Fimmtudagur 17.4.2014 - 09:05 - Lokað fyrir ummæli

Ríkisfyrirtæki til Noregs?

Í Morgunblaðinu í dag er athyglisverð grein um fyrirtækið Promens sem er í 62% eigu skattgreiðenda í gegnum eignarhald ríkisins á Landsbankanum. Þetta fyrirtæki sem ríkið ræður yfir er að hugsa um að skrá hlutafé sitt erlendis, líklega í Noregi, til að geta stutt við framtíðarvöxt á erlendum mörkuðum. Þetta er mjög eðlileg viðskiptaákvörðun en engu að síður vandræðaleg fyrir ríkisstjórnina.

Ef fyrirtæki í meirihlutaeign ríkisins hefur ekki meiri trú á peningamálastefnu landsins en svo að það telji sig þurfa að flytja úr landi er varla von að aðrir innlendir aðilar hvað þá erlendir aðilar telji að rekstrargrundvöllur hér á landi sé viðunandi fyrir alþjóðleg fyrirtæki.

En þetta litla dæmi sýnir líka vel hversu ónýt krónan er. Enginn getur notað krónur erlendis og því er skráning í krónum verðlaus erlendis. Þá er það einnig í hag Landsbankans að fá alvöru gjaldeyri fyrir þessa eign sem bankinn getur notað til að borga niður stóra skuldabréfið sem ógnar fjármálastöðuleika landsins. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins gæti eignarhlutur skattgreiðenda numið allt að 37 ma kr. við sölu. Það verður spennandi að sjá hvernig þessum fjármunum verður á endanum varið?

Það er nokkuð ljóst að stór hluti atvinnulífsins hefur enga trú á að gjaldeyrishöftunum verði létt í náinni framtíð. Jafnvel menn sem standa ríkisstjórninni næst.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 11.4.2014 - 06:54 - Lokað fyrir ummæli

Er hætta á innflutningshöftum?

Þegar þjóðir gera sér grein fyrir að þær eiga ekki fyrir samningsbundnum afborgunum í gjaldeyri og þær geta ekki treyst á eðlilegan aðgang að erlendum fjármálamörkuðum þá byrja þær yfirleitt strax á að takmarka allan innflutning á lúxusvarningi. En ekki á Íslandi í dag!

Það sem vekur athygli í nýrri skýrslu Seðlabankans um greiðslujafnaðarvanda þjóðarinnar er að þar virðist forðast að reifa alla valmöguleika sem fela í sér sparnað á gjaldeyri. Á Íslandi er sparnaður ekki hátt skrifaður, allt gengur út á að fá meiri og meiri lán, lengja í lánum og komast yfir eignir annarra á spottprís. En er það skynsamleg og raunhæf forsenda að hér verði hægt að keyra upp hagvöxt með síaukinni einkaneyslu sem byggir á “niðurgreiddum” gjaldeyri? Jafnvel þó hægt verði að komast yfir allar eignir kröfuhafa. Á einhverjum tímapunkti munu þeir peningar tæmast og hvað þá?

Halda menn virkilega að erlendir fjárfestar muni standa í biðröð til að skipta evrum í krónur með slíka framtiðarsýn? Er einfaldlega hægt að loka augunum fyrir óheftri neyslu innlendra aðila á gjaldeyrisvarningi? Hver á þá að bera ábyrgð á fjármálastöðuleika landsins þegar kröfuhafar verða farnir fyrir fullt og allt?

Það verður að segjast að það er þungur undirtónn í skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðuleika. Vissulega lítur rekstrareikningur samfélagsins þokkalega út, það er rífandi gangur í ferðaþjónustu og byggingastarfsemi, laun eru hins vegar lág og framlegð léleg en á móti kemur að atvinnuleysi er lítið. Vandamálin eru hins vegar alvarlegust á efnahagsreikningi þjóðarinnar. Þar eru eignir í höndum útlendinga en skuldirnar á herðum Íslendinga og ekkert alvöru fé í hendi til að geta keypt eignir útlendinga á eðlilegu markaðsverði.

Því miður bendir margt í þessari skýrslu til að þjóðarbúið standi á þverhnípi. Ef allt fer á besta veg eru góðar líkur á að Ísland sleppi fyrir horn og nái að endurskipulegga efnahagsreikning sinn í sátt og samkomulagi við alla aðila. Hins vegar eru töluverðar líkur á að þetta klúðrist og þá verða innflutningshöft og gengisfelling ekki langt undan. Í sinni ofurbjartsýni einblína menn alltaf á afléttingu hafta og hvernær sá dagur rennur upp, en gleyma að líkurnar á innflutningshöftum eru líklega litlu minni og fólk ætti því líka að undirbúa sig fyrir þann dag!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 10.4.2014 - 09:15 - Lokað fyrir ummæli

„Ghostbusters“ á kröfuhafa

“Ghostbusters” hópur Simma er á full að undirbúa sig fyrir baráttuna um að kveða niður kröfuhafadrauginn í eitt skipti fyrir öll. Þar er mottóið “við semjum ekki” og er mikil makríl og Icesave stemning yfir öllu saman. Valdir menn í hverju hlutverki og allt mun þetta reddast.

Stóra planið er að setja búin í gjaldþrot, ná í gjaldeyri kröfuhafa á núverandi gegni evrunnar um 155 kr (ein ástæða þess að gengið er svona “hægstætt” um þessar mundir sem menn ættu að notfæra sér – en það er önnur saga) og þvinga svo útlendingana út á gengi um 275 kr evran sem er tala sem stundum er nefnd. Þetta er svona framsóknarútgáfa af skiptigengisleið Lilju Mósesdóttur, enda er erfitt að sjá að hægt sé að fara aðra leið en einhverja skiptigengisleið ef borga á kröfuhöfum út í krónum.

Vandinn við svona leið verður jafnræðisreglan. Verður hægt að þvinga kröfuhafa sem sitja með krónur eftir gjaldþrotaskipti út á öðru gengi en aðrir fá að versla með? Á hverju byggist sú mismunun? Og geta menn takmarkað notkun þeirra króna sem kröfuhafar fá í gjaldþroti? Eru þær krónur þær sömu og aðrir aðliar í samfélaginu nota? Mun AGS blessa “Ghostbusters” planið? Allt eru þetta mikilvægar spurningar því að um leið og þessar aðgerðir fara að lykta af dulbúinni “eignaupptöku” er hætta á að kröfuhafar geti fengið erlendan dómstól, líklega í New York, til að frysta eignir búsins innan lögsögu dómstólsins sem um leið myndi hafa alþjóðlegt fordæmi. Þá fyrst byrjar ballið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 31.3.2014 - 14:21 - Lokað fyrir ummæli

Kötlukróna

Kröfuhafar eru ekki versti óvinur krónunnar heldur íslensku eldfjöllin. Mál kröfuhafa er afmarkað og verður á endanum leyst. Erfiðara verður að leysa vandamál íslensku eldfjallanna.

Þar sem ferðaþjónustan er orðin stærsta gjaldeyrisbúgrein þjóðarinnar verður sjálfstæð króna aldrei stöðugri en kvikan undir Kötlu. Áhrif gosins í Eyjafjallajökli gefa ákveðnar vísbendingar um hugsanlegar afleiðingar Kötlugoss, enda mun forseti Íslands hafa sagt í því samhengi “you ain´t seen nothing yet“. Nú veit enginn hvenær og hversu öflugt Kötlugos verður en það mun gjósa og eftir því sem mikilvægi ferðaþjónustunnar eykst í gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins þannig verður krónan háðari eldfjallaáhættum. Það er því erfitt að sjá hvernig á að aflétta höftum fyrir Kötlugos, óháð samningum við kröfuhafa föllnu bankanna.

Vandinn er að krónan á sér engan trúverðugan bakhjarl. Í skaðlegu Kötlugosi, á Ísland varla aðra möguleika en að fara sömu leið og i hruninu, setja á höft og leita á náðir AGS og nágrannalandanna. Í þeirri sviðsmynd er líklegt að erlendir fjárfestar þurfi að taka á sig hluta af kostnaði við að bjarga krónunni og fjármálastöðuleika Íslands, enda máttu þeir vita af þeirri áhættu sem fylgir því að fjárfesta á eldfjallaeyju með sjálfstæðan gjalmiðil sem byggir á ferðaþjónustu.

Það er því ljóst að gengis- og endurgreiðsluáhætta fyrir erlenda fjárfesta verður alltaf miklu hærri á Íslandi en í nágrannalöndunum og þessi áhætta verður hámörkuð með því að standa fyrir utan ESB.

Og þar sem þessir áhættuþættir auka fjármögnunarkostnað, draga úr fjárfestingatækifærum og auka kostnað heimilanna á sama tíma og þeir takmarka svigrúm til launahækkanna verða þeir á endanum stærsti dragbítur á velferðaraukningi á Íslandi.

Um þetta snýst aðild að ESB. En það verður líklega ekki fyrr en í næsta Kötlugosi sem þessi staðreynd fer að renna upp fyrir fólki. Það verður kannski Katla gamla sem kemur Íslandi inn í ESB á endanum?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 17.3.2014 - 10:40 - Lokað fyrir ummæli

757 í vanda

Boeing 757 frá Delta flugfélaginu missti hluta úr væng á flugi frá Orlando til Atlanta í gær samkvæmt frétt CNN.   Giftusamlega tókst að lenda vélinni og engan sakaði.

Þetta er sama tegund og Icelandair notar.  Þetta eru gamlar vélar sem hætt er að framleiða.

Það eru kostir og gallar við að nota gamlar vélar.  Þessar gömlu 757 vélar sem önnur flugfélög eru að losa sig við hafa verið undirstaðan í þeirri sprengju af ferðamönnun sem hafa komið til Íslands frá hruni krónunnar.  Icelandair hefur tekist að anna eftirspurn frá ferðamönnum með þessum gömlu vélum fyrir lítinn aukakostnað.  Niðurstaðan er að gullgrafaraæði hefur gripið um sig á Íslandi, allir ætla að græða á ferðamönnum og bréf Icelandair hækkuðu um 120% á síðasta ári.  En er þessi þróun sjálfbær?  Hvað er hægt að keyra þetta módel lengi á gömlum vélum?  Hver er áhættan?

Helstu keppinautar Icelandair eru Easyjet og Norwegian, flugfélög sem nota einn yngsta flugflota í Evrópu og eiga yfir 200 nýjar vélar pantaðar.  Einingakostnaður þessara flugfélaga er lægri en hjá Icelandair.  Framtíðarstefna þeirra byggir á nýjustu tækni á meðan Icelandair ætlar að fara í blöndu af gömlu og nýju sem gæti orðið mjög kostnaðarsöm.  Að reka flugflota þar sem vélarnar eru af tveimur tegundum, önnur yngri en 5 ára, hin eldri en 20 ára gæti orðið dýrara en margir hluthafar gera sé grein fyrir.  Þar með gæti Icelandair orðið undir í samkeppninni, sérstaklega yfir hafið, og ef tekjur fara að falla á sama tíma og kostnaður eykst þarf ekki að spyrja um verðið á bréfunum á alvöru hlutabréfamarkaði.

Þetta skiptir máli þar sem Icelandair myndar yfirleitt í kringum 25-35% af eignum hlutabréfasjóða sem verið er að selja til einstaklinga.  Því þurfa þeir sem eru að hugsa um að kaupa í hlutabréfasjóðum á Ísland að hafa smá skilning á rekstri og samkeppni í flugi.  Sögulega séð hafa hlutabréf í flugfélögum verið áhættusöm og skilað litlum hagnaði til almennra hluthafa.  Spekúlantar hafa hins vegar margir stórgrætt á braski með bréf flugfélaga.

Önnur áhætta sem fylgir Icelandair er að reynsla af alþjóðlegum flugrekstri innan yfirstjórnar félagsins er afmarkaðri en í sambærilegum alþjóðlegum flugfélögum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 15.3.2014 - 08:54 - Lokað fyrir ummæli

Ofmat á stöðu Íslands

Ísland er hluti af Evrópu.  Það er landfræðileg staðreynd sem ekki verður breytt.  Ísland er lítið skuldugt ríki sem ekki er að fullu með fjármagnaðan efnahagsreikning.  Þar með er Ísland vandamál í augum nágrannaþjóðanna.  Þetta vandamál þarf að leysa og það er alveg ljóst að það er Evrópuríkja að leysa það.

Eftir hrun voru það Evrópuríki sem veittu Íslandi neyðarlán ásamt AGS.  Ekki Bandaríkin, Kanada eða Rússland.  Seðlabanki Bandaríkjanna vildi ekki veita Íslandi lánalínur fyrir hrun og ekkert varð af Rússaláninu fræga sem Seðlabankastjóri tilkynnti með pomp og pragt á Bloomberg í hruninu.

Allt tal um að framtíð Íslands liggi í faðmi Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands eða Kína er óskhyggja í besta falli.  Bandaríkin sögðu pass við Ísland þegar herinn fór og þeir eiga nóg með Puerto Rico.  Hvers vegna ættu þeir að fara að bæta Íslandi við sín vandamál?  Þá munu Kanadamenn hugsa sig tvisvar um áður en þeir fara að seilast inn í Evrópu.

Ísland er vandamál Evrópu.  Lausnin er annað hvort að Ísland gerist meðlimur í ESB og standi þá jafnfætis öðrum Evrópuríkjum eða verði parkerað í EES faðm stóra bróður – Noregs, sem hefur mestu reynslu í að eiga við vandræðakrakkann.

Íslendingar verða að fara að vakna upp og gera sér grein fyrir hinni nýju geopólitísku stöðu sem ríkir nú í upphafi 21. aldarinnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 14.3.2014 - 10:31 - Lokað fyrir ummæli

EES: Nýi gamli sáttmáli

Utanríkisstefna sem byggir á EES verður lítið annað en vosbúð í aftanívagni hjá Norðmönnum.  Það er alltaf að koma betur í ljós að ESB lítur á EES sem “norskan samning” þar sem tekið er tillit til norskra hagsmuna – svo fá Íslendingar að fljóta með.

Það er ansi lítið fullveldi í því að þurfa að innleiða lagasetningu frá Brussel ættaða frá Osló með tölvupósti.  Þetta er lítið annað en uppfærður gamli sáttmáli fyrir 21. öldina.

Valmöguleikar Íslands í utanríkismálum hafa skýrst mikið frá áramótum.

1.  Norðurslóðastefna forsetans með Rússa sem þungamiðju er í molum
2.  EES samningurinn færir okkur undir “verndarvæng” Norðmanna
3.  ESB vilja menn ekki sjá
4.  Og þá er bara að standa einir í lappirnar utan tengsla við umheiminn

Um þetta munu menn svo rífast næstu árin til mikilla þæginda fyrir Norðmenn sem geta alltaf treyst á að Ísland klúðri málum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 13.3.2014 - 07:51 - Lokað fyrir ummæli

„Iceland – who cares?“

Sú staðreynd að Ísland var skilið útundan í makrílsamningnum endurspeglar einangrun landsins og skort á tiltrú annarra landa, jafnvel Færeyja, á óskiljanlegri utanríkisstefun Íslands sem byggir á haltu mér slepptu mér ESB á meðan við döðrum við Pútin og Kína á norðurslóðum!

ESB sendir Íslandi skýr skilaboð með þessum makrílsamningi.  Héðan í frá verða það norskir hagsmunir sem munu ráða á Norður-Atlantshafi.  Ísland verður skilið eftir í fullkominni einangrun.

Ísland er að fá á sig stimpil að geta ekki klárað samninga við næstu nágranna.  Ísland vildi ekki semja í Icesave, gat ekki klárað ESB aðildarsamninginn og var skilið eftir í makríldeilunni.  Þetta veit ekki á gott um afnám hafta.  5 og hálfu ári eftir hrun eru engar samningaviðræður hafnar við kröfuhafa og flest bendir til að það mál endi ekki vel.

Lítið land sem byggir utanríkisstefnu sína á “við semjum ekki” verður hreinlega skilið eftir.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 9.3.2014 - 09:49 - Lokað fyrir ummæli

Asíudraumurinn

Margir telja að framtíð Íslands sé í Asíu, þar séu tækifærin. Auðvitað eru tækifæri í Asíu, en eru arðbærustu tækifæri Íslands virkilega í Asíu?

Íslendingar eru markaðsmenn eins og Icesave dæmið sýndi vel. Sá hugsunarháttur lifir vel eftir hrun. Allt gengur út á að opna nýja og spennandi markaði og komast þar inn.  En á hvaða verði og fyrir hvaða hagnað? Það er sjaldan rætt.

Ekkert mál er að loka fyrir alla sölu á íslenskum vörum og þjónustu innan ESB og færa til Asíu. Það er bara spurning um verð. Vandamálið við þennan hugsunarhátt er að ef betra verð fengist í Asíu með meiri hagnaði væru þau viðskipti í miklum blóma nú þegar. Viðskipti leita yfirleitt þangað sem mesta hagnaðarvonin er. Þetta er nokkuð sem íslenskir stjórnmálamenn gera sér litla grein fyrir enda eru þeir stjórnmálamenn ekki atvinnurekendur.

Sá markaður sem er mikilvægastur fyrir Ísland er sá markaður sem er næstur okkur og sú staða hefur lítið breyst frá 15. öld. Bretlandseyjar er mikilvægsti kúnni Íslands.  Þangað seljum við fiskinn, þaðan koma ferðamennirnir og þar er eftirspurn eftir íslenskri orku. Tækifærin í Bretlandi eru af þeirri stærðargráðu að þau geta haft veruleg áhrif á framtíðarlífskjör almennings á Ísland

Lítil þjóð verður að fókusera og reyna frekar að lifa í raunveruleikanum en í draumheimi markaðsmanna og stjórnmálamanna á atkvæðaveiðum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 6.3.2014 - 11:37 - Lokað fyrir ummæli

Plottið um bankana

„Þeir sem stjórna bönkunum stjórna Íslandi“. Þetta er skynsamleg nálgun, sérstaklega í skuldsettu umhverfi krónunnar. Það er ekki svo langt síðan að bankastjórar skömmtuðu lán.  Aðeins “vildarvinir” bakanna fengu lán og þá á svo hagstæðum vöxtum að eiginlega var um styrki að ræða, enda engin verðtrygging.

Þetta var tími sem margir horfa tilbaka á með nostalgíu.

Í dag er mikil barátta hafin um yfirráð yfir íslensku bönkunum.  Margir vilja komast að þeim kjötkötlum með hjálp stjórnmálamanna.  Framtíðarsýnin er alíslenskt bankakerfi þar sem eigendur og stjórnendur bankanna eru þægilegir kunningjar stjórnmálastéttarinnar. Þar með er aftur horfið til kerfis sem margir telja að hafi “hentað” Íslandi vel.

Einfaldasta leiðin að þessu markmiði er að ná Arion Banka og Íslandsbanka af kröfuhöfum á slikk. Bönkunum yrði first parkerað í eignarhaldsfélagi Seðlabankans sem síðan myndi “afhenda” þá þóknanlegum aðilum. Þess vegna er nauðsynlegt að í seðlabankanum sé “réttur” maður.

Næsta skrefið er að keyra verðmiðann á bönkunum niður en til þess þarf að slá á allar væntingar kröfuhafa um að Ísland muni ganga í ESB næstu áratugina. Þar er Möltu sviðsmyndin Þrándur í götu og því er best að afturkalla umsóknina strax, þjóðaratkvæði er of áhættusamt. Kröfuhafar vita vel að ef Ísland ætlar að sækja aftur um þurfa öll 28 ríkin að samþykkja nýja umsókn. Í því ferli munu mörg ríki ekkert vera að flýta sér.

Svona tækifæri til að ná völdum yfir fjármálakerfi landsins gefast ekki oft. Nú þurfa menn að standa í lappirnar og ekki láta “væl” um þjóðaratkvæði slá sig út af laginu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur