Miðvikudagur 16.05.2012 - 18:29 - 9 ummæli

Ódýrari námsmannaíbúðir?

Leigumarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu er erfiður.  Eftirspurnin er margföld á við framboðið, og íbúðir stoppa stutt við eftir að þær hafa verið auglýstar til leigu.

Ég fór að velta fyrir mér hvernig þetta væri eiginlega hjá þeim sem ætla að hefja nám næsta haust á höfuðborgarsvæðinu? Sem er ætlað að lifa af námslánum og sumarhýrunni næsta vetur? Varla getur staðan verið góð þar ef hún er svona á almenna leigumarkaðnum.

Ég lærði í Svíþjóð og bjó þar á stúdentagörðum. Íburðurinn þar var nokkuð minni en maður átti að venjast hér.  Allar lagnir voru utan á veggjum, og sturtuhausinn tengdur við vaskinn og enginn sturtubotn. Leyfilegt hefur verið að byggja ívið minni námsmannaíbúðir en almennt íbúðarhúsnæði,- líkt og hér.

Má bjóða þér eigið hús?

Nú vilja Svíar ganga enn þá lengra.

Eldhús- og skrifborð, ásamt svefnrými

Um 80 þúsund námsmannaíbúðir eru í Svíþjóð, en þrátt fyrir það vantar um 20 þúsund íbúðir í viðbót.  Við því vilja byggingarfélög námsmanna bregðast.  Byggingarfélagið AF Bostäder sótti um undanþágu frá byggingareglugerðum og hefur nú fengið samþykkt að byggja 22 íbúðir sem eru undir 10 m2, sk „pyttehus“.   Rökstuðningurinn er að námsmenn búa tímabundið í námsmannahúsnæði og hluti þeirra myndi vilja búa sem ódýrast á meðan námi stendur. Húsaleigan á að vera um 30.000 SEK á ári.

Teikning af "pyttehus"

Reglugerðin segir til um að námsmannaíbúðir verði að vera ca. 25 m2 sem myndi þýða um 50.000 SEK í húsaleigu á ári.

Reglugerðir hér á landi segja að einstaklingsíbúð fyrir námsmann sem er eitt rými má að lágmarki vera 28 m2, þar af baðherbergi a.m.k. 4,4 m2 . Einstaklingsherbergi skal að lágmarki vera 18,0 m2 að meðtöldu baðherbergi.  Einstaklingsíbúð á Ásgarði sem er 36 m2 kostar 856.560 kr. á ári.

Teikning af einstaklingsíbúð í Ásgarði

Væri þetta eitthvað sem okkur Íslendingum myndi hugnast? Að byggja minna og ódýrara en að hafa þá hugsanlega val um að leigja eða viljum við frekar stærra og dýrara?

Ég hef ákveðið að bera þessar spurningar upp við umhverfisráðherra og velferðarráðherra sem fara með húsnæðismál.

Það verður áhugavert að heyra hvað þau hafa að segja.

En hvað finnst ykkur?

PS. Hér má sjá myndband af ‘pyttehuset’.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Þorkell Einarsson

    Þetta er frábær hugmynd og mikilvægt málefni. Takk fyrir að vekja athygli á því!

    Það væri líka frábært ef að þið mynduð svo snöggvast samþykkja þetta fína frumvarp Guðmundar Steingrímssonar um húsaleigubætur. Það væri alveg frábært á meðan námsmannaíbúðir kosta svona mikið.

    http://www.althingi.is/altext/140/s/0112.html

  • Guðmundur Guðmundsson

    Það er góðra gjalda vert að huga að húsnæði fyrir námsfólk.

    En hvað um almenning á verkamannatöxtum ? Hingað til hefur þetta fólk á Íslenskum leigumarkaði mátt éta það sem úti frýs.

    Af hverju er leigumarkaðurinn erfiður ? Vegna þess að séreignastefan á Íslandi var keyrð út úr kortinu.
    Allt húsnæði á Íslandi fram að hruni var byggt dýrt til að selja dýrara.

    Í Svíþjóð eiga oft bæjarfélögin (kommunen ) ca helmingin af
    húsnæðinu á viðkomandi svæði. Þetta húsnæði er síðan leigt út á hóflegum kjörum. Fólk getur búið í þessu alla ævi ef það vill.

    Vel væri hægt að byggja þannig húsnæði á höfuðborgarsvæðinu
    og þétta með því byggð fyrir vesta Elliðaána. Það vantar þúsundir, ef ekki tugþúsundir leiguíbúða á höfuðborgarsvæðið til að ná svipuðu hlutfalli og í nágrannalöndunum.
    Maður heyrir sama og ekkert um þessi má í Íslenskri pólitík.

    Það þykir enn sjálfsagt að kjallarakompur, bílskúrar og iðnaðarhúsnæði sé leigt út sem íbúðir. Þetta þekkist bara á Íslandi.

    Mikið er rætt um lausnir fyrir fólk sem keypti rétt fyrir hrun,
    meðan fólk á leigumarkaði má sætta sig við stökkbreyttar hækkanir á leigu.
    Það virðist enn vera einskonar óskráð lögmál að meðhöndla leigjendur sem annars flokks meðborgara á Íslandi.

    Þannig hefur staðan verið allt frá stríðsárum og þannig verður þetta áfram, ekki satt ?

  • Anna María

    Ég held að við ættum í alvöru að íhuga þetta og ekki bara fyrir námsmenn. Við byggjum flott hér á Íslandi go það er vel. Það er raunar ástæða fyrir því, við búum í landi veðranna og heimili okkar þurfa að standast vinda og kulda en við erum samt voðalega flott á þessu. Í Kaupmannahöfn þar sem sonur minn var við nám var þetta svona svipað og þú lýsir ogég held að ekki bara námsmenn heldur margir aðrir væru vel komnir þó flottheitin væru ekki meiri. Sjálf hef ég búið í gámi og það var aldeilis ágætt.

  • Ég tek undir með Guðmundi, það þarf að sjá þessi mál í stærra samhengi. Það vantar húsnæðispólitík á Íslandi. Tíu fermetra einbýlishús er ekki sérlega umhverfisvænt með tilliti til orkunýtingar, og gæti leitt til þess að lækka gæði á íbúðarhúsnæði of mikið. Það er hins vegar haf af möguleikum á milli 10m2 einbýlis og 400m2 einbýlis (algeng húsatýpa fyrir hrun), hræðileg vöntun á húsnæði sem ekki er hannað utan um vísitölufjölskylduna. Hvað ætlar hið opinbera að gera við allt það ónýtta húsnæði sem því hefur fallið í skaut? Eru einhver verkefni í gangi sem rannsaka hvað hægt er að gera við allt þetta húsnæði? Er hægt að breyta því á einhvern hátt og búa til leigumarkað sem getur gefið einhvern balans á móti markaðnum sem öllu stýrir? Hver hefur yfirlit yfir allt húsnæðið sem stendur tómt, og hvernig væri hægt að nýta það betur? Hverjir hafa hagsmuni af því að upplýsingum um eignarhald er leynt? Allavega ekki almúginn!

  • Eygló Harðardóttir

    Það var starfshópur sem ég sat í fyrir hönd þingflokksins um nýja húsnæðisstefnu. Hópurinn lagði mikla áherslu á að fjölga búsetukostum, leigu og búseturéttaríbúðum. Af tillögum hópsins er vinna komin lengst í að búa til eitt bótakerfi fyrir húsnæði, í stað leigubóta og vaxtabóta. Í velferðarnefnd þar sem ég á sæti er frumvarp um breytingar á lögum um Íbúðalánasjóð, http://www.althingi.is/altext/140/s/1172.html. Þar segir: Íbúðalánasjóði er heimilt að veita sveitarfélögum, félögum og félagasamtökum, sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og hafa það sem langtímamarkmið að byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri leiguhúsnæðis, lán til byggingar eða kaupa leiguíbúða.

    Lánin mega vera til 50 ára, 90% af matsverði, m/ verðtryggðum eða óverðtryggðum vöxtum.

    Síðan á að gefa sjóðnum heimild til að stofna leigufélag sjálft utan um yfirteknar eignir.

    Ég er ekki viss um að það sé rétta leiðin, að sjóðurinn fari í að eiga og reka leiguíbúðir sjálfur. Ég vil frekar nýta þau félög sem eru þó til staðar og uppfylla skilyrði um að vera ekki rekin í hagnaðarskyni og hafa langtímamarkmið að vera leigu- eða húsnæðissamvinnufélög. Þannig gæti sjóðurinn/ríkið lagt sínar eignir inn í félögin á hagstæðum kjörum og stutt þannig við markmið um fjölbreyttara val á búsetukostum. Sjá t.d. umsögn Búseta á Norðurlandi, http://www.althingi.is/pdf/umsogn.php4?lthing=140&malnr=734&dbnr=2385&nefnd=vf

  • Eygló Harðardóttir

    Sæl Arna, fannst áhugaverður þessi punktur um orkunýtingu. Nú hefur mér ekki fundist Íslendingar vera mikið að velta fyrir sér orkunýtingu þegar kemur að byggingu húsnæðis. Er það að breytast? Hvernig væri hægt að hanna húsnæði sem yrði ódýrara, minna, praktískt en myndi um leið vera hagkvæmt með tilliti til orkunýtingar og umhverfisvænt?

    Á vefsíðunni studentagardar.is er fyrsta frétt opnun á forvalstillögum og þar segir:“Ein meginkrafan sem sett var í hönnunarsamkeppninni af hálfu Félagsstofnunar stúdenta og borgaryfirvalda var sú að húsin fjögur væru ólík að yfirbragði til að forðast einsleitni, enda um hjarta háskólasvæðisins að ræða og ljóst er að byggingarnar munu setja sterkan svip á háskólalífið.“ Veistu hvaða önnur sjónarmið voru höfð til hliðsjónar?

  • Guðmundur Guðmundsson

    Árið 1965 var í Svíþjóð byrjað á byggingu miljón leiguíbúða víðsvegar um landið. Þetta var kallað millionprogrammet, og var upphaflega þverpólitísk samstaða um verkefnið.

    Allar götur síðan hefur leigumarkaður þrifist í Svíþjóð við hliðina á hefðbundnu húsnæði í einkaeign. Húsnæði þetta var vel skipulagt og með stöðlum á eldhúsinnréttingum, og öðrum íhlutum var byggingarkostnaði náð niður.
    Talið er að þetta húsnæði hafi mildað til muna áhrif fasteignabólunnar sem geisaði víða um Evrópu sl. áratug.

    Þegar miljonprogrammet ber á góma sjá sumir fyrir sér steypukumbalda eins og Rosengard i Malmö og meðfylgjandi félagsleg vandamál.

    Staðreyndin er hins vegar sú að langmest af þessu húsnæði eru 3ja hæða blokkir sem minna á Bakkahverfið í breiðholti.
    Enn í dag þykja þessar íbúðir bera af í í innri hönnun og nýtingu á plássi. Í þessu húsnæði býr þverskurður þjóðfélagsins.

    Tæknilega séð er ekkert til fyrirstöðu að byrja á svipuðu prógrammi á Íslandi.
    Til að byrja með þarf að spyrja hvernig húsnæði vantar, hvað má það kosta, og hvað er hægt að byggja fyrir þann pening.

    Sveitarfélög, lífeyrissjóðir og verkalýðsfélög ættu að koma að málinu. Til að byrja með mætti byggja \“Módel \“ eins og leikmynd af íbúðum sem yrðu til sýnis td. í Kringlunni áður en framleiðsla hæfist.
    Þannig má með ódýrum hætti safna tillögum frá almenningi áður en barnagallar eru festir í steypu.

    Í núverandi umhverfi á byggingarmarkaði ættu að fást góð einingarverð ef hannað yrði staðlað húsnæði sem má síðan fella inn í þá gisnu byggð sem fyrir er á Höfuðborgarsvæðinu.

    Skipulags og húsnæðismál á Íslandi hafa verið með einskonar sjálfstýringu síðustu áratugina. Það er löngu sýnt að hefðbundinn húsnæðismarkaður á Íslandi er ekki fær um að útvega leiguhúsnæði á ásættanlegum kjörum.

    Það þykir sjálfsagt að sveitarfélög sjái okkur fyrir grunnþörfum eins og vatni, orku, vegakerfi skólum, etc.

    Af hverju ætti þá ekki Sveitarfélög líka að bjóða upp á húsnæði, rétt eins og á hinum norðurlöndunum.

    Það þarf alveg nýja hugsun í húsnæðismálum á Íslandi.

    Er einhver Íslenskur stjórnmálaflokkur, nýr eða gamall með trúverðuga stefnu í húsnæðismálum ?
    Sem gerir ráð fyrir leigjendum ?

  • Takk fyrir upplýsingarnar, ég ætti að setja mig inn í þetta. Veit heldur ekkert um þessa keppni því miður.

    Eignarhald hins opinbera á íbúðarhúsnæði setur hið opinbera í allt aðra aðstöðu til að hafa áhrif. Besta dæmið um það er Vínarborg sem hefur ítök í um 50% af íbúðarhúsnæðinu í borginni, enda verð á húsnæði miklu lægra þar en í öðrum borgum í vesturevrópu.

    Yfirtaka hins opinbera á húsnæði kjölfar kreppunar er tækifæri, sem ætti að nýta.
    Fjármagnseigendur eru nú þegar farnir að sjá þetta sem tækifæri til að maka krókinn.

    Og áður en á að byggja nýtt ætti að líta á leiðir til að nýta betur það húsnæði sem er fyrir hendi og ekki eða illa er nýtt.

    Og ef það á að fara að byggja nýtt húsnæði eru þetta módel það besta sem ég veit um, og kostar ekki krónu fyrir hið opinbera:
    http://www.google.no/#hl=nn&site=&source=hp&q=selvbyggervirksomhet&oq=selvbyggervirksomhet&aq=f&aqi=&aql=&gs_l=hp.3…1197.55192.0.56101.0.0.0.0.0.0.0.0..0.0…0.0.tiqPziQ2d_4&bav=on.2,or.r_gc.r_pw.,cf.osb&fp=9de1a0ea57b8047f&biw=1440&bih=773

  • Guðmundur Guðmundsson

    Tengill Örnu hér að ofan \“Selvbygg \“ er gott inlegg í umræðuna.
    Þetta módel mætti gjarnan prófa á Íslandi. Þetta er dæmi um nýja hugsun sem er svo sannarlega þörf á í Íslenskum húsnæðismálum.

    Vissulega er rökrétt að nýta tómt húsnæði áður en byrjað er á nýbyggingum. Gleymum samt ekki eftirfarandi punktum :

    Í háblóma Íslenska nýliberismans geisaði á landinu fasteignabóla sem á sér vart hliðstæðu á byggðu bóli. Enn má deila um hvort allt loft sé sigið úr bólunni.

    Í hita leiksins risu heil hverfi í útjaðri borgarinnar á örfáum misserum. Þetta húsnæði var byggt dýrt í miklu flaustri til að selja enn dýrara. Heila kerfið var drifið áfram af eldfimri blöndu af hömlulausri útlánastefnu og lóðarskorti á mesta þensluskeiði Lýðveldisins. \“Markaðurinn\“ sá síðan um restina með endalausum hækkunum.

    Eftir að bólan sprakk í andlit þjóðarinnar standa margar byggingar tómar eða hálfkláraðar.
    Þetta húsnæði er barn síns tíma og hvað á að gera við það ?

    Íbúðir frá þessu tímabili eru oft full stórar miðað við herbergjafjölda, enda seldar pr. fermeter sem jók hagnað byggingaraðila. Enn sýna bygginarverktakar lítinn áhuga á að byggja litlar íbúðir þó þörfin sé til staðar. Ennfremur er meðal tæknimanna talað um viðhaldslegar tímasprengjur frá þessu tímabili, flöt þök, lekavandamál osfrv.

    Það er því alls ekki sjáfgefið að þetta húsnæði sé hentugt til að reka sem leiguhúsnæði til langframa. Stökkbreytt eldsneytisverð breytir líka dæminu frá því fyrir hrun. Í vissum skilningi eru þessi hverfi fjarlæg og óhentug td. fyrir fólk í láglaunastörfum sem sækir vinnu inn í höfuðborgina og þarf að eiga bíl.

    Til að geta búið /leigt ódýrt þarf að byggja ódýrt og hagkvæmt frá byrjun. Húsnæðiskostnaður samanstendur af lóðarkostnaði,hagnaði byggingaraðila og byggingarkostnaði.
    Tveir fyrrnefndu þættirnir fóru úr böndunum í þenslunni.

    Tæknin og þekkingin til að byggja ódýrt er til staðar á Íslandi.
    Vel væri hægt að ná fram hagkvæmni stærðarinnar með magninnkaupum og stöðluðum teikningum, osfrv.

    Það vantar lausnir til að koma ofangreindu bóluhúsnæði í skynsamlega notkun. Samfara því má byrja að hanna húsnæði sem vantar sárlega á Íslandi í dag.
    Vel væri hugsanlegt að þétta byggð höfuðborgarinnar með slíku húsnæði.

    Höldum umræðunni í gangi !

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur