Krónan er sem ópíum. Í hruninu linaði hún þjáningar og var rómuð sem töfralyf, en aukaverkanirnar eru nú farnar að segja til sín. Stór hluti heimila nær ekki endum saman um hver mánaðarmót og þessi hópur er hlutfallslega miklu stærri hér á landi en í þeim ESB löndum sem verst urðu úti í bankakreppunni, eins og t.d. Írland. Í evrulöndunum varð engin gjaldeyriskreppa. Þar féll ekki gjaldmiðilinn eins og hér og þar eru menn ekki með tekjur í einum gjaldmiðli og skuldir í öðrum, nema í undantekningartilfellum.
Hagfræðingar segja að gengisfelling sé ákveðið tæki til að gera lönd samkeppnishæf og koma þeim út úr kreppu. Vissulega er það rétt, en þá gera menn ekki ráð fyrir að almenningur sé með laun og skuldir í mismunandi gjaldmiðli, sem er raunin hér á landi. Hin verðtryggða króna er nefnilega eins og annar gjaldmiðill, ekki eins sterkur og jenið en líklega á svipuðu róli og breska pundið.
Það má því líta svo á málið að aðeins þeir sem eru með óverðtryggð lán eru með raunveruleg lán í krónum, allir aðrir eru með lán í annarri mynt. Þetta er rót hins mikla skuldavanda á Íslandi. Tekjur í gengisfelldri krónu geta ekki staðið undir lánum í sterkari gjaldmiðlum og þar á meðal verðtryggðri krónu.
Það er aðeins ein lausn á þessu og það er að gera þetta ópíum upptækt og skipta um gjaldmiðil. 300,000 manns geta ekki staðið undir alþjóðlegum gjaldmiðli á 21. öldinni. Án alvöru gjaldmiðils verður engin alvöru hagvöxtur hér eða sparnaður. Kostnaðurinn við krónuna er gríðarlegur. Verðtrygging og háir vextir halda launum niðri, þá takmarka gjaldeyrishöft alla uppbyggingu og gera aðgang að erlendu fjármagni erfiðan og dýran. Króna með sína galla mun eingöngu leiða til lægri launa, stöðnunar og landflótta.
Smáskammtalækningar á við að breyta vísitölu, fella niður verðtryggingu eða setja þak á vexti, slá aðeins tímabundið á vandamálið.
Okkar nær 85 ára gamla tilraun til að halda úti sjálfstæðri mynt er lokið. Við verðum að fara að marka okkur nýja og haldbæra stefnu í gjaldmiðlamálum. Nýr gjaldmiðill er ekki lausn á okkar vandamálum, heldur verkfæri sem gerir okkur kleift að vinna okkur út úr erfiðleikunum. Því betra tæki sem við höfum, því betur vinnst sú vinna.
Í augnablikinu eigum við tvo möguleika sem virðast hvað raunhæfastir,
1. EVRAN – Ef við göngum inn í ESB stefnum við á evru. Fyrsta skrefið er að fara sömu leið og Danir og fasttengja krónuna við evru með aðstoð evrópska seðlabankans, þar til við uppfyllum skilyrði fyrir evruupptöku.
2. NORSKA KRÓNAN – Ef við ætlum að standa fyrir utan ESB er eðlilegast að við í samvinnu við AGS leitum til norska seðlabankans um að fá að taka upp norsku krónuna.
Það er flestra hagur að við tökum upp nýjan gjaldmiðil og beinn kostnaður við slíka aðgerð verður alltaf lítill hluti af þeim kostnaði að halda úti ónýtri íslenskri krónu. Hins vegar er þessi leið ekki sjálfgefin, ópíum er erfitt að uppræta, sérstaklega þegar heil þjóð er orðið því háð.