Laugardagur 19.03.2011 - 09:46 - 5 ummæli

Sögur af götunni

Orðið á götunni fjallar enn á ný um málefni Framsóknarflokksins og nú hvort það verði nokkuð annað rætt á flokksþinginu en Icesave.

Málið er mér nokkuð skylt þar sem ég er ritari Framsóknarflokksins og formaður landsstjórnar sem fer með innra starf flokksins.  Því vil ég gjarnan koma á framfæri eftirfarandi upplýsingum sem hafa að vísu komið ítrekað fram bæði á vefsíðu flokksins og fjölmiðlum. 

Málefnanefnd er kosin á ári hverju af miðstjórn flokksins og eitt helsta verkefni hennar er að undirbúa ályktanir fyrir flokksþing.  Sú nýbreytni var viðhöfð að kallað var eftir tillögum frá öllum flokksfélögum af nefndinni til að gefa sem flestum flokksfélögum tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum að á undirbúningsstigi.  Er nefndin að vinna úr þeim tillögum og mun skila af sér skriflegum drögum af ályktunum á grunni eldri ályktana flokksins og ábendinga flokksfélaga viku fyrir flokksþing. 

Fyrir flokksþing undanfarinna ára hefur ekki verið venja að senda út ályktanir með jafn góðum fyrirvara og er það því enn ein nýbreytnin.

Framsóknarmenn hafa á síðustu tveimur árum unnið hörðum höndum að endurskoðun á flokksstarfi sínu.  Skipuð var siðanefnd sem skilaði af sér tillögum sem hafa verið til umræðu í öllum einingum flokksins og verða þær teknar fyrir á flokksþingi til samþykktar eða synjunar.  Skipuð var samvinnunefnd sem ætlað var að endurskoða allt starf flokksins til að styrkja það og gera skýrara og lýðræðislegra.  Að því starfi hafa komið hundruðir framsóknarmanna á félagsfundum, kjördæmisþingum og sérstökum samvinnufundi. Tillögur að lagabreytingum verða sendar út til fulltrúa fyrir flokksþing og skýrsla nefndarinnar kynnt á flokksþinginu. 

Á síðasta flokksþingi var einnig samþykkt að setja á stofn sjávarútvegsnefnd til að endurskoða sjávarútvegsstefnu flokksins.  Sú nefnd er á lokametrunum og mun að sjálfsögðu kynna niðurstöður sínar á þinginu og tillögu að ályktun.  Jafnframt verður mikil áhersla á önnur atvinnumál en Birkir Jón Jónsson, varaformaður flokksins, hefur leitt vinnu um atvinnumál í umboði miðstjórnar og mun nefndin skila af sér sínum tillögum inn á þingið.

Einnig munu fulltrúar geta sjálfir lagt fram tillögur og gert breytingar á þeim tillögum sem nefndir og stofnanir flokksins leggja til.

Því efast ég ekki um að fjölda mörg málefni verða rædd á flokksþinginu.

Og, já væntanlega þar á meðal Icesave.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Sagan af götunni er sú, að Lýsing sé á undanþágu hjá FME, vitað er að Lýsing á yfir höfði sínu, skaðabótakröfur upp á miljarða króna, vegna ólöglegra gengistryggðra lána, hafa keyrt fyrirtæki í þrot, og selt eigur þeirra til útlanda, vegna þessara ólöglegu gengistryggðu lána. Nú er spurt ef Lýsing verður ógjaldfær, flyst þá skaðabótakrafan yfir á FME?
    Sama á við um slitastjórnir gömlu bankanna sem hafa keyrt fyrirtæki og einstaklinga í þrot vegna ólöglegra gengistryggðra lána, verða ráðamenn í slitastjórnunum, persónulega ábyrgir?
    Þessu þurfa Framsóknarmenn að velta fyrir sér.

  • Hallur Magnússon

    Eygló.
    Ertu viss um að það sé nýmæli að kalla eftir tillögum frá grasrótin – og félögunum fyrir flokksþing?

    Ekki viss – en minnir það hafi verið gert nokkrum sinnum áður.

    En vinnubrögðin að kalla eftir tillögum og afstöðu frá grasrótinni er til mikillar fyrirmyndar – og í raun sjálfsögð leið.

  • Sæl Eygló það er gott hjá þér að svara þessum makalausu skrifum á „Orðinu á götunni“. Steingrímur Sævar starfsmaður Pressan.is er sagður skrifa þennan óknittadálk „Orðið á götunni“ Ef ég man rétt var Steingrímur þessi um tíma sérstakur starfsmaður Halldórs Ásgrimssonar eða þingflokks Framsóknar á þeim tíma þegar Bingi ( BIH á Pressunni) talaði í bæði eyru HÁ. Menn segja að útilokað sé að Steingrímur sé að skrifa þennan róg um Framsókn og Sigmund Davíð formann flokksins nema með samþykki Binga. Mín kenning er sú að þetta lið í kring um Binga og Pressuna/Eyjuna sé að missa tökin á Framsókn og reyni af öllu afli að berjast gegn núverandi forystu bara til að viðhalda fyrri völdum sínum. Mér finnst t.d. alveg ofboðslega hlægilegt að Orðið á götunni telji að það sé af hinu slæma fyrir stjórnmálaflokk að formaðurinn fái nýtt fólk til starfa í flokknum sínum. Ætli Steingrímur Sævar og Bingi telji best fyrir flokkinn sinn að þar séu bara þeir tveir og svo samansafn öldunga ? Maður skilur all vegana ekki hvað Eyjunni kemur til með þessu einelti gagnvart formanni Framsóknar? Hafðu það svo gott Eygló þú virðist hörku þingmaður.

  • Gleymdi einu áðan varðandi áróðurinn á „Orðinu á götunni“. Því er haldið fram að það væri erfitt fyrir Framsóknarflokkinn og neyðarlegt fyrir formanninn að halda flokksþing á sama tíma og Icesave-kosningin ef sjónarmiðum formanns flokksins í Icesave yrði hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Skil ekki þessa röksemd. Er ekki Framsókn með um 15% atkvæða, og ef t.d. meira en 30% segja nei við lögunum þá væri það meira en tvöfallt fylgi við Framsókn sem væri sammála sjónarmiðum flokksins og formanns hans. Hvernig gæti slík niðurstaða orðið neyðarleg fyrir formanninn ? Mér finnst þessi skrif á „Orðið á götunni“ benda til þess að eigendi Pressunnar og Eyjunnar sé að nota vefinn í innanflokksátökum í Framsókn sem koma okkur hinum ekkert við. Ef Eyjan á að vera einhver innanflokksvefur fyrir erjur í Framsókn þá getum við bara farið að sleppa því að opna Eyjuna.

  • Björgvin

    Tekur fólk virkilega því alvarlega sem birtist í nafnlausum dálkum ? Ég er alveg hættur að lesa nafnlausa dálka, sama hvort þeir heita Orðið á götunni, fuglahvísl, staksteinar eða hvað annað. Ég get ekki tekið mark á fólki sem getur ekki skrifað undir nafni heldur þarf að nota svona dálka til að dreifa skít og bulli.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og átta? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur