Fimmtudagur 4.11.2010 - 23:18 - 34 ummæli

Lífskjör falla mest á Íslandi

Samkvæmt nýrri þróunarskýrslu SÞ fellur Ísland mest allra landa á milli áranna 2005 og 2010, eða um 10 sæti.  Þau lönd sem við berum okkur gjarnan saman við og teljum að hafi farið enn verr út úr kreppunni, af því að þau voru innan ESB, farnast betur.  Írland stendur í stað og Spánn, Ítalía, Portúgal og Grikkland hækka öll um 1 til 4 sæti.

Sem sagt, ekkert af verst stöddu evruríkjunum lækkar í röðinni á síðustu fimm árum á meðan Ísland lækkar um 10 sæti.

Ekki hef ég séð íslenska fjölmiðla segja sínum lesendum frá þessari niðurstöðu.  Er furða að meirihluti þjóðarinnar trúi að Ísland sé að koma betur út úr kreppunni en evrulöndin, þegar enginn hefur áhuga á að horfast í augu við staðreyndir og rannsóknir erlendra stofnanna á við SÞ.

Þessi skýrsla SÞ ásamt nýlegri skýrslu World Economic Forum setur íslenska hrunið í alþjóðlegt samhengi sem við viljum helst ekki horfa á eða ræða.  En það þýðir ekkert að loka augunum og búa til raunveruleika á íslenskum forsendum.  Slík mun í besta falli tefja fyrir uppbyggingu og í versta falli leiða til stöðnunar og síðan hnignunar.

Heimild:  UN Human Developmen Report 2010

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 4.11.2010 - 11:08 - 4 ummæli

Seðlabankinn í pólitískri klemmu

Það hefur löngum verið erfitt að túlka og skilja yfirlýsingar og aðgerðir Seðlabanka Íslands á þessari öld, og enn klórar maður sér í kollinum yfir yfirlýsingum þaðan.

Í gær voru vextir lækkaðir um 0.75% og landsmönnum sagt að einkaneysla eigi að draga okkur út úr efnahagsvandanum.  Gengur þetta tvennt upp?  Varla?  Hvers vegna?  Jú, og það veit Seðlabankinn mæta vel, að hagkerfið hér byggir að mestu leyti á föstum vöxtum sem eru ákvarðaðir fyrir utan veggi Seðlabankans.  Vaxtaákvarðanir Seðlabanka Íslands hafa því önnur áhrif á neyslu hér en í nágrannalöndunum.

Eftir þessa lækkun munu heimilin hafa minna á milli handanna en áður.  Langflest húsnæðislán eru á föstum vöxtum, aðeins þeir sem eru með lán tengd óverðtryggðum vöxtum Seðlabankans njóta lækkunarinnar.  Á móti kemur að ellilífeyrisþegar og þeir sem eiga sparnað fá minna í sinn vasa og þegar allt er reiknaða saman eru yfirgnæfandi líkur á að heimilin hafi minna fjármagn til neyslu eftir þessa vaxtalækkun.

Minnkandi einkaneyslan er ekki besta kveikjan að efnahagsbata sem á að byggja á einkaneyslu!  Í þessu felst mótsögn.  Eitthvað annað verður að koma til.  En hvað?

Fyrirtækin eru flest yfirskuldug og geta ekki bætt meiri lánum á sig, endurfjármögnun á lægri vöxtum er erfið vegna verðtryggingar og ófullkomins og óburðugs fjármálamarkaðar.  Lítið sem ekkert lánsfé fæst í nýsköpun.  Í stuttu máli, innlend útlán eru í frosti, eins og tölur Seðlabankans sýna.  Síðasta hálmstráið er að lægri vextir ýti sparnaði út í fjárfestingu, en hvert og í hverra hendur.  Hverjum geta fjárfestar treyst á Íslandi og er víst að allir fjárfestar hafi sömu trú á verðbólgustöðuleika og Seðlabankinn?  Margir munu einfaldlega kjósa að færa sinn sparnað yfir í verðtryggð ríkisbréf.

Ef við lítum á afstöðu AGS þá hefur hún alltaf verið að Ísland þurfi að breytast úr neysluhagkerfi í framleiðsluhagkerfi.  Aðeins þannig getum við endurheimt okkar erlenda lánstraust og hafið alvöru uppbyggingu.  Þetta er sú leið sem tryggir hámarks lífskjör.

Eina rökrétta túlkunin á yfirlýsingu Seðlabankans er því að framleiðsluleiðin sé ófær eins og stendur (klúður og ósætti stjórnmálastéttarinnar hafa tímabundið lokað á verkefni og erlenda fjármögnun) og því verði að fara hina torsóttu og hættulegu einkaneysluleið.  Veikari hagvaxtaspá styður þessa túlkun.

En hvers vegna í ósköpunum getur Seðlabankinn ekki talað tæpitungulaust?

PS.  Vaxtaákvarðanir Seðlabankans eru ansi bitlaust verkfæri í íslenska hagkerfinu eins og sagan segir okkur.  Það sem skiptir miklu meira máli er að halda gengi krónunnar stöðugu.  Fastgengismarkið sem styðst við gjaldeyrishöft er eina tæki Seðlabankans sem „virkar“ í yfirskuldugu, verðtryggðu krónuhagkerfi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 3.11.2010 - 22:43 - 7 ummæli

„Þrjú hjól undir bílnum“

Lagið sem Ómar Ragnarsson söng með hljómsveit Svavars Gests 1965, „Þrjú hjól undir bílnum en áfram skröltir hann þó“ er viðeigandi sem nýr þjóðsöngur Íslendinga, nú þegar sálmurinn „Lofsöngur“ er svo ekki 2010.

Þegar fyrrverandi aðalhagfræðingur Seðlabankans er farinn að segja „að aldrei hafi verið reynt að hafa áhrif á spár Seðlabanka Íslands“, er fokið í flest skjól.  Varnarleikur Seðlabankans er orðinn vandræðalegur og yfirlýsingar sem koma frá þeirri stofnun eru varla til að auka traust.

Nú eru liðin tvö ár frá hruni og enn er verið að reikna og greina skuldavandann.  Mistök Jóhönnu var að gera sér ekki grein fyrir hversu gjörsamlega fyrri ríkisstjórnir (og hún sat jú í sumum þeirra!)  höfðu rústað öllum sjálfstæðum og óháðum innviðum stjórnsýslunnar.  Það voru hreinlega engir sem gátu tekið sjálfstæðar og hugaðar ákvarðanir, það biðu allir eftir pólitískum fyrirskipunum og forsendum sem tóku sífelldum breytingum, svo aldrei var hægt að komast af byrjendareit.  Nú á svo að taka 6 mánaða vinnu og redda í einni helgarskorpu, klassísk íslensk vinnubrögð.  Eru menn svo hissa að ekkert gerist!

Traust og trúverðugleiki stjórnvalda og stofnanna hefur náð nýjum lágpunkti.  Ný ríkisstjórn sem ætlar að endurreisa þetta traust, verður að skilja að stjórnmálmenn og embættismenn geta ekki unnið það starf.  Önnur mistök Jóhönnu, var að gera sér ekki grein fyrir þessu.  Hennar fyrsta verk hefði átt að vera að endurreisa Þjóðhagsstofnum og manna hana með samblandi af íslenskum og norrænum sérfræðingum.

Að reyna að stjórna efnahags- og fjármálakerfi landsins án tímanlegra og óháðra upplýsinga sem njóta trausts kjósenda, er eins og að keyra í bílnum í laginu hans Ómars.

Þeir sem benda á þessa augljósu staðreynd fá einnig svar frá því góða lagi:

„þegiðu kona og lokaðu glugganum“

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 3.11.2010 - 08:51 - 13 ummæli

AGS í vanda með Ísland

Fjórða endurskoðun AGS verður erfið fyrir sjóðinn.  Svo virðist sem að starfsmenn sjóðsins hafi treyst um of á einhliða og „bjartsýna“ upplýsingagjöf frá íslenskum stjórnvöldum og stofnunum.

Blekið hafði varla þornað á skjölum 3. endurskoðunar, þar sem AGS spáir 3.5% hagvexti 2011, þegar ríkisstjórnin vaknar af einhverjum þyrnirósasvefni og viðurkennir að ekki er allt í eins góðum málum og menn héldu!

Hinar rómuðu skuldaaðgerðir virðast allt í einu ekki virka, uppboðsfresturinn er allt í einu framlengdur þvert á fyrri yfirlýsingar og niðurskurðurinn er ekki eins einfaldur í framkvæmd og excel skjöl ráðuneytanna gerðu ráð fyrir. Ofan á þetta bætist óleyst Icesave deilan sem landsmenn eru margir búnir að gleyma.

Það verður erfitt fyrir AGS að yfirgefa Ísland 2011, ef hagvöxtur stefnir í 0.5% eins og Arion banki spáir og 50 ma kr niðurskurður og skattahækkanir renna út í sandinn.  Minni hagvöxtur og hærri ríkishalli er ekki samkvæmt uppskrift AGS.

Væntingar eru miklar og boginn hefur verið spenntur hátt.  Það verður álitshnekkir bæði fyrir stjórnvöld og AGS ef hið margrómaða Íslands prógramm fer að riðlast.

2011 verður erfitt ár.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 2.11.2010 - 09:29 - 15 ummæli

Heilbrigðiskreppa

Nýjasta kreppan á Íslandi, og sú hættulegasta, er heilbrigðiskreppan.  10% lækna hafa yfirgefið landið á síðustu 2 árum.  Með sama áframhaldi mun hér skapast neyðarástandi í heilbrigðismálum áður en langt um líður og aðeins þá má búast við að stjórnmálamenn bregðist við, enda er dagbókin þeirra þegar full af alls konar kreppum sem eru forgangsraðaðar af hinum ýmsum hagsmunahópum.

Heilbrigðismál eru því miður langt niðri á lista stjórnmálamanna og blaðamanna, ólíkt skuldamálum.  Ástæðan er augljós, þessir menn eru við hestaheilsu en skulda sín lán.

Það var athyglisvert að um leið og skuldakreppan byrjaði, var skipaður umboðsmaður skuldara.  Sjúklingar hafa beðið eftir umboðsmanni sjúklinga í áratugi án árangurs.

Stefnuleysi stjórnmálaflokkanna í heilbrigðismálum og skortur á nýjum og raunhæfum hugmyndum er sláandi og á eftir að senda marga í ótímabæra gröf.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 1.11.2010 - 10:53 - 15 ummæli

Íslenska leiðin

Það virðist vera lítil stemning hjá Grikkjum, Portúgölum eða Írum að fara íslensku leiðina og endurheimta sjálfstæði sitt og gjaldmiðil með úrsögn úr ESB.   Menn á Íslandi segja að ESB aðild þessara landa hafi sett allt þar í kaldakol og sé öðrum þjóðum víti til varnaðar.  Hvers vegna ætli standi á því að almenningur í þessum löndum sjái ekki ástandið hjá sér með jafn skýrum augum og Íslendingar?  Hafa Íslendingar svona skýra og örugga sýn á markmið og leiðir sem er öðrum þjóðum til fyrirmyndar?  Er efnahagssaga Íslands síðustu 30 árin svona aðlaðandi og traustvekjandi?

Það þarf mikla þrjósku og bjartsýni til að trúa að efnahagsstöðuleiki Íslands síðustu 30 ára sé besti grunnur sem við getur fært nýrri kynslóð til að byggja á.  Aðeins þeir menn og stjórnmálaflokkar sem hafa staðið vaktina síðustu 30 árin geta tryggt efnahagslega framtíð landsins, segja menn og meirihluti þjóðarinnar kinkar kolli.  Allir sem voga sér að efast um þessa speki og spyrja um efnisleg rök og áætlanir eru yfirleitt afgreiddir sem kverúlantar, áróðursmeistarar og ef það dugar ekki er alltaf hægt að treysta á þjóðaríþrótt Íslendinga, persónulegt skítkast.

Á Íslandi byggja menn ekki á staðreyndum heldur slagorðum.  Á Íslandi vilja menn ekki leiðinlegt fólk sem spyr óþægilegra spurning og þorir að taka óvinsælar ákvarðanir, nei menn flykkjast um sprelligosa sem lofa öllu skemmtilegu.  Á Íslandi myndi engum detta í hug að fara að kjósa fjármálasérfræðinga í sveitarstjórnir.  Á Íslandi eru hugmyndir manna ekki jafnar og geta ekki staðið á eigin fótum, aðeins pólitískar hækjur eru leyfðar.  Og fátt er verra á Íslandi en erlendir sérfræðingar, enda verður erlent bókvit ekki í tandurhreina íslenska aska látið.  Um það geta 90% þjóðarinnar verið sammála.

Markmið hinnar íslensku leiðar er sáraeinfalt, Ísland ætlar að  „endurheimta“ stöðu sína við hlið hinn EFTA landanna, Noregs og Sviss.  Hvernig á að „endurheimta“

  1. Alþjóðlega viðurkenndan gjaldmiðil án verðtryggingar
  2. AA lánstraust eða betra
  3. Lága skuldastöðu og verðbólgu
  4. Stöðugan efnahagsvöxt
  5. Þjóðartekjur og launataxta sem eru 20% yfir meðaltali ESB landanna
  6. Atvinnuleysi undir 4%?

Hvernig og hvenær menn ætla að ná þessum markmiðum spyrja menn ekki út í, þetta mun reddast eins og hrunið reddaðist.  Aðalatriðið í dag, er að berjast gegn minnihlutanum sem mun setja þessi markmið í uppnám með því að pressa á ESB aðild.  Það þarf ekki annað en að líta á Grikkland, Portúgal og Írland, allt eru þetta lönd sem ekki urðu Noregur eða Sviss efnahagslega, vegna þess að þau völdu ESB aðild.  Tær íslensk snilld sem aðrir sjá ekki!

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 29.10.2010 - 10:09 - 28 ummæli

Sæstrengs gullgæsin

Sæstrengur sem mun flytja rafmagn til Bretlands mun mala gull og það vita gamlir og nýir íslenskir fjármálaspekúlantar.  Þeir rembast nú eins og rjúpan við staur að sannfæra sauðsvartan almúgann og íslenska blaðamenn um að aðeins þeir hafi aðgang að fjármagni fyrir slíkt verkefni – þeir þekki rétta og áhugasama „aðila erlendis“, heitir þetta.  Gríðarleg barátta er nú í uppsiglinu um hver fær aðgang að þessari framtíðar gullgæs þjóðarinnar og ekkert verður sparað til að sannfæra landsmenn um að aðeins þeir sem hafi aðgang að íslenskum stjórnmálamönnum, fjölmiðlum og fjármagni geti komið þessu á koppinn.

Það eru margir verkfræðingar búnir að vinna lengi í þessu verkefni og margir erlendir fjármögnunaraðilar og rafmagnskaupendur hafa sýnt þessu áhuga.  Það þarf enga hjálp frá gamla útrásargenginu til að fjármagna sæstreng og kapalverksmiðju honum samfara.  Þetta er verkefni fyrir Landsvirkjun og hún getur einfaldlega haldið útboð á fjármögnuninni eins og öðrum þáttum verksins.  Bankar og fjárfestar munu standa í röðum erlendis, enda ekki á hverjum degi sem svona tækifæri gefst, til að koma grænni orku inn á evrópska rafmangsnetið.

En hvað þýðir sæstrengur?  Jú miklu hærra verð fæst fyrir orkuna með því að selja hana beint til neytenda í Evrópu en til orkufreks iðnaðar.  Reynsla Norðmanna (en þeir hafa lagt 800 km streng til Hollands) sýnir að orkufrekur iðnaður getur ekki keppt við sæstreng.  Halda verður þessu aðgreindu.  Virkja verður sérstaklega fyrir sæstrenginn en margt bendir til að þetta verkefni sé arðbærara en álbræðsla og því er eðlilegt að svona tækifæri hafi algjöran forgang í því árferði sem nú ríkir.

Aðilar sem sjá um að selja rafmagn frá norska NorNed kaplinum inn á norður-evrópska netið, tjá mér að Íslendingar þurfi að huga vel að hvar þeir ætli að koma með sæstreng að landi.  Ekki sé hagstætt að koma að landi í Skotlandi því þar skorti næga eftirspurn og nær útilokað sé að fá leyfi til að byggja nýja rafmagnslínur yfir skoska hálendið og suður til  Englands.  Koma þurfi með kapal að landi sunnan við Liverpool.  Að koma með kapal færandi græna orku sjóleiðina að landi þar sem næg eftirspurn sé fyrir hendi og lágmarksþörf sé fyrir miklar rafmangslínur sé mikilvægt atriði.

Þetta er mikið og tæknilega flókið verkefni sem best er að setja í hendur reyndra verkfræðinga, fármögnunin verður lítið mál, svo framalega sem stjórnmálamenn rústa ekki forsendum og það síðasta sem við þurfum er að blanda íslenskum fjármálaspekúlöntum inn í málið.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 25.10.2010 - 07:52 - 5 ummæli

Allir samferða – eða hvað?

Samtök atvinnulífsins leggja mikla áherslu á að allir verði samferða í gerð kjarasamninga.  En er það skynsamlegt?

Krónugeirinn er í engu standi til að hækka laun og það sama á við hið opinbera.  En útflutningsgeirinn sem fær sínar tekjur í alvöru gjaldmiðli er í allt annari stöðu og best reknu fyrirtækin sem eru með skuldir í lágmarki ættu að getað hækkað taxta um eða yfir 50%.  Hins vegar er skiljanlegt að SA sé ekki hrifið að þessari aðgerða, enda renna þessir peningar núna í vasa atvinnurekenda.  Þá munu launahækkanir hjá gjaldeyrisgeiranum setja mikla pressu á krónugeirann og stjórnmálamenn.

Þetta er eitt skýrasta dæmið í dag, hvernig krónan heldur launum niðri hjá þorra landsmanna en færir hagnað á silfurfati til fárra.  Hvers vegna styður meirihluti alþingismanna svona krónukerfi?  Af hverju er þeir með engar lausnir fyrir hinn almenna launamann og kjósanda?

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 24.10.2010 - 18:50 - 19 ummæli

Gylfi á réttri línu en ekki VG

Forseti ASÍ, Gylfi Arnbjörnsson, er einn af  fáum ráðamönnum sem tala af skynsemi.  Það er alveg rétt hjá honum að það er krónan sem hefur rústað fjárhag margra heimila í landinu.

Heimili landsins eiga flest við launavandamál að etja sem hefur leitt til vanda við að greiða af lánum.    Sá forsendubrestur sem varð hjá heimilunum við hrunið er sú launalækkun sem gengisfellingin hafði í för með sér.

Það er einfaldlega ekki hægt að reka hagkerfi eða heimili þar sem laun eru greidd í gengisfelldri krónu en húsnæðislán eru í verðtryggðri krónu,  þetta eru tveir mismunandi gjaldmiðlar – og fyrsta regla í ábyrgri fjármálastjórnun er að hafa tekjur og skuldir í sama gjaldmiðli!

Krónan er versti óvinur launamannsins og gagnast fáum nema skuldlitlum fjárfestum og útflutningsfyrirtækjum sem alltaf græða á gengisfellingum, því það lækkar launakostnað þeirra sem hlutfall af tekjum.

Það er því rökrétt að ASÍ berjist fyrir upptöku á nýjum gjaldmiðil, en að sama skapi er það stórfurðulegt að flokkur eins og VG skuli ekki hafa neina gjaldmiðlastefnu nema að halda í ónýta krónu sem gagnast fáum af þeirra stuðningsfólki.

Það er skiljanlegt að öfl innan Sjálfstæðisflokksins vilji halda í krónuna en hverra hagsmuna er VG að gæta með því að taka undir krónustefnu Sjálfstæðisflokksins?

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 23.10.2010 - 15:31 - 28 ummæli

Krónan er ópíum Íslendinga

Krónan er sem ópíum.  Í hruninu linaði hún þjáningar og var rómuð sem töfralyf, en aukaverkanirnar eru nú farnar að segja til sín.  Stór hluti heimila nær ekki endum saman um hver mánaðarmót og þessi hópur er hlutfallslega miklu stærri hér á landi en í þeim ESB löndum sem verst urðu úti í bankakreppunni, eins og t.d. Írland.  Í evrulöndunum varð engin gjaldeyriskreppa.  Þar féll ekki gjaldmiðilinn eins og hér og þar eru menn ekki með tekjur í einum gjaldmiðli og skuldir í öðrum, nema í undantekningartilfellum.

Hagfræðingar segja að gengisfelling sé ákveðið tæki til að gera lönd samkeppnishæf og koma þeim út úr kreppu.  Vissulega er það rétt, en þá gera menn ekki ráð fyrir að almenningur sé með laun og skuldir í mismunandi gjaldmiðli, sem er raunin hér á landi.  Hin verðtryggða króna er nefnilega eins og annar gjaldmiðill, ekki eins sterkur og jenið en líklega á svipuðu róli og breska pundið.

Það má því líta svo á málið að aðeins þeir sem eru með óverðtryggð lán eru með raunveruleg lán í krónum, allir aðrir eru með lán í annarri mynt.  Þetta er rót hins mikla skuldavanda á Íslandi.  Tekjur í gengisfelldri krónu geta ekki staðið undir lánum í sterkari gjaldmiðlum og þar á meðal verðtryggðri krónu.

Það er aðeins ein lausn á þessu og það er að gera þetta ópíum upptækt og skipta um gjaldmiðil.   300,000 manns geta ekki staðið undir alþjóðlegum gjaldmiðli á 21. öldinni.  Án alvöru gjaldmiðils verður engin alvöru hagvöxtur hér eða sparnaður.  Kostnaðurinn við krónuna er gríðarlegur.  Verðtrygging og háir vextir halda launum niðri, þá takmarka gjaldeyrishöft alla uppbyggingu og gera aðgang að erlendu fjármagni erfiðan og dýran.  Króna með sína galla mun eingöngu leiða til lægri launa, stöðnunar og landflótta.

Smáskammtalækningar á við að breyta vísitölu, fella niður verðtryggingu eða setja þak á vexti, slá aðeins tímabundið á vandamálið.

Okkar nær 85 ára gamla tilraun til að halda úti sjálfstæðri mynt er lokið.  Við verðum að fara að marka okkur nýja og haldbæra stefnu í gjaldmiðlamálum.  Nýr gjaldmiðill er ekki lausn á okkar vandamálum, heldur verkfæri sem gerir okkur kleift að vinna okkur út úr erfiðleikunum.  Því betra tæki sem við höfum, því betur vinnst sú vinna.

Í augnablikinu eigum við tvo möguleika sem virðast hvað raunhæfastir,

1. EVRAN – Ef við göngum inn í ESB stefnum við á evru.  Fyrsta skrefið er að fara sömu leið og Danir og fasttengja krónuna við evru með aðstoð evrópska seðlabankans, þar til við uppfyllum skilyrði fyrir evruupptöku.

2. NORSKA KRÓNAN – Ef við ætlum að standa fyrir utan ESB er eðlilegast að við í samvinnu við AGS leitum til norska seðlabankans um að fá að taka upp norsku krónuna.

Það er flestra hagur að við tökum upp nýjan gjaldmiðil og beinn kostnaður við slíka aðgerð verður alltaf lítill hluti af þeim kostnaði að halda úti ónýtri íslenskri krónu.  Hins vegar er þessi leið ekki sjálfgefin, ópíum er erfitt að uppræta,  sérstaklega þegar heil þjóð er orðið því háð.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur