Miðvikudagur 09.03.2011 - 13:30 - 15 ummæli

Endurútreikningur lána

Nú stendur fjöldi fólks frammi fyrir stórri ákvörðun, um hvað það á að gera við gengistryggða lánið sitt.  Dómar Hæstaréttar  um ólögmæti gengistryggingarinnar og afnám samningsvaxtanna, og lög efnahags- og viðskiptaráðherra um endurútreikning lána hafa aðeins að litlu leyti skýrt stöðuna og komið til móts við kröfur um réttlæti og sanngirni.

Við samþykkt laga um endurútreikninga lána fyrir síðustu áramót gerði ég miklar athugasemdir.  Lögin fólu í sér hugsanlegt brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar þar sem ekki var gætt jafnræðis gagnvart öllum þeim sem tóku gengistryggð lán.  Nú þegar hefur Hæstiréttur staðfest að ólögmæti gengistryggingarinnar varði ekki aðeins bíla- og kaupleigusamninga heldur einnig skuldabréfalán.  Engu skiptir þótt lánstíminn sé lengri, veðtrygging betri né heimild til breytinga á vöxtum. Lögin vörðuðu einnig hugsanlega við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar þar sem dómstólar gætu enn þá komist að betri niðurstöður fyrir bæði lántaka og lánveitendur, sbr. dóminn að ofan. Einnig taldi ég óásættanlegt að íslenskir dómstólar og stjórnvöld hunsuðu reglur Evrópuréttar og Íslands um neytendavernd.

Stóra málið er þó afturvirkni endurútreikninganna.  Er réttmætt að bankar geri kröfu um vangreiðslu nýrra vaxta þó að neytandi hafi greitt afborganir og vexti í fullu samræmi við umsamda skilmála? Dómstólar hafa ekki enn þá tekið afstöðu til þessa.

Stórum spurningum er því ósvarað um gengistryggð lán. 

Því mæli ég eindregið með því að fólk kynni sér leiðbeiningar Talsmanns neytenda til í kjölfar endurútreiknings gengislána. Bendi ég sérstaklega á ábendingar hann um að setja fyrirvara um betri rétt og fá að vita forsendurnar á bakvið útreikningana.  Til að skilja betur útreikningana eða gera athugsemdir við framferði lánastofnana er hægt að hafa samband við umboðsmann skuldara og fá leiðbeiningar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

  • Það verður varla lögð nægjanleg áhersla á þá staðreynd að hvergi í lögum nr. 151/2010 né í fordæmi dóma frá 16. sept. 2010 eða 14. febr. 2011, er að finna heimild til innheimtu á reiknuðum vaxtahækkunum fyriri liðinn tíma.

    Hæstiréttur leggur meira að segja talsverða lykkju á leið sína í úrskurðum 603/2010 og 604/2010 til að benda á þá augljósu staðreynd að ekki sé í þeim málum heimild til að viðurkenna „ætlaðan rétt“ fjármálafyrirtækis til að innheimta greiðslur fyrir liðinn tíma.

    Í þessu samhengi verða menn að hafa hugfast að það er ekki hlutverk hæstaréttar að banna eitthvað sem aldrei hefur verið heimilað.

    Það er því alveg ljóst að túlkun Samtaka lánþega, hverra sjónarmið eru studd af m.a. embætti talsmanns neytenda ásamt lögfræðingum á borð við Ragnari H. Hall hrl., Ingunni Agnesi Kro hdl. og Birni Þorra Viktorssyni hrl., að hvergi í framangreindum lögum eða tilvitnuðum dómum sé umrædda heimild að finna.

    Það er því aðeins eitt í stöðunni að gera og það er að hafna alfarið framkomnum endurútreikningum.

    Aðstoð við slíkt má fá hjá m.a. Samtökum lánþega.

  • Jóna Ingibjörg Jónsdóttir

    Þetta er ágætur pistill og í anda þess sem ég hef sjálf verið að blogga um undanfarið.

    Venjulegu fólki, sem er nú orðið nokkuð sjóað af afleiðingum hrunsins, er nú öllu lokið.

    Í sambandi við stóru, ósvöruðu spurningarnar þá tel ég að Alþingi eigi núna að ganga fram fyrir skjöldu og stöðva þessa gerninga meðan enn er ekki búið að skera úr um lögmæti afturvirkra vaxta.

    En ætli það sé ekki borin von. Það er eins og hvorki Alþingi né og ríkisstjórn hafi burði eða getu til að gæta hagsmuna almennings. Þess í stað er haft víðtækt samráð við þann sem brýtur lög; fjármálastofnanir sem buðu gengistryggð lán.

    Er það boðlegt Eygló að etja fólki út í málshöfðun gagnvart fjármálastofnunum til að fá úr þessu skorið? Fjármálastofnanir sem virðast fá að gera það sem þeim sýnist? Er þetta ekki nógu mikið hagsmunamál til að alþingismenn, viðskiptanefnd Alþingis og ríkisstjórn ranki við sér?

    Við hjónin höfum verið að biðja um fund og fá að sjá handskrifaða útreikninga á endurreikningi gengistryggðs láns samkv. tilmælum talsmanns neytenda en starfsfólkið gat ekki orðið við fundi. Ekki eins og er því það sagðist þurfa sjálft að kynna sér forsendur endurreikninga!

    Á meðan tikkar tíminn til 28. mars þar til umrædd fjármálastofnun segist ætla að ákveða sjálft hvaða leið af fjórum sem er í boðið verður ofan á ef fólk er ekki búið að velja sjálft. Þetta er þvingun.

    Á meðan fólk er að leita réttar síns getum við bloggað af lífs og sálar kröftum en breytir það einhverju?

    Getur umboðsmaður alþingis tekið á þessu máli?

  • Þúsundir Íslendinga tóku gengistryggð lán til stofnfjárkaupa. Almennt var um að ræða fólk sem vildi treysta stöðu sparisjóða sinna í heimabyggð. Þegar leitað var til stofnfjáraðila um að auka stofnfjárhlut sinn var því vel tekið. Ekki aðeins vegna þess að fólki þótti vænt um sparisjóðinn sinn heldur var það sannfært um að áhættan væri hverfandi. Þannig gekk það fyrir sig í Reykjanesbæ, á Vestfjörðum, í Húnaþingi, á Dalvík og víðar. Annað hefur komið á daginn. Stofnfjáreignin hefur víðast þurrkast út en eftir sitja þúsundir almennra borgara með gengistryggð lán og svo há að allflestum er um megn að standa skil á þessum lánum. Og leiðrétting á þessum lánum virðist torsótt.
    Því virðist sem jafnræðis sé ekki gætt þegar um gengistryggð lán er að ræða. Bílalán og húsnæðislán hafa verið leiðrétt að einhverju leyti en það á ekki við um lánin t.d. til stofnfjárkaupa.
    Saga fjárfestingarbanki hefur til að mynda lánað fjölda stofnfjáraðila við Sparisjóð Svarfdæla gengistryggð lán og hefur á engan hátt komið til móts við viðskiptavini sína.
    Fyrirspurn sem send var bankanum um leiðréttingu á gengislánum til stofnfjárkaupa var svarað þannig: Þrátt fyrir fram komin lög og dóma Hæstaréttar eru þessi tilteknu lán ólík bíla- og húsnæðislánum að því leyti að dómar Hæstaréttar gilda ekki um lánssamninga vegna fjármögnunar á kaupum á fjármálagerningum.
    Hvað segir þingmaðurinn um þetta svar?

  • Gaman væri að vita, hvort Guðmundur Andri hafi einhverja hugmynd um, hvenær Hæstiréttur tekur sannanlega á vöxtum af ólöglegum gengistryggðum lánum.
    Sömuleiðis væri gott að vita hvort dómsmál vegna forsendubrests verðtryggðra lána, sé á leið í Hæstarétt.

  • Í úrskurðum Hæstaréttar frá 14. febrúar s.l. er eftirfarandi tekið fram.
    604/2010:
    „Þar með er ekkert í kröfugerð hans sem lýtur að viðurkenningu á rétti til greiðslu úr hendi sóknaraðila vegna liðins tíma. “
    603/2010
    „Er þegar af þessum ástæðum ekkert í kröfugerð málsaðila sem lýtur að viðurkenningu á ætluðum rétti varnaraðila til greiðslu úr hendi sóknaraðila vegna liðins tíma.“

    Þar með er ljóst að Hæstiréttur hefur EKKI viðurkennt ÆTLAÐAR kröfur fjármálafyrirtækja um innheimtu fyrir liðinn tíma.

    Slíkt hefur ALDREI verið heimilað og ER ekki heimilað í nýsettum lögum 151/2010 sem Eygló vísar til í skrifum sínum.
    Það er því engin ástæða fyrir Hæstarétt að banna það. En þar til Hæstiréttur leyfir það, þá er það sannanlega bannað.

    Við ætlum þó með mál áfram sem er bæði gengistryggt og verðtryggt og vonumst til að komast fram með kröfur um forsendubrest vegna verðtryggingar í því máli ásamt skýrum kröfum um að viðurkennd verði skýr afstaða Hæstaréttar um að ekki sé enn til staðar heimild til innheimtu afturvirkra vaxta.

    Við mælum með að lánþegar setji fram mótbárur vegna endurútreikninga sem byggja á ólögmætri innheimtu afturvirkra vaxta og hafni alfarið öllum kröfum fjármálafyrirtækjum um slíkar kröfur.

  • Hákon Hrafn

    Í mínu tilfelli hækkaði greiðslubyrðin um ca 30% eftir endurútreikning miðað við stökkbreytt lán þannig að ég er í mun verri stöðu eftir endurútreikning heldur en fyrir hann.
    Ég var í vandræðum með stökkbreytta höfuðstólinn og greiðslubyrðina af honum en útilokað er fyrir mig að standa í skilum núna. Var það ætlun Alþingis?
    Það má alveg kalla þessa 27 sem samþykktu lögin umboðsmenn bankanna. Umræðan var öll á þann veg að það væri í lagi að sá sem braut á lántakendum þyrfti sérstaka vernd og stuðning ríkisins og að hann þyrfti ekki að borga þolandanum neinar skaðabætur. Það væri víst í lagi að brjóta á þeim sem tóku gengistryggð lán vegna þess að annars þyrfi „almenningur“ að borga afskriftirnar í bönkunum.

    Við sjáum það nú á nýjum hagnaðartölum bankanna að það var blekking.

    Annars tek ég heilshugar undir með Jónu og Guðmundi Andra.

  • Ég setti eftirfarandi inn á bloggið hans Magnúsar Orra Schram:

    Stærsta verkefnið sem þessari ríkisstjórn hefur mistekist með er endurreisn heimilanna. Í staðinn hefur ríkisstjórnin staðið að gengdarlausum árásum á fjárhag heimilanna. Auknir skattar, lækkaðar bætur, samkrull með fjármálafyrirtækjum svo þau geti innheimt sviksamlegar kröfur. Hvenær ætlar þessi ríkisstjórn að taka upp hanskann fyrir fólkið í landinu? Hvenær ætlar þessi ríkisstjórn að leiðrétta það ranglæti sem hófst upp úr svikum, lögbrotum og prettum fjármálafyrirtækjanna og stjórnenda þeirra í undanfara hrunsins? Hvenær ætlar þessi ríkisstjórn að hlusta og fara eftir vilja þjóðarinnar í staðinn fyrir að sleikja sífellt sólann á skóm fjármálafyrirtækjanna? Lög nr. 151/2010 eru skýrasta dæmið um að undirlægjuhátt stjórnvalda og þingsins gagnvart fjármálafyrirtækjunum, þar sem lögbrjótum er bættur sá forsendubrestur sem þeir urðu fyrir vegna þess að athæfi þeirra var dæmt ólöglegt. Næst mun Alþingi líklegast setja lög sem gerir bætir innbrotsþjófum að hafa verið nappaðir. Það er nákvæmlega það sem felst í lögum nr. 151/2010. Ég varaði við ákvæðum frumvarpsins fyrir þingnefnd og nú hefur allt það sem ég varaði við orðið að veruleika. En var hlustað á neytendur? Nei, Alþingi er ekki fyrir almenning. Það er fyrir aðalinn.

  • Anna Björg Ingadóttir

    Verð að segja að mér finnst undarlegt að fjármálastofnun (Frjálsi) sé stætt á að rukka mig um næstum 30 milljónir meira en þær 60 milljónir sem ég tók að láni fyrir 3 árum og segja að það sé endurútreikningurinn og ég eigi bara að vera sátt því þetta sé lækkun um 87 milljónir. Hvað sem ég umla og tauta að þessar tæpu 30 milljónir sem þeir vilja auka séu tuttugu ára sparnaður og helmingur þess fjár komi frá Noregi þar sem ég bjó áður og með þessari aðgerð er ég rúin öllu ef ég þar með næ að selja húsið mitt fyrir 90 milljónir. Ég standi frammi fyrir því að fara á leigumarkaðinn með 4 börn og þá duga ekki einu sinni launin mín fyrir leigunni og ef ég reyni að fá mér aukavinnu til að bjarga mér þá skerðast bæði barnabæturnar og húsaleigubæturnar þannig að ég kem verr út. Þannig að ekki aðeins er Frjálsi búinn að ræna mig aleigunni heldur hef ég ekki lengur möguleika á að sjá fyrir fjölskyldu minni og það þrátt fyrir menntun og fasta vinnu. MIðað við þessar forsendur þá virðist mér að ráðamenn landsins vilji ekki mig og mína fjölskyldu lengur og til að eiga einhverja möguleika á sjálfstæðri framtíð fyrir mig og börnin þá sé ég enga aðra leið en brottflutning af landinu og finnst mér það miður að fara tilneydd þrátt fyrir að vita að Norðurlöndin t.d. hafa margt upp á að bjóða. Og til að kóróna allt saman þá voru mánaðarlaun bankastjóra Arionbanka hækkuð í árslaun mín. OJ bara

  • Ég hef skoðað endurútreikning frá öllum helstu fjármálastofnunum. Það er nákvæmlega enginn munur á aðferðafræði þeirra. Samkvæmt útreikningi NBI ehf. þá hafði höfuðstóll láns sem stóð í 1.256 þús.kr. í árslok 2007 hækkað upp í ýmist 2,1 eða 2,4 m.kr. Sé endurreiknaður höfuðstóll skoðaður miðað við upphaflegan höfuðstól, þá hafa yfir 120% vextir lagst á hann á tæpum 7 árum, þar af 75% á síðustu 4,5 árum. Bílalán frá Íslandsbanka hefði staðið í 360 þús.kr., ef gengisþróun hefði verið eðlileg en eftirstöðvarnar eru á ríflega 1.400 þús.kr. Lán sem ég sá frá Arion banka var með hærri eftirstöðvar, en samkvæmt gengisreikningi. Bílalántaki hjá Íslandsbanka skuldaði þeim nokkur hundruð þúsund þrátt fyrir að hafa alltaf staðið í skilum.

    Ég skil ekki þau rök Hæstaréttar að segja að vextir Seðlabanka skuli gilda, þegar 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 gefur svigrúm til að ákveða vexti sem eru skuldurum hagstæðari. Nei, Hæstiréttur ákvað að lögbrjótar skuli fá bættan forsendubrestinn sem hlaust af því að upp komst um lögbrotið. Ég hef aldrei þá löghyggju réttarins og hún á ekkert skilt við rökhyggju.

  • Þetta átti að vera: Ég hef aldrei skilið þá löghyggju réttarins og hún á ekkt skylt við rökhyggju.

  • Marinó, þú ert að misskilja Hæstarétt. Rétturinn kemst að þeirri niðurstöðu að vextir fylgi viðmiðunarmynt og um það er ekki deilt.
    Hins vegar hefur rétturinn hvergi gefið heimild til að brjóta meginreglur kröfuréttarins með því að innheimta fyrir liðna tíð meinta kröfu sem menn í góðri trú töldu að væri fullgreidd.
    Enda væri skuldbindingargildi samninga ekkert ef slíkt yrði ofaná.
    Bönkum er hins vegar skylt að endurreikna lán frá upphafsdegi og þannig upplýsa um bókhaldslega stöðu með því að færa á afskrift þá fjárhæð sem bankarnir hugðu ekki að að innheimta sökum tómlætis, og að sjálfsögðu vegna þess að samningsform þeirra stóðst ekki lög.
    Það er því engin tenging milli þess að reikna vexti afturvirkt og að innheimta þá.
    Það er grundvallarmisskilningur að telja að svo sé.

  • Sigurður Sigurðsson

    Á þetta við um bílalán fjarmögnunarfyrirtækja að þau séu að innheimta vexti aftur í tíman án þess að hafa til þess skýra heimild.

  • Þetta á við öll lán og alla samninga.
    Það einfaldlega er ekki heimilt að innheimta fyrir liðna tíð umfram það sem þegar hefur verið innheimt.

  • Kristín Sigurðardóttir

    Er þetta nýja Ísland? Þar sem neytendur geta átt von á því að samningum sé breytt einhliða og aftuvirkt. Þar sem fjármálafyrirtæki geta gert nákvæmlega það sem þeim dettur í hug og neytendur þurfa að leita til dómstóla svo ekki sé aftur og endalaust brotið á réttindum þeirra.
    Okkur hefur aldrei verið boðið að samningaborðinu heldur er okkur sagt hversu hár höfustólinn er eftir endurútreikninginn, við eigum að samþykkja það og velja okkur eina af þeim fjórum leiðum sem fjármálafyrirtækið hefur ákveðið að séu í boði fyrir okkur.
    Við höfum aldrei verið spurð hvort við ráðum við endurútreiknaðan höfuðstól og breytingu á vöxtum. Ef við samþykkjum ekki endurútreikninginn og veljum okkur leið, þá erum við þvinguð í sjálfgefna leið. Ég bara á ekki til orð!!

  • Sigurður #1

    Ég borgaði 120 þúsund á mánuði af mínu húsi fyrir hrun.

    Frjálsi var að senda mér endurreikning og fjóra valkosti um lánskjör.

    Ef ég vel engann þeirra velur bankinn leið nr1 fyrir mig sem gera afborganir upp á 340 þúsund á mánuði.

    Lægstu afborganirnar sem eru í boði eru um 270 þúsund, helmingi meir en ég borgaði fyrir hrun.

    Höfuðstóll skuldarinnar er lægri en fasteignamatið og mun lægri en verðmatið á húsinu þar sem ég var mjög hóflega skuldsettur í húsinu mínu.

    Ég hins vegar mun aldrei borga þessar afborganir og ekkert framundan en að bankinn hirði af mér húsið, og a.m.k. 30 miljónir að auki sem ég á í húsinu í eigið fé.

    Og það á að heita vinstri stjórn í landinu, hún er þó svo langt til hægri í auðmanna og bankadekrinu að örgustu öfga hægri ránfuglar í Valhöll eru eins og fermingarpjakkar í samanburði.

    Ég er hættur og farinn og mitt síðasta verk áður en ég yfirgef landið verður að ryðja niður húsinu, því það er algerlega á kristal tæru að bankinn fær ekkert annað en sökkulinn og ruslahauginn ofan á honum.

    Ég er ekki að fara að gefa honum húsið mitt.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fimm? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur