Miðvikudagur 22.9.2010 - 00:01 - FB ummæli ()

Hvar í forgangsröðun ríkisstjórnarinnar stendur heilbrigðisþjónusta við börn?

Nú heyrir maður kröfu um enn meiri niðurskurð á heilsugæslunni ofan á allan annan niðurskurð sl. 2 ár eins og greint var frá í bloggi mínu nýlega um sameiningu heilsugæslustöðva og að fjárvana bæjarfélög taki aftur ábyrgð á heilbrigðisþjónustunni. Sameining heilsugæslutöðva er reyndar fáránleg ráðstöfun sem ræðst gegn aðgengilegri þjónustu og skilar engu nema litlum stjórnunarlegum sparnaði en heilsugæslunni er nú  þegar að mestu leiti stjórnað af stjórnsýslu heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH). Vinnan og þjónusta við skjólstæðinga heilsugæslunnar fer hins vegar fram á stöðvunum sjálfum, vöktum og yfirfullum sjúkrahúsum.

Mikil vöntun er á heimilislæknaþjónustu. Ekki er óalgengt að hver heimilislæknar þurfi að sinna 4-5000 manns og tugþúsundir vantar sinn eigin heimilislækni. Tímaframboð er af skornum skammti á höfuðborgarsvæðinu og flestum bráðum erindum er sinnt á vöktum. Vöktum fylgir mikill kostnaður, ekki síst í ótímabærum úrræðum og ónauðsynlegum innlögnum á yfirfullar bráðmóttökur sjúkrahúsanna. Nú er svo komið að heimilislæknar geta ekki einu sinni farið eftir nútíma klínískum leiðbeiningum þar sem ætlast er til að fyrsti viðkomustaður sé hjá heimilislækni sem fylgir vandamálunum eftir en leita alltaf bráðalausnar eins og t.d. með lyfjum. Þannig má einmitt oft komast hjá oft óþarfa lyfjagjöfum og rannsóknakostnaði. Alvarlegast er svo þegar lyf eru ofnotuð í þeim mæli að þau hætta að virka þegar mest á reynir og kostnaður þjóðfélagsins vegna lyfja og rannsókna er orðinn óheyrilegur.

Um 25% af öllum erindum til heilsugæslulækna er vegna loftvegasýkinga og eyrnabólgu barna. Yfir helmingur af öllum komum barna til lækna vegna veikinda er vegna miðeyrnabólgu. Flest þessara erinda eru nú afgreidd á skyndivöktum, að mestum hluta þar sem heilsugæslan nær ekki að anna þessum erindum á daginn. Nær helmingi meiri sýklalyfjanotkun í Reykjavík samanborið við Akureyri sýnir þennan mun vel og eins miklu meira sýklalyfjaónæmi helstu sýkingarvalda barna. Nota þarf orðið hæstu skammta af sýklalyfjum þegar meðhöndla þarf alvarlegar sýkingar barna á höfuðborgarsvæðinu og nægir ekki einu sinni alltaf. Um algjört einsdæmi er að ræða ef litið er til Norðurlandanna í heild og jafnvel allrar í norður-Evrópu.

Börn fá ekki sömu þjónustu og fullorðnir fá með sín vandamál. Börn fá ekki heilsugæsluþjónustu fyrir sín veikindi. Í algjört óefni er komið og ráðamenn hafa forðast að horfa í augu vandans þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar. Börnin eiga sér engan ákveðinn málsvara og foreldrar ungbarna eru oft í erfiðri stöðu og eiga í raun fullt í fangi með að láta bara enda ná saman. Þjónusta á kvöldin á skyndimóttökum er því oft kærkomið tækifæri til að þjónusta börnin. Er þetta fyrirkomulag á heilbrigðisþjónustunni á höfuðborgarsvæðinu, sem mikið frekar hefði þurft að byggja upp til að ná þjóðhagslegum ávinningi, stefna heilbrigðisyfirvalda í dag? Nýjustu áformin um frekari niðurskurð á heilsugæsluþjónustunni benda að minnsta kosti til að börnin verði látin mæta afgangi enn einu sinni.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 19.9.2010 - 11:37 - FB ummæli ()

Sódóma Ísland

Ef við værum uppi á tímum gamla testamentisins væri gaman að ímynda sér hvað skaparinn myndi gera við okkur. Hann eyddi Sódómu og fleiri borgum vegna synda mannanna hér forðum. Aðeins þeir syndlausu áttu að geta bjargað borginni en sem að lokum reyndist aðeins vera einn maður. Hann fékk að sleppa með dætur sínar og eiginkonu. Svo segir a.m.k. Biblían í Mósesbók. Og hverjar skyldu syndirnar svo hafa verið?

Oft hugsar maður hvað guð dæmdi grimmt í þá daga og að hann hafi þurft að eyða heilu borgunum til að sinna réttlætinu og það stuttu eftir að hafa eytt öllu lífi á jörðu ef undan eru skildir farþegar sem komust af með örkinni hans Nóa. Í dag eru háð stríð um allan heim og fátækt og hungursneið ríkir víða vegna ójöfnuðar okkar mannanna. Þeir ríku eru alltaf að verða ríkari og þeir fátæku fátækari. En það eru tímamót. Flóðgáttir eru nú að opnast þar sem fullorðið fólk þorir nú loks að koma fram og segja alla sína sögu um ofbeldið  í æsku, beiskleika og vonsku okkar mannanna. Þökk sé konunum sem risu upp og þorðu að segja fá sínum sárustu leyndarmálum sem þær ætluðu annars með sér í gröfina.

Fréttablaðið, blað allra landsmanna, segir frá því í gær að umræða undanfarnar vikur hafi leitt til þess að nú liggi straumur eldra fólks til Stígamóta. Þetta fólk vill segja frá kynferðisbrotum, sem áttu sér stað fyrir löngu og hafa verið þögguð niður, meðal annars í skjóli embættisvalds. „Það er eins og fólki sé að detta í hug í fyrsta skipti að það geti átt rétt á uppreisn æru“ er haft eftir Guðrún Jónsdóttir hjá samtökunum en þessa daganna er á þriðju viku bið eftir viðtali við ráðgjafanna. Sjálfri kirkjunni var ekki treystandi fyrir þessa sálarhuggun. Lífið er samt sannleikurinn, nokkuð sem kirkjan ætti að hafa hugfast þessa daganna.

Í Reykjavík situr Alþingið og þar eru dómstólarnir. Kallað er eftir Salómonsdómum, hægri, vinstri. Þar verða ráðamenn væntanlega dregnir fyrir dóm. Þar eru líka bankarnir og lánafyrirtækin. Þar er sjálfur Seðlabankinn, æðsta musterið, sem öllum hefur verið sem lokuð véfrétt og sem fékk að stundað sína svartagaldra í friði. Kvikmyndin Sódóma Reykjavík (1992) sýndi auðvitað aðeins barnaleik í samanburði við þann raunveruleika sem átti eftir að koma.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · kirkjan · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 18.9.2010 - 01:52 - FB ummæli ()

Tóm og kyrrð

emptiness1Oft getur þögnin verið þægileg. Helst ef maður getur lokað augunum og látið hugann reika. Síðan dettur maður inn draumalandið og hugurinn endurnærist. Sennilega mest af þeim draumum sem aldrei ná að verða einu sinni til. En síðan vaknar maður hress og endurnærður.

Á göngu minni í dag í einstaklega góðu síðsumarsveðri hrökk ég við. Það var eins og ég gengi í svefni. Samt skein sól á heiði, dagurinn einstaklega bjartur og fagur. Það var grafarþögn. Þrúgandi þögn á miðjum degi. Það vantaði öll hljóð í náttúrunna. Allir fuglar þagnaðir. Ekkert kvak eða tíst. Enginn fuglaþytur og Hamrahlíðarbjörgin algjörlega þögnuð eins og hendi hefði verið veifað. Í raun var engan fugl að sjá. Ekki einu sinni gæsir í háloftunum. Vargurinn sem hafði lagt undir sig holtin farinn. Nátttúran eitthvað svo varnarlaus og dauð. Mér fannst eins og þessi þrúgandi þögnin boðaði eitthvað ekki gott. Svo fór ég að hugsa. Að vísu er sumarið búið og vetur á næsta leiti. En veturinn hefur aldrei verið slæmur í mínum huga. En þá varð mér hugsað til þjóðmálanna.

Sumarið hefur verið mjög sérstakt og óútreiknalegt fyrir marga hluta sakir. Veðrið reyndar einstaklega gott og sem maður hefur notið í hvívetna. Endurtekið hef ég hugsað hvað það sé gott, þrátt fyrir allt, að búa á þessu landi elds og ísa. Og guði sé lof, svörtustu spár um ný móðuharðindi rættust ekki. En samt var önnur spenna í loftinu. Langþreyta eftir lausnum og úrræðum fyrir almenning í landinu. Fjórðungur heimila tæknilega gjaldþrota og launin aldrei lélegri. Bankamálin óuppgerð og enginn sem vill taka ábyrgð. Nú eru jafnvel alþingismennirnir farnir að benda hver á annan. Eingin þorir að ganga fram fyrir skjöldu. Allir eru ragir og skýla sér á bak við hvorn annan. Hvert hneykslismálið á fætur öðru í stjórnsýslunni, ný og gömul. Geðþóttaákvarðanir og niðurrif á grunnþjónustunni og skólunum, jafnvel án þess að talað hafi verið við þá sem mestu sérþekkinguna hafa. Stjórnmálamönnunum ætlar seint að láta segjast. Enn einn skrípaleikurinn á Alþingi. Engum treystandi og innherjatengsl alls staðar. Og bræður munu berjast.

Í raun er þjóðin andlega gjaldþrota. Uppgjörið eftir hrunið er farið að snúast í andhverfu sína. Við erum búin á sál og líkama og ekki endurnærð sem skyldi eftir góða sumarið okkar.Við erum farin að meiða hvort annað og þurfum að berjast fyrir velferðinni af öllum lífsins kröftum. Náttúrulögmálin gilda en helst þurfum við að gefa vinnu okkar og anda. Lífið er orðið óraunverulegt. Ekki einu sinni kirkjan stendst væntingar um heiðarleika og ábyrgð. Aldrei fyrr hefur maður orðið að treysta jafn mikið á sjálfan sig, fjölskylduböndin og ættjarðarástina. Getur verið að það sé komið að leiðarlokum fyrir okkur sem sjálfstæð þjóð. Lengi getur vont versnað og það er allt í lagi að herða sultarólina tímabundið. En hvers er að vænta og hverjir eru kostirnir? Vonandi var kyrrðin á miðjum sumardeginum ekki lognið á undan vetrarstorminum.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 17.9.2010 - 13:43 - FB ummæli ()

Sameining heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu.

Heilsugæslan Hamraborg

Enn og aftur ætla stjórnvöld að fara fram með valdi gegn þeim sem hafa sérþekkinguna og vinna vinnunna í grasrótinni. Sameining heilsugsælustöðva í Efra Breiðholti við Heilsugæsluna í Mjódd og Heilsugæslu Hvamms í Kópavogi við Hamraborg í miðbæ Kópavogs eru dæmi um slík áform sem eru með ólíkindum en samt langt komin á teikniborðinu. Hvortveggja í mikill óþökk starfsmanna þessara stöðva sem mótmælt hafa aðgerðunum með fundum og í bréfum. Telur starfsfólkið að ráðist sé að rótum heilsugæslunnar sem fengið hefur að þróast og dafna á svæðunum við erfið stjórnunarleg skilyrði. Þótt heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins sé ein stofnun að þá hefur gætt ákveðins sjálfstæðis innan hverrar stöðvar sem nú á að kaffæra í skjóli ímyndaðs sparnaðar og hagræðingar. Löngu er ljóst að sárlega vantar mannskap til að sinna brýnustu verkefnum heilsugæslunnar. Og ekki á að selja húsin heldur nýta þau undir annað eins og starfsviðs heimahjúkrunar. Í staðinn að pakka öllum læknunum saman og í tilfelli Efra Breiðholts, inn í verslunarhúsnæðið í Mjóddinni. Stöðvarnar sem flutt verður úr eru hins vegar fullkomnar og nýtískulegar heilsugæslustöðvar sem horft hefur verið til með stolti. Heilsugælan í Hvammi sem er ekki nema um 5 ára gömul er tvíburabygging Heilsugæslunnar í Efstaleiti og þóttu þær stöðvar eiga vera fyrirmynd annarra stöðva í framtíðinni.  

Nærþjónusta við Efra-Breiðholt sem hefur þurft á hvað mestri félagslegri þjónustu að halda í Reykjavík, ekki síst við öryrkja, á nú t.d. að flytja í óaðgengilegt gamalt en uppgert verslunarhúsnæði. Stundum furðar maður sig á því að æðstu stjórnendur skulu ekki vita hvað nútíma heilsugæsla stendur fyrir.  Hún er t.d. ekki eins og spítaþjónustan sem hægt er að sameina á einn stað og hún á ekki að vera bákn. Sjálfur sit ég á Heilsugæslustöð í Hafnarfirði í forundran og heyrir í raun bara utan frá mér hvað sé að gerast í heilsugæslunni hjá því fyrirtæki sem ég samt vinn hjá. Bíð í rauninni bara eftir að eitthvað verði ákveðið með mína starfsaðstöðu og hvort mér verði skákað til. Er illa upplýstur um gang mála þótt ég eigi að heita klínískur dósent hjá fyrirtækinu. Hef reyndar heyrt af fundi um næstu mánaðarmót þar sem kallað á efir tillögum almennra starfsmanna um stefnumótun í heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu sem þó virðist í þýðingarmestu atriðunum þegar verið búið að taka ákvörðun um á öðrum vígstöðvum (sjá meðfylgjandi bréf hér fyrir neðan frá starfsmönnum í Hvammi).

Hingað til hefur lítið verið hlustað eða allt frá því Heilsugæslustöðvarnar tvær í Hanfarfirði voru færðar nauðugar undir stjórnunarvænginn í Reykjavík fyrir 5 árum síðan. Starfsfólkið mótmælti kröftuglega þá og harmaði að gengið skyldi á nærþjónustuna, sjálfstæði og frumkvöðlastarf stöðvanna. Fyrir rúmu 1 1/2 ári var síðan gengið harkalega  á þjónustu stöðvanna með niðurskurði sem samsvarar um 15-20%  á tímaframboði heimilislækna á höfuðborgarsvæðinu. Skortur á tímaframboði heimilislækna var reyndar mikill fyrir en tugþúsundir höfuðborgarbúa hafa ekki haft heimilislækni til að leita til með sín mál. Mikil skerðing varð síðan aftur í sumar með lokun síðdegismóttöku heilsugæslustöðvanna sem þjónað hefur sem ákveðinn öryggisventill fyrir lágmarksþjónustu heilsugæslunnar. Og enn á að spara og hagræða sem ég vill frekar kalla að hræra í og án þess að spurt sé um ástæður eða afleiðingar fyrir heilsugæsluþjónustuna í borginni. Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu má allra síst við því að veikjast nú meir en orðið er á erfiðum tímum.

Fundur starfsfólks Hgst. Hvammi haldinn 15. sept. 2010

 Efni:  Ræða þátttöku í stefnumótunardegi HH 1. okt. 2010 Áslaug Hauksdóttir

Í fundarboði um stefnumótunardag HH kemur fram að starfsmanni gefist tækifæri á að koma á framfæri því sem betur megi fara í rekstri og þjónustu mm. Í skjalinu (sjá meðfylgjandi afrit) koma fram lykilhugmyndir eins og Stöndum vörð um hlutverk heilsugæslunnar m.m. Við teljum okkur þegar standa vörð um hlutverk heilsugæslunnar og hlúa að gildum okkar og ímynd. Við höfum þegar góðan og eftirsóknarverðan vinnustað og erum mjög stolt af því sem við stöndum fyrir og okkar faglegu sérþekkingu.

Þetta höfum við allt gert m.a. með ályktun okkar til heilbrigðisráðherra 1. sept. (sjá meðfylgjandi afrit) þar sem við mótmæltum áætlunum HH um að leggja niður heilsugæsluna Hvammi og sameina heilsugæslunni Hamraborg og bárum fram rök fyrir því að hér væri hvorki um svokallaða “eflingu heilsugæslunnar” né augljósan sparnað að ræða. Heldur er hér þvert á móti um niðurrif góðrar þjónustu að ræða fyrir vægast sagt óljósan efnahagslegan ávinning.

Viðbrögð hafa ekki verið önnur en að þessi áætlun stendur óbreytt og undirbúningur hennar er þegar hafinn.

Því finnst okkur þessi svo kallaði stefnumótunardagur, með tilheyrandi kostnaði (fleiri milljónir með vinnutapi), í hæsta máta óviðeigandi, þar sem stefnan er þegar tekin.

Ætlum við í staðinn að leggja okkar til í nokkuð augljósum sparnaði og afþakka gott boð.

Virðingarfyllst

Starfsfólk Heilsugæslunnar Hvammi í Kópavogi

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 16.9.2010 - 01:11 - FB ummæli ()

Þrjú hjól undir bílnum

omarEn áfram skröltir hann þó, er byrjun sönglagatexta sem allir Íslendingar þekkja og sem gæti verið lýsing á þjóðfélaginu okkar í hnotskurn þessa daganna. Ómar, hinn fyrsti eins og nafnið þýðir lætur hins vegar engan bilbug á sér finna. Hann hefur leitt þjóðina gegnum súrt og sætt með bros á vör í hálfa öld. Í dag er kallinn 70 ára en síungur. Þeir eru fáir einstaklingarnir sem Íslendingar telja sig eiga jafn mikið í og Ómar Ragnarsson. Og þeir eru fáir sem hafa lagt jafnmikla fórnfúsa vinnu til þjóðmálanna, á öllum hugsanlegum sviðum, gegnum tíðina. Öll lögin hans og ekki síður textarnir eru þegar verðmæt þjóðareign. Sama má segja um sjónvarpsþætti hans Stiklurnar. Óbyggðaferð er önnur perla sem í sjálfu sér lýsir Ómari vel enda á ferð og flugi alla daga. Það er ekki á hverjum degi sem maður sér ástæðu til að blogga um náungann. Til hamingju með daginn Ómar.

Ómar Ragnarson er minni kynslóð sérstaklega minnisstæður. Myndin af honum hér að ofan var tekin þegar ég var 8 ára gamall. Það var viðburður að setja vínilplötu á fóninn og hlusta á Ómar flytja lögin sín, aftur og aftur. Hámarkið var þó þegar hann kom fram á barnaskemmtunum um jólin og lék jafnvel sjálfan jólasveininn og síðar þegar hann kom fram á árdögum Sjónvarpsins og lék bara sjálfan sig. Góð skemmtun og allra síst í sjónvarpi var ekki hversdagslegur viðburður í þá daga.

Í seinni tíð er það fréttamaðurinn og hugsjónarmaðurinn Ómar sem náð hefur hugum og hjörtum landans þótt alltaf sé stutt í grínið og eingin árshátíð er betri en þegar hann og vinur okkar beggja, Haukur Heiðar koma fram og skemmta. Stofnun stjórnmálahreyfingar til að berjast fyrir tilvist sjálfrar náttúru Íslands, Íslandshreyfingarinnar varð síðan til á elleftu stundu en því miður of seint fyrir þjóðina að skilja. Hugsjónir Ómars eru í raun persónugerfingur þess Íslands sem vildum hafa séð í dag, eftir á að hyggja.

Ég veit að það þýðir lítið að óska Ómari hvíldar enda ótæmandi orkubrunnur út af fyrir sig en ég geri það nú samt á hans eigin forsendum. Í afmælisgjöf fær hann reyndar óvænt óskaráðstefnu á sjálfan afmælisdaginn Driving Sustainability sem tengist einu af mörgum aðal áhugamálum Ómars sem er endurnýtanleg græn orka sem nota má á bílana okkar í framtíðinni. Mál sem er okkur Íslendingum sérstaklega mikilvægt þessa daganna í hugsanlegri nýsköpun og sem getur komið okkur aftur á stall meðal þjóða.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Menning og listir · Tónlist

Sunnudagur 12.9.2010 - 11:17 - FB ummæli ()

Túnin í sveitinni

ottarsstadir_totukofi_2010Í dag er rok og rigning. Haustverkin bíða og gera þarf allt klárt fyrir veturinn. Í sveitinni „í gamla daga“ var haldið upp á tímamótin þegar sumarverkunum var lokið, sérstaklega heyskapnum með svokölluðum töðugjöldum. Allir voru ánægðir með sitt ef náðist að heyjast og séð fram á að skepnurnar fengju nóg fyrir veturinn. Þá fengju mennirnir nóg einnig. Sum sumur voru þó köld og blaut. Stundum kólu heilu túnin á vorin og alger uppskerubrestur varð. Þá var skorið niður og hey flutt á milli landsfjórðungana til að bjarga því sem bjargð varð. Allir hjálpuðust að.

Ég man mjög vel sem strákur í sveit að sláttur túna vakti upp mikla eftirvæntingu og var eins og byrjun á uppskeruhátíð. Lesa þurfti í sprettuna og þroska grassins. Eins veðurspánna framundan, taka skeytin. Tekin var hrífa í hönd og gengið á eftir græna traktornum og rakað frá inn á túnið fyrsta hringinn svona til að nýta túnið sem best og til að snúningsvélarnar næðu að hirða allt grasið síðar. Það var gaman að raka frá og greiða nýsleginn grassvörðinn með hrífunni góðu. Sjálfa móður jörðina. Blöðrur í lófa var ekkert tiltökumál. Þar sem sláttuvélin komst ekki að var oft slegið með orfi og ljá. Brekkur og engi. Gengið á öll tún og tilfinningin varð betri og betri eftir því sem lengra gekk á heyskapinn. Eftir þurrkunina var síðan gengið á eftir rakstarvélunum og passað upp á að ekkert hey færi forgörðum. Túnið fínkembt og klappað. Og hrífan góða var orðin eins og hluti af manni eins og önnur góð verkfæri geta verið, eins og framlenging handanna og sem var aldrei skilin eftir á hvolfi. Það vitjaði ekki á gott.

Bóndinn minn var mjög laghentur maður og þótti gera fallegri bólstra og hey sem svo voru kölluð en nokkur annar. Það vantaði hlöður og gera þurftu heyin þannig úr garði að þau stæðust vetrarveður og mikla bleytu. Þau þurftu að hlaða á sérstakan máta og þau voru látin síga vel á milli þannig að heyið þjappaðist vel. Moka þurfti og hlaða heyin af listfengi á ákveðinn hátt með heygöflum og í áföngum. Að lokum urðu þau eins og stæðilegar byggingar á stóru túnunum. Kúptar á kollinn og í útliti eins og risa formbrauð. Maður var stoltur að vera í sveit þar sem flottustu heyin voru hlaðin og maður fékk að taka þátt.

Á veturna sótti maður síðan KFUM fundi og söng áfram kristmenn krossmenn. Æskulýðsfulltrúinn stappaði í mann stálinu og fjallaði um sögur úr biblíunni eins og t.d söguna úr gamla testamentinu að vitur maður byggir ekki hús sitt á sandi. Þetta vissi ég mæta vel og furðaði mig á boðskapnum. Í lokin vor sýndar myndir frá Bandaríska sendiráðuneytinu. Fræðslumyndir sem allar voru um geimferðir og árangur bandamanna í hernaði og á tæknisviðinu. Síðast kom svo teiknimyndin eða grínmyndin sem allir höfðu verið að bíða eftir.

Í seinni tíð er heyskapnum öðruvísi háttað. Vaðið er á túnin með stórtækum vélum og það mesta og besta af túnunum hirt en annað skilið eftir. Varla að nokkur maður taki upp hrífu og vélarnar sjá um allt frá a-ö. Oft tekur ekki nema nokkra daga að hirða túnin sem tók mánuði í sveitinni í gamla daga. Þar sem ekki var hægt að koma öllum vélunum að var ekki hægt að búa og jarðir sem annars höfðu verið góðar og nægt að framfleyta fjölskyldum mann fram af manni, yfirgefnar. Við þóttumst hafa efni á því enda gátum tekið að láni ótakmarkað fyrir vélarkaupum og nýbyggingum. Sjálfsagt voru þetta nútíma þægindi og allir gátu haft það gott og þurftu ekki að svelta eina einustu stund fyrr en þá nú.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 11.9.2010 - 09:24 - FB ummæli ()

Nýr dagur

HafnarfjordurÞessa mynd tók ég á leiðinni í vinnuna í gærmorgun í Hafnarfirði. Stór og mikill regnbogi blasti yfir bænum í lengri tíma. Eitt augnablik staldraði maður við og hugsaði með sér hvað væri svona sérstakt við þennan dag. Regnboginn gerði gæfumuninn. E.t.v. hefði verið betra að dagurinn í gær hefði verið í dag. En vonandi gaf regnboginn í gær samt fyrirheit um eitthvað gott í dag.

Í dag er svo nýr dagur, vonandi góður og fagur. Stóridómur verður upp kveðinn og ákveðið hvort Landsdómstóll fái lokaorðið. Hæstiréttur hefur ekkert með málið að segja eins og í öðrum málum okkar mannanna og spurning hvort vísa hefði ekki átt málinu bara strax í til „hins æðsta dómstóls“ eins og fordæmi er fyrir þessa daganna. En auðvitað er best að vita allan sannleikann. Ef að líkum lætur varðandi niðurstöðuna og jafnvel hver sem hún verður á dómsdegi okkar Íslendinga að þá er samt skynsamlegt að fara að huga strax að erfðaskránni fyrir kynslóðina sem á að taka við. Alþingi gæti þurft að leita hjálpar varðandi fósturforeldra og nærtækast er að leita skjóls til ættingja og vina. Við tölum gömlu norsku og Norðmenn eru okkar nánustu skyldmenni. Samkvæmt venjunni ættum við að leita fyrst til þeirra.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 7.9.2010 - 14:26 - FB ummæli ()

Syngur hver með sínu nefi?

Haustið er komið og haustpestirnar líka. Veturinn er síðan aðaltími pesta og loftvegasýkinga. Um 20% af öllum komum sjúklinga til heilsugæslunnar og vaktþjónustu hennar 2009 var vegna öndunarfærasýkinga (Talnabrunnur Landlæknisembættisins). Um helmingur koma veikra barna til læknis er talin vera vegna miðeyrnabólgu eingöngu. Íslendingar nota mest allra á Norðurlöndunum af sýklalyfjum og hvergi er sýklalyfjaónæmi helstu sýkingarvaldanna meira. Af þessu tilefni hélt Læknafélag Íslands málþing um meðferð á loftvegasýkingum á fræðadögum sínum eftir áramótin síðustu. Sérfræðingar úr hinum ýmsum sérgreinum nálguðust vandamálið, hver með sínu nefi, en fjölluðu þó fyrst og fremst um hvenær og hvenær ekki ætti að nota sýklalyf. Kvef og veirusýkingar læknast af sjálfu sér og flestar vægar bakteríusýkingar í efri loftvegum einnig. Þetta á ekki síst við um  miðeyrnabólgurnar hjá börnum og skútabólgurnar hjá fullorðnum.

Í nýjasta hefti Læknablaðsins sem kom út í dag eru útdrættir málþingsins birtar en það bar heitiðSyngur hver með sínu nefi“. Allir sérfræðingarnir lögðu mikla áherslu á að læknar vandi til ávísana á sýklalyf því ómarkviss notkun þeirra leiðir til enn meira sýklalyfjaónæmis í framtíðinni. Læknar eru hvattir til að fara eftir nýjustu leiðbeiningum í þessum efnum og mælt er frekar með eftirliti með einkennum en sýklalyfjagjöf af minnsta tilefni.

Öll erum við sérstök og dálítið öðruvísi. Það á við um lækna eins og aðra. Flestir vilja gera sem mest fyrir sjúklinginn. Aðstæður geta hins vegar verið mismunandi, annars vegar hjá sjúklingi eða aðstandenda veiks barns og hins vegar hjá lækninum. Ósk um skjóta og örugga lækningu kemur oft frá sjúklingi en tímaleysi í viðtali og óöryggi í greiningu ráða mestu um ávísun á sýklalyf hjá lækninum. Leiðbeiningar eru einmitt gerðar til að hjálpa til við nákvæmari greiningu, samræma vinnubrögð varðandi úrlausnir og hvetja til íhaldssemi þegar kemur að því að velja sýklalyf. Oft er þörf en nú er nauðsyn að læknar „syngi ekki hver með sínu nefi“ þegar kemur að því að ákveða hvaða meðferð sjúklingur fær hverju sinni heldur að þeir styðjist við bestu þekkingu hverju sinni og noti klínískar leiðbeiningar,  m.a. klínískar leiðbeiningar Landlæknis um meðferð miðeyrnabólgu barna. Ef við eigum ekki að tapa orrustunni gegn sýklunum verðum við að taka öll höndum saman um að nota sýklalyf skynsamlega, ekki síst til að þau komi að gagni þegar þörfin er mest. Ofnotkun sýklalyfja hefur öðru fremur leitt til þeirrar stöðu sem við erum nú í, en upp undir helmingur alvarlegustu bakteríustofnanna, pneumókokkanna er orðinn ónæmur fyrir penicillíni og helstu varalyfjum á höfuðborgarsvæðinu.

Seint á haustin hvetur Landlæknisembættið fólk til að láta bólusetja sig gegn árlegri inflúensu. Breytir engu nú þótt fólk hafi fengið svíninflúensubólusetningu áður eða eigi það jafnvel eftir. Mesta hættan er á að gamalt fólk og ungbörn fái alvarlegar loftvegasýkingar í kjölfar slæmra veirusýkinga eins og inflúensu. Fólki eldra en 60 ára er einnig ráðlagt að fá bólusetningu gegn pneumókokkum (lungnabólgubakteríunni) og ungbörnum stendur til boða pneumókokka-bólusetning á kostnaðarverði ef óskað er eftir. Kostnaðurinn stendur hins vegar í sumum foreldrum þar sem þrjár bólusetningar sem þarf á fyrsta ári barnsins kostar um 37.000 kr. Í dag sitja þannig ekki allir við sama borð hvað þetta varðar, tengt efnahag. Á næsta ári er þó stefnt að því að börn sem fædd verða á því ári fái bólusetninguna ókeypis og verður hún þá gefin með öðrum bólusetningum í ungbarnaheilsuverndinni. Á öðrum stað í Læknablaðinu hefur verið sýnt með kostnaðarvirknigreiningu að slík almenn ungbarnabólusetning sé þjóðhagslega hagkvæm. Með almennri notkun á bóluefnunum á að vera hægt að draga verulega úr ótímabærum sýkingum af völdum pneumókokka í þjóðfélaginu.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 6.9.2010 - 13:17 - FB ummæli ()

Englar og djöflar

angels-and-demons-trailerSéra, Örn Bárður Jónsson gagnrýndi fjölmiðla í útvarpspredikun í útvarpi allra landsmanna í gærmorgun og ásakaði þá um að fara hörðum og ósanngjörnum höndum um málefni kirkjunnar. Talaði hann um einelti og jafnaði umræðu um úrsagnir úr þjóðkirkjunni nú við þá óskastöðu ef kirkjan gæti sagt sig frá fjölmiðlum. Það er með ólíkindum að prestar skulu enn halda að málin leysist af sjálfu sér hjá hinum æðsta dómstóli. Og miðað við önnur vandamál í þjóðfélaginu sem hafa verið krufin til mergjar að þá ætti mikið að vera búið að gerast hvað varðar gamla djöfla sem kirkjan hefur haft að draga. Vandamálin til áratuga eru vel skilgreind. Þótt ekki sé hægt að vísa sakamálunum sjálfum lengur til dómstóla að þá er ljóst að áralanga spillingu innan stjórnsýslu kirkjunnar verður að rannsaka nánar. Kirkju sem er þjóðkirkja og við skattborgarnir borgum til og höldum uppi. Það að segja sig frá þjóðinni er ekki val fyrir kirkjuna heldur afleiðing þegar og ef þjóðin segir sig frá kirkjunni. Kirkjan sjálf á ekki síðasta orðið í þeim leik. Sagan er oft lýginni líkust og eitt er víst að skáldasagan Englar og Djöflar eftir Dan Brown sem flestir hafa lesið eða séð kvikmyndina, kemst ekki í hálfkvist við þá atburðarás sem er að gerast í evangelísku þjóðkirkjunni á Íslandi í dag, þótt sannleikurinn um „efnið“ sé allt annar.

En eru stjórnendur kirkjunnar meðvirkir þátttakendur í hildarleik atburðarrásarinnar eða saklaus fórnarlömb aðstæðna? Meðvirkir gerendur ofbeldismanna eru oft heilaþvegnir og lúta að vissu leiti ofurvaldi sjálfs gerandans. Þegar atburðir eiga sér langa sögu sogast þeir nánustu inn í atburðarrásina, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Þeir verja og reyna að afsaka gerandann og réttlæta gjörðir hans til þess eins að jafnvægi haldist innan hópsins og til að skapa ekki ný vandamál sem skapa enn meira óöryggi. Slík áhrif geta náð út fyrir mörk lífs og dauða. Viðbrögð stjórnenda kirkjunnar nú, þar á meðal núverandi biskups þjóðkirkjunnar, bera merki þess vítahrings að þeir hafi verið meðvirkir gerendur í málefnum er sneru að vörnum og framgangi fyrrverandi biskups, séra Ólafs Skúlasonar. Manns sem allir eru sammála um að hafa verið gríðarega áhrifamikill og sjálfsagt ekkert grín að standa á móti, með orð gegn orði. Aðeins með því að þeir víki nú til hliðar er hægt sé að koma þeim til hjálpar. Þó ekki síst kirkjunni sjálfri og gömlum safnaðarmeðlimum. Geð- og réttarlæknisfræðin þekkir þessar leiðir mætavel. Sálfræðihjálp og áfallahjálp er þetta kallað og sem oft þarf að veita brotnum fjölskyldum til að lífið geti haldið áfram.

Sú var tíðin að kirkjan var öflug og sjálfsörugg. Hún stundaði trúboð og menn og konur á hennar vegum fóru í krossferðir til að boða fagnaðarerindið. Menn voru tilbúnir til að fórna sér fyrir málstaðinn og trúna. Nú er mesta þörfin að fara í krossferðir innan eigin raða. Deilurnar og ásakanirnar nú snúast nefnilega fyrst og fremst um trúverðugleika æðstu stjórnenda kirkjunnar. Sumum finnst þó ekki standa steinn yfir steini í röksemdafærslum stjórenda kirkjunnar en sýna henni samt ótrúlegt umburðarlyndi og bíða er að hún leysi úr sínum málum. Kirkjan á auðvitað að þola dagsljósið og til þess höfum við fjölmiðla. Þakka má sérstaklega DV og Stöð 2 fyrir efnismiklar og nákvæmar frásagnir af málefnum kirkjunnar varðandi biskupsmálið allt fram á þennan dag.

Kirkjunnar menn þurfa nú heldur betur að bæta ímynd kirkjunnar í stað þess að gráta undan sanngjarni og varfærnislegri umræðu um sannleikann í fjölmiðlum, fjölmiðla sem ennþá bera mikla virðingu fyrir þeim gildum sem kirkjan sjálf stendur fyrir eins og öll þjóðin. Stærstu dómarnir hafa enn ekki fallið hjá almenningi og sem betur fer er fjöldi úrsagna úr þjóðkirkjunni nú ekki til marks fjölda þeirra sem glatað hafa trúnni heldur aðeins toppurinn af ísjakanum af þeim sem eru orðnir óþolinmóðir og bíða eftir að kirkjan gerir hreint fyrir sínum dyrum. Þjóðin bíður jafnvel eftir að fá tækifærið til að geta fyrirgefið kirkjunni sinni.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · kirkjan · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 5.9.2010 - 10:23 - FB ummæli ()

Helgafellið

Mikið er rætt um trúmál þessa daganna. Mest hefur verið rætt um stjórnunarvanda kirkjunnar og afleiðingarnar á íslenskt þjóðfélag. Minna er rætt um þýðingu trúarinnar. Sennilega höfum við sjaldan verið í meiri þörf fyrir trú en einmitt þessa daganna. En hvað er trú og fyrir hvað stendur trúin? Trúum við á guð eða eitthvað annað? Sumir í dag tala jafnvel um tímamót hvað þetta efni varðar og þykjast geta sýnt fram á með vísindalegri rökræðu að guð sé ekki til. En skiptir það einhverju máli hvort við trúum á guð eða það góða innra með okkur? Kirkjan og önnur trúfélög eru að vísu góður vettvangur hér á landi til að virkja þessi öfl. Að hafa enga trú hlýtur að vera slæm tilfinning.

Bestu sögurnar eru oft ekki sagðar. Ein slík saga var þó sögð af góðum vini síðastliðið sumar þegar ég og konan mín gengum með félögunum í ferðafélaginu Út og vestur. Þessi ferð var einstök og reyndi á allan tilfinningaskalann. Um hana bloggaði ég í síðastliðið vor „Ef til vill þarf lífið að vera aðeins erfitt á köflum til að við getum notið alls skalans. Sár lífsreynsla eða saga getur rifjast upp og endurspeglast í andhverfu sinni, fegurðinni sem tenging við náttúruna ein getur skapað. Þannig fær hún útrás og nýja merkingu eins og í ævintýrunum. Þá sögu er hægt að segja aftur og aftur“.

Í ferðinni drógu allir hulduspil „Skilaboð frá hulduheimum“ upp á álfadómkirkjunni Tungustapa. „Álfasögur fela nefnilega oftast í sér varnaðarorð til okkar mannanna, t.d. gegn yfirgangi og hroka sem ég tel að við eigum að hlusta á og taka alvarlega“ sagði fararstjórinn. „Það er heldur ekki BARA tilviljun hvaða kort við drögum og hvaða heilræði við fáum úr bunkanum… því við höfum val. Líka það að draga ekkert spil“.

Sagan sem verður sögð hér á eftir, snýst um trú og óskir. Ekki síst áhrif þess að trúa og þau hughrif sem góðar tilfinningar og væntingar tengt trú getur gefið. Við erum ekki bara það sem við erum sköpuð úr, holdi og blóði. Við erum reyndar uppsprottin af mold og við verðum aftur að mold. Þarna á milli er eitthvað sem heitir líf. Jafnvægið milli lífs og dauða, gleði og sorgar er einhverskonar trú. Loftið sem við öndum að okkur og horfum svo skýrt í gegnum. Andrýmið okkar á milli. Eitthvað sem við viljum geta gripið í, en er óáþreifanlegt. Þessi skynjun á því sem ekki sést með berum augum, gerir okkur að manneskjum.

Íslandssagan er saga um líf og dauða merkra Íslendinga. Saga forfeðra okkar. Við höfum heyrt að dropinn holar steininn og járnið herðist í eldinum. Sama er með sálir okkar mannanna. Farsældin í reynd snýst svo oft að lokum um að geta heimfært neikvæða reynslu á jákvæðan hátt. En hér kemur loks sagan, sögð af mér eins og ég skynjaði hana á þeim tíma sem ég heyrði hana og man hana best.

Drengur bjó í Sælingsdalstungu í Dölum á sögusviði Laxdælu fyrir hálfri öld. Fátt var meira rætt en sagan, sem átti í mönnum öll bein. Hann átti langveika móður sem gat varla orðið sinnt heimilinu vegna alvarlegra geðrænna veikinda. Veikinda sem í þá daga flestir höfðu skömm á og var talin erfast til barnanna. Fjölskyldan var fátæk og ekki var farið af bæ nema í sérstökum erindagjörðum. Drengurinn fékk söguna í vöggugjöf eins og aðrir. Hann las líka meira en gengur og gerist og var auk þess bráðgreindur. Meðal annars las hann um ævi og örlög Guðrúnar Ósvífursdóttur, drotningu dalanna. Einnig möguleikann á því að kraftur hennar gæti læknað móður hans ef hann kæmist að Helgafelli í Helgafellssveit. Þangað hafði hann aldrei komið en séð í fjarska yfir sæinn frá Fellsströndinni sinni. Með grátinn í kverkunum og tárin á vöngunum óskaði hann oft eftir þessu tækifæri.

Hann var 7 ára gamall þegar tækifærið kom og honum bauðst jeppaferð með fólkinu sínu til Stykkishólms. Loksins gæti hann látið drauminn rætast þegar stoppað yrði við Helgafell í kaupstaðaferðinni. Óskin gæti ræst á Helgafelli;

Guðrúnu Ósvífursdóttur bjó að  Laugum í Sælingsdal eins og segir Laxdælu. Hún skipti búi við Snorra goð Þorgrímsson að Helgafelli. Leiði Guðrúnar er norðan við miðja kirkjuna að Helgafelli, utan kirkjugarðsins. Það er afgirt og snýr að kirkjunni að írskum sið. Guðrún er sögð hafa gerst einsetukona í klaustri að Helgafelli, er árin færðust yfir hana. Rústir þess eða einhvers annars mannvirkis eru uppi á fellinu. Sú Þjóðtrú ríkir á Helgafelli, að sé gengið þrisvar rangsælis umhverfis gröf Guðrúnar við kirkjuna og síðan þegjandi, án þess að líta við, upp á fellið og án slæmra hugsana, rætist ósk viðkomandi, þegar upp er komið, ef hann eða hún skýrir ekki frá því, sem óskað er.

Hann hafði engar slæmar hugsanir. Eftirvæntingin var mikil og biðin eftir ferðinni löng. Hann hélt leyndamálinu sínu fyrir sig einan í hjartanu því hann mátti eigum segja frá óskinni sinni. Og svo var lagt í hann, í lok sumars í tilefni töðugjaldanna. En þegar að Helgafelli var komið var drengurinn steinsofnaður í aftursætinu enda ferðin löng og stoppað hafði verið á mörgum bæjum á leiðinni. Hann svaf svo fast og vært að samferðarfólkið tímdi ekki að vekja hann enda orðið áliðið og veðrið var ekki upp á það besta. Göngu á Helgafellið var því sleppt í þetta skiptið og bæjarferðin kláruð og útréttað það nauðsynlegasta í kaupfélaginu. Síðan var keyrt heim í sveitina aftur.

Óskina var þannig aldrei hægt að bera fram og fjarlægur draumur náði aldrei að verða að veruleika. Sú staðreynd breytti því ekki að alltaf þegar drengurinn horfði til Helgafellsins síðar, jafnvel eftir að hann varð fullorðinn, komu tár í augun. Barnstrúin var þarna ennþá tengt Helgafellinu og krafti Guðrúnar Ósvífursdóttur. Trú vonarinnar. Eins og að hafa reynt að grípa í eitthvað sem hann sá en var ekki áþreifanlegt. Sár gátu síðan opnast og hann fann að tilfinningarnar voru til staðar. Jafnvel þótt hann hefði ekki fengið að velja sitt spil fyrr en löngu seinna. „Þú getur lokað sárin innra með þér, en það hindrar þátttöku þína í flæði lífsins og býr til ný sár. – Leyfðu þér að hafa opið hjarta og elska lífið.“  Hann hafði síðar dregið spil úr stokknum góða og gat nú skilið merkinguna mikið betur. Og óskin hans hafði sennilega rættst öðruvísi en hann ætlaði.

Hann hefur lært að elska land sitt og njóta. Hann hefur lært að deila tilfinningum sínum með öðrum. Það er honum eflaust nóg. Trúin á lífið, landið og söguna þar sem draumar geta ræst en rætast oftast ekki, eins og við sjáum hlutina. Sagan og landið er eitt, tengt trú og vonbrigðum, vonum og ótta. Það gerir okkur að þeim manneskjum sem við erum.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · kirkjan · Lífstíll · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag · Vinir og fjölskylda

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn