Sunnudagur 9.5.2010 - 12:33 - FB ummæli ()

Kvikan og vísindin

ejafjalla16apr2010-mfulle4145j

Frábærar myndir af gosinu í Eyjafjallajökli á http://www.swisseduc.ch/stromboli/-SMELLA Á MYND

Mikil öskumengun eins og íbúar í Vík í Mýrdal og öðrum stöðum undir Eyjafjallajökli og Vestur-Skaftafelssýslu mega nú þola getur breytt degi í nótt auk þess að geta valdið miklum búsifjum. Landlæknisembættið hefur gefið út ráðleggingar varðandi hugsanlegt heilsutjón sem kann að hljótast af öskumengun sem leggst ílla í öndunarfærin og augun. Auk þess getur með öskunni borist eitraðar gufur sem erfitt getur verið að varast. Þess vegna verða allir að fara með ýtrustu gát kringum gosstöðvarnar. Í helgarblaði Fréttablaðsins er hins vegar áhugaverð grein um íslensku ösku- og gjóskulögin sem skráir að sumu leiti örlagasögu þjóðarinnar. Nú er öldin önnur og mynda má náttúruhamfarirnar um leið og þær gerast. Heimurinn alur fylgist með enda um einstaka atburði að ræða eins og margir erlendir fréttamenn með mikla reynslu um víða veröld hafa tjáð sig um. Á veraldarvefnum er hægt að nálgast margvíslegar upplýsingar, fylgjast með eldgosinu í beinni útsendingu og skoða stórkostlegar myndir án endurgjalds eins og sjá má ef smelt er á myndina hér til hliðar (www.swisseduc.ch/stromboli).

Margt getur verið líkt með kvillum okkar mannanna og duttlungum nátttúrunnar þar sem tæknin kemur einnig að gagni. Kvikuskot í Eyjafjallajökli og eyrnabólgur eiga t.d. ýmislegt sameiginlegt ef betur er að gáð, a.m.k. er gaman að leika sér af samanburðinum þótt hamfarirnar nú sé allt annað en grín. Segja má t.d. að eyrnabólgan verður til við einskonar kvikuskot í kokhlustinni. Eyrnabólgur og ekki síst þrálátar eyrnabólgur er oft erfitt að greina og spá fyrir um. Um er að ræða samspil margra þátta. Umfang bakteríusýkingar í vökva sem safnast hefur í miðeyranu t.d. tengt kvefi, er það sem skiptir máli þegar metinn er hugsanlegur ávinningur af sýklalyfjameðferð. Lang flestar miðeyrnabólgur lagast hins vegar jafnvel af sjálfu sér án sýklalyfjameðferðar. Til að greina þær breytingar sem sjást á hljóðhimnunni þarf bæði kunnáttu, þjálfun og góða eyrnasjá (otoscope). Læknar eru auk þess ekki alltaf sammála um greininguna og sitt sýnist hverjum, sérstaklega þegar meta á umfang sýkingarinnar, bólgueinkenni, roða í hljóðhimnu, hreyfanleika hljóðhimnunnar, æðateikn og jafnvel útbungun. Bólgan og sýkingin getur hegðað sér líkt og eldgosin með gosóra í formi mikilla verkja áður en sjálf útbungunin á hljóðhimnunni á sér stað en sem að lokum getur jafnvel ovaeturinn3sprungið og vellur þá gröfturinn út. Oft hjaðnar sýkingin hins vegar fljót niður af sjálfu sér enda líkaminn hannaður til að takast á við slíkar truflanir af eigin rammleik. Til að greina þetta vel þarf samt greiningartæki svo sem góða eyrnasjá, ekkert síður en jarðfræðingar þurfa sína mæla og tól. Hingað til hefur ekki verið hægt að festa breytingarnar á mynd með góðu móti en nú býður tæknin upp á þann möguleika, ekkert síður en nýja ratsjármyndavél Landhelgisgæslunnar sem skilað hefur svo frábærum myndum að eldstöðvunum í Eyjafjallajökli og sem gefur möguleika á að meta breytingarnar á gosstöðvunum dag eyrnabolgafrá degi, jafnvel þótt skyggnið sé lélegt. Rafeindatæknin býður  nú upp  eyrnasjá sem lítur út í fljótu bragði eins og gamla tækið en sem er með rafrænni myndavél (digital otoscope). Þannig er hægt að taka góðar myndir á mjög einfaldan hátt, bæði venjulegar myndir (eins og myndin hér til hægri) og hreyfimyndir (videó) sem skiptir sköpum ef annar aðili þarf að meta breytingar sem voru til staðar daginn eða daganna áður. Auðvelt er að tengja eyrnasjána við t.d. fartölvu eða síma og skoða breytingarnar á skjánum. Á höfuðborgarsvæðinu er það einmitt svo að yfirleitt kemur aldrei sami læknirinn að greiningunni frá degi til dags. Barn kemur t.d. á læknavakt að kveldi og annar sér barnið daginn eftir. Ef  bíða á með sýklalyfjameðferð og sjá til hvernig hlutir þróast hlýtur að vera mikilvægt að hægt sé að bera breytingarnar saman. Og tækið kostar aðeins rétt rúmlega 200.000 kr. sem teljast verður ódýrt þegar um lækningatæki er að ræða og aðeins þarf eitt slíkt tæki á hverrja stöð. Upplagt t.d. fyrir félaga- og góðgerðarsamtök sem vilja gefa góðar gjafir sem kemur heilsuvernd barna að góðum notum. Kvennadeild Lions í Mosfellsbæ hefur t.d. gefið heilsugæslustöðinni þar í bæ slíkt tæki. Sjón er alltaf sögu ríkari.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · útivist

Mánudagur 3.5.2010 - 23:02 - FB ummæli ()

Afmæli og jarðarfarir

221509309_0bd5f82783Það hefur lengi blundað í mér að koma orðum að því og lýsa hvernig manni líður í og eftir hafa verið viðstaddur jarðarför ættingja, vins eða samferðarmanns. Undanfarið hefur þessi tilfinning ,eða réttara sagt hughrif, sótt meira og meira á mig, einkum hvað samferðarmennina varðar. Það er ekki vegna þunglyndis heldur dapurleika þess hvernig komið er fyrir þjóðfélagi sem ég átt þátt í að byggja upp ásamt fleirum. Mitt lífsstarf hefur fyrst og fremst miðað að því að lengja líf og bæta lífsgæði fólks. Eins að kanna þá áhrifaþætti sem skiptir lýðheilsuna máli. Það getur því ekki annað en reynt á tilfinningarnar svo um munar þegar maður horfir í baksýnisspegilinn og sér, að horft var framhjá því sem mestu máli skipti í okkar þjóðfélagi. Líf manns er enda miklu meira en starfið manns. Síðastliðið ár hef ég þó reynt að koma að þessum málum í bloggfærslum mínum, svona undir rós, um leið og ég er sjálfur að reyna að átta mig betur á staðreyndunum.

Nú vil ég samt reyna að segja söguna meira eins og hún er. Jarðarfarir reyna oft á tilfinningaskalann til hins ýtrasta og því ágætt að byrja þar. Við þær aðstæður leggst allt á eitt. Söknuður og oft mikil sorg. Stundum grátur sem er góður og vorkunnsemi gangvart þeim nánustu. Orgelspil og lagaval er síðan til að hámarka hughrifin og maður horfir á kistuna sveipaða íslenska fánanum. Síðan fögnuður í hjarta yfir því hvað prestinum tekst oft að gera lífhlaup mannsins merkilegt. Þetta kemur reyndar enn betur fram í minningargreinunum og þá frá fleiri sjónarhornum. Lokauppgjörið virðist þannig oftast nokkuð gott, en eftir situr þó alltaf minningin um manneskjuna eins og maður þekkti hana. Minning samferðarmanns sem alltaf góð að einhverju leiti. Eftir jarðarförina er hins vegar eins og að lífið byrji að nýju með meiri krafti en áður, ákveðið uppgjör hefur farið fram. Og maður er sjálfur þakklátur að fá að vera hér aðeins lengur og til að bæta sig sem manneskju. Jarðarförin var þannig líka til góðs og til áminningar.

Afmælin eru hins vegar önnur tímamót, þar sem fjölskylda og vinir koma saman. Þá er létt á nótunum, en innihald ræðanna oft hjáróma og fært vel í stílinn. Farið er yfir farinn veg og afmælisbarninu gjarnan hrósað í hástert. Því launahærri sem menn eru því veglegra afmæli og fleiri ræður, enda mörgum sem þakka þarf velgengnina. Menn eru hvattir til að halda áfram á sömu braut.

Áminningarnar og  hughrifin í lífinu eru þannig misjöfn eftir því á hvaða tímamótum við stöndum. Tilfinningarskalinn er til staðar, en mismundandi þaninn eftir stað og stund. Það er reyndar mjög gott að finna að þessar tilfinningar eru allar til staðar þegar á þarf að halda. Tilfinningarnar segja manni enda meira en allt annað á hvaða vegferð við erum í lífinu. Þær eru líka orkulind sem við getum beislað og virkjað til góðs. Brjóstvitið og heiðarleikinn er hluti af þessum tilfinningum og sem við lærðum þegar við ólumst upp. Bestu þakkir fyrir það. Þær eru þarna innra með okkur og endist allt okkar líf. En allt of oft náum við ekki til þeirra þegar mest á reynir. Þær brjótast hins vegar út við vissar aðstæður eins og við jarðarfarir.

Síðastliðið rúmt ár hefur verið mikil sorg hjá íslensku þjóðinni. Það einfaldlega dó eitthvað innra með okkur flestum. Við þurftum að ganga í gegnum áfalla- og sorgarferli eins og þegar ástvinur deyr, jafnvel þótt sá hafi verið mikið vandræðabarn alla sína ævi. Við viljum trúa því að hann hafi ekki verið alvondur og að hann hafi gefið okkur sem eftir lifum eitthvað til að læra af, aðallega samt reynsluna hvernig við eigum ekki að lifa lífinu. Aðstæður voru honum erfiðar og hann kunni ekki fótum sínum fjárráð. Við samglöddust honum samt við ýmis tækifæri, ekki síst á stórafmælum. Óreglan í bland við svik og pretti  í viðskiptum var hans mesta óhamingja. Sennilega var uppeldinu mest um að kenna. Þar erum við sem eldri erum og ólu hann upp að hluta ekki alsaklaus. En nú kveðjum við þennan vin og tökum sameiginlega þátt í sorginni. Við erum sterkari á eftir og reynslunni ríkari.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Sunnudagur 2.5.2010 - 22:25 - FB ummæli ()

Hvar eigum við heima?

Mjög einkennilegs tóns gætir nú hjá bloggurum eyjunnar og reyndar þjóðarsálinni. Pólitísk upplausn og vantrú. Stjórnmálaforustunni í dag virðist ekki ætla að takast það ætlunarverk sitt að blása til nýrrar sóknar. Nú er af fullri alvöru rætt um sjálfsprottið stjórnlagaþing og nýja stjórnaskrá.

Að eiga sér ekki rætur er eitthvað sem fæstir Íslendingar kannast við. Við eru frændrækin þjóð með 1000 ára sögu. Við þekkjum staðhætti landsins og fyllumst stolti en um leið lítilæti þegar við hugsum til heimahaganna, óháð hvar við búum í dag. En nú er öldin önnur og við erum í tómarúmi. Enginn veit hvað verður eða gerist í náinni framtíð. Það sem breytti öllu var að framið var níðingsverk á þjóðinni sem átti sinn bakhjalla hjá stjórnmálamönnunum á Alþingi og forsetanum á Bessastöðum. Hvorugur staðurinn vekur nú upp þær tilfinningar sem áður var. Umræðan sl. mánuði hefur enda ýmist litast að stjórnleysi (anarkisma) eða fortíðarþrá. Framboð Besta flokksins er afsprengi Búsáhaldabyltingarinnar sem Jón Gnarr og félagar settu fram, meira í gríni en alvöru, en sem núna er orðið að raunverulegt stjórnmálaafli í landinu. Stjórnmálaafls sem litast af hentisemi og stjórnleysi, án skýrra markmiða og sem breytast frá degi til dags. Aðalmarkmiðið er að vera á móti öllu gömlu gildunum. En hvenær er gamanið orðið að alvöru?

Hér á árum áður áttum við góða leiðtoga sem sameinuðu okkur í þeim gildum sem íslenska þjóðin vildi standa fyrir, ekki síst á menningarsviðinu. Pólitíkin er furðuleg tík og því miður urðu margir af aurum apar. Okkur leið þó alltaf vel þegar öflugir pólitískir leiðtogar eða forsetar komu fram og leiddu þjóðina. Undirritaður er einn af þeim sem stóð í þeirri trú, jafnvel eftir hrunið, að heimskreppunni og óheppni væri um að kenna en ekki pólitísku baktjaldarmakki og innherjasvik við þjóðina um árabil. Aðrir kusu að líta alltaf undan til að styggja ekki forystuna.

Nú er hægt að segja næstum hvað sem er sem tengist spillingu, allt er satt. Því miður reyndust stjórnmálaleiðtogarnir engan veginn traustsins verðir. Og nú erum við leiðtogalaus og eigum hvergi heima. Íslenska pólítíkin hefur verið gjaldfeld í þeirri mynd sem við vildum þekkja hana. Heiðarlegir stjórnmálamenn sem nú kunna að finnast eru upp á röngum tíma og e.t.v á röngum stað. Þeir reyna þó að klóra í bakkann og gera sem best úr stöðunni eins og hún blasir við. Þjóðin vill hins vegar alsherjar uppstokkun á pólitíkinni sem fyrst. Margir fyrrum stjórnmálamenn kunna væntanlega að reynast haukar í horni, vilji  þeir taka þátt í leiknum að nýju, enda þurfum við á öllu okkar hæfasta fólki að halda. Það sem við viljum sjá hins vegar í nýjum leiðtogum í dag þarf að sameina heiðarleika, visku, stolt, hógværð og hlýju.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 30.4.2010 - 16:46 - FB ummæli ()

Langri eyrnabólgusögu að verða lokið!

bólusetning

Langri sögu að verða lokið- Grein í Morgunblaðinu 26.10.1997

Loks grillir í bólusetningu gegn algengasta heilsumeini barna á Íslandi, miðeyrnabólgunni. En að mörgu þarf að hyggja þar sem aðeins er verið að tala um bólusetningu gegn alvarlegustu meinvöldunum og meðhöndlun miðeyrnabólgu þarf að vera miklu markvissari en hún hefur verið hingað til.

Flestir foreldrar kannast við þann vanda sem fylgir því að eiga eyrnaveikt barn. Ætla má að um 80% barna fái miðeyrnabólgu strax á fyrsta aldursári og sum hver oft. Reikna má  með  milli 10-20.000 staðfestum tilfellum á ári hverju. Í flestum tilfellum er um að ræða sýkingar af völdum lungnabólgubakteríunnar, Streptococcus pneumoniae. Flestar miðeyrnabólgur hafa verið meðhöndlaðar hingað til með sýklalyfjum en eyrnabólgur eru ástæða fyrir meirihluta sýklalyfjaávísana meðal barna hér á landi. Flestar eyrnabólgurnar lagast hins vegar af sjálfu sér og talið sjálfskaparvíti að ætla að meðhöndla þær allar með sýklalyfjum. Um þriðjungur barna á Íslandi fer síðan í aðgerð og fær hljóðhimnurör hér landi, aðallega vegna endurtekna eyrnabólgna. Alvarlegast er þó þegar um er að ræða blóðsýkingar og heilahimnubólgur sem pneumókokkasýkilinn getur valdið. Í þeim löndum sem bólusetningin hafur verið tekin upp hefur tilfellum alvarlegra sýkinga fækkað um 80% . Heimsóknum til lækna og sýklalyfjaávísunum vegna miðeyrnabólgu hefur einnig fækkað umtalsvert eða allt að 40% í sumum langtímarannsóknum þar sem bóluefnin hafa verið notuð um árabil. Þar má sjá hvað almenn þátttaka ungbarna í þessari bólusetningu getur haft mikil áhrif auk þess að geta dregið þá um leið úr sýklalyfjanotkun barna en hún er mjög mikil hér á landi. Mikil sýklalyfjanotkun barna er einmitt talin helsta skýringin á miklu sýklalyfjaónæmi lungnabólgubakteríunnar en upp undir 40% stofna eru með ónæmi fyrir penicillíni og helstu varalyfjum í dag. Um þriðjungar barna sem síðan fá sýklalyf, bera þessa sýklalyfjaónæmu bakteríu fyrstu vikurnar á eftir. Það getur verið mjög vandasamt að meðhöndla alvarlegar sýkingar sem þessir sýklar valda svo sem slæmar og alvarlegar miðeyrnabólgur. Engin önnur bólusetning getur aukið velferð barna meira miðað við þær aðstæður sem við búum við á Íslandi í dag og sem því miður er að hluta okkur sjálfum að kenna.

Í dag geta foreldrar sem hafa efni á, beðið um bólusetningu gegn lungnabólgubakteríunni fyrir börnin sín á fyrsta ári sem þurfa þá að fá 3 bólusetningar þar sem hver og ein sprauta kostar yfir 10.000 kr. Um tvennskonar bóluefni er að ræða þar sem önnur tegundin hefur einnig virka vörn gegn öðrum meinvald sem oft veldur miðeyrnabólgu en er síður alvarlegur,  Hemophilus Influenzae (non-typeable). Því er eðlilegt að spurt sé hvort ekki sé verið að mismuna börnum eftir efnahag foreldra.  Almenn þátttaka í bólusetningunni verður heldur aldrei góð með þessu móti og gott hjarðónæmi næst ekki. Auk þess er hætta á að foreldrar sem ekki hafa efni á þessari bólusetningu horfi með neikvæðari augum til annara bólusetninga sem ekki er jafn sýnilega gagn af og eru ráðlagðar í dag. Það væri alvarleg þróun því þá myndi hjarðónæmi gegn þeim smitsjúkdómumsjúkdómum skerðast.

grátandibarn2Ég hef áður fjallað um gagnsemi bólusetningarinnar hér á blogginu mínu sem hluta af sértækum aðgerðum gegn miklu sýklalyfjaónæmi sem bregðast verður við með ábirgum hætti. Þar eru klínískar leiðbeiningar eins og hvernig á að meðhöndla miðeyrnabólgur þó mikilvægastar. Hræðslan við alvarlegri sýkingar af völdum miðeyrnabólgu ætti a.m.k. að vera minni ef börnin eru bólusett. Ný greiningartækni er einnig þegar möguleg fyrir heilsugæsluna og vaktþjónustuna en sem ekki hefur verið tekin upp.

Líklegt er að mikill þjóðhagslegur sparnaður náist vegna minni lyfjakostnaðar, minni fjarveru foreldra frá vinnu og fækkun aðgerða vegna hljóðhimnurörísetninga. Eins má reikna með minna álagi á heilsugæsluna og vaktþjónustuna en upp undir 20% af öllum komum er vegna loftvegasýkina og eyrnabólgu. Eins eru eyrnbólgurnar eru taldar skýra yfir helming af öllum komum barna til lækna á stofu. Gamla fólkið græðir einnig vegna hjarðáhrifa eða hjarðónæmis (herd immunity) en flest dauðföll vegna alvarlegra sýkinga í dag eru í þeim aldurshóp. Það er ekki síst mikilvægt þar sem flestir þessara stofna sem smitast frá börnunum er sýklalyfjaónæmir stofnar.

Samkvæmt frétt Fréttablaðsins í morgun hafa heilbrigðisyfirvöld nú tekið ákvörðun um að taka upp þessa bólusetningu í ungbarnaheilsuverndinni í náinni framtíð. Öll hin Norðurlöndin hafa tekið hana upp, jafnvel þótt eyrnabólguvandinn sé ekki jafn mikill þar og sýklalyfjaónæmið jafn mikið og hér á landi. Sif Friðleifsdóttir alþingismaður ásamt fleiri þingmönnum lögðu fram þingsályktunartillögu um síðustu mánaðarmót um að við tækjum upp þessa bólusetningu og fékk tillagan jákvæðar undirtektir hjá heilbrigðisráðherra, Álheiði Ingadóttur . Hún sagði  í samtali við Fréttablaðið í morgun að „verið sé að leita leiða til að leggja fjármagn til bólusetninganna á næsta ári. Áætlað er að bólusetningin kosti á bilinu 120 til 140 milljónir króna árlega en ráðherra gerir ráð fyrir að verja 100 milljónum til þeirra á næsta ári enda hefjist bólusetning líklega ekki 1. janúar“.

Maður er hins vagar hugsi að lítið hefur heyrist frá foreldrum varðandi þessi mál og einnig vegna þess mismununar sem þegar hefur skapast þegar efnahagur foreldra ræður því hvort börn séu varin fyrir algengasta heilsumeini þeirra eins og staðan er í dag. Ein sennileg skýring er sú að engin hagsmunasamtök eru til um almennt góða heilsu ungbarna á Íslandi.  Eins hafa flestir fjölmiðlar lítið látið málið til sín taka og ekki gert vandamálinu góð skil. Ekkert hefur heldur heyrst frá atvinnurekendum en eyrnabólga er algengasta ástæða fyrir fjarvistum foreldra úr vinnu.

Aðalatriðið er að flýta eins og kostur er upptöku á bóluefninu og að um leið verði myndalega tekið á sýklalyfjaávísanavenjum lækna. Í dag er þær allt of algengar af litlu tilefni og sem á stóran þátt í að hafa komið okkur í þá stöðu sem við erum í dag með endurteknar eyrnabólgur og mikið og alvarlegt sýklalyfjaónæmi.  Annars er hætt við að við köllum yfir okkur önnur og alvarlegri vandamál, ekki síst yfir börnin okkar og gamla fólkið.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Fimmtudagur 29.4.2010 - 16:43 - FB ummæli ()

Að byggja úr Legó

Legos fyrirmyndarþjóðfélagÍ gamla daga byggði ég oft með syni mínum úr Legó-kubbum. Fyrst voru hlutirnir sem við byggðum einfaldir en eftir nokkur ár voru byggð heilu þorpin, jafnvel með flugvelli og öllu. Lögreglustöðin og slökkviliðsstöðin gleymdust aldrei. Bankar voru yfirleitt ekki byggðir. Oft voru húsin eða þorpin byggð upp aftur og betrumbætt. Með vaxandi aldri fóru hlutirnir samt að verða flóknari. Tæknikubbarnir komu á markað og nú varð að fara eftir leiðbeiningum hvernig maður byggði. Stráknum fannst þetta stundum flókið svo hann fékk stundum pabba sinn til að hjálpa sér. Tækniundur urðu til en strákurinn var oft farinn að snúa sér að einhverju allt öðru þegar yfir lauk.

Samfélag okkar mannanna hefur alltaf verið byggt á gömlum merg forfeðranna. Reyndar hafa ríkt skálmaldir og stríð. En grunngildin hafa þó verið á hreinu. Á einhverjum tímapunkti á síðustu öld tóku aðrir kraftar völdin. Tæknin og nýfrjálshyggjan er hluti af þeim öflum sem einkenndu seinni hluta síðustu aldar. Í lokin var þetta ekkert skemmtilegt lengur. Barnið var enda búið að segja skilið við okkur.

Þegar byggja á upp nýtt þjóðfélag eins og nú er rætt um er best að líta til þroska barnsins og barnsins sem e.t.v. leynist í okkur ennþá. Það má byggja upp á nýtt, sem betur fer, enda margt enduruppbyggjanlegt en annað var byggt á sandi og er hvort sem er farið eða hrunið. Leikum okkur með börnunum okkar en reynum nú að hafa ekki hlutina of flókna svo allir geti verið með.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 28.4.2010 - 16:34 - FB ummæli ()

Hjarðáhrif og hjarðónæmi

Ég hlustaði á athyglisvert viðtal við Dr. Huldu Þórisdóttur, félagssálfræðing í mannlegri hegðun í gær, í Kastljósþætti RÚV. Þar var fjallað um hugsanlegar skýringar á því sem gerðist fyrir hrun og sem reyndar var komið inn á í siðferðiskafla Rannsóknarskýrslu Alþingis. Hjarðhegðun var mikil hjá einsleitinni og fámennri þjóð sem auk þess var stoltust allra Evrópuþjóða. Það var erfitt að skera sig út úr og synda á móti straumnum. Góðar útskýringar komu fram í viðtalinu á þessari náttúru okkar að láta sefjast. Það sem mér fannst þó athyglisverðast er samsvörun við mínar rannsóknir og félaga um áratuga skeið undir öðrum formerkjum, nánar tiltekið hvernig við meðhöndlum sýkingar barna eftir búsetu á landinu. Þannig gat munurinn verið 300% hvort búsetan var á Egilstöðum eða í Vestmannaeyjum. Þarna voru klárlega um hjarðáhrif að ræða. Sami munur kom einnig fram ef litið er til sýklalyfjaónæmisins sem endurspeglaðist af sýklalyfja(of)notkuninni. Þróun sýklalyfjaónæmis er einmitt óvíða meira en hér á landi, ekki síst ef aðeins er litið til Norðurlandanna enda eigum við met í notkun sýklalyfja.

Reyndar er um annars konar hjarðáhrif að ræða þegar þegar litið er til smitsjúkdómafræðinnar. Þá er verið að skoða hvernig bakteríurnar ná til okkar mannanna og veikja okkur eða börnin okkar t.d. með eyrnabólgum sem mikið hefur verið í umræðunni meðal annars vegna möguleika á bólusetningu gegn pneumokokkum. Hjarðónæmi (herd immunity) skapast síðan ef flestir eru bólusettir og bera þá ekki bakteríuna til annarra, jafnvel þeirra sem eru óbólusettir. Þannig er hægt að veita jafnvel öldruðum vörn þótt aðeins ungbörn séu bólusett. Að sama skapi hafa sýklalyfjaónæmir stofnar takmarkaðri tækifæri á að smitast og dreifast um þjóðfélagið.

Því miður er víst ekki hægt að bólusetja okkur mennina fyrir slæmum sál- og félagslegum áhrifum. Þar kemur fyrst og fremst til uppeldisáhrifanna og styrkleika þjóðarsálarinnar. Hjarðáhrifin eru þannig geinilega „misgóð“ eftir því hvernig á þau er litið. Eins fyrir eða eftir hrun, eða hvað?

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 27.4.2010 - 23:17 - FB ummæli ()

Leggjumst nú öll undir feld

thor

THOR/CNBC VIDEO 21.4.2010 Discussing the impact the Iceland volcano has had on Iceland's economy, with Olafur Grimsson, Iceland president

Á köldum vormánuði þegar öskuský liggur yfir landinu og allt flug liggur niðri um ótiltekinn tíma er sennilega best að leggjast undir feld eins og Þorgeir Ljósvetningagoði gerði þegar hann þurfti að hugsa sitt ráð. Nóg er af vandamálum fyrir alla. Forsetinn hefur þó þrátt fyrir allt verið að reyna að blása í menn kjark og þor af sínu alkunna æðruleysi svo ekki eru öll sund lokuð og e.t.v sjáum við glætu i myrkrinu, svipað og eftir að Þór vann á vættunum forðum í Goðheimum.  Aumingja mogginn er samt að fara á límingunum að forsetinn tjái sig of skilmerkilega við umheiminn og eyðileggi enn meir fyrir okkur í mannheimum. Því vilja andstæðingar hans og húskarlar koma á hann böndum. Nú eru góð ráð dýr og e.t.v. þarf forsetinn að láta af vígamóði sínum og leggjast líka undir feld áður en málskotsrétturinn verður tekinn af honum.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 26.4.2010 - 22:37 - FB ummæli ()

Að byrja á vitlausum enda

man-som-hatar-kvinnor-affisch2Sum mál er erfiðara að tala um en önnur.  Kynferðisglæpir eru því miður allt of algengir í okkar þjóðfélagi, ekki síst kynferðisofbeldi gagnvart börnum. Tölur á Íslandi ná aðeins til um 10-20% allra barna og þá frekar stúlkna en drengja. Ofbeldið er greinilega svínslegt í allri sinni ómynd og nær ógerningur er að átta sig á umfangi sálarkvala sem öll þessi börn mega líða. Mörg barnanna eru sköðuð fyrir lífstíð og sjálfsmynd þeirra verður aldrei söm. Í helgarútgáfu Fréttablaðsins um helgina er aðeins gerð grein fyrir þessum vandamálum og þá meira sem viðkemur sterkara kyninu sem svo er nefnt. Íslensku tölurnar sem hafa verið birtar segja að 10% drengja verði fyrir kynferðislegri misnotkun af einhverju tagi. Ólíkt konum sem beina sálarkvölum sínum inn á við síðar á ævinni, meðal annars með sállíkamlegum einkennum, að þá eru karlarnir lokaðri og beina angist sinni og kvíða meira út á við í formi skapofsakasta og árásargini hverskonar. Margir þeirra geta aldrei tjáð sig og sagt frá reynslu sinni og kjósa oft frekar að taka eigið líf að lokum. Eins hefur oft verið bent á þann fjölda manna og kvenna sem leiðist út í óreglu með víni og öðrum sterkari vímugjöfum til að deyfa sálina. Sem jafnvel aldrei koma fram með líklegustu skýringuna á óheillabrautinni. Um er að ræða eitt stærsta og alvarlegasta heilbrigðisvandamál þjóðarinnar, hvorki meira né minna. Í Kvennaathvarfið og til Stígamóta sækja þúsundir kvenna ár hvert. Vandmálið er þannig gríðarlegt, mun stærra og alvarlegra en sem hlýst af umferðarslysum og sennilega líkamlegum sjúkdómum samanlagt.

Oft hefur líka verið sagt að ekkert leyndarmál sé stærra meðal þjóða en feluleikurinn á bak við kynferðisofbeldi. Aldrei er jafn oft horft undan og er þá mikið sagt, t.d. eftir að Rannsóknarskýrsla Alþingis kom út og sýndi að víða mætti stinga á ýmsum kýlum í þjóðfélaginu. Griðastaðir eru fáir og jafnvel kirkjan hefur brugðist því sálargæsluhlutverki sem hún á að sinna. Lögin eru engu að síður afdráttarlaus. Allur vafi á að vera barninu í vil. Traustið á þjónustu hins opinbera vantar hins vegar, í og með vegna þess sem þar hefur fengið að viðgangast með undanskotum á málum um árabil, tvíræðum dómum og lagaflækjum sem mögum er ofviða að ganga í gegnum. Heilbrigðiskerfið hefur líka brugðist, í og með vegna þess að við leitum ekki svara við óspurðum spurningum svo sem þegar fólk streymir til okkar með sín sállíkamlegu einkenni eða óskýrðan kvíða og jafnvel þunglyndi.

Til að þessi mál séu rædd þarf góðan tíma og meira traust sem heilbrigðiskerfið ætti auðvitað að bjóða upp á meðal annars í heilsugæslunni. En því miður eins og á mörgum öðrum stöðum í heilbrigðiskerfinu, að þá ræður hausatalning meira en gæði þjónustunnar sem veitt er. En hvernig í ósköpunum getur þetta allt viðgengist í því menningarþjóðfélagi sem við eigum að tilheyra? Hvaða  þroska vantar í þjóðarsálina? Hefur hún sjálf verið beitt einhverskonar kúgun sem kemur síðan niður á næstu kynslóð, okkur og börnunum okkar? Sennilega eru margir þættir í okkar menningu sem eru meðvirkandi á vandann. Stærstu þættirnir í dag hafa samt líklega verið afneitun samfélagsins á umfangi vandans sem nú grillir vel íog vöntun á eðlilegri umfjöllun á kynferðismálum almennt.

Kirkjuleg sefjun hefur heldur ekki reynst sérstaklega vel gegnum aldirnar svo skýringanna þarf þá sennilega líka að leita lengra aftur. Siðfræðin, félagsfræðin og sálfræðin ásamt kynfræðinni sem fræðigrein ættu hins vegar að hjálpa okkur að taka á þessum málum. Börn gera það sem fyrir þeim er haft. Þannig er uppeldið. Fullorðnir móta alltaf kynslóðina á eftir. Hvað kynferðisofbeldi varðar, að þá þarf ástandið samt síst hafa verið mikið skárra hér á árum áður. Sennilega bara betur falið.

Ljótar sögur af barnaníðingum á barnaheimilum og dvalarstöðum fyrir börn, jafnvel sem minna máttu sín og voru varnarlaus frá því um miðja síðustu öld, segja sína sögu. Breiðavíkurdrengirnir ásamt mörgum öðrum sögðu þá sögu. En þá var kultúrinn annar og einfaldari en við þekkjum í dag segja sumir eða hvað? Varla mátti sjást í berbrjósta konu opinberlega eða í fjölmiðlum. Slíkt var kallað klám. Svo og nánast allar erótískar myndasögur. Blað var síðan brotið í menningarsögu okkar þegar ákveðnar myndir sem sýndu saklausar samfarir voru sýndar í bíó í gamansömum stíl (rúmstokksmyndirnar góðu). Síðan gerðist ekkert í nokkra áratugi eða þar til internetið kom. Sumt sem þar er að finna má eflaust kalla kynfræðslu, flest ekki. Þar eru ýmsir vefir sem notfæra sér hvatvísi manna og oft um leið mannlega eymd, mannsal og kynlífsþrælkun. Margir eru sammála að sú mynd gefur unglingum bjagaða mynd af eðlilegu sambandi karls og konu. Á sama tíma reyna yfirvöld að sýna siðgæðið sitt í verki með því að banna alfarið nektardans í lokuðum klúbbum fyrir fullorðið fólk. Og enþá má ekki sýna berbrjósta konu opinberlega og kynfræðslan er engin í grunn- eða framhaldsskólum landsins.  Ef til vill fær kynfræðslan samt smá séns í samfélagsfræðslunni og því sem kallað er lífsleikni, svona eins og var fyrir tæplega 50 árum þegar ein blaðsíða í heilsufræði fyrir grunnskóla (bls 82) var látin nægja (stundum sleppt). Ofbeldismyndir hverskonar eru þó leyfðar í kvikmyndhúsunum sem aldrei fyrr og taumlaust ofbeldi er gjarnan sýnt í sjónvarpinu með takmörkuðum aldurshöftum. Tölvuleikir koma þarna líka til og svo undrast menn ofbeldið í miðbænum um helgar.

Það skýtur óneytanlega skökku við að sjá auglýsingar nánast daglega að undanförnu þar sem lítil og að því er virðist saklaus börn fara með orðræðu sem fær mann til að roðna af blygðun. Að börnin séu látin koma fyrirvaralaust fram í sjónvarpi allra landsmanna að tala um að enginn megi leika sér af tippinu sínu eða pjöllunni sinni er eins og upphafið að sögu sem er ljót, óskiljanleg og fáránleg. Hún vekur upp fleiri spurningar og vangaveltur en hún getur svarað. Ég hef einnig spurt mig hvernig ung börnin geti skilið þessa auglýsingu. Samtökin Blátt áfram hafa vissulega vakið athygli á vandamálinu og sinna þessum málum örugglega af heilindum. Aðferðafræðin að ná athygli út í þjóðfélagið með auglýsingunum nú er hins vegar misráðin, yfirgengileg og síst til þess fallin að leysa vandann. Vandamálið er miklu umfangsmeira en svo að við getum höfðað beint til blygðunarkenndar og sakleysi barnanna. Við megum passa okkur að fara aldrei úr öskunni í eldinn. En vissulega má kveikja varðelda.

Umræðan um kynferðismál þarf vissulega að vera uppi á borðum. Og þörf er á almennri og reglulegri umfjöllun um kynferðismál i fjölmiðlum, eins og reyndar öll óleyst og stór samfélagsvandamál. En þau gerast að vísu ekki öllu stærri. Sýna það sem sýna má og kenna það í skólunum sem allir þurf að læra. Hvernig umgengst maður hitt kynið? Hvað er erótík? Hver er munurinn á því og klámi? Hvernig endist erótíkin og ást manns og konu út lífið? Hverjar eru grunnhvatir mannsins? Hvað er talið efla kynheilbrigði? Mörgum af þessum spurningum hefur Jóna Ingibjörg Jónsdóttir hjúkrunar-og kynfræðingur og sérfræðingur í klinískri kynfræði (NACS) reynt að svara í nýútgefinni bók sinni; Kynlíf-heilbrigði ást og erótík. Kynfræðingar eru þó hvergi ráðnir innan heilbrigðiskerfisins. Læknanemar og félag þeirra, Ástráður, hefur  reynt að halda uppi fræðslu um kynferðismál og forvarnir gegn kynsjúkdómum í sjálfboðavinnu. Umræðan á opinberum vettvangi litast hins vegar oft af hræsni og aðgerðarleysi. Heilbrigðisyfirvöld og stjórnsýslan öll þarf að taka upp hispurslausa umræðu um þessi mál og reyna að skilgreina rætur vandans sem felst í menningu okkar og uppeldi. Skilgreina þarf betur muninn á erótík og klámi gagnvert lögum. Stórelfa þar kynfræðslu í skólum. Heilbrigðisyfirvöld þurfa að bjóða upp á kynslífsráðgjöf eins og aðra heilbrigðisþjónustu. Boð, bönn og auglýsingar sem bjóða fyrst og fremst upp á að misbjóða blygðurkenndinni, leysa engan vanda. Þarna er byrjað á vitlausum enda.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 25.4.2010 - 23:08 - FB ummæli ()

Skynsemin ræður

trabantVið hjónin áttum einu sinni þrjá Trabanta í röð. Þetta var fyrir meira en þremur áratugum. Góðir bílar og á góðu verði. Bílinn kostaði aðeins sem samsvaraði 3-4 mánaðarlaunum. Flestir höfðu þannig efni á þeim. Þeir voru mjög sparneytnir á eldsneyti og nokkuð öruggir. Einkunnarorð þessara bíla báru orð með rentu, „Skynsemin ræður“. Aðrir hefðu sagt í dag að sníða sér „stakk eftir vexti“. Í dag fær maður fær að minsta kosti einkennilegt óbragð í munninn við að sjá alla nýju og flottu bílana í bílaflota landsmanna. Að vísu ekki neina glænýja. En, allt í lagi, kannski getum við farið einhvern milliveg. Í dag eigum við hjónin hálfan rafmagnsbíl, frábæran bíl sem heitir Príus en sem því miður er allt of dýr.

Hvernig væri að sameina kosti rafmagnsbíls og trabantsins gamla sem var afar einfaldur í allri uppbyggingu og ekki svo ljótur?  Af rafmagninu höfum við nóg og tækninni fleygir fram. Rafhlöðurnar eru sífellt að verða betri og endingarbetri en því miður fulldýrar enn sem komið er. Hvernig væri að taka frumkvæðið í því að gera Ísland að fyrsta ríki veraldar sem keyrir allan sinn bílaflota á endurnýtanlegri orku. Ýmsir hafa bent á þennan möguleika um árabil.  Forsetinn, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson hefur haft mikið til þessara mála að leggja sl. misseri. Við fáum ekki betri kynningu út í heim eins og dæmin nú nýlega sönnuðu. Nú getum við komið á fót nýrri útrás á íslensku hugviti sem byggir á brennheitu og áþreifanlegu sviði, jarðorkunni. Ekki peningum sem aldrei voru til. Orkan og eldfjöll eru okkar sérsvið, forsetan höfum við og nú vantar okkur bara fjármagn og örugga fjárfesta til að láta drauminn rætast.

Í Fréttablaðinu í dag er frábær grein eftir Svavar Hávarðsson sem ber heitið, Eldklerkurinn Jón og „hrunið“ sem ég ætla að fá að vita beint í: …Með öðrum orðum höfðu menn það gott. Allir nutu ávaxtanna af góðærinu og undu glaðir við sitt. En ofgnótt fylgir græðgi á öllum tímum, ef marka má þessi orð Jóns: „En hvílíkt stjórnarleysi, andvara- og iðrunarleysi hér í Vestri-Skaftafellssýslu var um þann tíma, sérdeilis í þessu Kirkjubæjar- eður Kleifarþinglagi, hjá allmörgum, er sorglegra til frásagnar, en ég geti þar orðum eytt að. Hér lifðu menn í sælgæti matar og drykkjar, sumir orðnir svo matvandir, einkanlegast þjónustufólk, húsgangslýður og letingjar, að ei vildu nema þá allra beztu og krydduðu fæðu, drykkjuskapur og tóbakssvall fór að sama lagi, að á einu ári upp gekk hér í gildi, heimboð og þess kyns brennivín upp á 4000 fiska“, skrifar eldklerkurinn og sendir glósu til nútímans sem enginn Íslendingur getur misskilið.

Ástandið í þjóðfélaginu nú er auðvitað engan veginn sambærilegt og var í Skaftáreldum 1783 og móðuharðindunum sem á eftir fylgdu og gerð er svo vel grein fyrir í greininni hans Svavars. Allt að fimmtungur landsmanna dó úr vosbúð og milljónir manna úti í hinum stóra heimi vegna uppskerubrests af völdum ösku úr Lagargígum og kólnunar af hennar völdum. En eru „skilaboðin“ önnur nú en fólust í boðskapnum sem Jón eldklerkur flutti landsmönnum fyrir rúmlega 2 öldum. Getur verið að guð, af góðsemi sinni og vorkunsemi, vegna þess hvernig fyrir okkur er nú komið, vilji gefa okkur annað tækifæri. Jafnframt að benda okkur á, í leiðinni, á þá möguleika sem felast í orku jarðarinnar. Ég hef tilhneigingu að líta frekar svo á málin, svona til að vera aðeins jákvæður. Þegar höfum við verið guði þóknanleg að einu leiti, þar sem við nýtum jarðvarmann vel til húshitunar. En við getum nýtt orkuna sem fellst í fallvötnunum og jarðorkunni betur. Einbeitum okkur næst að bílaflotanum. Eitthvað sem sameinar fyrsta bílinn minni, Trabatinn og Príusinn minn í dag. Ódýr rafmagnsbíll skal það vera, knúinn af HREINNI orku.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Viðskipti og fjármál

Fimmtudagur 22.4.2010 - 14:36 - FB ummæli ()

Skín við sólu…

eriosch7Það veit á gott á sumar þegar það frýs saman við vetur eins og gerðist í nótt. Náttúran hefur ekki brugðist okkur í vetur og sýnt allar sínar hliðar. Við fáum allan skalann og þurfum ekki að kvarta, en sem komið er a.m.k.. E.t.v. er það þess vegna sem við leyfum okkur svo margt, eins og að við séum að reynum að fylgja náttúrunni eftir í öfgunum. Fjármálalífið frýs en eldfjöll og jöklar gjósa. Langtímaafleiðignar mannlegs harmleiks og efnahagshrun heillar þjóðar jafnar sig þó tæplega á einni mannsævi. Sá tími samt stuttur í öðrum samanburði og minnir okkur á við erum hér á jörðu aðeins eins stuttri og góðri heimsókn. En við viljum að ferðalaginu ljúki vel og að börnin okkar séu reynslunni ríkari. Við erum nú vonandi öll þroskaðri sem þjóð. Vorið er komið, tími vonar og barnanna okkar. Vonandi eiga sem flest börn kost á að kynnast sveitinni sinni aðeins betur. Hún græðir öll sár. Útiveran er síðan öllum holl, bæði á sál og líkama.  Gleðilegt sumar.

Skín við sólu Skagafjörður skrauti búinn, fagurgjörður.

Bragi ljóðalagavörður, ljá mér orku snilld og skjól!

Kenn mér andans óró stilla; ótal sjónir ginna villa,

dilla, blinda, töfra, trylla, truflar augað máttug sól.

Hvar skal byrja? Hvar skal standa? Hátt til fjalla? Lágt til stranda?

Bragi leysir brátt úr vanda, bendir mér á Tindastól!

(Ljóð: Matthías Jochumsson)

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · útivist · Vinir og fjölskylda

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn