Föstudagur 16.1.2015 - 10:10 - Lokað fyrir ummæli

Plottið um bankana

Plottið um bankana heldur áfram.

Nú hafa kröfuhafar danglað ómótstæðilegri gulrót fyrir framan Framsókn.  Þeir vilja afhenda Arion banka – gamla Búnaðarbankann – ríkinu, þegar um 2 ár eru eftir af kjörtímabilinu, sem er akkúrat nógur tími til að koma bankanum í hendur nýrra eigenda, t.d. Kaupfélags Skagfirðinga?

Þar með er hægt að fara í ný helmingaskipti, Framsókn fær Arion og Sjálfstæðisflokkurinn fær Landsbankann – tært déjà vu!  Og burt með Bankasýsluna, hún er bara til trafala þegar svona tækifæri gefst.

Þessi flétta er ómótstæðileg og allt tal um vonda kröfuhafa og 800 ma kr svigrúm virðist út í veður og vind.  Þetta var klókur leikur hjá kröfuhöfum sem munu fá sinn gjaldeyri og geta þá í eitt skipti fyrir öll yfirgefið Ísland og snúið sér að vinveittari hagkerfum.

Fyrir almenning eru þetta vondar fréttir.  Hér mun einstakt tækifæri til hagræðingar innan bankakerfisins tapast.  Tækifæri til að fækka “stóru” bönkunum úr 3 í 2 með sameiningu Arion og Landsbankans og sölu eigna, sem myndi skila sér í ódýrari og skilvirkari fjármálaþjónustu til heimilanna og minni fyrirtækja, verður að víkja fyrir hagsmunum stjórnmálaflokkanna og þeirra vildarvina.

Það verður spennandi að fylgjast með hvaða hópar innan stjórnmálastéttarinnar verða á endanum ofan á og hljóta krúnudjásnið.  Þá verður ekki síður fróðlegt að fylgjast með hvernig þetta plott verður fjármagnað og af hverjum?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 13.1.2015 - 08:56 - Lokað fyrir ummæli

Hvar er litla gula hænan?

Hér hefur áður verið skrifað um hið bagalega leiðtogaleysi sem hrjáir Ísland.  Fátt undirstrikar þetta vandamál betur en fjarvistir íslenskra ráðamanna í samstöðugöngunni í París.  Ísland gat ekki einu sinni sent sendiherra í þá göngu.

Svo virðist sem enginn hafi nennt að hafa frumkvæði að því að taka þetta mál föstum tökum, hvorki forsætisráðherrann né Forsetinn.  Engin “lítil gul hæna” er til staðar í íslenskri stjórnsýslu, allir segja EKKI ÉG, þetta er ekki í minni reglubók og nú er að koma helgi.  Enginn virðist hafa tekið upp símann og samhæft aðgerðir, hvað þá kynnt sér hvað hin Norðurlöndin ætluðu að gera?

Eftirleikurinn er klassískt skólabókardæmi um leiðtogaleysi.  Aðstoðarmenn og embættismenn eru látnir koma fram með kjánalegar og vandræðalegar útskýringar á meðan ráðamenn eru ráðalausir.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 12.1.2015 - 17:09 - Lokað fyrir ummæli

Laun á Íslandi

Líklega er ekkert land innan OECD þar sem lögmálið um framboð og eftispurn skiptir minna máli við ákvörðun launa en Ísland.

Laun eru upp til hópa ákvörðuð í almennum kjarasamningum.  Það er lítið einstaklingsfrelsi á Íslandi til að semja um eigin laun. Þeir sem sætta sig ekki við íslenska launaskala og sitja ofarlega á hinni alþjóðlegu eftirspurnarkúrfu leita sér að störfum erlendis.  Þetta er staða sem hefur ríkt um langt tímabil á Íslandi en hefur ekki raskað jafnvægi á vinnumarkaði þar sem nóg framboð hefur yfirleitt verið af fólki sem sættir sig við íslensk laun.

En þetta jafnvægi hefur nú riðlast hjá læknum. Þar ná íslensk laun ekki nema rétt inn á neðsta hluta framboðskúrfunnar, þ.e. lítið sem ekkert framboð er af læknum sem sætta sig við íslensk laun.  Þar sem læknar eru lífsnauðsynlegir hverju samfélagi er lítið annað hægt að gera en að hækka launin og vona að hallinn á fremsta hluta framboðskúrfunnar sé nógu aflíðandi til að hægt verði að manna skammlaust heilbrigðiskerfi.

Það eru ekki margar stéttir á Íslandi í jafn krítískum vanda með framboð og eftirspurn og læknar.  Það er því ekki rökrétt að aðrir byggi sínar launakröfur á lausn læknadeilunnar.  Í mörgum háskólamenntuðum stéttum er t.d. yfirframboð af fólki.  Það er erfitt að rökstyðja miklar launahækkanir þar.  Almennar raunlaunahækkanir verða að byggja á fjárfestingum, nýsköpun og framlegðaraukningu en ekki „væntingum“ og “fordæmum“.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 12.1.2015 - 09:07 - Lokað fyrir ummæli

Munurinn á Íslandi og USA

Bæði Ísland og Bandaríkin hafa verið gagnrýnd harðlega fyrir að senda ekki háttsetta fulltrúa í samstöðugönguna í París í gær.

Bandaríkin sendu sendiherra sinn í París en stórveldið Ísland gat ekki einu sinni sent sendiherra hvað þá ráðherra.  Og hvar var Forsetinn, hann hefur nú farið til útlanda af minna tilefni?

Bandaríkin hafa svarað þessari gagnrýni strax og utanríkisráðherra þeirra, Kerry, útskýrði að um leið og hann frétti af göngunni hafi hann byrjað að skipuleggja ferð til Parísar til að sýna samstöðu, en því miður hefði hann ekki getað tekið þátt í göngunni með svo stuttum fyrirvara, en að hann verði í París á föstudaginn í þessari viku til að sýna samstöðu með Frökkum.

Það er athyglisvert að bera saman útskýringar bandaríska utanríkisráðherrans og svo þögn eða útúrsnúninga íslenskra ráðamanna.  Geta menn í alvörunni ekki gert hlutina semi-faglega á Íslandi og verðið sér ekki algjörlega til skammar á alþjóðlegum vettfangi.

Eitt er víst að með þessari sorglegu hegðun hefur ríkisstjórninni tekist að senda þau skýru skilaboð til alþjóðasamfélagsins að Ísland er ekki eins og hin Norðurlöndin.  Og þá eru samnefnararnir á milli Íslands og Norðurlandanna orðnir ansi fáir.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 9.1.2015 - 18:26 - Lokað fyrir ummæli

Óþekktur EES verðmiði

Nú á að reyna að draga ESB umsóknina tilbaka eina ferðina enn.  En hvað kostar það?

Það verður ekki ókeypis að segja NEI við ESB en JÁ við EES.

Ríkisstjórnin segir að EES eigi að vera langtímagrunnur að utanríkisstefnu Íslands.  En EES samningurinn var aldrei hugsaður sem langtíma launs fyrir Evrópuríki.  Hann er í besta falli biðleikur áður en til fullrar aðildar kemur.  Það var varla hugsunin hjá ESB að lönd gætu sagt nei við fullri aðild en kosið þess í stað aukaaðild þar sem hægt væri að velja bestu ESB bitana.  Sú staða er vandræðaleg fyrir ESB og getur gefið andstæðingum ESB byr undir báða vængi um alla álfu.  Slíkt verður varla látið afskiptalaust í Brussel.

EES er nefnilega vandamál sem ESB þarf að leysa og það fyrr en seinna.  Dragi Ísland aðildarumsóknina tilbaka er hætt við að það verði túlkað sem svo að EES samningurinn sé of hagstæður fyrir löndin sem standa fyrir utan ESB.  Nauðsynlegt sé að búa svo um hnútana að full aðild verði alltaf mun hagstæðari fyrir Evrópuríki en aukaaðild í gegnum EES eða tvíhliða samningar.  Lönd sem vilja njóta þess besta sem ESB bíður upp á, en ekki taka þátt í samstarfinu sem fullir meðlimir, þurfi að borga vel fyrir þau forréttindi.  Og afturköllun Íslands sé sönnun þess að verðmiðinn á EES sé of lágur.

Á sama tíma veikist samningsstaða Íslands gagvart ESB þegar menn vilja ekki aðild en hanga á EES eins og hundur á roði.  Það er því viðbúið að Ísland þurfi að borga dágóðar summur fyrir EES í framtíðinni og að þær fari stighækkandi.

Spurningin er því hvað eru menn tilbúnir að borga mikið yfirverð fyrir EES?  Þetta eru peningar sem ekki verða notaðir í annað, t.d. heilbrigðismál eða menntamál.  Þetta er gjaldeyrir sem Íslendingar þurfa að afla en renna beint í sameiginlega sjóði ESB.

“NEI ESB – JÁ EES” er ósjálfbær lúxus sem Norðmenn hafa eða höfðu kannski efni á.  En að skuldugt smáríki sem, t.d. getur ekki rekið heilbrigðiskerfi skammlaust, skuli ætla að æða út í slíkt og það án þess að kynna sér endanlegan kostnað er fífldirfska.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 18.12.2014 - 11:14 - Lokað fyrir ummæli

Valitor selt upp í sekt

Það liðu ekki nema nokkrir klukkutímar eftir að tilkynnt var að Landsbankinn hefði selt hlut sinn í Valitor til Arion banka að tilkynnt var um að aðilar fái sekt upp á 1.6 ma kr. fyrir samkeppnishamlanir.  Þá er auðvitað komin skýring á því hvers vegan selja þurfti Valitor og Borgun í lokuðu ferli.

Þó Íslandsbanki og Arion banki fái sekt er þó sárabót að losna við Landsbankann og ná í hlut hans í “þvingaðri” sektarútsölu.  Þarna hljóp nú aldeilis á snærið hjá þeim sem voru “upplýstir”.  Það verður seint sagt að það sé glæsileiki yfir þessu ferli öllu, eða kannski er réttara að kalla þessa uppákomu amatör leikrit þar sem útvaldir fagmenn fengu að kíkja inn korteri fyrir frumsýningu.

Og til að losna úr myrkrinu hrökklast bankastjóri Landsbankans með kortaviðskiptin hjá sér suður í álfu í hendur útlendinga sem heimta evrur fyrir sína þjónustu.  Já, það er ekki öll vitleysan eins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 14.12.2014 - 11:12 - Lokað fyrir ummæli

Hrópandi leiðtogaleysi

Það sem hrjáir íslensku þjóðina mest er leiðtogaleysi.  Hóphugsandi klíkur geta eðli síns vegna ekki skilað samfélaginu hæfum leiðtogum.  Ekkert hræðir meir en hæfir og óhefðbundnir leiðtogar með nýjar og ögrandi hugmyndir.  Mannkynssagan er full af slíkum dæmum.

Í dag stendur Ísland frammi fyrir þremur stórum verkefnum sem eru stjórnmálastéttinni og leiðtogum hennar ofviða.  Þetta er búið að vera mörgum ljóst í langan tíma enda eru um 30 ár liðin síðan danska embættismannakerfið, sem Ísland bjó við mestan hluta 20. aldarinnar, fór að riðlast og með því grunurinn að norrænu velferðarsamfélagi.  Bankahrunið var flugeldasýningin sem kynnti þessa stefnubreytingu, eða heldur stefnuleysi fyrir umheiminum.

Það sem ruglar menn oft í ríminu er að búðargluggi Íslands er flottur.  Hér er full atvinna, mesti hagvöxtur í Evrópu (þó með smá uppákomu nýlega sem Seðlabankinn “kennir“ Hagstofunni um!), fullt af endurnýjanlegri orku og landið er fallegt.  En þegar kíkt er á bak við búðarborðið kemur annað í ljós. Innviðir landsins eru ekki í samræmi við lúkkið.  Launin eru lág, vextir háir, heilbrigðiskerfið að hruni komið, menntakerfið dýrt og óskilvirkt og svo er landið yfirskuldugt með ónýtan froðugjaldmiðil. En, hei þetta reddast – hugsunarhátturinn, er alls ráðandi sem fyrr.

En aftur að verkefnunum þremur. Þau eru heilbrigðiskerfið, menntakerfið og peningakerfið.

Í fyrsta forgangi er peningakerfið og þar hafa menn ráðið dýra og hæfa erlenda sérfræðinga til að reyna að púkka upp á krónuna.  Enda hafa þessir útlendingar sagt að áætlun um afnám hafta verði ekki tilbúin fyrr en 2015.  Þetta er nokkur annar tónn en hefur heyrst frá leiðtogum landsins sem árlega, ef ekki oft á ári, segja að höftin séu að hverfa eftir nokkra mánuði.

Á eftir peningum kemur heilsa og menntun.  Þar eru mál ekki í eins góðum farvegi enda halda innlendir aðilar, sem eru bundnir á klafa klíkusamfélagsins, þar á spöðum.  Þar birtast engar hæfar lausnir við þeim risavandamálum sem þessir málaflokkar standa frammi fyrir.  Það er eins og menn haldi að tíminn vinni með þeim og að nóg sé að koma með yfirlýsingar í fjölmiðla.  Leiðtogaleysið hér er hrópandi.  Það er nokkuð ljóst að þessi verkefni verða ekki kláruð á tímanlegan og hagstæðan hátt nema að fara svipaða leið og í haftaverkefninu.  Menn verða að setja svona flókin verkefni í hendur fagmanna erlendis frá.

Þessi sorgarstaða veltur auðvitað upp þeirri spurningu hversu vel í stakk búið litla klíkusamfélagið er að ráða sér sjálft á 21. öldinni?  Geta 320,000 sálir rekið fyrsta flokks eigið og sjálfstætt peningakerfi, heilbrigðiskerfi og menntakerfi án aðkomu og hjálpar erlendis frá?  Slíkt er freistandi draumur sem selst vel í samblandi við þjóðernisrembu og lýðskrum, en er engu að síður algjörlega absúrd og mun engu skila nema einhæfu og fátæku samfélagi þegar upp verður staðið.

Hrun heilbrigðiskerfisins er sú viðvörunarbjalla sem menn þurfa að hlusta á og bregðast við, en ekki reglubók klíkusamfélagsins sem bindur hendur þjóðarinnar á bak aftur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 7.12.2014 - 21:17 - Lokað fyrir ummæli

Að tapa Valitor og Borgun

“To lose one parent, Mr. Worthing, may be regarded as a misfortune.  To lose both looks like carelessness. “

Þessi orð úr leikritinu “The Importance of Being Earnest” eftir Oscar Wilde, koma upp í hugann þegar maður les tilkynningar Landsbankans um að hann sé búinn að missa bæði hlut sinn í Borgun og Valitor!

Að selja hluti bankans í báðum þessum strategísku fyrirtækjum á sama tíma á útsöluverði í lokuðu ferli á eigin vegum er vægast sagt óvarkárt.

Útskýringar bankastjóra Landsbankans eru athyglisverðar.  Hann ber fyrir sig myrkri og áhrifaleysi eða felur sig á bak við samkeppnisyfirvöld.  Ekki er talað um að þessar sölur falli að stefnu bankans, bæti þjónustu, lækki kostnað og auki arðsemi eigenda.  Nei, all snýst um dílinn, sem bankastjórinn heldur að sé góður og að með honum komi stundarhagnaður sem reddi ársuppgjöri og auki arðgreiðslumöguleika á næsta ári.  En hvað svo?

Hver er stefna ríkisbankans?  Bankastjórinn lét hafa eftir sé að samkvæmt samkeppnisyfirvöldum væri æskilegt að hver banki eigi sitt greiðslukortafyrirtæki, ef ég skildi hann rétt?  Ef þetta verður stefna bankans þýðir það aðeins auknar álögur á viðskiptavini bankanna.  Í staðinn fyrir að auka hagræðingu í bankakerfinu mun það blása út.  Og hvernig á svona hugmynd að ganga upp?  Kreditkorta vörumerkin á alþjóðavísu (Visa og MasterCard) eru aðeins tvö en íslensku bankarnir eru þrír?

En aftur að sölunni.  Hvers vegna var ferlið lokað?  Og fengu eigendur Landsbankans hámarksverð fyrir hlutina?  Þessu er erfitt að svara, en þegar báðir hlutir eru seldir á sama tíma án þekktrar stefnu seljanda kemur upp staða sem eru ákveðnum kaupendum í vil.  Það er vegna þess að aðeins innanbúðarmenn í Valitor og Borgun þekkja nákvæmlega viðskipti seljandans við kaupandann.  Lykilinn að verðmatinu er hvað verður um framtíðargreiðsluflæði af kortaviðskiptum Landsbankans.  Hvert fara þau?  Þetta eru upplýsingar sem skipta máli og í opnu söluferli hefði Landsbankinn þurft að opna bækur sínar um þessi viðskipti og marka skýra framtíðarstefnu í kortamálum.  Af einhverjum ástæðum fer bankinn ekki þessa leið.

Það er alveg ljóst að Landsbankinn verður að halda áfram að gefa út Visa og/eða MasterCard kort og mun því áfram eiga í viðskiptum við Valitor og/eða Borgun.  Spurningin er í hvaða hlutföllum verða þessi viðskipti?  Án þess að vita það er erfitt að leggja mat á söluverðið.  Hins vegar er ljóst að ef bankinn selur bæði Borgun og Valitor án stefnu og langtímasamninga við annað eða bæði fyrirtækin verður söluverðið alltaf “of lágt”.

Spurningin er hafa kaupendur notfært sér stefnuleysi ríkisbankans eða er verið að selja í lokuðu ferli til að þurfa ekki að opinbera kortastefnu Landsbankans og innihald langtímaviðskiptasamninga á milli seljanda og kaupanda?  Ef svo er þá vakna upp spurningar um hvort ríkisbankanum hafi verið boðinn “afsláttur” af kortaviðskiptum á móti “hagstæðu” söluverði?  Bankinn er jú undir pressu að lækka kostnað.

Það er full ástæða fyrir eigendur Landsbankans að hafa áhyggur af þessum sölum á meðan upplýsingaflæðið er af svona skornum skammti.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 7.12.2014 - 10:01 - Lokað fyrir ummæli

Ríkisfyrirtæki úr landi

Promens er nú á leið úr landi og fylgir í fótspor fjölda annarra fyrirtækja sem stóðust hrunið en ekki íslensku gjaldeyrishöftin.

En Promens er aðeins öðruvísi en önnur fyrirtæki sem hafa flúið land.  Promens er nefnilega í 58% eigu ríkisins í gegnum eignarhald ríkisins á Landsbankanum sem aftur á í Framtakssjóði, þetta er eins konar 2007 flétta.

Það er ekki traustvekjandi að fyrirtæki sem ríkið á meirihluta í skuli þurfa að flýja land vegna gjaldeyrishafta á sama tíma og það er korter í afnám þeirra?  Hér eru skilaboðin misvísandi.

Svo er það spurningin hvað verður um verksmiðjurnar á Dalvík og í Hafnarfirði og þau 80 störf sem þær bjóða upp á?  Hér mættu menn læra af reynslu Finna þegar Nokia var selt til Microsoft.  Þá voru gefin alls konar loforð um að starfsemi í Finnlandi yrði haldið áfram, en annað kom í ljós fyrr á þessu ári eftir að salan var gengin í gegn.  Eða eins og fjármálaráðherra Finna sagði í blaðaviðtali:

„It can be said that we have been betrayed,“ Finland’s newly-appointed finance minister Antti Rinne told the Finnish business daily Kauppalehti. „At the time of the Nokia deal Microsoft announced it is committed to Finnish expertise. Now it seems this commitment isn’t fully met.“

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 30.11.2014 - 10:24 - Lokað fyrir ummæli

Landsbankinn „plataður“

Hópurinn sem keypti Borgun, köllum hann B-hópinn, stendur nú með sterkt tromp í hendi þegar kemur að sölu á eignarhlut kröfuhafa í Íslandsbanka.  Það kæmi ekki á óvart ef Borgun yrði notuð sem stökkpallur til að kaupa stóran hlut í Íslandsbanka, eins konar “reverse takeover”.

Á sama hátt má segja að ríkisbankinn hafi verið “plataður”.  Salan á hlut hans í Borgun á þessum tímapunkti færir bankanum ekkert strategískt forskot, enda er bankinn kominn í vandræðanlegan varnarleik sem gæti rýrt orðspor hans.

Á meðan framtíðareignarhald á Arion banka og Íslandsbanka er óráðið halda menn í strategískar eignir eins og Valitor og Borgun, sérstaklega þegar menn eru með veika stöðu í greiðslukortastarfsemi.

Til lengri tíma litið er það rétt hjá samkeppnisyfirvöldum að eignarhlutur Landsbankans í bæði Valitor og Borgun er ekki æskilegur, en allt á sinn tíma og stað.

Salan á Borgun er ákvörðun bankaráðs Landsbankans samkvæmt starfsreglum stjórnar eins og þær birtast á vefsíðu bankans.  Stjórnin þarf að útskýra þessa ákvörðun fyrir hluthöfum, ef ekki nú, þá á næsta aðalfundi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur