Þriðjudagur 15.03.2011 - 07:34 - 7 ummæli

ESB sem afvötnun?

Í nýlegri grein heldur Magnús Orri Schram, varaformaður viðskiptanefndar áfram áróðri Samfylkingarinnar um að eina leiðin til að ná tökum á íslenskum efnahag og afnema verðtrygginguna sé að ganga í Evrópusambandið. Þannig virðist aðild Íslands að Evrópusambandinu fyrst og fremst vera hugsuð á efnahagslegum nótum.

Evrópusambandið var á sínum tíma stofnað til að tryggja frið og frelsi í Evrópu eftir hamfarir fyrri og seinni heimsstyrjaldar. Leiðin að því markmiði var víðtæk pólítísk samvinna, meðal annars, en ekki aðeins á sviði efnahagsmála. Helsti árangur Evrópusambandsins er einmitt friður og þar með velmegun í Evrópu. Því er það óásættanlegt að jafn merkilegt ríkjasamstarf og Evrópusambandið skuli eiga að verða einhvers konar afvötnunarstöð fyrir íslenskt efnahagslíf, ef marka má málflutning íslenskra aðildarsinna.

Það er jafnframt óraunsætt.

Reynsla hinna ýmsu aðildarríkja hefur sýnt og sannað að aðild að Evrópusambandinu tryggir ekki efnahagslegan stöðugleika og velsæld. Lykilatriðið er og verður efnahagsstjórnun hvers lands. Embættismenn frá Brussel geta ekki þakkað sér velgengni Svíþjóðar og Þýskalands né axlað ábyrgðina á efnahagshruni Írlands og Grikklands. Þá ábyrgð bera Svíar, Þjóðverjar, Írar og Grikkir með stjórnun sinni á innlendum efnahagsmálum.

Evra eða króna tryggir ekki ábyrga stefnu í peningamálum eða fjármálum ríkisins, né ábyrga stefnu í rekstri fyrirtækja og heimila. Allt hagkerfið þarf að spila saman og allir þurfa að bera ábyrgð á efnahagsstjórninni. Ekki bara stjórnvöld og Seðlabankinn og svo sannarlega ekki Evrópusambandið.

Upptaka evru myndi gera ábyrga efnahagsstjórnun enn brýnni. Reynslan hefur sýnt að þá er hætta á auknu innflæði fjármagns, aukinni skuldsetningu heimila og fyrirtækja og eignabólum og aðlögun að þrengri kosti er erfiðari með evru og fastgengi. Því tel ég nauðsynlegt að skilja á milli aðildar og upptöku evru. Það er ekkert sjálfsagt við það að taka upp evru, heldur þarf þjóðin að meta kosti hennar og galla burtséð frá aðild. Aðildin má ekki vera einhvers konar inngönguskilyrði að evrunni. Með því er helsti kostur aðildar hunsaður, þ.e.a.s. möguleikar okkar til að koma að borðinu þar sem ákvarðanir eru teknar í framkvæmdastjórninni, Evrópuþinginu og ráðherraráðunum.

Það er orðið löngu tímabært að Íslendingar fari að ræða aðild að Evrópusambandinu sem þátttöku fullvalda þjóðar í samstarfi Evrópuþjóða, en ekki sem þynnkumeðal við heimabrugguðum vandræðum.

(Birtist fyrst í Fréttablaðinu 15.3.2011)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Góð grein og orð í tíma töluð. Sammála þér Eygló en vonandi á umræðan eftir að þroskast eftir því sem líður á samningaferlið.

  • Hallur Magnússon

    Eygló á réttri leið!

    Velkomin í nýja Evrópuvettvanginn!

    „Það er ekkert sjálfsagt við það að taka upp evru, heldur þarf þjóðin að meta kosti hennar og galla burtséð frá aðild. Aðildin má ekki vera einhvers konar inngönguskilyrði að evrunni.

    Með því er helsti kostur aðildar hunsaður, þ.e.a.s. möguleikar okkar til að koma að borðinu þar sem ákvarðanir eru teknar í framkvæmdastjórninni, Evrópuþinginu og ráðherraráðunum.

    Það er orðið löngu tímabært að Íslendingar fari að ræða aðild að Evrópusambandinu sem þátttöku fullvalda þjóðar í samstarfi Evrópuþjóða, en ekki sem þynnkumeðal við heimabrugguðum vandræðum.“

  • Eygló, þú mátt samt gjarnan segja það skýrt hvað þú vilt í ESB og gjaldmiðilsmálum. Það er dálítið framsóknarlegt að gefa í og úr.
    En fyrst þú segir að það sé efnahagsstjórnunin heima fyrir sem tryggir stöðugleikann. Eigum við þá að líta til „árangurs“ Íslendinga frá því krónan var stofnuð 1904. Óðaverðbólga lengst af, mikill óstöðugleiki, gjaldeyrishöft og -kreppa. Eina ráðið til að verja sparnað landsmanna var að koma upp verðtryggðri krónu og þá má segja að í landinu séu tveir innlendir gjaldmiðlar. Verðtrygging þekkist ekki meðal þeirra landa sem við viljum bera okkur saman við og þótt víða væri leitað. Hvers vegna skyldi það vera ?
    Og nú er spurningin, hvað vill Framsóknarflokkurinn ? Nú er ekki bjóðandi að vera bara á móti en koma ekki með neinar haldbærar og raunhæfar lausnir.

  • Ég sá ástæðu að vekja athygli á grein þinni Eygló, og þá í samhengi við grein Magnúsar Orra sem nauðsynlegt er að lesa í þessu samhengi. Mér finnst reyndar margt gott í þinni grein og ágætis áminning á að innganga í ESB sé ekki lausn á efnahagsvanda.

  • Guðmundur Gylfi Guðmundsson

    Sammála því að málaefnaleg umræða um Evrópusambandið eflist. Vænti þess að þú sem ritari Framsóknarflokksins komir umræðunni af stað innan flokksins með kröftugum hætti. Mér þykir miður að þurfa að ganga í önnur félagasamtök (vissulega með öðrum framsóknarmönum)til að vera þátttakandi í umræðunni. Það væri vel til fundið að ræða efnahagsstefnu Íslands innan eða utan EB ásamt gjaldeyrismálunum á fyrsta málefnafundinum sem þú boðar.

  • Eygló, í framhaldi af þessu væri ráð að þú talaðir við suma eigin flokksmenn (þarf varla að nefna nöfn en fyrsti stafur er Sigmundur Davíð ofl) um málefnalega umræðu um kosti og galla aðildar og ekki síst málefnalega umræðu um kosti og galla þess að standa utan.

  • Gísli Ingvarsson

    Gott að heyra frá Framsóknarmanni eðlilega nálgun á aðildarviðræðurnar. Alltof margir háværir öfgamenn hafa haft sig í frammi þar í flokki. Maður var farinn að halda að umræða um það sem máli skiftir færi ekki fram í þeirra röðum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og átta? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur