Laugardagur 29.8.2015 - 10:55 - Lokað fyrir ummæli

Rekstur borgarinnar

Reykjavíkurborg er sú höfuðborg í Evrópu sem býr við meiri hagvöxt og minna atvinnuleysi en flestar borgir í álfunni. Allt er fullt af ferðamönnum og atvinnulífið er í miklum vexti og skilar sívaxandi hagnaði. Í slíku árferði er hægt að ætlast til að borgin skili rektrarafgangi og geti byggt upp eigið fé til að mæta verra árferði. En það er ekki raunin, því miður.

Á fyrstu sex mánuðum ársins varð Reykjavíkurborg að ganga á eigið fé til að halda sér á floti. Eigið fé lækkaði um 3.4% á þessum tíma og með sama áframhaldi verður það búið á næstu 15 árum. Þetta er mun alvarlegri staða en margir gera sér grein fyrir og hún mun aðeins versna á næstu misserum. Launahækkanir eru ekki að fullu komnar fram í tölum fyrsta árshluta og með hækkandi vöxtum og lántökum mun fjármagnskostnaður borgarinnar aukast. Þá hefur það sýnt sig að hættulegt er að stóla upp á B-hluta borgarinnar til að redda málum. Nú er álverð í frjálsu falli og þar með er líklegt að B-hlutinn magni upp tapið, alla vega tímabundið.

En hvað er til ráða? Lítið er um svör frá stjórnmálastéttinni nema upphrópanir. Það þarf að grípa til aðgerða segja menn, en hverjar eru þær? Um það vilja stjórnmálamenn ekki ræða af skiljanlegum ástæðum. Það þarf engin sérstök gleraugu til að sjá að vandi borgarinnar er fyrst of fremst kostnaðarvandi. Til að ná rekstri borgarinnar (A-hluta) aftur niður á núll þarf að lækka rekstrarkostnað um 10% sem aftur þýðir að fækka þarf stöðugildum um 500 enda er launakostnaður orðinn 55% af tekjum borgarinnar.

Reykjavíkurborg þarf að læra að spara og fara vel með peninga. Með lagni ætti að vera hægt að spara 10% án þess að það komi niður á þjónustu við borgarbúa. Hins vegar er stóra spurningin, hver ætlar að leiða það starf?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 17.8.2015 - 08:42 - Lokað fyrir ummæli

Voru sambandsslitin mistök?

Það er ekki langt síðan Ísland setti markið hátt í utanríkismálum og stefndi á sæti í öryggisráði SÞ.  Nú er öldin önnur.  Ísland virðist ekki lengur eiga samleið með vesturlöndum hvað varðar hagsmuni og gildi.  Allt er mælt í peningum.

Menn horfa með öfundaraugum til Færeyja, ekkert viðskiptabann þar, ekkert EES eða ESB.  Í Færeyjum geta menn einbeitt sér að bisness og látið Dani um allt vesenið sem fylgir utanríkis- og varnarmálum að ekki sé talað um peningamál.  Voru sambandsslitin við Danmörk þá mistök Íslendinga?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 14.8.2015 - 08:39 - Lokað fyrir ummæli

Hin nýja eignastétt

Krónan og EES samningurinn er ómótstæðilegur kokteill spákaupmanna. Það sýndi sig fyrir hrun og nú eru menn komnir aftur á stjá. Í þetta sinn sleppa menn alveg íslensku bönkunum og halda sig við þær íslensku eignir sem standast hrun, íslenskar fasteignir og ríkisskuldabréf. Verð á þessum eignum er á uppleið enda hafa skapast kjöraðstæður fyrir erlenda spekúlanta að græða á Íslendingum. Þær felast í eftrifarandi:

  1. Rífandi uppgangur er í íslensku atvinnulífi og hagtölur óvenju góðar
  2. Seðlabankinn viðheldur hávaxtastefnu
  3. Gengi krónunnar er undir sögulegu meðaltali og ekki í takt við hagtölur eða vaxtamun
  4. Fasteignaverð er lágt miðað við leiguverð
  5. Áætlun um losun hafta hefur verið kynnt
  6. Erlendir aðilar fá að taka nýjar fjárfestingar og ágóða úr landi
  7. Íslenskir fjárfestar hafa ekki aðgang að erlendum lánamörkuðum

Hér hefur því skapast óvenju spennandi tímabundið fjárfestingatækifæri fyrir erlenda aðila með aðgang að erlendu lánsfé og þá sérstaklega í mynt þar sem gengisskráning nálgast sögulegt hámark á meðan vextir eru í sögulegu lágmarki. Hafi einhvern tíma verið viturlegt að taka lán í svissneskum frönkum og kaupa fasteignir á besta stað í Reykjavík er það í dag. Stærsta áhættan sem þessir fjárfestar taka er pólitísk áhætta á Íslandi, það er nefnilega ekki gefið að hinir nýju „kröfuhafar“ fái ekki sömur útreið og þeir gömlu þegar útflæðið byrjar og allir vilja komast út með sína peninga!

En þegar einn græðir tapar oft einhver annar og í þessu dæmi er það unga kynslóðin og eignalausir Íslendingar sem tapa. Það verður enn erfiðara fyrir þennan hópa að eignast þak yfir höfuðið og leiguverð mun bara hækka.

Já, svona virkar blessuð krónan innan EES, skapar forréttindi fyrir erlenda spákaupmenn til að eignast besta húsnæðið á Íslandi á meðan íslenskum launamönnum eru boðnar kompur í úthverfum á okurvöxtum eða okurleigu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 12.8.2015 - 08:47 - Lokað fyrir ummæli

Lítið jafnræði í stjórnarháttum

Ófullkomnir íslenskir sjórnarhættir áttu sinn hlut í hruninu og enn er langt í land að þeir séu sambærilegir við það besta í nágrannalöndunum. Af einhverjum ástæðum hefur gengið mjög treglega að nútímavæða þennan þátt í íslensku samfélagi. Einna verst er ástandið hjá opinberum fyrirtækjum, en æskilegt væri að hið opinbera leiddi þessa þrónun en ræki ekki lestina.

Það sem stingur strax í augun þegar íslenskir stjórnarhættir eru bornir saman við norræna stjórnarhætti er að starfsmenn hafa ekki fulltrúa í íslenskum félagsstjórnum. Þetta er enn furðulegra þegar litið er til þess að atvinnurekendur hafa sína fulltrúa í lífeyrissjóðum sömu starfsmanna. Þetta er hrópandi óréttlæti og á líklega sinn þátt í lágum launum á Íslandi. Rödd starfsmanna fær ekki að heyrast í stjórnarherbergjum á Íslandi á sama hátt og á hinum Norðurlöndunum. Hvers vegna er land sem er leiðandi í kynjajafnrétti svo aftarlega á merinni þegar kemur að jafnrétti í stjórnarháttum?

Annar veikleiki íslenskra stjórnarhátta er að hlutverk stjórnarmanna er sjaldan vel skilgreint. Fátítt er að stjórnarmenn hafi skriflegar starfslýsingar eins og þekkist víðast hvar annars staðar. Án starfslýsinga er erfitt að velja “besta” fólkið inn í félagsstjórnir. Íslenska kerfið hyglar stærstu hluthöfunum, þeir ráða ferð, og það getur haft hræðilegar afleiðingar eins og fá lönd hafa reynt á jafn afgerandi hátt og Ísland. Minnihlutinn hefur sjaldan sína fulltrúa. Það væri til mikilla bóta ef stærstu fyrirtæki landsins hefðu a.m.k. 2 stjórnarmenn sem væru óháðir stærstu hluthöfum og öðrum stórum hagsmunaaðilum og væru valdir með aðstoð faglegra ráðgjafa. Að sama skapi ættu öll stærri fyrirtæki að hafa 2 fulltrúa starfsmanna í stjórn að norrænu fyrirkomulagi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 8.8.2015 - 06:04 - Lokað fyrir ummæli

Lengi getur vont versnað

Fyrirmyndarbankinn bakkar nú með áform um nýjar aðalstöðvar og gerir það fyrr en í Borgunarmálinu þegar hann bakkaði of seint. “Svona á banki að vera” segja menn þar á bæ!

Bankastjórinn kemur fram og segir við RÚV að nægur tími sé til stefnu að taka upplýstar ákvarðanir.  Hvað hafa menn þá verið að gera síðustu 2 árin?

Það sem er athyglisvert í þessu máli eru kaup bankans á lóðinni við Hörpu fyrir rúmum 18 mánuðum síðan. Banki sem er í húsnæðisvanda fer nú varla að kaupa lóð á dýrasta stað á um 20% “yfirverði” nema hann ætli að byggja á henni. Þetta vekur upp spurningar á hvaða forsendum lóðin var keypt. Hvaða upplýsingar hafði bankaráð fyrir framan sig þegar sú ákvörðun var tekin? Hvaða aðferðafræði var notuð við lóðaval, verðmat og tilboðsgerð? Naut bankaráð aðstoðar óháðra ráðgjafa í þessu verkefni? Hvaða upplýsinga á að afla nú sem ekki lágu fyrir þegar lóðin var keypt? Hvers vegna líða svo 18 mánuðir og 2 aðalfundir frá lóðakaupum þar til tllkynnt eru um byggingaráform? Er ekki eðlilegt að draga þá ályktun að 18 mánuðir hafi verið nægut tími til að ganga faglega frá þessu máli? Bankasýslan hafði tvo aðalfundi til að kynna sjónarmið ríkisins og afla nauðsynlegra gagna. Er svona seinagangur boðlegur á sama tíma og bankinn segist vera leita allra leiða til hagræðingar? Halda menn að svona vinnubrögð hámarki verðmæti eignarhluta ríkisins í bankanum?

Ljóst er að það sem átti að vera lausn er orðið að vanda. Bankastjóri, bankaráð og Bankasýslan eru öll hluti af þessum vanda. Hver leysir hann? Hver ætlar að taka að sér hlutverk litlu gulu hænunnar og redda málum?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 6.8.2015 - 13:58 - Lokað fyrir ummæli

Tvöfalt kerfi eru mannréttindi

Tvöfalt kerfi eru sjálfsögð mannréttindi. Þetta varð niðurstaðan í frægi máli tveggja kvenna í Bretlandi fyrir nokkrum árum. Heilbrigðisyfirvöld þar vildu ekki láta þær fá ný krabbameinslyf sem læknar þeirra óskuðu eftir. Þær ætluðu þá að borga lyfin sjálfar og fá það á prívatsjúkrahúsi en þá sögðu heilbrigðisyfirvöld að það væri ekki hægt. Sjúklingar yrðu að vera í öðru hvoru kerfinu, hinu opinbera eða prívat kerfinu, það væri ekki hægt að blanda þessum kerfum saman, í því fælis mismunun. Lögmenn kvennanna bentu þá á að það væri brot á mannréttindum að neita sjúklingum um að nálgast nauðsynleg lyf sem læknar ráðlögðu og buðust til að fara með málið fyrir mannréttindadómstól Evrópu. En til þess kom ekki þar sem bresk stjórnvöld sáu að sér og breyttu lögunum þannig að sjúklingar eiga rétt á að blanda kerfunum saman. Réttur sjúklingsins um val á meðferð var settur ofar kerfinu.

Þetta mál er hliðstætt málum lifrabólgusjúklinga á Íslandi nú. Íslensk yfirvöld eru á hálum siðferðislegum ís að neita sjúklingum um nauðsynleg lyf sem eru fáanleg á landinu á grundvelli þess hver borgar lyfin. Allt tal, um að tvöfalt kerfi sé varasamt, er villandi. Fyrir hrun áttu Íslendingar rétt á bestu heilbrigðisþjónustu sem völ var á, en þessi réttur hvarf í hruninu. Um leið var mismunun inleidd í heilbrigðisþjónustu landsmanna þar sem þeir efnameiri þurfa ekki á löggjöf að halda til að nálgast fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu, þeir einfaldlega borga fyrir hana á prívatspítölum erlendis.

Og hvað ætla yfirvöld að gera við sjúklinga sem nálgast sjúkrahúslyf erlendis og koma með þau til landsins? Varla geta læknar neitað að meðhöndla þessa sjúklinga? Íslenskir sjúklingar hafa fengið sjúkrahúslyf, sem þeim hefur verið neita um á Íslandi, afgreidd í apótekum erlendis undir svokallaðri mannúðarafgreiðslu. Er nú ekki betra að finna leið til þess að lofa sjúklingum að nálgast nauðsynleg lyf á Íslandi en að þurfa að reiða sig á mannúðarlöggjöf Evrópuríkja sem afgreiða nauðsynleg lyf til sjúklinga sem koma að lokuðum dyrum í sínu heimalandi?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 4.8.2015 - 07:53 - Lokað fyrir ummæli

Hallarbyggingar Íslendinga

Íslendingar hafa mikla trú á hallarbyggingum. Kannski er það vegna þess að það var ekki fyrr en á 20. öldinni að Íslendingar höfðu efni á að byggja hallir, síðastir Evrópuþjóða.

Íslenskar hallarbyggingar eru að stærstum hluta byggðar yfir ósjálfbæran og óhagkvæman rekstur. Dæmin eru mýmörg sérstaklega hjá hinu opinbera. RÚV og OR hallirnar eru dæmigerðar fyrir mistök í rekstri fyrirtækja í opinberri eigu. Þær hallir urðu á endanum táknrænar fyrir rekstur sem ekkert vit var í. En allt er þegar þrennt er. Nú á að endurtaka þessi mistök og ekki læra af reynslunni. Nú vill nýjasta ríkisfyrirtækið byggja sína höll, og af hverju ekki? Rök þess fyrirtækis eru hlægileg og rekstrarumhverfið líkt og hjá OR og RÚV forðum daga – arðsemi af reglulegum rekstri nær ekki upp í fjármagnskostnað ríkisins.

Í staðinn fyrir að byrja á að bæta reksturinn og ná arðseminni upp í viðunandi horf og síðan byggja eða kaupa hagkvæmt húsnæði yfir þann rekstur er byrjað á að byggja yfir rekstur sem stjórnarformaðurinn segir að sé ekki viðunandi. Svona rekur enginn fyrirtæki sem hefur staðið í rekstri sjálfur. Það er með ólíkindum að það skuli ekki vera hægt að innleiða þessa einföldu rekstralexíu í opinberan rekstur á Íslandi.

Hvers vegna hverfur allt rekstrarvit þegar kemur að byggingu húsnæðis hjá hinu opinbera? Af hverju sætta menn sig við að öllu sé velt yfir á viðskiptavini og skattgreiðendur? Eins og á miðöldum í Evrópu er það almenningur sem borgar hallarbyggingar Íslands á 21. öldinni. Og kannski þarf að fara aftur til miðalda til að skilja íslenskar hallarbyggingar. Eru þær byggðar á hinu fræga mottói Thomas Bohier sem byggði Chenonceau höllina í Frakklandi: ”S’il vient a point me souviendrai”?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 3.8.2015 - 10:07 - Lokað fyrir ummæli

Vafasamt norðurslóðabrölt

Ísland er ekki leiðandi þegar kemur að málefnum norðurslóða. Það sannar nýlegur samningur norðurslóðalandanna um bann við veiðum í Norður-Íshafi þar sem Ísland var skilið útundan.

Nei, samningar um málefni norðurslóða eru ekki undirritaðir við hringborð Ólafs Ragnars. Þetta vekur upp spurningar um hvort rétt sé að reka tvær utanríkisstefnur þegar kemur að norðurslóðum, aðra í gegnum utanríkisráðuneytið og hina í gegnum hringborð forsetans sem er að miklu leyti fjármagnað með styrkjum einkafyrirtækja sem gera slíkt á sínum forsendum? Þetta getur skapað rugling um hver sé stefna Íslands og hver fari raunverulega með málefni norðurslóða.

Er ekki betra að minnsta land norðurslóða sameini krafta sína í einni skýrri opinberri stefnu um málefni svæðisins? Það er alls ekki gefið að hringborðsbrölt Ólafs Ragnars hjálpi íslenskum hagsmunum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 31.7.2015 - 14:18 - Lokað fyrir ummæli

Vandamál Landsbankans

Umræða um “vandamál” Landsbankans er að verða fastur liður hjá fjölmiðlum. Fyrst var það Borgun, svo nýjar aðalstöðvar og nú spyr einn hluthafinn hver er stefna bankans? Er von að hluthafar og viðskiptavinir séu ruglaðir. Þetta er auðvitað allt bankanum sjálfum að kenna og öll spjót beinast að stjórn bankans enda er sala eigna, nýjar aðalstöðvar og stefna bankans á hennar ábyrgð.

En eins og í góðri sakamálasögu skýrist myndin eftir því sem tíminn líður. Flest bendir til að vandamál Landsbankans stafi af veikum stjórnarháttum og frasakenndri stefnumótun.

Í eigendasamningi Lanndsbankans við Bankasýsluna sem birt er á vefsíðu hins síðarnefnda segir:

Landsbankinn skal miðla framtíðarsýn sinni, stefnumörkun og árangri með skýrum hætti á heimasíðu sinni.

Á heimasíðu Landsbankans er stefna bankans nefnd “Landsbankinn þinn”. “Framtíðarsýn bankans er að vera til fyrirmyndar”, “svona á banki að vera” og “við skiptum ekki um nafn heldur hugafar”. Þetta er hvorki stefna né framtíðarsýn heldur innihaldslausir frasar. Er furða að hluthafar klóri sér í hausnum þegar bankinn svo opinberlega skilgreinir sig með nýjum frasa sem “miðbæjarfyrirtæki” Hvernig samrýmist það fyrri frösum? Telur stjórn bankans að þetta flokkist undir að miðla upplýsingum á skýran hátt? Og telur Bankasýslan að þetta uppfylli fyrrnefndan samning?

Hinn veikleiki bankans eru ófullkomin umgjörð stjórnarhátta. Allir stjórnarmenn bankans eru skipaðir (eða öllu heldur kosnir sovéskri kosningu) af einum aðila. Það eru allir í sama liðinu sem aftur ýtir undir hóphugsun. Þá hefur ríkið sett takmarkanir á störf stjórnar bankans með því að setja sérreglur um kaup og kjör forstjóra sem ekki gilda hjá samkeppnisaðilum. Þar með getur stjórn Landsbankans ekki ráðið til sín bankastjóra á samkeppnisgrundvelli sem veikir stöðu stjórnarinnar gagnvart framkvæmdastjórninni. Það er mannlegt eðli að þegar ekki er hægt að veita einum aðila samkeppnishæfa þóknun fyrir unnin störf er oft reynt að bæta það með öðrum hætti. Menn geta þá gengið á lagið og farið að heimta hitt og þetta sem ekki er endilega alltaf byggt á skýrum viðskiptalegum grunni. Nú skal ekki sagt að þetta eigi við um Landsbankann en ríkið hefur skapa sér sjálft ákveðinn vanda með því að setja sérreglur um störf stjórna fyrirtækja í eigu ríkisins.

Vandamál Landsbankans verða seint leyst fyrr en bankinn fær að starfa á eðlilegum samkeppnisgrunni og honum er sett faglegri umgjörð stjórnarhátta. Þá verður bankinn að marka sér skýra stefnu og framtíðarsýn sem stenst lágmarkakröfur fagaðila.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 22.7.2015 - 14:22 - Lokað fyrir ummæli

Opinber rekstur í vanda

Það er ekki einkarekstur sem hefur rústað Landsspítalanum. Það hefur opinber rekstur gert, þar sem engu má breyta.

Það mun ekki bjarga Landsspítalanum að halda dauðahaldi í úrelt rekstrarform. Rekstur Landsspítalans fer þá sömu leið og krónan, verður annars flokks og þarf að búa við alls konar varúðarreglur og skammtanir.

Það þýðir ekki að horfa fram hjá þeirri staðreynd að heilbrigðisþjónusta er einn stærsti markaður heims. Læknar eru miskunnarlaust flokkaðir eftir gæðum og þjónusta þeirra verðlögð eftir árangri og kunnáttu. Sjúkrahús út um allan heim keppast við að laða besta fólkið til sín og þar er allur heimurinn eitt markaðssvæði. Þeir sem ekki geta borgað fyrir fyrsta flokks gæði fá annan eða þriðja flokk.

Vandamálið á Íslandi er að ríkið hefur ekki lengur efni á að bjóða öllum upp á alþjóðlega fyrsta flokks þjónustu. Þá stendur valið á milli þess að veita öllum annars flokks þjónustu og senda fyrsta flokk úr landi eða að reyna að varðveita fyrsta flokks þjónustu innanlands en undir öðru rekstrarformi. Nær öll Evrópulönd búa við blandað heilbrigðiskerfi þar sem sjúklingar hafa val. Þetta snýst ekki um að breyta íslensku heilbrigðiskerfi í bandarískt heldur að aðlaga það að heilbrigðiskerfi annarra Evrópulanda eins og t.d. Frakklandi. Ekki er mér kunnugt um að franskir sósíalistar krefjist þess að franskir spítalar séu reknir af franska ríkinu, enda eru flestir Frakkar lítt hrifnir af breska kerfinu, sem er fyrirmynd þess íslenska.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur