Fimmtudagur 13.6.2013 - 11:29 - Lokað fyrir ummæli

Tölurnar tala sem fyrr

Þegar vinstri stjórnin tók við árið 2009 var hallarekstur ríkisins yfir 182 ma kr. eða um 12.4% af VLF.  Á þeim tíma setti ríkisstjórnin sér það markmið að árið 2012 yrði heildarjöfnuður ríkisins orðinn jákvæður upp á 29 ma kr eða um 2.2% af VLF.  Þetta átti að vera viðsnúningur upp á 211 ma kr.  Þetta markmið náðist ekki.

Tölur Hagstofunnar sýna að heildarjöfnuður ríkissjóðs fyrir 2012 var neikvæður um 60 ma kr eða um 3.5% af VLF.  Þar með batnaði hallareksturinn um 122 ma kr. í tíð síðustu ríkisstjórnar en það vantaði 89 ma kr. upp á að upprunalegt markmið hennar næðist.  Í margra augum er þetta samt sem áður góður árangur en betur má ef duga skal.  Það sem veldur áhyggjum er að hallinn á fyrsta ársfjórðungi 2013 er 1.5 ma kr. hærri en á sama tíma 2012. Þá er ljóst að það er orðið mjög erfitt að ná hallanum niður fyrir 3% af VLF með hefðbundnum aðferðum og ólíklegt að það markmið náist á þessu ári.

Ný ríkisstjórn setur traust sitt á aukinn hagvöxt en til að ná honum þarf fjárfestingar.  Svigrúm opinberra aðila og innlendra fyrirtækja til aukinna fjárfestinga er takmarkað og spila þar inn í háar skuldir, hátt vaxtastig og gjaldeyrishöft. Erlendir aðilar hika við að fjárfesta hér, og þá ofmeta stjórnmálamenn yfirleitt tímann frá því fjárfesting fer af stað þar til hún fer að skila peningum í kassann.  Því er líklegt að hallarekstur ríkisins haldi áfram og alls óvíst að hægt sé að ná hallalausum ríkisrekstri á Íslandi nema með róttækum og sársaukafullum strúktúrbreytingum sem styðja við minni ríkissumsvif og aukna fjárfestingu.

Eitt er víst, það verður ekki hægt að reka “norrænt velferðarkerfi” fjármagnað með 3.5% ríkishalla til langframa.  Á endanum mun eitthvað verða að gefa eftir.  Ef myndarlegur og stöðugur hagvöxtur skilar sér ekki fljótt og strúktúrbreytingar eru of sársaukafullar er fátt annað í myndinn en myndarleg gengisfelling.

Heimildir: Hagstofan, Fjárlagafrumvarp 2010 (182 ma var áætlaður halli 2009 en halli í lok 2008 var hærri)

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 12.6.2013 - 22:17 - Lokað fyrir ummæli

Erlend fjárfesting

Lítið fer fyrir erlendri fjárfestingu á Íslandi.  Jafnvel í hinum blómstrandi ferðamannabransa eru útlendingar hikandi.  Nýlega pakkaði hópur þýskra fjárfesta saman og hætti við að byggja hótel við Hörpu.  Hvers vegna?

Varla er það vegna vandamála með framboð eða eftirspurn.  Ferðamannafjöldinn er með hæsta móti og útlitið gott og það vantar hótelherbergi, sérstaklega miðsvæðis í góðum fyrsta klassa.  Því hefði hótel við Hörpu átt að vera pottþétt fjárfesting sem gengi upp fjárhagslega – alla vega reiknað í evrum – en hætt er við að útreikningar útlendinga flækist þegar þeir þurfa að að reikna fram í tímann í óstöðugri haftakrónu.  Þá hefur flókið og oft framandi íslenskt lagaverk og pólitísk áhætta eflaust sett strik í reikninginn.

Þegar þýski hópurinn gerði tilboð í hótelbygginguna er líklegt að þeir hafi gengið út frá þeirri forsendu að Ísland væri á leið inn í ESB og þar með inn í umhverfi sem þeir þekkja og skilja.  Í mars á þessu ári þegar öllum er orðið ljóst að Ísland er ekki á leið inn í ESB hættir hópurinn við allt saman.

Þetta litla dæmi sýnir hversu erfitt það er að laða fjármagn til landsins.  Ísland er svo ólíkt öðrum þróuðum ríkjum, með sitt eigið lagaverk, tungumál, gjaldmiðil og fjarlægð frá meginlandinu.  Að mörgu leyti er Ísland  eins og agnarsmá útgáfa af Japan án efnahagslegs stöðuleika.  Útlendingar þurfa að eyða dýrmætum tíma í að setja sig inn í íslenskar aðstæður sem væri réttlætanlegt ef hagkerfið hér væri um 100 sinnum stærra.  Margir gefast hreinlega upp eftir að hafa rekið sig á hvern þröskuldinn á eftir öðrum.

Erlend fjárfesting er nauðsynleg til að örva hagvöxt og útflutningstekjur og þvi verður að gera landið meira aðlaðandi fyrir erlenda fjárfesta.  Hjól atvinnulífsins verða seint dregin áfram af yfirskuldugum ríkissjóði eða skuldugum innlendum fyrirtækjum, hvað þá þjóðarbúi sem er farið að efast um gjaldfærni sína í erlendum gjaldeyri.  Því meir sem talað er um “ósjálfbærar” skuldir, allsherjarskuldasamkomulag til lækkunar erlendra skulda eða eignarskatta á eignir útlendinga, því meir fer ísland að líta út sem Argentína norðursins en eitt af Norðurlöndunum í augum erlendar fjárfesta.

Hvernig menn ætla að nálgast þann erlenda gjaldeyri sem nauðsynlegur er til að örva hagvöxt í svona umhverfi er stóra ráðgátan?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 11.6.2013 - 15:36 - Lokað fyrir ummæli

Eignir annarra ekki afskrifaðar

Mikill misskilningur virðist ríkja um hugtakið “afskriftir”.  Talað er um að afskrifa eignir kröfuhafa og láta þær renna til skuldaniðurfellinga.  Þetta er rangt.

Það er ekki hægt að afskrifa eignir annarra.  Skuldir eru afskrifaðar annað hvort með samkomulagi, gjaldþroti eða þegar allar innheimtuaðgerðir hafa verið reyndar.

Við hrun gömlu bankanna misstu hluthafar allt en þeir sem áttu skuldabréfin eignuðust kröfu á eignir þrotabúanna. Eigendur skulda eru hærra settir en eigendur hlutafjár, þetta er grundvallaratriði í fjármálafræði.  Þegar fyrirtæki eru ekki lengur gjaldfær eða gjaldþrota, eru það þeir sem eiga skuldirnar sem fá eignirnar.

Skilanefndir gömlu bankanna eru því að gæta eigna kröfuhafa.  Þetta er mikilvægt því um þessar eignir nær eignarréttarákvæði sjtórnarskrárinnar og þær verða ekki teknar af kröfuhöfum nema gegn fullu verði.  Krónuinnistæður erlendra aðila eru tryggðar á sama hátt og innlendra aðila og njóta ríkisábyrgðar.  Þær verða ekki heldur afskrifaðar.

Í raun er ekki hægt að afskrifa neitt hjá kröfuhöfum en það er hægt að skattleggja þá eða kaupa af þeim eignir á brunaútsöluverði sem síðan má selja fyrir hagnað.  Aðeins þannig er hægt að “ná í pening” af kröfuhöfum sem nota má til að borga niður höfuðstól verðtryggðra lána heimilanna eða lán ríkisins eða bæta heilbrigðisþjónustu, til að nefna fá dæmi.

Raunhæfasta leiðin er að semja við kröfuhafa og kaupa af þeim innlendar eignir á burnaútsöluverði gegn því að þeir fái aðganga að erlendum eignum þrotabúanna og geti skipt söluverði eigna í krónum yfir í gjaldeyri.

En að nota hagnaðinn í skuldaleiðréttingu á verðtryggðum lánum heimilanna getur haft ófyrirséðar afleiðingar fyrir bankakerfið.  Skuldabréf nýju bankann eru yfirleitt tryggð skuldabréf þar sem tryggar eignir svo sem fasteignalán og ríkisskuldabréf eru lögð að veði.  Eigendur tryggðra skuldabréfa nýju bankann geta því verulega flækt allar útgáfur af lækkun á höfuðstól fateignalána þar sem slík leiðrétting mun líklega skerða veðeignasöfn bankanna.  Sérstaklega er ríkisbankinn viðkvæmur hvað þetta varðar vegna strangra veðákvæða stóru skuldabréfanna, eins og fram kemur í árshlutareikningi hans.  Þá getur þessi leið minnkað getu bankakerfisins til útlána og hækkað kostnað á lánum sem aftur ynni gegn höfuðstólsleiðréttingu.  Og ef semja á um verulegar breytingar á skuldabréfum nýju bankanna er gott að muna regluna að fyrst verður að semja við hluthafa eða núllstilla hlutaféð – það yrði skellur fyrir ríkið.    En það eru ekki aðeins bankarnir sem gætu lent í vandræðum, Íbúðarlánasjóður er varla í stakk búinn til að taka á sig svona “fyrirframgreiðslu” inn á verðtryggð lán án heimildar til að greiða inn á sín eigin skuldabréf.  Svona skuldaleiðrétting myndi enn auka á vandræði ÍLS.

Nei, það er hægara sagt en gert að fara út í svona aðgerðir og betra að huga vel að öllum smáatriðum í upphafi.

Það sem minna fer fyrir í þessari umræðu er hverjir fá að versla með eignir kröfuhafa? Þóknun við þá þjónustu gæti skilað dágóðum skildingi.   Það er ótrúlega hljótt um þessa hlið málsins.  Kannski er verið að nota hugtakið “afskriftir” sem klóka smjörklípu?

 

PS.  í þessari færslu er átt við að það er ekki hægt að afskrifa eignir annarra á sama hátt og skuldir annarra eru afskrifaðar.    Auðvita geta eigendur eigna afskrifað þær eftir því sem þær eru notaðar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 10.6.2013 - 12:21 - Lokað fyrir ummæli

Fullveldið verðlagt

Þjóðir legga mismunandi mat á eigið fullveldi.

Skotar leggja mesta áherslu á hin efnahagslegu rök fullveldis, en breska vikuritið The Economist, segir að það sé viðeigandi í fæðingarlandi Adam Smith.

Skoðanakannanir í Skotlandi hafa sýnt að aðeins 21% Skota eru hlynntir sjálfstæði ef það kostar þá meira en 500 pund (95,000 kr) í aukakostnað á ári.

Nýlegir útreikningar Benedikts Jóhannssonar sýna að aukakostnaður íslensku krónunnar er um 300,000 kr. á mann á ári.

Erfitt er að ímynda sér að margar þjóðir myndu sætta sig við svo dýran og óhentugan gjaldmiðil. Óhugsandi er t.d., að Skotar myndu sætta sig við hafagjaldmiðil þar sem nær öll erlend eyðsla væri leyfð en allur erlendur sparnaður bannaður.

Kannski liggur munurinn í afsöðu Skota og Íslendinga til fullveldis, að Skotar eru hagsýnir og sparsamir en Íslendingar rómantískir eyðsluseggir.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 8.6.2013 - 14:24 - Lokað fyrir ummæli

Uppstokkun á bankakerfinu – nú eða aldrei!

Á tímum mikilla breytinga er rétt að huga að framtíðinni.  Um þessar mundir á það við um íslensku bankana en þeir hafa sjaldan staðið á meiri tímamótum en einmitt nú.  Hver er staða þeirra og horfur?

Viðskiptamódel bankanna er bæði dýrt og úrelt.  Minnka þarf allt kerfið og skera niður kostnað, auka samkeppni og laga starfsemina að örsmáu krónuhagkerfi sem kallar á afnám verðtryggingarinnar, en segja má að verðtryggingin sé sá gullkálfur sem standi undir dýru og óskilvirku bankakerfi hér á landi.

Á sama tíma þarf að byggja upp góð sambönd við erlend fjármálafyrirtæki til að auðvelda íslenskum fyrirtækjum og frumkvöðlum aðgang að hagkvæmari og fjölbreyttari fjármögnun.   Erlendir aðilar munu alltaf hafa áhuga á að fjárfesta í góðum íslenskum fyrirtækjum og hugmyndum en ekki alltaf í gegnum erlenda skuldabréfaútgáfu íslenskra banka.  Í því felst óþarfa kostnaður og áhætta.  Erlendir fjárfestar og bankar munu vilja eiga sem beinust viðskipti við áhugaverð íslensk fyrirtæki, það er ein lexía hrunsins.

Framtíð íslensku bankanna liggur fyrst og fremst í því að starfa sem viðskiptabankar í krónuumhverfi þar sem nálægð og hagkvæm þjónusta við heimilin og fyrirtækin í landinu er sett á oddinn. Tryggja þarf að viðskiptabankar séu vel einangraðir frá áhættusamari fjárfestingabankastarfsemi og umsýslu með verðbréf og fjármálagjörninga í erlendum gjaldeyri.

Brátt mun gefast gullið tækifæri til að gera róttæka uppstokkun á íslensku bankakerfi og færa það nær þörfum og kröfum viðskiptavina á 21. öldinni.  Þegar samningar við kröfuhafa eru í höfn, er líklegt að ríkið fái einstakt tækifæri til að stýra eignarhaldi á stóru bönkunum (og ÍLS) og þar með ákveða hvort og hvernig bankakerfið verði uppstokkað.

Mikilvægt er fyrir stjórnvöld að líta fram á veginn og ekki einblína eingöngu á að hámarka einskiptishagnað af sölu bankanna til nota á þessu kjörtímabili.  Huga verður að langtímaþörfum næstu kynslóða um hagkvæma og skilvirka bankaþjónustu. Því þarf öll uppstökkun að byggja á skýrri og heilstæðri framtíðarsýn sem tekur á hlutverki viðskiptabanka, fjárfestingabanka, verðbréfafyrirtækja, ÍLS og sparisjóðanna.

Þessa vinnu þarf að hefja tafarlaust.  Feigðarflan væri að keyra samningagerð við kröfuhafa á mettíma og vona síðan að “þetta reddist” með því að láta stjórnmálamenn og “íslenska markaðinn” ráðstafa bönkunum.  Slíkt hefur verið reynt áður.  Það er einfaldlega ekki hægt að láta heimilin og fyrirtæki landsins halda áfram að kynda eitt dýrasta viðskiptabankakerfi í víðri veröld. Hér verður að sýna meiri fyrirhyggju og áræðni.  Þá er varasamt að bankarnir sjálfir og/eða stjórnsýslan ákveði þetta fyrir landsmenn.  Til þess skortir þau bæði yfirsýn og reynslu í róttækum kerfisbreytingum.  Að þessari vinnu þarf að koma breiður hópur Íslendinga og erlendra sérfræðinga.

Stóra spurningin er hvort þjóðin og ný ríkisstjórn hafi kjark í þetta, enda verður fáu hægt að lofa í upphafi nema erfiði, sársauka og vanþakklæti.  Svona tækifæri mun, hins vegar, ekki gefast aftur á þessari öld.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 7.6.2013 - 19:22 - Lokað fyrir ummæli

EFTA og ESB

Hver er munurinn á EFTA og ESB?  Svar: 209 kr. mínútan.

ESB hefur barist fyrir lækkun taxta reikisamtala á milli landa innan ESB og EES.  Mikill árangur hefur náðs sem íslenskir neytendur njóta á ferðalögum innan ESB og EES.

Ekki hafa EFTA löndin beytt sér á sama hátt í þágu neytenda.  Frá EFTA landinu Sviss borga íslenskir farsímanotendur 270 kr fyrir mínútuna til að hringja til EFTA landsins Íslands.  Frá ESB landinu Þýskalandi borga menn 61 kr. fyrir mínútuna til EES landsins Íslands.

Allt er þetta ESB að þakka.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 5.6.2013 - 16:30 - Lokað fyrir ummæli

Ekki kaffi og vöfflur hjá Skotum

Tvær af okkar nánustu nágrannaþjóðum standa í sjálfstæðisbaráttu en hún fær yfirleitt litla umræðu hér á landi.  Tll þess eru Íslendingar alltof uppteknir af sjálfum sér, en kannski ættu þeir að líta yfir hafið og fylgjast með umræðu og viðhorfum Skota og Grænlendinga.

Sérstaklega er fróðlegt að fylgjast með gjaldmiðlaumræðu hjá sjálfstæðismönnum Skota.  Í febrúar síðastliðinn var birt gjaldmiðlaskýrsla sérfræðinga þar sem nóbelsverðlaunahafinn Joseph Stiglitz var einn höfunda, en hann er Íslendingum vel kunnugur.   Skoska þingið hefur nú nýlega samþykkt tillögur nefndarinnar um framtíðargjaldmiðil Skota komi til sjálfstæðis.

Í skýrslunni er tekið fram að val á galdmiðli sé ein stærsta ákvörðun Skota í sjálfstæðisbaráttunni og því nauðsynlegt að vanda vel valið enda ber skýrslan þess merki að þar hafi verið faglega að verki staðið.  Niðurstaðan er að besta leið Skota til að tryggja lífskjör og hagvöxt eftir sjálfstæði er að halda áfram að nota breska pundið í samvinnu við Englandsbanka.  Hinir möguleikarnir eru evra og eigin gjaldmiðill.  Upptaka evru er ákveðnum vandamálum háð, t.d. hafa Skotar ekki eigin gjalmiðil til að fara með inn í ERM 2 og svo eru mestu viðskipti Skota við England.  Ekki er mælt með sjálfstæðri mynt þó tekið sé fram að skoska hagkerfið sé nógu stórt til að standa undir eigin gjaldmiðli og er þar vísað til Nýja Sjálands, Noregs og Svíþjóðar sem lítilla hagkerfa sem ráða við eigin mynt.  Skýrslan er öll hin fróðlegasta og sýnir hversu faglega hægt er að standa að vali gjaldmiðils ef viljinn er fyrir hendi.

Grænlendingar njóta dönsku krónunnar og eru því í sömu stöðu og Skotar að búa við alþjóðlega viðurkennda mynt.  Þó að Grænlendingar séu margir hverjir ekki hrifnir að Dönum er mér ekki kunnugt um að hið sama gildi um dönsku krónuna.  Með dönsku krónuna sem gjaldmiðil geta Grænlendingar vænst þess að nýta auðlyndir sína á betri og arðbærari hátt en Íslendingar.  Með trygga og hagkvæma erlenda fjármögnun verður meiri arðsemi eftir í Grænlandi sem mun standa undir hærri lífskjörum og launatöxtum en ella.  Þess verður því líkleg ekki langt að bíða að Grænland taki fram úr Íslandi á þessum sviðum.

Í augum Skota og Grænlendinga er íslenska krónan víti til varnaðar.  Í augum margra erlendis er Ísland endanleg sönnun þess að á 21. öldinni hafa örríki ekki tök á að halda úti eigin fljótandi gjaldmiðli – sá tími er liðinn.  Örríki á stærð við Ísland verða að tengjast stærri myntsvæðum enda er stöðug og alþjóðlega viðurkennd mynt forsenda fyrir varanlegri lífskjaraaukningu í framtíðinni.

Og kreppan í Evrópu sýnir þetta líka.  Sama hversu illilega lítil ríki hafa lent í efnahagskreppunni, ekkert þeirra hefur gefist upp á evrunni eða evrutengingu.  Enginn hefur farið íslensku leiðina og tekið upp gengisfellda sjálfstæða mynt.  Hér er Ísland eitt á báti sem svo oft áður.

Það ætti því varla að koma mikið á óvart að krónan var valin sem framtíðargjaldmiðill Íslands yfir kaffi og vöfflum á Þingvöllum.

PS.  Skoskir atvinnurekendur hafa látið reikna út hvað sjálfstæðið muni kosta og komast að því að aukakostnaður vegna sjálfstæðis verður um 140 pund á mann á ári eða um 100,000 kr á 4ja manna fjölskyldu.  Stjórnmálamenn sem vilja komast í ráðherra- og sendiherrastöður eru auðvita rasandi yfir svona útreikningum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 2.6.2013 - 14:21 - Lokað fyrir ummæli

Kröfuhafar, ESB og loforðin

Það sem hefur gleymst í þessum umræðum um samninga við kröfuhafa er að þeir hafa meiri þolinmæði en ríkisstjórnin.

Það hefur verið gengið út frá þeirri forsendu að kröfuhafar vilji ólmir afsala sér krónueignum af því að það sé ekki til gjaldeyrir í landinu.

Margir hafa fyrir löngu gert sér grein fyrir þvi að “gjaldeyrisframleiðsla” Íslands er miklum takmörkunum háð og engin von að hægt sé að greiða allar krónueignir erlendar aðilia sem urðu til við hrunið út í gjaldeyri.  Það er rétt til gjaldeyrir til að fæða og klæða þjóðina og borga opinberar skuldir, lítið meir.

Það sem “hrægammarnir” veðjuðu á var að Ísland myndi fara inn Í ESB og inn í ERM 2 og þá myndu gjaldeyrishöftunum verða lyft og erlendir fjármálamarkaðir opnast, sem gæfi áhugasömum kaupendum tækifæri á að kaupa krónueignirnar með erlendri fjármögnun.  Ef erlend fjármögnun yrði ekki í boði eða óhagstæð, yrðu kröfuhafar “læstir” inni í ERM 2 krónum sem á endanum yrði breytt í evrur.  Þetta gæti tekið 10-15 ár.

Þessi forsenda hefur ekki enn gengið upp, en ef horft er til Argentínu er ljóst að kröfuhafar eru tilbúnir til að bíða í mörg kjörtímabil eftir lausn.  Og þar liggur vandinn við að lofa leiðréttingu “strax”.

Hvers vegna ættu kröfuhafar að slá af kröfum sínum á meðan ESB aðildarsamningur hefur ekki verið felldur í þjóðaratkvæðisgreiðslu?  Stuðningur við ESB aðild er í lágmarki núna en það gæti breyst í lok kjörtímabilsins.  Kröfuhafar vita að gjaldeyrisvandamál þjóðarinnar eru í raun óleysanleg með krónuna sem framtíðargjaldmiðil.  Smátt og smátt mun þetta renna upp fyrir kjósendum og þá er hugsanlegt að ESB aðild glæðist.

Svo mætti að lokum spyrja hvort samningar við kröfuhafa yrðu ekki einfaldari og gjöfulli fyrir þjóðarbúið og heimili landsins innan ESB en utan?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 31.5.2013 - 18:00 - Lokað fyrir ummæli

„Danska leiðin“ losar snjóhengjuna

Snjóhengjuvandinn svokallaður er birtingarmynd þess gjaldeyrisvanda sem Ísland þarf að glíma við fyrir utan ESB.  Ólíkt Argentínu og öðrum ríkjum utan Evrópu sem hafa lent í svipuðum vanda og Ísland, hefur Ísland raunverulegt val um framtíðargjaldmiðil.  Þessi valréttur er verðmætur og pólitískt afsal á honum getur falið í sér umtalsverða lífskjaraskerðingu á komandi árum sem vekur upp þá spurningu hvort ekki sé réttara að virkja valréttinn í upplýstri þjóðaratkvæðisgreiðslu fyrr en seinna.

Snjóhengjan verður fyrst að alvarlegu vandamáli um leið og Ísland velur krónuna sem framtíðargjaldmiðil enda er snjóhengjan krónuvandi.  Því má segja að snjóhengjan sé eins mikið pólitísk vandamál og efnahagslegt, sérstaklega í augum erlendra aðila.  Til heimabrúks er snjóhengjan kynnt sem vandamál “hrægamma” og tækifæri Íslands.  Í þeirri umræðu hefur verið takmarkaður pólitískur vilji til að opna verkfærakassann og skoða hvaða tól eru í boði og hvert þeirra muni hjálpa best við lausn vandans?  Bitlaus haftakróna er varla Íslands sterkasta vopn.

Ekkert af þessu ætti þó að koma á óvart.  Snjóhengjan var alltaf þekkt.  Í kjölfar hrunsins var mikill stuðningur við ESB aðild og því var eðlilegt að vinna eftir þeirri forsendu að Ísland yrði komið inn í ESB 2013 (ekki seinna en Króatía sem fær aðild 1. júlí) og því væri krónan núna á leið inn í ERM 2 og snjóhengjan og endurfjármögnun erlendra lána komin í “evru” ferli og viðráðanleg. (Egill Almar Ágústsson útlistir þetta ferli vel í grein í Viðskiptablaðinu hér).  Þetta er hin „danska leið“ en danska krónan er „ERM 2“ króna*.

Þessi ESB aðildarforsenda hefur ekki reynst traust og því eru nú hin ýmsu gjaldeyrisvandamál að stinga upp kollinum sem geta orðið mjög erfið viðureignar þar sem þau byggja sumpart meir á pólitísku vali en neyð – “sá á kvölina sem á völina”.  Það sem vekur furðu er hversu löngu eftir að ljóst varð að áhugi á ESB aðild hafði dofnað meðal þjóðarinnar, var farið að huga að afleiðingunum.

 

*) “ERM 2” króna nýtur stuðnings Evrópska seðlabankans og er því allt annar gjaldmiðill en íslensk haftakróna sem styðs við skuldsettan gjaldeyrisvarasjóð.  Samningar við kröfuhafa og erlenda fjárfesta verða auðveldari og gjöfulli fyrir íslenskt hagkerfi ef Ísland getur boðið upp á “ERM 2” krónur sem í fyllingu tímans verða að evrum.  Þá bíður þessi leið upp á mun öruggara og auðveldara afnám gjaldeyrishafta og verðtryggingar.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 16.9.2012 - 07:41 - Lokað fyrir ummæli

Heilbrigðisniðurskurður: Reynsla Breta

Hér er stutt færsla sem ég skrifaði 4. október 2009.  Því miður virðist reynsla Breta ætla að endurtaka sig hér.

„Bretar fóru í flatan niðurskurð upp úr 1990 með skelfilegu afleiðingum fyrir heilbrigðisþjónustuna hjá sér.  Biðlistar lengdust, óþrifnaður og ringulreið jókst þar sem það eru takmörk fyrir hvað er hægt að leggja á færri og færri hendur.  Á ákveðnum tímapunkti hrynur kerfið eins og við þekkjum það.

Það tók Breta 10 ár að vinna kerfið aftur upp með miklum kostnaði.  Þetta er ein ástæða þess að allt annað verður skorið niður hjá þeim áður en til heilbrigðisþjónustu kemur.“

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur