherra nú til alþingis frekar frumhlaup en skynsamlegt frumvarp til nýrra laga, og sem bæta á heilbrigði ungra stúlkna í dag.

http://ruv.is/frett/hjukrunarfraedingar-avisi-pillunni

http://ruv.is/sarpurinn/kastljos/16032012/eiga-hjukrunarfr-ad-avisa-getnadarvarnarpillunni

http://blog.eyjan.is/vilhjalmurari/2012/03/11/laeknisfraedin-a-althingi/

 http://blog.eyjan.is/vilhjalmurari/2011/02/11/graena-ljosid-2/

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 14.3.2012 - 13:16 - FB ummæli ()

Hjartaáföll og gosdrykkja karla

Einn sykraður gosdrykkur á dag eykur hættu á að fá hjartaáfall (coronary heart disese, CHD) um 20% samkvæmt nýrri rannsókn sem birtist í nýjasta hefti Circulation, tímariti bandarísku hjartasamtakanna, AHA og nær til yfir 40.000 karla sem fylgt hefur verið eftir í yfir 20 ár. Áhættan mælist þegar tekið hefur verið tillit til annarra þekktra áættuþátta svo sem þyngdar, kólesteróls, reykinga og sykursýki. Fjallað er um rannsóknina (Health Professionals Follow-up study) á MedScape sem er mjög áhugverð enda um mjög stóra og vandaða faraldsfræðilega rannsókn að ræða. Áhrifin eru mun meiri en kemur fram í annarri rannsókn meðal kvenna (Nurses’ Health Study). Ein lítil dós af sykruðum gosdrykk er þannig talin getað hækkað blóðsykur það snögglega að það hafi áhrif á meingerð kransæðasjúkdómsins sérstaklega og sem annars myndi þróast hægar. Algengustu hjartaáföllin er bráð kransæðastífla, hjartadrep og hjartabilun sem leitt getur til dauða.

Niðurstöðurnar ættu að hvetja alla karla að halda sykurneyslu sinni í lágmarki, sérstaklega hvað sykraða gosdrykki varðar og sem innihalda mikið magn af hvítum sykri. Jafnvel þótt þeir séu grannir og hreyfi sig reglulega. Rannsóknin sýnir hvað það er mikilvægt að vera ávalt vel vakandi fyrir helstu áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma. Ekki bara hvað varðar hreyfingarleysi, reykingar, offitu og of háu kólesteróli, heldur einnig sykurneyslunni beint og sem við eigum norðurlandamet í. Sem tengist ekki síst óhóflegri gosdrykkjaþambi landans. Ekki var sýnt fram á þessi tengsl áhættu við neyslu á Diet gosdrykkjum, en sem aðrar rannsóknir sýna að tengjast engu að síður öðrum áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma vegna áhrifa til þyngdaraukningar og ákveðinna efnaskiptatruflana.

Látum því bara vatnið okkar góða nægja, sem við eigum nóg af, sem er ókeypis og er hvergi betra í heiminum.

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · heilbrigðismál · Lífstíll

Sunnudagur 11.3.2012 - 14:28 - FB ummæli ()

Læknisfræðin á Alþingi

Ákvörðun um lyfjameðferð er venjulega ákveðin eftir viðtal og mat á öllum hugsanlegum áhættuþáttum meðferðar. Ekki síst þegar um langtíma lyfjameðferð er að ræða hjá ungum stúlkum. Þegar ræða á getnaðarvarnir almennt til að koma megi í veg fyrir ótímabæra þungun og að umgangast þurfi P-pilluna eins og öll önnur lyf og hvað tegund hentar í hverju tilviki. Ekki síst þar sem margt getur breyst varðandi áhættumatið með tímanum, einkum með tilliti til blóðtappaáhættu. Ekkert síður mikilvægi kynheilsunnar um leið og rætt er mikilvægi þess að viðhalda góðri heilsu almennt talað og rætt er um aðrar forvarnir. Mikilvægi þess að reykja ekki með p-pillunni og sýna aðgát gagnvart öllum kynsjúkdómunum og hvert eigi að leita eftir hjálp ef eitthvað út af bregður. Þar sem félagsráðgjafar, hjúkrunarfræðingar, ljósmæður og jafnvel sálfræðingar eiga líka að koma að málum í þverfaglegri vinnu heilsugæslunnar. Ef allt væri í lagi. Og hvað þá næst? Eiga hjúkrunarfræðingar þá að fá lyfjaávísanarétt á t.d. svefnlyf, blóðþrýstingslyf, geðlyf, sykursýkislyf, jafnvel sýklalyf þegar harðnar meir á dalnum í heilsugæslunni.

Það eru svo sannarlega blikur á lofti og margir skjótráðir með ráð undir rifi hverju, ekki síst pólitíkusar þessa daganna og sem láta undan miklum þrýstingi þrýstihópa. Sumir vilja maka krókinn og telja hiklaust að aðrar heilbrigðisstéttir en læknar geti ávísað lyfjum. Eitthvað sem þeir lærðu lítið sem ekkert um í háskólanum, en sem í ljósi aðstæðna og læknaskorts er talið réttlætanleg ráðstöfun í dag. Allskonar fræðingar sem fá hið háa Alþingi til að leggja blessun sína yfir gjörninginn og gera hann löglegann. Það er að minnst kosti ekki augljóst hvaða hagsmuni er fyrst og fremst verið að verja. En varla hagsmuni ungra stúlkna þegar til lengir tíma er litið og stór starfsvið heimilislækna sem talið hafði verið lögvernduð starfsgrein, rennur smá saman út í sandinn.

Lyfjaávísanir eru að vísu, þegar í vissum skilningi, gengnar læknum úr höndum vegna aðstæðna og orðnar oft hálf sjálfvirkar eins og ég hef oft rætt um áður. Oft eftir pöntun með tölvusamskiptum gegnum þriðja aðila, læknariturum og hjúkrunarfræðingum til að spara læknum tíma. Þar sem algengust lyfjaávísanirnar eru svefnlyf og p-pillan. Á sama tíma og heimilislæknirinn hefur ekki einu sinni aðgang í „lyfjagátt“ apótekanna til og leiðrétta ofskammtanir eða til að reyna að koma í veg fyrir hugsanlegar milliverkanir lyfja sem sjúklingarnir hafa fengið, héðan og þaðan.

Það lítur ekki vel út hjá þjóð þar sem heilsugæslunni hefur verið látin blæða um árabil á sjálfu höfuðborgarsvæðinu. Þar sem byggja á samt upp nýtt og fullkomið hátæknisjúkrahús úr stáli og steinsteypu, í stað þess að tryggja mannauðinn. Það má hins vegar „til gamans“ geta að til er fyrirtæki sem heitir „Hvítir sloppar“ og sem ásamt fleirum fyrirtækjum sérhæfa sig í útflutningi á íslenskri læknisþjónustu til Norðurlandanna, aðallega til Noregs og Svíþjóðar. Þar sem sóttst er eftir vinnukrafti þeirra sem læknasloppunum tilheyra í raun, og taldir ómissandi.

Fyrir u.þ.b 25 árum var hin hjúkrunarfræðilega og læknisfræðilega ábyrgð kyrfilega aðgreind að vilja hjúkrunarfræðinganna. Sem vildu bera alla ábyrgð á hjúkrun sjúklinganna. Gengið var að þessum vilja enda hjúkrunarfræðigreinin þá komin á háskólastig og stjórnun á sjúkradeildarekstri hluti af náminu. Aldrei var talað um í þá daga að hjúkrunarfræðingar færu að skipta sér af lyfjaávísunum lækna frekar en læknar af hjúkrun og daglegum rekstri hjúkrunardeilda.

Á Íslandi hafa ljósmæður sem er framhaldsnám í hjúkrunarfræðum, krafist að fá að vinna sjálfstætt að mæðraverndinni í heilsugæslunni og fengu það í geng með reglugerðarákvæðum að flestum læknum forspurðum fyrir um tveimur árum síðan. Sitt sýnist hverjum hins vegar um þessa ákvörðun enda læknisfræðileg ábyrgð þar oft á tíðum illa skilgreind í mæðraverndinni. En það reynir hins vegar mikið meira á samstarfsvilja heimilislækna sem mest mæðir á „án ábyrgðar“ og hinni endanlegu læknisfræðilegu ábyrgð þegar vandræðin virkilega banka upp á.

Í yfirlýsingu frá Læknafélagi Íslandi frá því fyrir rúmlega ári síðan kemur vel fram hvað fellst í námi heimilislæknis sem með grunnnámi tekur allt að 12-14 ár. Kvensjúkdóma- og meðgöngufræðin þar á meðal. Læknadeild HÍ hefur reynt að sinna grunnmenntun lækna og síðan er sérfræðinám lækna skipulagt eftir alþjóðlegum viðmiðum í hinum ýmsu löndum. Sömu kröfur hafa hingað til verið gerðar hér og annars staðar í hinum vestræna heimi. Nú er hins vegar öldin önnur á Íslandi og hjúkrunarfræðingar og ljósmæður látnar leysa  af hólmi í vaxandi mæli starf heimilislæknisins.

Samkvæmt íslenskum lögum eiga allir rétt á bestu læknisfræðilegu hjálp sem völ er á hverju sinni. Skipulag læknisþjónustunnar hér á landi hefur tekið mið að því markmiði að skapa heilsteypta þjónustu á öllum sérsviðum læknisfræðinnar, þar sem engin sérgrein er annarri sérgrein mikilvægari. Heilsugæslan sinnir þannig frumheilsugæslunni,  þar sem skjólstæðingurinn vill og á gjarnan að fá að hitta sinn heimilislækni. Ungir sem aldnir, strákar og stelpur. Ekki síst þegar um viðkvæmustu stundir lífsins er að ræða og framtíðarviðhorfin eru oft ómótuð.

Er virkilega verið að bæta heilsu barna og ungra kvenna?  Viðtal um nýtt frumvarp heilbrigðisráðherra sem veitir hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum rétt til að ávísa hormónalyfjum til getnaðarvarna. Bylgjan, Í bítið 14.3.2012

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 9.3.2012 - 11:13 - FB ummæli ()

Gullmolarnir í skjóðunni

Loks er kominn mars, sem í mínum huga boðar vorið framundan og haldið er upp á með sólarkaffi á mínum bæ. Í þriðja sinn er nú hvatt til árvekni gegn einu algengasta krabbameini karla, krabbameini í eistum, með „mottumarsinum“ svokallaða. Gegn krabbameini sem aðeins að hluta tengist lífsstíl okkar karlanna eins og flest önnur krabbamein annars gera. Því er enginn óhultur. Áminning um nauðsyn þess að sýna líkamanum ávalt árvekni um leið og við marserum gegnum lífið á eins heilbrigðan hátt og kostur er.

Eftir því sem aldurinn færist yfir, verða krabbameinin og leitin að þeim fyrirferðameiri í lífi hvers og eins. Staðreynd sem við fáum ekki breytt. Sem greinast eftir ítarlegar rannsóknir vegna tilefna og einkenna hverju sinni eða með kembileit hjá einkennalausum eins og á Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands. Þegar ákveðin krabbamein eru það algeng en um leið þögul að leit hjá einkennalausum réttlæta slíka aðgerð og sem að öðrum kosti væri of kostnaðarsamt inngrip fyrir þjóðfélagið. Jafnvel gefið falskt öryggi og leitt okkur af veg, eins og þegar um algengasta krabbamein karla er að ræða, blöðruhálskirtilskrabbameinið, og PSA leit í blóði allra karla. Eins hugsanlega dregið úr eigin árvekni og hvata til nauðsynlegra lífstílsbreytinga sem blasa við. Kembileitin sem Krabbameinsfélagið býður upp á, reynir hins vegar að sameina alla góðu kostina í leit að alvarlegum krabbameinum. Hún hvetur til árvekni um leið og félagið aðstoðar konur að finna algeng krabbamein sem þær geta ekki fundið sjálfar og mestu máli skiptir að finna sem fyrst.

Afar mikilvægt er að tengja eins fljótt og kostur er áhættulíferni við áhættuna á að fá þá sjúkdóma sem við viljum alltaf vera laus við. Reyklaust umhverfi, góða hreyfingu, hollt mataræði og jafnvel bólusetningar eins og t.d. gegn leghálskrabbameini. Við ráðum ferðinni furðu mikið sjálf og skilaboðin hvað er hollt og gott skipa heiðurssætið í orðum okkar og athöfnum í heilsugæslunni. Reykingar ungs fólks er til að mynda skýrt dæmi um hegðun sem aldrei má láta fara forgörðum að takast á við og tengja jafnvel vægustu einkennum reykingasjúkdómsins, hóstanum, og þá miklu áhættu sem að baki býr þegar árin líða og hóstinn verður jafnvel blóðugur. Þetta heitir fyrstastigs forvörn og tengist flestum nútímasjúkdómum okkar mannanna. Jafnvel tilbúnum og ásköpuðum sjúkdómum sem villa okkur sýn í dag og við vitum ekki hvernig við eigum að höndla og þreyfa. Eins og t.d. hjá þúsundum kvenna á Íslandi með sílikonpoka í brjóstunum.

Árlega greinast hátt í áttahundruð karlar með allskonar krabbamein á Íslandi og tæplega þriðjungur deyr af þeirra völdum. Rannsóknir sýna að lækka má þessa tölu um þriðjung ef tímalega er gripið í tauminn og sem mottumarsinn sem átak er sérstaklega tileinkað. Skilaboðin verða varla skýrari. Á sama hátt og hnútur í brjósti konu skilyrðist í fingrum hennar við reglubundna og fumlausa leit í náttúrulegum brjóstum. Áminning um að vera ábyrg fyrir lífi okkar og limum, hver sem marsinn er, hvar og hvenær sem er.

Og þótt krabbameinsmeðferðir eru yfirleitt alltaf á höndum sérfræðinga á mismunandi sviðum læknisfræðinnar, ekki síst krabbameinslækna, er stuðningur heimilislækna og annars heilbrigðisstarfsfólks alltaf mikilvægur og jafnvel hluti af batanum. Eftirmeðferðin litast síðan af sterkri varnarsókn, þar sem lífstíllinn og stuðningur við krabbameinssjúklinginn eru sterkustu vopnin.

Á einstakan hátt hefur nú verið hægt að gera viðkvæmt og sjálflægt feimnismál að opinskáu umræðuefni, þar sem flestir sýna viðfanginu áhuga og skilning, ræða hispurslaust og hafa gaman af. Að safna „mottu“ er þannig merki um samstöðu, karlmennsku og að geta haft húmor fyrir sjálfum sér. Sú samstaða hefur nú aftur brotið ísinn og jafnvel feimnustu menn sjá sér færi, sem annars hefði ekki orðið, að takast á við sameiginlegann óvin. Verst að þjóðfélagið skuli hafa nú skilið brjóstapúðakonurnar eftir í vetrarhretinu og kuldanum og sem óneytanlega spillir ánægjunni af okkar sameiginlega marsi þetta árið. Því auðvitað viljum við konunum fyrst og fremst það allra besta.

Mottumarsinn er engu að síður frábærlega vel heppnuð vakning í hópi sem kallast sterkara kynið og hefur seint viljað játað sig sigrað. Nú er bara að sjá hvaða einstaklingar sigra í herferðinni í ár. Gleymum því ekki gullmolunum okkar tveimur, í okkar skjóðum karlar.

Mottumars og hlutverk heilsugæslunnar í forvörnum. Sérblað í Fréttatímanum í dag, 9.3.2012

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 1.3.2012 - 08:02 - FB ummæli ()

Nýtt og flókið heilbrigðisvandamál meðal þúsunda kvenna á Íslandi

Fáir efast um alvarleika PIP (Poly Implant Prothese) málsins svokallaða, ísetningu gallaðra og jafnvel eitraðara íhluta í tæplega 450 íslenskar konur á besta aldri. Brjóstapúða sem vega hátt í eitt prósent af þyngd hverrar konu og sem leka getið um líkama þeirra, skemmt líffæri, vöðva og sogæðakerfið. Vandamálið endurspeglar samt sennilega aðeins toppinn á ísjaknum, þótt vissulega leki PIP púðarnir meira en aðrir púðar og sílíkonið er iðnaðarsílikon. Vandamál sem er bundið í eðli sínu við þúsundir kvenna á Íslandi með allskonar gerðir af brjóstapúðum og sem stundum eru lítið skárri en PIP púðarnir illræmdu.

Púðar sem í stað þess að leka í allt að 80 prósent tilvika, leka í allt að 20 prósenta tilvika á innan við áratug og sem geta valdið margvíslegum skemmdum á líkamanum. Allskonar tegundir undir mismunandi heitum og gerðum. Eins margra áratugagamlir saltvatnspúðar sem enginn hefur sinnt um og jafnvel konurnar sjálfar hættar að hugsa um þrátt fyrir allskonar óljós óþægindi og einkenni.

Af gefnu tilefni, og sem vel skiljanlegt er í ljósi umræðunnar, hefur fjöldi kvenna af þeim þúsundum sem bera slíka púða haft samband við Krabbameinsfélagið vegna áhyggja af heilsuskaða sem þær jafnvel þegar hafa orðið fyrir. Sem óska eftir ómskoðun sem fyrst af brjóstunum til að útiloka leka sem þó er sjaldnast er þó alveg hægt að útiloka með þeirri rannsókn einni saman. Þar sem enginn getur séð tæringuna á skelinni og þaðan af síður heyrt grátinn í brjóstum kvennanna frá púðunum. Krabbameinsfélagið hefur því óskað eftir að Landlæknir skapi verklagsreglur hvernig eftirlitinu skulið háttað fyrir heilsugæsluna og fram kom í nýju bréfi frá yfirlækni leitarsviðs Krabbmeinsfélagsins í gær.

…..“Ef tryggja á að allar konur með sílikonpúða hafi jafnan rétt til greiningar á mögulegum leka er brýnt að landlæknir gefi út nánari tilmæli til lýtalækna og heimilislækna varðandi eftirlit með konum sem hafa fengið brjóstapúða með hefðbundnu sílikoni. Tekið skal fram að slíkt eftirlit er utan við verksvið starfsemi Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins“ .

Enginn veit hins vegar hvað konurnar eru í raun  margar og hvaða tegundir af brjóstapúðum hver og ein ber, nema auðvitað lýtalæknarnir sem settu púðana í, í upphafi. Þó er vitað af fjöldi brjóstapúðaísetninga hefur farið upp í hátt í þúsund á ári sl. ár og að konurnar hljóti því að skipta þúsundum og sennilega fylla tuginn í prósentu talið fyrir ákveðna aldurshópa. Afar brýnt er því að kallað sé eftir nákvæmum upplýsingum sem allra fyrst til að kortleggja vandann sem heilbrigðiskerfið þarf að takast á við á næstunni. Á hvaða aldri í lífi konunnar, fjölda ára frá aðgerð, barneignir og brjóstagjafir með púða í brjóstum, hvernig eftirliti með púðunum hefur verið háttað hingað til og hvernig eftirlitinu verður háttað í framtíðinni. Ákvörðunin að landlæknir fái að kalla eftir þessum upplýsingum strandar hins vegar nú í bili hjá sjálfri, Pesónuverndinni!

Það versta við þetta allt saman er að vandinn er miklu stærri ef litið er til allra hugsanlegra aukaverkana af lekum púðum og sem best hefur komið fram í þeim læknaskýrslum sem þegar liggja fyrir um skaða kvenna sem leitað hafa eftir sérfræðingsáliti erlendis frá og greint var frá í síðasta pistli. Margar aðrar konur eru nú hins vegar farnar að leita til heilsugæslunnar vegna óljósra einkenna vegna umræðunnar einnar saman. Jafnvel sem staðið hafa yfir í um árabil, en enginn hirti um að spyrja hvort tengdust hugsanlegu leyndarmáli, brjóstapúðaígræslu löngu áður og sem átti að hafa verið svo saklaust inngrip á sínum tíma. Að ekki sé talað um verki og síþreytu og allskonar einkenni sem oftast á sér þó saklausari skýringar, en sem erfitt er að útiloka að tengist ekki hugsanlegum bólgum og sýkingum með aðskotahlutum í þvílíku magni sem brjóstapúðar eru. Jafnvel sem veldur óöryggi með greiningu á krabbameinum með stækkuðum og hörðum eitlum. Sem vekur upp spurningar um blóðprufur í leit að eiturefnum og allskonar breytingum í blóðmynd. Jafnvel allsherjar líkamsskönn til að sjá hvert allt sílíkonið hefur farið.

Stóra spurningin er því nú í mínum huga, hvernig í ósköpunum á heilsugæslan að rannsaka allar konurnar með hugsanlega leka brjóstapúða, í óljósu magni, af ólíkum gerðum, og óljósum tegundum? Nú, eins og í svo mörgu öðru, verðum við að fara að skrifa söguna upp á nýtt. Heilbrigðissaga þjóðarinnar hefur fengið nýjan og ekki að fullu skrifaðan kafla. Læknisfræðin er orðin önnur.

http://blog.eyjan.is/vilhjalmurari/2012/02/27/vonsviknar-konur-og-brostnir-brjoststrengir/

ihttp://blog.eyjan.is/vilhjalmurari/2012/02/14/hvad-eru-ungar-stulkur-ad-hugsa-i-dag/

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 27.2.2012 - 11:54 - FB ummæli ()

Vonsviknar konur og brostnir brjóststrengir

Alltaf er betur að koma fram hvað illa hefur verið staðið að eftirliti með ígræddum brjóstafyllingum hjá konum síðustu áratugina og jafnvel löngum litið framhjá hvort þeir séu farnir að leka. Jafnvel Krabbameinsfélagið taldi ekki í sínum verkahring að kanna ástandið, þegar ítarleg skoðun fór fram með ómskoðun af brjóstum og aðeins leitað að því allra versta, krabbameininu. Hjá konum sem þó gengu öruggar og ánægðar af þeim fundi, fullvissar um að allt væri í lagi. Af tilefni af alvarleika og hvað hægt miðar í brjótapúðamálinu öllu á Íslandi, í raun hvað við flest höfum látið okkur málið lítið varða, jafnvel sumir fjölmiðlar, langar mig að minna á orð skáldsins Einars Benediktssonar úr ljóði, Einræðum Starkaðar, sem ónefnd kona sendi mér sem innlegg í umræðuna og sem gott er að hafa í huga nú þótt tilefnið upphaflega með orðunum hafi verið allt annað og e.t.v. meira þess tíma tákn þegar við vorum betri hvort við annað.

„..Svo oft leynist strengur í brjósti sem brast
við biturt andsvar gefið án sakar.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast
sem aldrei verður tekið til baka.

Konunnar sem lauk athugasemdinni með orðunum. „Stöndum saman, þú veist ekki hvenær þú þarft á samfélaginu þínu að halda.“

Smá saman er að koma í ljós að margar aðrar tegundir en PIP (Poly Implant Prothese) brjóstapúðarnir eru mismunandi af gæðum, vörur í mannslíkamann undir mismunandi vöruheitum. Kanadískur brjóstapúðasérfræðingur, Dr. Pierre Blais, hefur bent á í skýrslu sem ég er með undir höndum, að allir læknar í Evrópu verði að vera sér vel meðvitandi um hættuna sem hlotist getur af lélegum brjóstapúðum. Um suma púðana er vitað að voru upphaflega undir frumheitinu illræmda, PIP eins og t.d. M-implants og þúsundir evrópskra kvenna bera í dag, en sem ekki er vitað á þessarri stundu hvort notaðir hafi verið hér á landi. Eurosilicone og Nagor brjóstapúðar liggja einnig undir grun að vera engu betri en PIP púðarnir að mati Dr. Blais og sumir púðar sem eru enn í sölu eru meira en 10 ára gamlir t.d. Inamed. Brjóstapúðar frá Laboratoire Sebbin (Frakklandi), Perouse (Frakklandi), Polytech Silimed (Þýskalandi), PMT (US), Donisis (Kína) and Silimed (Brasilíu) liggja líka allir undir grun að vera undir nútíma gæðastöðlum.

Svartamarkaðsbrask miðlara um alla Evrópu kemur líka við sögu og kaup á púðum gegnum netið geta verið varasöm viðskipti. Eins og áður segir getur stundum verið um að ræða gamla lagervöru og púðarnir seldir sem nýir væru. Eins undir öðrum heitum og jafnvel fylltir með óþekktu iðnaðarsíliconi og öðrum efnum eins og voru í PIP púðunum, auk þess sem efnin í skelinni sjáfri geta verið stórvarasöm í líkamanum til lengdar. Skel sem skorpnar upp og verður hlandgul með tímanum og plast og gúmíefnin sem harðna, tærast upp og leka síðan eða gráta sílikoninu um líkamann. Jafnvel þannig að megnið að innihaldi púðanna hverfur án þess að sýnilegt rof hafi orðið á skelinni. En eitt er víst, efnin hverfa ekki eða gufa bara upp. Þau fara annað og safnast upp í líkamanum öllum.

Lýsingar á allt að 10 cm löngum eitlum, fylltir af sílikoni, uppsöfnuðu sílíkoni sem er líka eins og tyggjóklessur í líffærum og milli rifja. Sílikoni sem veldur miklum bólgubreytingum og eyðileggingu á vefum og vöðvum með tímanum og jafnvel lífshættulegum sýkingum þegar um framandi aðskotahluti er að ræða í líkamanum, jafnvel hundruðir gramma. Allt sýnilegar breytingar, jafnvel stundum eins og í hryllingsmynd, en þar sem eituráhrif uppleystu efnanna sjást hins vegar ekki, en sem allir geta svo auðveldlega ímyndað sér. Sem líka tengist einu stærsta lögmáli eiturefnafræðinnar sem eru aukin áhrif með með auknu magni efna, efna sem ekki endilega eru bráðdrepandi í eðli sínu í örmagni. Meðal hundruða, ef ekki þúsunda íslenskra kvenna og milljóna kvenna um heim allan. Heilbrigðishneyksli aldarinnar sem allir eiga svo erfitt með að horfast í augun við, enda erfitt að vera vitur eftir á.

Lestur erlendra læknaskýrslna um íslenskar konur er lýginni líkust. Lýsingarnar eru stundum eins þær eigi við hermenn sem hlotið hafa sprengjusár. Þar sem ráðlagt er að leita sérþekkingar herlækna sem endurhæfa fórnarlömb stríðsátaka. Endurhæfingalækna og sjúkraþjálfa sem sérhæfa sig í endurhæfingu fólks eftir langvarandi efnaskaða og eitranir. Konur á mismunandi aldri á Íslandi. Jafnvel er talin ástæða til að rannsaka börn mæðra þar sem brjóstapúðarnir láku þegar börnin fengu mjólk úr brjósti þeirra. Til að leita að þungmálmum í lífsýnum auk annarra mögulegra eiturefna. Þarf að segja nokkuð meira….bara möguleikinn fær mann til að svitna.

Á sama tíma fær ekki einu sinni landlæknir, yfirmaður lýðheilsunnar að vita hvaða konur eru nú í mestri hættu og málið látið liggja á borði Persónuverndar til heilabrota. En hvort skyldi vega þyngra, þau sjónarmið eða lýðheilsusjónarmiðin? Hvað eru konurnar margar, hvaða gerðir af brjóstapúðum eru þær með og hvenær í lífi kvennanna þær fengu brjóstapúðana sína? Allt upplýsingar sem gætu lotið að hátt í tug prósenta ungra kvenna og heilsu þeirra ef svörtustu spár reyndast réttar. Hvernig hefur verið staðið að þessum málum almennt á Íslandi sl. áratugi? Eins er að koma í ljós að margar konur eru með allt of gamla púða,  jafnvel yfir þrjátíu ára gamla sem fylltir voru með saltvatni á sínum tíma. Margir þessara púða eru löngu úr sér gengnir, sprungnir og jafnvel tómir. Sumir fylltir allskonar gróðri sem ekki á heldur heima í líkamanum við venjulegar aðstæður. Út með þetta allt sem fyrst, kvennanna og okkar allra vegna.

http://bleikt.pressan.is/lesa/krabbamein-og-silikon-er-erfidara-ad-leita-ad-hnutum-i-silikonbrjostum/ 25.10.2012

http://ruv.is/frett/vilja-stodva-brjostapudatilbod, 29.02.2012

Fyrri lesning um brjóstapúðamálið á blogginu:

Brjóstastækkun á Stöð2 26.2.2010

Brjóstvitið í upphafi árs 2.1.2012

Falinn sannleikur í 20 ár 6.1.2012

Meira um PIP iðnaðinn og konulíkamann 14.1.2012

Erum við brjóstgóð þjóð? 24.1.2012

Gúmíbirnir og „sæt brjóst“ 9.2.2012

Hvað eru ungar stúlkur að hugsa í dag? 14.2.2012

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 23.2.2012 - 12:18 - FB ummæli ()

Halldór Fannar

Halldór Fannar (f. 28.apríl 1948), tannlæknir og kennari við tannlæknadeild Háskóla Íslands til marga ára varð bráðkvaddur 15. febrúar síðastliðinn, aðeins 63 ára að aldri. Hann verður jarðsunginn frá Hallgrímskirkju á morgun.

Halldór var mikill mannvinur og gleðigjafi sem var nátengdur fjölskyldu minni og tannlæknir margra ættingja sinna og vina. Það kólnaði snögglega í hjartarótunum þann morgun sem fréttirnar bárust af fráfalli hans. Sársaukinn var nístingskaldur. Sorgin var líka mikil hjá yngra fólkinu og hann hafði annast svo vel, þegar það fékk loks fréttirnar. Af góðum frænda og tannlækni sem skyndilega var horfinn af jarðneskri braut. Það er ekki sjálfsagt að geta sameinað þetta tvennt eins vel og Halldór gerði. Þegar tengslin reyna á alla þætti mannlegra samskipta, faglegra jafnt sem fjölskyldulegra. Frásögurnar í mínum huga eru líka ófáar gegnum tíðina, alveg eins og faglegu handtökin í mínum munni, þegar maður sat í stólnum og var algerlega á hans bandi.

Á laugardaginn fórum við hjónin með gönguhópnum okkar í langa göngu á fjallið okkar, Esjuna. Í töluverðu frosti en yndislegu veðri. Halldór var stöðugt í huga mínum í göngunni, þótt hann tilheyrði aldrei þessum ákveðna hóp og gönguleiðin væri ný og framandi. Gamlar endurminningar streymdu fram, en með öðrum blæ en síðustu dagana á undan. Meðal annars þegar ég og konan mín gengum með honum einum fyrir mörgum árum, á hlýjum sumardegi um Stórurð undir Dyrfjöllum, upp af landi Sandbrekku í Hjaltastaðaþinghá . Nú var frost og kuldi í nýjum heimi upp af Eilífsdal. Þar sem fönn lá yfir fjöllunum og dalnum. Fannir upp í efstu kletta og nafnið Fannar fékk á sig skýra og lifandi mynd.

Fegurð náttúrunnar er stundum slík að það er eins og hún sé okkur mannfólkinu einu ætluð, á hvað árstíma sem er og hvar sem er. Rætur Halldórs lágu að mörgu leiti austur á Héraði, þar sem margar góðar sögur hafa orðið til. Halldór var enda mikill útivistarmaður og veiðimaður, sem unni landinu sínu og því sem það gaf af sér. Meðal annars á gæsaveiðum í frændgarðinum á Sandbrekku. Þar sem nýlega er fallin frá góður vinur hans og frændi, Geirmundur Þorsteinsson, bóndi, bróðir tengdamóður minnar Jóhönnu, og sem alltaf var svo gott heim að sækja.

Á ættarmótum var Halldór hrókur alls fagnaðar, með gítarinn sinn í hönd. Listamaður sem kom öllum í kringum sig í gott skap um leið og hann tók lagið með hárri rausn. Hæfileikar á því svið leyndu sér ekki enda var hann einn af stofnendum Río Tríó sem glatt hefur alla þjóð síðan, þótt sjálfur hafi hann orðið að hætta snemma í hljómsveitinni vegna anna og náms. Tóninn leyndi sér þó aldrei hjá Halldóri og hann hélt ávalt tryggðarböndum við gömlu félagana sína. Stutt er hins vegar síðan hann kvaddi þar æskufélaga frá því í Kópavogi í gamla daga, Ólaf Þórðarson, tónlistarmann. Sennilega gat Halldór ekki grunað hvað stutt væri á vinafund við áðurnefnda tvo góðvini sína, handan móðunnar miklu og sem hann hafði kvatt svo vel í vetur.

Okkar sameiginlga æviganga hefur staðið yfir í tæpa fjóra áratugi. Þótt tennurnar sem hann annaðist vel séu ennþá hvítar, og tanngarðarnir minni stundum á skörðótt og tindótt fjöll í mínum munni, eru tennur ekki það sem maður hugsar mest um á tímum sem þessum. Á gönguferð um fjöllin. Sá samanburður skaut þó engu að síður upp kollinum þegar kulið kom á vangann í þetta sinn. Fjallgangan á laugardaginn var engu að síður einstök. Nýtt útsýni á eins og gamalkunnum slóðum. Í vetraríki fjallanna á Íslandi. Þegar maður lét sig líka dreyma um hlýju og græna litinn að vori, um leið og meðan maður naut klakabrynjunnar og allra svellbungnanna. Snjódrífunnar og allra fannanna um stundarsakir, enda ekkert annað í boði. Sem minnir okkur á úr hverju við erum gerð, þrátt fyrir allt og að veturinn er jafn sjálfsagður og sumarið. Bestu kveðjur vinur og innilegar samúðarkveðjur til barnanna þinna, móður og allra þinna nánustu ættingja og vina.

 

 

Flokkar: Óflokkað · Vinir og fjölskylda

Þriðjudagur 14.2.2012 - 11:56 - FB ummæli ()

Hvað eru ungar stúlkur að hugsa í dag?

Brjóstapúðamálið svokallaða frá áramótum  sem að mestu er bundið við PIP púðana illræmdu, hefur einkennst af undanbrögðum hverskonar frá sannleika og alvarleika málsins og að vissu leiti máttlausum vörnum heilbrigðisyfirvalda, hérlendis og erlendis á öllu ábyrgðaleysinu um áraraðir. Sem nú birtist í mikilli reiði og heift í garð lækna í opinberri umræðu. Reynt var að láta líta út eins og að lekatíðnin væri ekki svo mikil og í stað þess að líta á heildarlekatíðni yfir nokkur ár (sem reynist allt að 80%) og þekktar síðkomnar afleiðingar, að þá var nær eingöngu litið á lekatíðni á púðunum á hverju einstöku ári sem auðvitað er miklu lægri tala enda bera konunrar púðana jafnvel í áratugi. Léleg stærðfræði það eða undanbrögð. Síðar hefur svo komið í ljós að ýmsar aðrar gerðir eru lítið betri en PIP púðarnir, leka oft og jafnvel líka fylltir iðnaðarsílikoni. Allt meðferðir og aukaverkanir sem yrðu aldrei nokkurn tíman liðið ef um lyfjameðferðir væru að ræða innan læknisfræðinnar.

Íslenskar ungar konur hafa greinilega farið miklar offarir í að fá brjóstapúða undir húð og vöðva, ekki síst ef miðað er við uppgefnar tíðnitölur hjá nágranaþjóðunum. Jafnvel þótt aðeins sé miðað við áætlaðar tölur, er vandinn margfalt meiri hér á landi. En upplýsingum um aðgerðirnar er ennþá haldið leyndum meðal íslenskra lýtalækna vegna trúnaðarskyldu við konurnar og málið nú á borði Persónuverndar. Ef málið sneri ekki að lýðheilsuvanda þúsunda óupplýstra kvenna væri kannski ekki svo mikið um málið að segja, enda völdu konurnar þetta sjálfar, eða hvað?

Hjá allt að 5% ungra kvenna í dag á Íslandi og sem nú eru sumar farnar að eldast aðeins og ef verstu spár um fjöldann reynast sannar. Þar sem illa var staðið  að upplýsingum um áhættur sem fylgdu aðgerðunum, ekki síst til lengri tíma litið og myndir af gömlum púðum sýna svo vel í dag. Hver einasti púði er líka aðskotahlutur í líkamanum, hvað þá tveir, sem vega um 1% af líkamsþyngd kvennanna. Sem sannað er að stóreykur líkur á lífshættulegum sýkingum. Að við, ekki síst heilbrigðisstarfsfólk skulum ekki hafa staðið okkur betur í upplýstri umræðu er auðvitað hneyksli. Og að þörfin hafi ekki verið betur metin í hverju einstöku tilviki í lífi allra þessara kvenna. Jafnvel þótt Landlæknisembættið hafi fyrir sitt leiti gefið út upplýsingabækkling um brjóstastækkanir 2002. Ekki er þó síst minni þörf á umræðu nú þegar vitað er að iðnaðarsílikon og annað sílikon flæðir um vessakerfi kvenna á Íslandi, stíflar kirtla og eitla og límist eins og tyggjóklessur milli vöðva og í og á ýmsum lífærum. Þar sem enginn veit hve alvarleg langtímaáhrifin verða þegar upp er staðið, en allir getað ímyndað sér svo vel.

En hver er þá staðan í dag? Hvað ráðleggjum við ungum konum með falleg en ef til vill ekki stór brjóst? Hver er ábyrgð fjölmiðla sem kynna brjóstastækkanir fyrir stúlkum og ungum konum eins og sjálfsagðan hlut og Stöð 2 gerði í Íslandi í dag fyrir aðeins tveimur árum síðan? Þar sem hvatt var til aðgerða hjá ungum konum strax eftir fyrsta barn og þegar útlit brjóstanna hafði tekið náttúrulegum breytingum eftir brjóstagjöf. Þar sem sjálfsímynd íslenskra kvenna var frekar rifin niður en styrkt og að konur þyrftu að líta eins út eins og fegurðardísir á 18 ári, allt öðruvísi en skaparinn ætlaðist til.

Hver er upplýsingaskylda heilbrigðisyfirvalda nú og að tekið sé á heildarvandanum sem blasir við  meðan vitleysan heldur áfram? Siðferðisþróunar í þjóðfélaginu sem smá saman leiðir til verri heilsu og verri sjálfsímyndar kvenna og okkar allra þegar upp er staðið. Nú þegar sannleikurinn og raunveruleikinn blasir ískaldur við, eins og hann gerir nú í brjóstapúðamálinu öllu á Íslandi. Samfélagslegt heilbrigðisvandamál sem mun kosta milljarða að lækna auk þess sem íslensku konurnar verða aldrei þær sömu aftur. Þó ekki síst hvernig við ætlum að standa vörð um heilsu ungra stúlkna í dag og sem nú fylgjast með umræðunni með stórum augum, en af veikum mætti. Sem jafnvel aðeins trúa því að til séu betri púðar en PIP púðarnir, eins og t.d. Gúmíbjarnapúðarnir eða bandarískir púðar sem aðeins leka í um 1.6% tilfella á 6 árum og lesa mátti í mogganum í morgun (hver sem vill trúa því). En hver ætlar að tala við stúlkurnar og hvar og hvenær eiga þær að fá að heyra allan sannleikann um talnaleikinn ljóta sem að baki býr?

Viðtal, Í bítið á Bylgunni, 20.2.2012

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn