Föstudagur 18.03.2011 - 08:03 - 2 ummæli

Gleymdar sálir í limbó

Á ekki að leyfa fólki sem hefur farið í þrot með fyrirtækin sín að stofna önnur félög? Jú, segi ég.

Ástæðan er að fyrirtæki fara í þrot af margvíslegum ástæðum og fæstar vegna þess að eigandinn/stofnandi gerði eitthvað rangt.  Það getur verið vegna þess að hugmyndin einfaldlega gengur ekki upp, birgir lendir í erfiðleikum, viðkomandi veikist, skilur við makann, vegur er fluttur til af sveitarfélagi o.s.frv. Í langfæstum tilvikum er það vegna þess að fólk gerði eitthvað glæpsamlegt.  Ég segi líka jú vegna þess að fólk lærir af reynslunni – og annað, þriðja eða fjórða fyrirtækið sem fólk stofnar getur verið fyrirtækið sem gengur vel.

Ég fór að velta þessu fyrir mér eftir að ég heyrði af grein sem ríkisskattstjóri skrifaði í Tíund þar sem hann er að tala um kennitöluflakk og hversu lögaðilar skila illa inn skattaskýrslum og ársreikningum.

Það er að mínu mati löngu tímabært að félagaréttur á Íslandi verði endurskoðaður, en ekki  til að koma í veg fyrir að fólk geti stofnað félög með takmarkaða ábyrgð.  Íslendingar hafa verið duglegir að stofna ný fyrirtæki og það er mjög mikilvægur þáttur í framþróun samfélagsins.  Nauðsynlegur þáttur þess að fólk vilji stofna fyrirtæki er að það þurfi ekki að leggja allt sitt undir – að áhættan sé takmörkuð.  Annars dregur úr hvatanum til að stunda nýsköpun og taka þessi erfiðu skref sem fylgja því að stofna fyrirtæki. Vandinn er að við höfum meira og minna vísað öllum þessum frumkvöðlum inn í einkahlutafélagaformið og unnið síðan markvisst að því að gera lög um einkahlutafélög sem mest lík lögum um hlutafélög, þ.e.a.s. allt of flókin!

Þessu þarf að snúa við.  Endurskoða þarf líka önnur félagaform svo fólk hafi eitthvert val.   Svo þurfum við að styðja fólk betur við að hætta rekstri þegar fyrirtæki lenda í erfiðleikum og auðvelda afskráningu félaga.

Þetta ætti allt að fækka  fjölda lögaðila, sem hanga núna inni hjá fyrirtækjaskrá eins og gleymdar sálir í limbói.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Að banna einstaklingum sem keyrðir hafa verið í þrot, vegna ólöglegra gengistryggðra lána,að stofna ný fyrirtæki,gengur ekki upp,þessir einstaklingar eiga skaðabótakröfu á hendur fjármálafyrirtækjum, sem tekur mörg ár að fá dómsmál fyrir.
    Það gengur heldur ekki að krefja ehf. að skila ársskýrslu til RSK ef þetta eru lítil fyrirtæki með 2-3-4 menn í vinnu, því nægja ætti að skila skattskýrslu til skattstjóra.

  • þórir Kristinsson

    Vaskleg framganga Framsóknarflokks að undanskildum Samfylkingar-flugumönnunum ykkar í Icesave-málinu hafa sannfært mig og ansi marga gallharða Sjálfstæðismenn að atkvæðum okkar sé betur varið við xB heldur en rolulega tvöfeldni Bjarna Ben. í xD. Persónulega er ég mjög svekktur út í flokksforystu Sjálfstæðisflokks og svikin við ákvarðanir síðasta landsfunds. Ég fullyrði að mjög stór hópur er sama sinnis og ég. Icesave og Esb er sitthvor hliðin á sama peningnum. Sigmundur Davíð er tvímælalaust á réttri leið með Framsóknarflokk og er það vel.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og þremur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur