Fimmtudagur 24.03.2011 - 19:04 - 6 ummæli

„Ekki-pólitísk“ ráðning

Niðurstaðan kærunefndar jafnréttismála hefur verið rædd fram og tilbaka síðustu daga. Niðurstaða nefndarinnar var að forsætisráðherra hefði brotið jafnréttislög með ráðningu karls sem skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu, frekar en jafn hæfa konu. 

Eftir að hafa hlustað á skýringar hjá bæði Jóhönnu og Hrannari B. Arnarsyni, aðstoðarmanni hennar, velti ég fyrir mér hvort hugsanlega hafi önnur sjónarmið ráðið meira en þau faglegu (sem þau halda fram) og kynið (sem kærunefnd jafnréttismála heldur fram). 

Getur verið að hræðslan við ásakanir um pólitíska ráðningu hafi gert það að verkum að þeir sem komu að ráðningarferlinu hafi ekki getað metið konuna á réttlátan máta?  

Því allt hafi verið gert til að tryggja að hér yrði „ekki-pólitísk“ ráðning…

– jafnvel á kostnað jafnréttis?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Hrafn Arnarson

    Afar ósennileg tilgáta. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu hins vegar látið illum látum burtséð frá því hver væri ráðinn. Markmið þeirra er eingöngu að ráðast á Jóhönnu. Þorgerður Katrín með glæsilegan feril þeirra hjóna í fjármálum var verst.

  • Jóhanna forsætis verður sífellt vinsælli.

    Hjá mér stígur vísitala hennar hvern dag sem hún situr í embætti við endurreisn þjóðfélags sem virðist haldið illilegri sjálfstortímingarhvöt.

    Hjá stórnarandstöðunni er hún æ vinsælli sem skotmark fyrir hvellsprengjur og bullpólitík.

    Þorgerður Katrín fer mikinn og talar um hroka Jóhönnu, aumingjalegt yfirklór og húmbúkk. Það er sem hún og hennar flokkur eigi enga fortíð á þeim sviðum sem hér eru til umfjöllunar.

    Og ekki bregst ritstjórinn á sprungusvæðinu við Rauðavatn. Hann bregður Jóhönnu um heimsku og skrifar um skipulagsbreytingar í stjórnaráðinu: „Þar var bersýnilega verið að reyna að laga forsætisráðherraembættið að getu viðkomandi persónu.“

    Og Björn Bjarnason, sem var sjálfur í skítverkunum, skrifar: „viðbrögð hennar við úrskurðinum sanna mér endanlega að Jóhanna er mesti gervibaráttumaður í stjórnmálum sem ég hef kynnst.“

    Allt þetta ómerkilega blaður vegna þess að Jóhanna, þveröfugt við ýmsa fyrrum ráðherra Sjálfstæðisflokksins, framfylgdi vinnureglum sem miða að því að losa tök pólitíkusa á mannaráðningum hjá hinu opinbera.

  • Ómar Harðarson

    Þetta held ég sé röng tilgáta. Það var öllum ljóst, líka embættismönnum ráðuneytisins, að það voru fimm hæfastir – og sennilega álíka hæfir þegar litið var til formlegra skilyrða. Starfsviðtalið var notað til að greina á milli.

    Kærunefndin komst að því að starfsviðtölin væru að engu hafandi og því hafi borið að velja (einu?) konuna. Það gæði því orðið ofaná í framtíðinni að hafa engin viðtöl við umsækjendur og ekkert faglegt ráðningarferli þegar ráðið er í opinber störf, bara prik fyrir formleg skilyrði. Athyglisvert!

  • Eygló gætir þess að blanda í færslu sína neikvæðum tóni í garð Jóhönnu gegn betri vitund, held ég.

    Það blasir við hverjum manni að Jóhanna reyndi að vanda til verka. Tveir aðilar fjölluðu um ráðninguna eftir mismunandi reglum og fengu eðilega tvær niðurstöður. Þetta ferli gengur augljóslega aldrei upp, sama hver í hlut á. Þarna er kjarni málsins, sem pólitískir vindhanar forðast eins og réttilega er bent á hér að ofan (Hrafn og Hjálmtýr).

    Ráðningarferlinu þarf að breyta. Annað hvort ætti hæfisnefndin að leita umsagnar einhvers jafnréttisapparats eða að jafnréttisapparatið verði einfaldlega látið sjá um að ráða í opinber störf.

  • Eygló Harðardóttir

    Nei, – ég er hér ekki að skrifa gegn betri vitund. Ég hef samúð með þeirri stöðu sem Jóhanna var í og ég tel að hún hafi ekki ráðið karlinn vegna kynsins. En við heyrum aðeins af þeim tilfellum þegar einhver er ráðinn með pólítisk tengsl en við heyrum nánast aldrei af þeim tilfellum þar sem fólki er hafnað vegna tengsla við pólitík. Einmitt vegna þess að við viljum ekki taka umræðuna um að þetta sé pólitísk ráðning.

    Þess vegna velti ég fyrir mér að þess vegna hafi viðtölin skipt svona miklu máli, – ti að tryggja að viðkomandi yrði aldrei metinn hæfastur.

  • Eygló Harðardóttir

    Nei, – ég er hér ekki að skrifa gegn betri vitund. Ég hef samúð með þeirri stöðu sem Jóhanna var í og ég tel að hún hafi ekki ráðið karlinn vegna kynsins. En við heyrum aðeins af þeim tilfellum þegar einhver er ráðinn með pólítisk tengsl en við heyrum nánast aldrei af þeim tilfellum þar sem fólki er hafnað vegna tengsla við pólitík.

    Einmitt vegna þess að við viljum ekki taka umræðuna um að þetta sé pólitísk ráðning, þrátt fyrir hæfni viðkomandi til að sinna starfinu.

    Því það er nefnilega bara nokkuð oft sem að hæft fólk velur að starfa innan stjórnmálaflokka 😉

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fjórum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur