Mánudagur 19.7.2010 - 14:13 - FB ummæli ()

Planta dagsins

Fáar plöntur hafa gefið manni jafn mikið í aðra hönd og peningagrasið eða lokasjóður sem svo heitir réttu nafni og stendur nú í hvað mestum blóma. Plantan er merkileg lækningajurt sem vex víðast í graslendi á landinu og er afar sérstök að mörgu leiti sem rétt er að gefa sérstakan gaum í dag, enda tilheyrir hún hinni sönnu gömlu og góðu íslensku flóru sem er auðvitað ekki verra fyrir þá sem hatast út í t.d. lúpínuna. Sem barn lék maður sér af peningunum sem þetta gras skaffaði. Í græn-fjólubláu belgjunum mátt nefnilega finna fræin sem voru flöt og hringlaga eins og peningur. Slíkir peningar voru gjaldmiðill þess tíma, ekki síst í búðarleikjum. Sníkjudýr voru þó oft ekki langt undan og maður varð að opna belgina með varúð til að fá ekki á sig eitthvert kvikindið. Hættur á hverju strái eins og þegar peningar eru annars vegar í heimi fullorðinna. Annars er peningaeðlið samt við sig og plantan elst að miklu leiti upp með að nýta sér streð náungans. Plantan er nefnilega seinna á ferðinni en flest önnur grös og túnblóm og er að vissu leiti snýkjujurt sem nýtir sér rótarkerfi nágrannans. Þannig hirða þau afraksturinn af streði annarra. Bankablóm gæti það því einnig heitið með renntu. Lokasjóður er þó nafnið og sem er auðvitað miklu fallegra og minnir okkur á að við þurfum að vera duglegri að kenna börnunum að leita fjársjóðanna í dag.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · útivist

Föstudagur 16.7.2010 - 11:03 - FB ummæli ()

Rekstur og ábyrgð í íslenska heilbrigðiskerfinu.

forgangsröðun1-1024x679Undanfarið hefur töluvert borið á umræðu um mismunandi rekstrarform í heilbrigðiskerfinu. Sitt sýnist hverjum og menn vísa til kerfa vestan hafs og austan. Gamlar breytingar og nýjar. Einkareksturs og ríkisreksturs. Umræðunni er mest haldið á lofti af hagfræðingum og örðum með sérþekkingu í ríkisrekstri. Vil benda á tvö góð blogg hér á eyjunni sl. daga af þessu tilefni, nánar tiltekið Andra Geirs Arinbjarnarsonar og Stefáns Snævarrs og leggja örlítið til málanna sjálfur út frá íslenskri grasrótarþekkingu á málaflokknum. Umræða um módelin sem mest er rætt um snýst mest um hvað hægt er að spara fyrir ríkið en gæði þjónustunnar virðist skipta minna máli. Milljónaþjóða kerfum er oft snúið upp á íslenskar aðstæður en landið er örþjóð og lítið annað en eins og lítil héruð í löndunum sem verið er að bera okkur saman við. Afköst á alla venjulega mælikvarða er okkur samt síst í óhag í dag, a.m.k. ef miðað er við gæði þjónustunnar sem veitt er. Það er hins vegar fulltrúa almennings og stjórnmálamannanna að finna þá gæðastaðla sem viljum halda okkur við og tryggja áfram ábyrga þjónustu.

Á Íslandi hafa skapast hefðir og venjur sem skapað hafa eitt besta heilbrigðiskerfi í heimi. Mikil ábyrgð og samviskusemi hefur einkennt öll okkar störf innan heilbrigðiskerfisins. Samt er það langt í frá að vera með þeim dýrustu miðað við fólksfjölda. Það er að sama skapi langt í frá að vera fullkomið og margt má bæta. Meira hefur verið lagt upp úr hátæknilækningum á kostnað nærlækninga í heimabyggð. Heimilislækningar hafa t.d. dregist aftur úr öðrum sérgreinalækningum, ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu. Allir fá þó svipaða þjónustu þegar kemur að bráðaveikindum og alvarlegustu sjúkdómunum á sjúkrahúsunum sem eru ríkisrekin. Aðgengi að heilsugæslunni sem einnig er að mestu ríkisrekin er hins vegar misjöfn og verulega má betrumbæta hana til að koma meira í veg fyrir lífstílssjúkdóma hverskonar en gert er í dag, bæta geðhjálp og nýta skynsamlegar sýkingarvarir. Töluverð óstjórn hefur einnig verið í lyfjamálum sem þarf að vera ábyrgari.

Íslenskir læknar vinna vel fyrir kaupinu sínu hvort sem þeir eru í einkarekstri eða ríkisrekstri. Í launum hallar töluvert á þá sem vinna fyrir ríkið en atvinnuöryggið er meira. Nú er reyndar svo komið að launin eru orðin óásættanleg hjá ríkinu á sama tíma og samningar um einkarekstur er sniðinn þröngur stakkur. Ójafnræðis gætir einnig milli sérgreina þar sem sumir hafa ekkert val annað en að vinna fyrir ríkið. Sérgreinum er jafnvel att í samkeppni um sjúklinga sem kann aldrei góðri lukku að stýra. Óþarfa lyfjanotkun og ofnotkun dýrra rannsókna getur verið afleiðingin eins og töluvert hefur verið rætt um. Sama gera lokanir á dagþjónustu heilsugæslunnar þegar þjónustunni er veitt á dýrara þjónustustig á kvöldin eins og nú er mikið í fréttum. Atgerfisflótti er skollin á og á tveimur árum hefur læknum á Íslandi fækkað um nær 10%. Oft eru það sérfræðingar sem nýkomnir eru úr löngu sérnámi erlendis sem gefast upp og flýja land vegna skuldabyrgðar sinnar, eins og nýlega var mikið rætt hér á Eyjunni. Og lái það þeim hver sem vill.

Ríkisrekstur eða einkarekstur skiptir einfaldlega ekki mestu máli eins og staðan er í dag. Semja verður við lækna og ýmsar aðrar heilbrigðisstéttir um ásættanleg kjör til að fólk haldist í starfi. Aðeins er beðið um að gætt sé sanngirni í mati á menntun og ábyrgð eins og í öllum öðrum starfsgreinum. Ríkisrekstur hentar okkar litla en stjálbýla landi auðvitað vel, ekki síst í heilsugæslunni og á spítölunum þar sem tryggt á að vera að allir fái sömu þjónustu, óháð efnahag eða gróðasjónarmiðum. Til að slíkur rekstur geti þrifist til lengri tíma verður hann samt að vera samkeppnisfær við einkarekstur, sé hann á annað borð til staðar, og launaþróunina úti í hinum stóra heimi, hvort heldur sem menn vilja líta þar til einkarekstrar eða ríkisrekstrar.

Stórkostleg byggingaráform á Landspítalalóð sem kosta á tugir milljarða króna á næstu árum er einnig alger tímaskekkja við núverandi aðstæður og nær er að skipuleggja innviðina og menntun og hvernig á að tryggja mönnun heilbrigðisstétta í náinni framtíð. Þar eru fyrst og fremst blikur á lofti og hætt við að mörgum bregði í brún þegar þjónusta sem fólk hefur viljað ganga að og forgangsraðað sem nauðsynlegustu þjónustunni í samfélaginu nýtur ekki lengur við.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 11.7.2010 - 11:44 - FB ummæli ()

Eitt skref í einu

Nú, enn einu sinni, er verið að kynna nýjar byggingartillögur á Landspítalalóðinni fyrir hið nýja sameinaða hátækni- og háskólasjúkrahús Landspítala við Hringbraut. Sem barn og við börn sín hefur maður farið í leikinn, Hvað gerðir þú við peningana sem frúin í Hamborg gaf þér? Í sjálfu sér væri fátt við nýju tillögurnar að athuga ef við ættum nóg af peningum. En ef til vill erum við að höfða til væntanlegrar aðstoðar frá Brussel frekar en Hamborg. Og þetta er ekki leikur.

Sagan endalausa um spítalann nær til síðustu aldarmóta með sameiningu Sjúkrahús Reykjavíkur, gamla Borgarspítalans og Landspítalans. Það sem maður hefur samt aðallega séð síðan er niðurskurður á starfsfólki og mikið aukið vinnuálag þeirra sem eftir eru. Eintóma sparnaðrráðstafanir og tilfærslur á kostnað mannauðssjónarmiða. Kjör starfsmanna hefur verið haldið niðri og brostinn er á atgerfisflótti fagfólks. Hæfasta starfsfólkinu, býðst nú mörgu eftir hrun, mikið betri kjör í öðrum löndum enda búið er að lækka laun þess niður fyrir þau lélegu velsæmismörk sem það var með fyrir í svokölluðu góðæri og sem kom jafnvel aldrei til þess. Starfsfólk, sem margt er komið á miðjan aldur og jafnvel með 6-12 ára sérnám að baki plús andvirði íbúðar í skuldahala í námslánum í forgjöf, einfaldlega lifir ekki lengur af þeim launum sem eru í boði og á þá eftir að koma sér og sínum fyrir í varanlegt húsaskjól.

Á sama tíma eru endalausar bollaleggingar um húsnæðisvanda LSH, í framtíðinni. Mér vitanlega viðhefst starfsemin ágætlega í núverandi húsnæði en sárlega vantar hjúkrunarrými, sérstaklega fyrir eldri borgara. Ég sé ekki að miklar breytingar þurfi að vera þar á næstu áratugina nema auðvitað við ættum nóg af peningum eins og áður sagði og skaffa má húsnæði fyrir hjúkrunarrými á annan hátt. Nýta má sjúkrastofnanir í nálægð við höfuðborgarsvæðið betur og jafnvel skurðstofur. Venjan ætti jú að vera að spara fyrir því sem maður vill eignast. Það ætti síðasti áratugur í sameiningarferli  spítalanna að hafa kennt okkur. Alla veganna er miklu meiri þörf fyrir að tryggja mannauðinn og menntunina í landinu. Húsin gera lítið gagn tóm þótt glæsileg séu og ef hæft starfsfólk vantar. Þau geta því beðið og lagfæra má önnur og nýta betur. Tug milljarða byggingaráform næstu árin eru því glapræði miðað við ástandið í þjóðfélaginu í dag.

Í dag er lóðin við gamla Borgarspítalann í Fossvogi miklu betur til þess fallin að byggja við og aðkoma fyrir sjúkramóttöku er þar miklu betri fyrir allt höfuðborgarsvæðið en á Landspítalalóðinni. Sú uppbygging kæmi alltaf til með að nýtast í framtíðinni hvað húsnæði og hjúkrunarrými varðar. Sjónarmið um atvinnubótavinnu fyrir iðnverkamenn og hönnuði á þeim mælikvarða sem nú er verið að kynna sem kreppuúrræði er alltaf of dýru verið keypar. Hins vegar má bæta eldra húsnæði og nærtækara væri að kaupa aftur t.d. Heilsuverndarstöðina v/ Barónsstíg og sem áður hefur verið fjallað um hér á Eyjunni. Gera má það húsnæði upp og jafnvel bæta við hjúkrunarrýmum með viðbyggingu sem sárlega vantar í dag og þarf ekki að rýmast í sjálfu hátæknisjúkrahúsinu. Eins með fleiri hjúkrunarrýmum í nærbyggðinni. Og ef peningar eru til er þeim einfaldlega miklu betur varið í almenna uppbyggingu á mennta- og heilbrigðiskerfinu en rándýrum byggingaráformum á Landspítalalóðinni við núverandi aðstæður og sem vel geta beðið endurskoðunar síðar.

Eitt það vitlausasta í byggingartillögunum sem nú liggja fyrir er samt að þar er gert ráð fyrir þyrlupalli á 3 eða 4 hæð rétt hjá gjörgæslunni og skurðstofunum sem eru næst kjarna svæðisins. Það vita allir Íslendingar að ímyndin um þyrlupall á háhýsi á ekki við nokkra hæða byggingu í Þingholtunum. Slysahættan af slíku m.a. í válindum veðrum tel ég einfaldlega allt of mikla og getur stefnt allri starfsemi spítalans og byggðinni þar í kring í stórhættu. Góð aðstaða er hins vegar fyrir þyrlur að athafna sig í Fossvoginum og í framtíðinni þarf frekar að gera ráð fyrir tveimur þyrlupöllum enda má gera ráð fyrir auknum sjúkraflutningum með þyrlum í framtíðinni, ekki síst á bráðamóttökur sjúkrahúsanna.

Ef byggja á upp gott heilbrigðiskerfi á Íslandi  þarf fyrst og fremst að huga að menntun og kjörum starfsmanna. Hlúa þarf að starfseminni sem þegar er fyrir og er að mörgu leiti góð, þótt ýmislegt mætti lagfæra, í stað þess að hugsa dæmið endilega upp á nýtt frá grunni. Slíka reynslu höfum við meðal annars af íslenska tölvukerfinu Sögu sem átti að vera rós í hnappagati heilbrigðiskerfisins. Það hefur þegar kostað 2 milljarða króna í hönnun og þróun og er samt engan veginn gott. Fá hefði mátt erlend kerfi sem reynsla væri komin af á miklu ódýrari hátt. Þegar er verið að nýta Bráðadeild LSH í Fossvogi betur en áður með breytingum sem hafa verið gerðar á deildinni og með stækkun sem kostað hafa mikla peninga. Sú breyting sem þörf var á hefur þróast á sl. áratug m.a. með sameiningu deilda. Þar verða næstu skref tekin og sjá á til hvernig starfsemin þróast varðandi frekari uppbyggingu á Landspítala næstu áratugina.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 4.7.2010 - 22:26 - FB ummæli ()

Náttúruval hjá börnum á Íslandi

lupinuskyrslaMikil umræða hefur átt sér stað um nýjan landnema hér á landi, lúpínuna og sitt sýnist hverjum um ágæti hennar í flóru landsins. Stofnanir og samtök hafa ólík sjónamið og menn skrifa lærðar greinar í blöðin og netmiðla og ýmist lofa hana eða hallmæla. Náttúrufræðistofnun er e.t.v. sú stofnun sem ætti að hafa mesta að segja í þessu samhengi en þar er það sjónarmið ríkjandi eins og kom fram í Fréttablaðinu í fyrradag að lúpínan vaði yfir annan lágróður á holtum og melum og minnki þannig fjölbreytileikann í íslenskri náttúru. Þannig verði að hefta útbreiðslu hennar áður en allt verður um seinan. Skógræktarmenn benda hins vegar á hvað lúpínan er góður landnemi  og henti vel til að brjóta jarðveginn niður og undirbúa hann m.a. fyrir skógrækt. Sú var tíðin að skógar uxu hér á landi milli fjalls og fjöru. Með kólnandi veðurfari, ofnýtingu skógar og ofbeit búfénaðar, útrýmdum við hins vegar skógunum á meirihluta landsins. Nú erum við e.t.v. að fara inn í hlýindaskeið og ættum að geta átt góða möguleika á að græða landið aftur upp fyrir komandi kynslóðir og bæta fyrir það sem við höfum tekið ófrjálsri hendi gegnum árin.

tonleikar2Önnur flóra er mér ekki síður hugleikin í þessu samhengi og er það okkar eigin flóra, í okkur og á. Sú flóra er okkar nánasta nærumhverfi, meðal annars í efri hluta öndunarveganna. Þar er að öllu jöfnu ákveðnar bakteríur sem eru í jafnvægi við aðrar bakteríur og þar á sér einnig stað náttúruval m.a. með lyfjavali. Eftir sýklalyfjagjöf eyðast sýklalyfjanæmu bakteríurnar en sýklalyfjaónæmar bakteríur sem eru nýir landnemar hér á land, fá kjörtækifæri að vaxa og ná sér á strik. Slíkt gerist, annaðhvort með smiti frá öðrum einstaklingi eða þá að einhverjir stofnar hafi verið til staðar í nefkoksslímhúðinni en ná sér ekki á strik vegna mótstöðu „náttúrulegu“ flórunnar nema ef kjöraðstæður verða eins og eftir sýklalyfjameðferð. Þá vaða þessir stofnar yfir annan „gróður“. Þarna verður sem sé mikið ójafnvægi á milli aðstæðna í okkar eigin náttúru af okkar eigin völdum, sýklalyfjaónæmum bakteríustofnum í vil, því meira sem sýklalyfjanotkunin er meiri hjá landanum.

Í sjálfu sér væri þetta ekki stórvandamál ef um einstakan atburð væri að ræða því smá saman kæmist þá aftur á jafnvægi. Og auðvitað viljum við geta meðhöndlað alvarlegar sýkingar sem líkaminn ræður ekki við sjálfur. Það er hins vegar mikið verra þegar ástandið er ríkjandi og viðvarandi. Þannig hefur einmitt skapast mikið vandamál á Íslandi hjá ungbörnum sem fara allt of oft á sýklalyfjakúr af litlu sem engu tilefni. Sýklalyfjaónæmum pneumókokkastofnum, sem upphaflega komu sem nýir landnemar frá Spáni og síðan frá fleiri löndum, hafa þannig náð að fjölga sér mikið. Alvarlegasta vandamálið er þó þegar þessir sýklalyfjaónæmu stofnar valda alvarlegum sýkingum svo sem slæmum og alvarlegum eyrnabólgum, kinnholusýkingum og lungnabólgum. Þótt þessi baktería sem oft er kölluð lungnabólgubakterían sé einn algengasti meinvaldurinn hjá okkur mönnunum að þá er hún engu að síður hluti af náttúrulegri nefkoksflóru og oftast til friðs. Stofnar sem fá að vera í friði eru þannig líka ólíklegri að valda sýkingum en nýir stofnar sem taka sér nýja bólfestu í flórunni, sérstaklega ef þeir eru tilkomnir eftir algera uppstokkun á flórunni áður með sýklalyfjakúr.

lyfjavalÍslendingar nota meira af sýklalyfjum en nágranaþjóðirnar. Mestu munar um notkunina hjá börnum sem oftast er vegna vægra eyrnabólgutilfella. Nýjustu tölur úr lyfjagagnagrunni Landlæknis sýna nú að aðeins hefur dregið úr sýklalyfjanotkuninni árið 2009 samanborið við árið 2008 eða um 10% og er það auðvitað vel. Mestu máli skiptir þó að mest sé dregið úr sýklalyfjanotkun yngstu barnanna sem fá hlutfallslega mest ávísað. Árlega þurfa hátt í hundrað börn að leggjast inn á sjúkrahús til að fá sterkustu sýklalyf sem völ er á í vöðva eða æð til að ráða niðurlögum alvarlegra sýkinga sem ekki gengur lengur að meðhöndla með sýklalyfjamixtúrum vegna sýklalyfjaónæmis hér á landi. Klínískar leiðbeiningar ráðleggja auk þess að nota hæstu leyfilegu skammta til að meðhöndla erfiðar eyrnabólgur hjá börnum hér á höfuðborgarsvæðinu. Enginn veit hvað tekur við á næstu árum. Bólusetningar gegn þessum bakteríustofnum leysa vonandi einhvern vanda tímabundið a.m.k. En nýir stofnar koma líklega í stað gömlu stofnana með tímanum. Því er alvarlegt að rugga bátnum of mikið og nota verður sýklalyfin af kostgæfni.

Tími kraftaverkalyfsins penicillíns og skyldra lyfja gæti verið að líða undir lok en í dag er um 35% lungnabólgubakteríunnar með ónæmi fyrir penicillíni og varalyfjum hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem sýklalyfjanotkunin er mest. Fyrir tilkomu sýklalyfjanna dóu um 30% þeirra sem fengu lungnabólgu svo að um grafalvarlegan hlut er að ræða ef sýklalyfin hætta að virka enda ný sýklalyf sem gætu leyst gömlu lyfin af hólmi ekki í augsýn.

Náttúruval á sér stað með ýmsum hætti. Þeir hæfustu komast alltaf best af samkvæmt þróunarkenningu Darwins en það er á okkar ábyrgð að hafa jákvæð áhrif á umhverfið til að náttúruval gagnist okkur öllum sem best á flestum sviðum.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 1.7.2010 - 23:17 - FB ummæli ()

Gamli minn og ESB

tunvingullNú á að vera tími uppgjöra í þjóðfélaginu eftir skellinn mikla, ekki síst á sviði stjórnmálanna. Íslendingar ganga samt á sama tíma til undirbúningsviðræðna um Evrópusambandsaðild. „Sterka Ísland- þjóð meðal þjóða“ eru m.a. einkunnarorð sem heyrst hafa og sem er tileinkað viðræðunum. Tvö megin sjónarmið eru uppi. Gamla góða Ísland eða land með löndum tækifæranna. Jafnvel grillir í klofning Sjálfstæðisflokksins á þessum tímamótum í sögu þjóðarinnar. En höfum við skilgreint þörfina og forsendurnar rétt. Samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallups sem RÚV birti í kvöld var einungis fjórðungur þjóðarinnar hlynntur aðild Íslands að Evrópusambandinu. Athygli vekur að aðeins um helmingur svarenda taldi sig þekkja vel kosti og galla Evrópusambandsaðildar og fjórðungur viðurkenndi mikið þekkingarleysi á málefninu. Því er mikið verk óunnið í að kynna kosti og galla aðildar meðal þjóðarinnar áður en sjálfar viðræðurnar hefjast.

Það er alltaf gott að byrja á byrjuninni. Hugsum við um einföldu grunngildin og þá hluti sem mestu máli skipta í samskiptum manna á milli? Hvernig fyrirmyndarþjóðfélag viljum við skapa? Leitum við eftir ráðgjöf þeirra sem reyndastir eru í lífsins skóla eða leitum við til ráðamann og stjórnmálamannanna í einu og öllu og látum síðan slag standa?

Dags daglega veltir maður álíka spurningum fyrir sér í viðtölum við skjólstæðinga sem hafa ólíkar sögur að segja af sér og sínum, í sínu eigin lífi. Lífið hefur verið miserfitt og sumum mjög erfitt. Líf einstaklings getur samt að mörgu leiti endurspeglað líf þjóðarinnar og innræti þótt aðeins í brotabroti sé. Réttlætið nær ekki til allra og heppni í lífinu er mjög afstæð stærð á Íslandi. Að vísu lýðræði en við erum örþjóð þar sem vinasamfélagið ræður mestu. Það hefur bæði sína kosti og galla en elur á spillingu og klíkuskap eins og frægt er orðið. En hver er sinnar gæfu smiður segir máltækið á sama tíma og peningagræðgin ræður mestu.  Náttúruauðlindir ganga kaupum og sölum milli tiltölulega fárra manna og arður er mergsoginn úr öðru hverju fyrirtæki sem er löngu gjaldþrota. Að meðaltali ætti hver Íslendingur að eiga tæplega 2.5 milljónir krónur samkvæmt innistæðueign hjá bönkunum, ef meðaltalið réði. Í staðinn er um fjórðungur fjölskyldna í landinu tæknilega gjaldþrota.

Reynsla og þroski eru hins vegar mælanlegar stærðir á mælikvarðanum lífsleikni sem nægir oft að gera lífið hamingjusamara, óháð ríkidæmi. T.d. að geta nýtt neikvæða reynslu á jákvæðan hátt. Lífsreynsla þegnanna hefur einnig þann tilgang að móta þjóðina og miðla reynslu og þekkingu til næstu kynslóðar. Trúarhreyfingar og stjórnmálahreyfingar hafa hingað til hjálpað okkur að fara sameiginlegar leiðir að þessum markmiðum hverju sinni. Í blíðu og stríðu. Þannig hefur það alltaf verið þar til nú. Nú þarf nýtt blóð og nýja þekkingu. Og um stundar sakir verðum við sjálf að vera okkar eigin stjórnmálaflokkur og við sjálf ábyrgari fyrir framtíð okkar en nokkru sinni áður.

Á göngum nú um hásumarið rifjast endurtekið upp fyrir mér ýmsar upplifanir eða hughrif frá æsku sem tengjast gömlu sveitinni minni. Spurningin er hvort mínar einföldu hugrenningar tengist þjóðarsálinni á einhvern hátt og eins hvort þroski minn og reynsla gegnum árin hafi kennt mér að meta hlutina rétt. Er ég dómbær? Þetta þarf ég að vita til að geta tekið stórar ákvarðanir fyrir þjóð mína. Ef þjóðarsálin er ennþá eins og barn eða óstálpaður unglingur er samt ágætt að byrja þar.

Ég tel að það hafi verið mikið lán að fá að hafa alast upp í sveit á sumrin. Ógleymanlegar ferðir eftir beljunum þegar þær voru sóttar til mjalta á gúmitúttum með sólbrennd eyru. Upp í fjall, yfir holt og hæðir, í þoku og rigningu eða glaða sólskyni og sumarhita. Stundum hálf týndur og varð að treysta á innsæi dýranna. Langar göngur eftir skorningum og meðfram nýgröfnum skurðbökkum í mýrum og flóum. Vaða læki, sökkva í mýri og hræðast svartapyttina og sökkva í hyldýpið og koma aldrei upp aftur. Hlaupa yfir tún og móa á eftir hestunum og ríða síðan berbakt heim að bæ. Rafmagnsleysið og lestur með olíulampann sér við hlið á kvöldin. Bíða eftir mjólkurbílnum tvisvar í viku til að frá fréttir frá umheiminum í Mogganum eða með sendibréfi.

Allt þetta gaf manni ákveðna skynjun og reynslu í formi tilfinninga sem verður sífellt áþreifanlegri eftir því sem maður eldist og fer að skilgreina hlutina upp á nýtt. Gamla góða sveitin var alltaf best. Það breytti þó ekki því að á haustin var alltaf mikil eftirvænting að komast heim í „bæjarmenninguna“. Komast í sjoppur og í bíó um helgar. Geta horft á sjónvarp og tilheyrt hinum stóra heimi. Á einhverjum tímapunkti miklu síðar fer maður svo að njóta hversdagslegustu hlutanna aftur betur og betur. Maður hugsar þá gjarna til gömlu daganna. Enn síðar fer maður svo að reyna að treina sér þessar góðu stundir og vilja njóta þeirra sem lengst hverju sinni.

Í sumar t.d. hef ég, nú á miðjum aldri, sennilega aldrei fylgst jafn náið með gróðrinum og hvernig hann og annað líf vaknaði til lífsins með vorinu. Frá fyrstu grænu stráunum og fyrstu sóleyjunum til dagsins í dag þegar stráin eru að verða að frumskógi á þeirra eigin mælikvarða og gnæfa nú yfir annan gróður. Hvernig lúpínan breiddist yfir eins og blátt töfrateppi á örfáum dögum á ólíklegustu stöðum og gaf manni jafnvel þá hugmynd að maður væri komin í aldingarðinn Eden. Og daginn sem varla var stigið á túnfótinn fyrir ánamöðkum sem skyndilega ákváðu að hittast á góðum súldardegi til að gera upp sín mál. Gróðurlyktin af mismunandi grösum og nýútsprungnum blómum og jafnvel af blautri moldinni og mýrarrauðanum. Hljóðunum frá hundunum sem hlupu um í grasinu og á stígunum svo undir tók á köflum og minnti mann á dynjandann í göngunum í sveitinni í gamla daga þegar bikkjurnar urðu að bestu gæðingum. Fuglasöngur af öllum gerðum, svo stundum er maður við það að ærast. Fylgjast með viðbrögðum fuglanna til að verjast sig og sína og baráttuna þeirra á milli. Mávar og vargfuglar alltaf á næstu grösum. Allt var þetta að segja manni eitthvað, hversdagslegir hlutir sem líða fljótt hjá en sem eiga sér samlíkingar með dægurmálunum í gær og jafnvel í dag.

Sennilega er þessi sterka upplifun hluti að því að eldast og þroskast og þakka ég kærlega fyrir það. Ef til vill eru þessi skrif til marks um að ég sé seinþroska að hafa ekki uppgötvað þessi undur miklu fyrr. Réttara væri þó að segja að nálgunin hafi aldrei notið sín jafn vel og í sumar af ástæðum sem flestir ættu að kannast við. Umræðan hefur nefnilega verið með þeim hætti síðastliðin misseri, að daglega vakna spurningar um hvar í ósköpunum við erum stödd í óskilgreindri gerviveröld. Hvað er satt og hvað er logið? Hverjir rændu peningunum okkar og hvar eru þeir núna? Hverjir fengu lán sem þeir þurfa ekki að borga til baka? Lög voru ólög og stjórnmálamönnum vart treystandi. Jafnvel bankarnir brugðust trausti. Nýjar fréttir á hverjum degi. Líf okkar mannanna er eins og blakandi strá í vindi, jarðbundið og sterkt, hluti af sterkri liðheild en þolir samt ekki að það sé traðkað á því.

Samtenging við hugarástand sem maður telur raunverulegt verður þannig ennþá sterkara þegar veröldin fer á hvolf. Gildin sem reyndust fölsk verða þá að víkja. Öll eigum við okkar sögu sem getur komið okkur til góðs, ef við bara viljum. Eins og miðsumarið skartar nú sínu besta, þannig blómstrar mannhugurinn líka best á miðjum aldri, við erum þroskaðri og reynslunni ríkari. Þess  vegna höldum upp á hvert árið sem við lifum með afmæli og þökkum fyrir okkur um leið. Allra síst viljum við þó missa af afmælum barnanna okkar, barnabarna og barnabarnabarna. Þannig teljum við árin best.

En hvað með aldur þjóðarinnar sem við vitum að er ung í alþjóðlegum samanburði og hversu þroskuð er þjóðarsálin? Getur verið að skýring á útrásartímabilinu hafi verið einhverskonar unglingaveiki hjá þjóðinni. En unglingarnir þroskast, fullorðnast og róast. Síðar eru teknar stórar ákvarðanir sem varða framtíðina og margir skuldbinda sig út lífið. Ef þjóðarsálin er vanþroska, er þá ekki betra að leyfa henni að þroskast aðeins betur og öðlast meiri reynslu til að geta tekið ákvörðun um framtíð sína? Varla liggur svo mikið á.

Það eftirsóknaverðasta við að ganga í Evrópusambandið er samt að þá opnast hugsanlega meiri möguleikar á námi erlendis. En oft virðist hins vegar grasið grænna hinum megin við lækinn. Möguleikar á framhaldsnámi eru ágætir í dag og Háskóli Íslands og fleiri menntastofnanir hafa náð góðum samstarfssamningum við menntastofnanir út um allan heim svo víða standa okkur alla dyr opnar. En ef til vill getum við ekki haldið okkur við einangrunarstefnu landsins endalaust. Það er eigingjarnt og ósanngjarnt gagnvart öllum þeim sem vilja kynnast landi okkar og þjóð. En við skulum ekki ganga til samninga sem undirmálsmenn, nú rétt eftir fjármálahrun og flest í sárum. Tímasetningin er einfaldlega röng og undir óeðlilegum aðstæðum auk þess sem þjóðin þarf að þroskast betur til að geta metið af raunsæi kosti og galla. Vil í þessu samhengi benda á góða grein eftir Ingva Gíslason í Fréttablaðinu í morgun um sjálfstæðisvitundina og hvernig hún hefur þróast á sl. árum.

Í Kína er sagt að gamall maður sé vitur maður. Við þurfum ef til vill bara að spyrja eldra fólkið réttu spurninganna til að verða þess vísari. En við höfum lítið talað við eldri kynslóðina. Okkar eigin nútímaþekking á flestum sviðum brast og var ósönn. Svörin þeirra eru því okkur í dag afar mikilvæg og byggja á þroska, reynslu og innsæi. Við höfðum líka lesið illa heima og rangt á milli línanna, töldum peningana vitlaust, vorum að flýta okkur, vorum of gráðug og reikningsskilin voru að lokum kolröng. Ungt fólk fær góðar hugmyndir en tölum nú við gamla fólkið sem er flest jarðtengt og spyrjum það hvað sé mikilvægast í enduruppbyggingu þjóðfélagsins. Veltum síðan fyrir okkur samstarfi með öðrum þjóðum á okkar eigin forendum. Verum leiðandi í þeim viðræðum, við höfum svo margt að bjóða sem er afskaplega eftirsóknavert.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · útivist

Fimmtudagur 1.7.2010 - 16:55 - FB ummæli ()

Slá þú hjartans hörpustrengi

HarpaFátt veldur meiri gleði og eftirvæntingu meðal þjóðarinnar en Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa sem nú er að rísa við Reykjavíkurhöfn. Jafnframt verður húsið alla tíð minnisvarði um það sem það sem við höfðum ekki efni á en langaði alltaf svo mikið í og fengum fyrir rest, jafnvel eftir fjármálahrun. Menning og menntun verður aldrei metin til fjár og með tímanum kemur húsið til með að borga sig margfalt upp þótt ekki væri nema vegna fjölda erlendra gesta sem koma til með að sækja landið heim m.a. vegna fegurðar hússins og það sem það hefur upp á að bjóða.

Mér er málið aðeins skylt þar sem ég tók þátt í samkeppni um nafnið 2007 og sendi aðeins inn eina tillögu sem var nafnið Prisma. Nafnið átti nefnilega að vera vel skiljanlegt á enskri tungu og helst alþjóðlegt. Prisma brýtur ljósið í litrófið og nafnið gat orðið jafn frægt og Perlan var þegar orðin í höfuðborginni Reykjavík.

En ég er í dag sammála að Harpa er miklu betra nafn og Prisma er meira 2007. Harpa er þjóðlegra nafn og snertir hjartað en prismað er kaldara og tæknilegra. Litirnir sem eiga að endurspeglast í litrófinu frá gluggunum minna engu að síður á tærleikann í loftinu og alla litina sem íslensk náttúra hefur að geyma. Mér skilst að forsetahjónin hafi fært Viktoríu svíaprinsessu og hennar brúðguma forláta glerskál í brúðkaupsgjöf frá íslensku þjóðinni á dögunum sem var í öllum regnbogans litum og átti einmitt að minna á alla litina sem finnast í íslenskri náttúru. Hef reyndar því miður hvergi séð mynd af brúðkaupsgjöfinni sem mér finnst að hafði verið við hæfi og að allir landsmenn gætu séð fyrir brúðkaupið.

Mér er hins vegar þegar farið að þykja afskaplega vænt um Hörpu og hlakka mikið til að sjá húsið tilbúið næsta vor, ekki síst hvernig það kemur til með að líta út utan frá. Vafalaust verður húsið einstakt í sinni röð og góður minnisvarði. Andinn sigrar efnishyggjuna.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Menning og listir

Mánudagur 28.6.2010 - 22:24 - FB ummæli ()

Skynsamleg ákvörðun um afnám sumarlokana

heilsugaeslanHeilbrigðisráðherra, Álheiður Ingadóttir hefur ákveðið að síðdegismóttökur heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu skulu vera að einhverju leiti opnar í sumar þrátt fyrir að löngu hafi verið búið að ákveða lokun á þeim frá kl. 16 alla virka daga frá 15. júní sl. og fram til 15. ágúst. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV í kvöld. Ég fagna þessari ákvörðun þar sem ég taldi fyrri ákvörðun um algera lokun hafa verið móðgun við heilsugæsluna eins og ég hef bent á hér á blogginu mínu. Fagleg sjónarmið voru látin víkja fyrir skammtímasjónarmiðum um sparnað og kostnaður hefði í alla staði orðið meiri þegar upp væri staðið. Vonandi verður heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu þannig samanburðarhæfari við heilsugæsluna úti á landi sem býður upp á meiri samfellu í þjónustunni en hér í mesta þéttbýlinu.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál

Föstudagur 25.6.2010 - 01:43 - FB ummæli ()

Myndin dökk

IWasNotTheOne„Myndin of dökk“ getur haft þrenna merkingu. Myndin er óskýr eins og á tölvuskjánum þegar birtan umhverfis er of mikil eða þá að mynd eins og ljósmynd sem fær ekki nóga lýsingu þegar hún er tekin og verður þannig dökk og óskýr á pappírnum. Í þriðja lagi getur mynd verið máluð dökk og drungleg sem boðar ekki gott. Allt þetta getur átt við í dag. Stjórnmálamennirnir tala nú mög óskýrt, jafnvel í myrku máli, þótt almenningur væri farin að verða bjartsýnn, að minnsta kosti þeir sem áttu allt undir með skuldsetningu gjaldeyrislána. Góðar afkomutölur bankanna fuku enda úti í veður og vind í sumarlogninu með úrskurði hæstaréttar á dögunum. Myndin sem dregin hafði verið upp fyrir okkur til þess dags var ósönn, mislukkuð, enda tekin í ósönnu ljósi og í raun lögleysa frá upphafi. Lögleysa þýðir það nefnilega að afleiðingarnar snerta þriðja aðila á einhvern hátt með neikvæðum formerkjum eins og t.d. hinn almenna skattborgara. Í þriðja lagi að þá er myndin í dag afskaplega óskýr enda illa máluð af stjórnmálamönnum hvað framtíðina varðar og þungt í mönnum. Sumir sjá sér samt leik á borði of ala á enn meiri tortryggni. Ef ganga á gegn niðurstöðu hæstaréttar og búa til nýja jöfnun meðal almennings má búast við fleiri lögsóknum, skerðingu og niðurskurði í velferðarmálunum og jafnvel ótrygga bankastarfsemi í landinu. Sumir eru jafnvel farnir að hvetja til úttektar á öllum sparnaði, eða fyrir þá sem á annað borð eiga einhvern sparnað, og flýja land fyrir næsta hrun. Og til að kóróna þetta allt saman fara stjórnmálamenn nú í frí frá öllu saman fram á haustið.

Myndin hefur reyndar verið dökk að mörgu leyti í sumar, a.m.k. afskaplega óskýr þrátt fyrir veðurblíðu og sól í heiði. Fjölmiðlar hafa forðast að fara í gagnrýna umfjöllun á málefnum dagsins sem þó eru yfirþyrmandi þótt nú sé mitt sumar. En tímarnir í dag eru ekki venjulegir. Ríkisfjölmiðlarnir fóru samt frí og einbeita sér nú einna helst að fótboltanum. Jafnvel fréttatímar eru látir fjúka eða víkja og umræðuþættir lagðir niður þegar e.t.v. aldrei hefur verið meiri þörf að kryfja málin til mergjar. Almenningur vill fá að taka þátt í umræðunni og umræðuþættir og vandaður fréttaflutningur eru lykilatriði og forsenda slíkrar umræðu. Netmiðlarnir standa sig hvað best hvað þetta allt varðar og ef ekki væri fyrir þeirra tilstuðlan að þá væri allt þaggað niður með allsherjar þöggun. Neðanjarðarpóstar, neðanjarðarhreyfingar og skuggaráðuneyti myndu þá e.t.v. blómstra betur fram að stjórnlagaþinginu, hvenær sem svo það verður. En e.t.v er meira að gerast á bak við myrkvuð tjöldin en við vitum um.

En hvernig væri nú að fara að taka betri myndir. Hvernig væri að fara að mála myndir í bjartari tónum. Hvernig væri að fara að mála myndir í raunverulegum litum. Ræða málefnin út frá bestu þekking hvar sem við erum stödd. Hættum að taka þátt í þeirri þöggun sem gegnsýrt hefur íslenskt samfélag sl. áratugi. Áður var það fyrst og fremst vinasamfélagið sem réð öllu en nú er það hræðslusamfélagið þar sem enginn er öruggur með sitt nema að eiga vin og jafnvel dómstólarnir rugla okkur í ríminu. Nefnum hlutina réttum nöfnum. Skilgreinum hagsmunahópa og hlustum á grasrótina og þá sem hafa faglega þekkingu. Látum stjórnvöl heyra að kerfin geta talað saman og að þau þurfi að leita eftir því á öllum sviðum. Við þurfum að spara mikla peninga á næstu misserum. Við viljum öll hafa afskipti af því hvernig það verður gert. Við gætum haft skoðun sem skiptir okkur öll máli. Alþingi og fjölmiðlar verða að halda áfram að taka þátt í leiknum, honum er ekki lokið.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 22.6.2010 - 12:13 - FB ummæli ()

„Svarthvíta hetjan mín..,“

colortv„hvernig ert þú í lit“, segir í frægum dægurlagatexta með Dúkkulísunum. Textinn er samt ekki svo voða gamall en höfðar til gömlu svart-hvítu kvikmyndanna, hetjudýrkunar og síðan hversdagsleikans eins og hann blasir við okkur. Nú er að nálgast mitt sumar, ég kominn í sumarfríið og litadýrðin í náttúrunni í hámarki. Hvað gefur lífinu meira lit en njóta þeirra allra?

Í gamla daga, á upphafsdögum litasjónvarpsins, var stóra óskin á hverju heimili litasjónvarp. Þú vildir fá að sjá heiminn eins og hann var í raun og veru enda var talað um „lifandi liti“ í tækinu. Menn trúðu því að veröldin yrði nær fullkomnuninni með litasjónvarpi og að maður gæti þá fylgst með öllu sem skipti máli í raunverulegu umhverfi, heima í sófa. Samt höfðu Íslendingar kynnst svart-hvíta sjónvarpinu aðeins um 10 árum áður og kanasjónvarpinu rúmum 10 árum þar á undan og tilheyrðum þar með hinum vestræna menningarheimi. Nokkrir höfðu reyndar haft varann á sér frá upphafi varðandi menningaráhrifin á landann. Töldu ameríska sjónvarpið siðspillandi og boðskapinn tilheyra landi lágmenningarinnar. Þeir lofuðu hins vegar menningaráhrif íslenska sjónvarpsins þegar það byrjaði og áhrifa sem sjónvarpið gæti haft á íslenska tungu og menningu. Annað átti eftir að koma á daginn.

Allt þetta þótti, þegar á heildina er litið, mikill menningarauki á Íslandi og lausn alls leiða. Við höfðum tengst alþjóðasamfélaginu. Endalaust skemmtiefni og fullkomnun heimilislífsins þar sem allir í fjölskyldunni gátu nú setið hamingjusamir saman og notið samverunnar. Einn eftirminnilegasti þátturinn var skíðakennslan heima í stofu þar sem maður átti að ímynda sér að maður vær á bruni niður skíðabrekkurnar í fjöllunum. Menn lögðu líka fljótt svarthvítu sjónvarpstækjunum og byrjuðu að borga af nýju litasjónvörpunum með háum afborgunum til að geta notið litanna og fjallana betur. Þvílík vonbrigði. Af öllum þjóðum þurftum við sennilega síst á litunum að halda heima í stofu, litum sem við höfðum svo nóg af allt í kringum okkur. Litirnir í imbanum reyndst heldur hvorki lifandi né raunverulegir, eins og sagt var í auglýsingunum.

En grár hversdagleikinn hefur samt löngum verið okkur Íslendingum erfiður. Síðastliðna áratugi höfum við sennilega átt heimsmet í kapphlaupinu í að nútímavæðast. Við þjófstörtuðum reyndar á lokakafla hlaupsins mikla og komust heldur aldrei í mark. Síðastlið ár höfum við síðan verið dugleg að endurmeta lífsgildin. En því miður full seint fyrir suma sem villtust rækilega í hlaupinu og hafa aldrei fundist. Að byrja hlaupið aftur með tilliti til skulda er enda vonlaust dæmi fyrir þá villtu. Viðmið með tilliti til annarra lífsgæða er þó eitthvað sem flestir ættu að geta sætt sig við, svona til að byrja með. Göfugusta markmiðið í dag getur verið að skilja við að lífslokum skuldlaus en eignarlaus, eftir ævilangt starf, sérstaklega ef ekki er gengið á möguleika næstu kynslóða til að njóta þeirra lífsgæða og við þó njótum í dag. Þarna er ekki síst átt við hvernig við ætlum að skila náttúrunni sjálfri til afkomenda okkar og svo hvernig við ætlum að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir í mennta- og menningarlegu tilliti. Draumurinn um litasjónvarpið var auðvitað tálsýn, en er ágætis afþreying, tímabundið eins og svo margt annað.

Nú snýst umræðan um Evrópusambandsaðild. Okkur er boðið að vera með. En er grasið grænna austan atlandsála og liggur okkur eitthvað á? Eigum við að fylgja straumnum með von um betri tíð og litríkara mannlíf eins og sagt er eða njóta og byggja á þeirri náttúru og litum sem við þegar höfum, svona til að byrja með?

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 17.6.2010 - 10:19 - FB ummæli ()

Hátíð í bæ

vidimyriÍ Skagafirðinum í gamla daga var aðeins einn dagur haldinn hátíðlegur á sumrin. Það var 17. júní og þá gjarnan farið í messu og drukkið kakó með rjóma á eftir. Ekki svo að skilja að ég sé svo gamall því eins man ég eftir hefðbundnum hátíðarhöldunum árin á undan í Reykjavík. Einhvern veginn fannst mér samt hátíðlegra í sveitinni enda naut maður í fyrsta skipti frídags sem barn og þess sem var viðhaft á borðum til hátíðarbrigða. Heyskapur var heldur ekki byrjaður og sauðburðurinn rétt búinn. Sumardaginn fyrsta var maður líka búinn að halda upp á með skátunum í skrúðgöngu með fánum og blöðrum rétt áður. Njótum dagsins með börnunum og rifjum upp gamla tíma með þeim. Í kirkjum lansins og fánanum okkar sameinast nútíð og fortíð. Gleðilega hátíð.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Vinir og fjölskylda

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn