Miðvikudagur 06.04.2011 - 10:28 - 10 ummæli

Umboðsmaður skuldara bregst við

Í tilkynningu á vef Umboðsmanns skuldara kemur fram að gerð verður könnun á endurútreikningi fjármálafyrirtækjanna á ólögmætum gengistryggðum lánum. Kallað verður eftir upplýsingum frá fjármálafyrirtækjunum og mun Raunvísindastofnun Háskóla Íslands fara yfir útreikningana og aðferðafræði þeirra, og skoða hvort þeir séu í samræmi við lög nr. 151/2010.

Því ber að fagna að Umboðsmaður skuldara hefur brugðist við ábendingum og kvörtunum fjölmargra lántaka með þessum hætti.

Nú spyr ég hvað Fjármálaeftirlitið er að gera?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Fjármálaeftirlitið er að velta fyrir sér hvaða kaxveiðiboðsferðir þeir eiga að þora að þiggja í sumar.

  • Það er auðvitað fagnaðarefni að umboðsmaður skuldara hafi tekið við sér með þessum hætti. Bankar og fjármálastofnanir hafa gengið fram að eigin geðþótta og skuldarar nánast varnarlausir. En spurt er. Hvað er Fjármálaeftirlitið að gera? Fyrst alþingismaðurinn veit það ekki, þá er ekki von að almenningur viti. Væri ekki ráð að leita eftir svörum. Og svo má einnig spyrja: Hvað er talsmaður neytenda að gera? Já mikið rétt. Hann er upptekinn við að hræra í stjórnarskránni. Það er mikilvægara verkefni en að berjast fyrir hagsmunum neytenda gegn ofurvaldi bankanna.
    En frumkvæði umboðsmanns skuldara ber að fagna. En það er fleira sem skiptir máli en að fara ofan í saumana á lánaútreikningum bankanna. Hvað með gengistryggð lán vegna fjármálagerninga. Hver er til dæmis réttarstaða þeirra sem tóku slík lán til stofnfjárkaupa í sparisjóðum? Getur þingmaðurinn svarað því?
    Og þó að það tengist ekki efni pistils þingmannsins er freistandi að nefna hér athyglisverða samantekt í sambandi við Icesave. Í Morgunblaðinu í dag eru birtar tíu athyglisverðar og rökfastar greinar um þetta hitamál þar sem mælt er gegn samþykkt samningsins. Engin grein sem mælir með samþykkt en hins vegar er hótunum forsvarsmanna atvinnulífs og launþega gerð góð skil. Það er í raun merkilegt að engin skrif með samningnum skuli finnast á síðum blaðsins. Kannski er að koma betur og betur í ljós, að röksemdir já sinna eru byggðar á svo veikum grunni að það þurfi að grípa til aðferða á borð við þær sem forystumenn launþega og atvinnurekenda bjóða upp á.
    Í Fréttablaðinu í dag eru tvær greinar þar sem mælt er gegn samningnum og tvær sem taka upp hanskann fyrir ágæti samningsins. Þær greinar skrifa Benedikt Jóhannesson og Gylfi Magnússon fyrrverandi ráðherra. Afstaða þeirra kemur ekki á óvart. Þeir hafa frá öndverðu haft mikla og blinda ást á Icesave og láta ekki smá hnökra afvegaleiða sig. Þeir studdu Icesave I og þeir studdu Icesave II og nú fullkomna þeir staðfestu sína. Kannski væri betra fyrir þessa mætu menn sem upplifað hafa skipbrot hvað eftir annað í þessu máli að halda sig til hlés. En þeir hafa auðvitað sinn lýðræðislega rétt og það virða Íslendingar.

  • Það fæst engin lausn á þessu, fyrr en Hæstiréttur leisir úr því, frá hvaða tíma seðlabankavextir gilda, frá lántökudegi, eða frá dómi Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðra lána.

    Því er ekki búið að biðja um flýtimeðferð fyrir slíkt mál í Hæstarétti fyrir löngu.

  • Sigurður #1

    Tilgangslaus könnun.

    Lögin sjálf eru ólögleg og standast ekki stjórnarskrárvarinn eignarétt lántakenda.

    Tóm sýndarmennska að ætla að kanna hvort farið sé eftir ólöglegum lögum.

  • Jóna Ingibjörg Jónsdóttir

    Ég hef ekki því miður ekki mikla trú á UMS, tel að það sé bæði sýndarmennska og viðbragð þess sem er í klemmu. UMS er jú embætti sem er m.a. kostað af lánafyrirtækjum og það finnst mér náttúrulega bogið. Er það trúverðugt að kröfuhafar séu að borga rekstur, þmt laun, UMS og starfsfólks og á sama tíma gæta hagsmuna lántaka í þessu landi?

    Þetta eru tvö óskyld mál: aðferðafræði endurútreikninga og svo hitt; ólögmæti þeirra. Þó UMS komist að mismunandi aðferðafræði fjármálafyrirtækjanna er nefnilega ekki víst að breyti nokkru fyrir lánþega.

    En segjum sem svo að aðferðafræðin verði löguð þá stendur enn eftir vanskapnaðurinn: lög 151/2010 sem standast hvorki samingalög, almennan kröfurétt, eignarétt samkv. stjórnaskránni, neytendalög eða tilskipun EES um neytendavernd.

    En svona til að vera jákvæð: þá er gott að UMS sýnir viðleitni. En ég spyr mig samt sem áður – á hvaða forsendum er UMS búin að vera að segja að allir útreikningar séu réttir???

  • Umboðsmaðurinn er mislukkað embætti.

    Því miður.

  • Hákon Hrafn

    Ég vil byrja á að þakka Eygló fyrir að sýna þessu máli áhuga og fyrir að senda EVráðherra spurningar. Hann mun örugglega tala í nokkra hringi um ekki neitt þegar kemur að því að svara. Það er slæmt að 27 Alþingismenn hafi tekið sér stöðu með gjaldþrota fjármálafyrirtækjum sem beittu almenning blekkingum.

    Ef við ætlum að virða Evróputilskipun um neytendavernd þá er það klárt að samningsvextir skulu standa á upphaflegum höfuðstól og flestir lántakendur hafa þá ofgreitt og eiga inni væna summu á vöxtum SI hjá fjármálafyrirtækjunum. Þessir 27 Alþingismenn ætla greinilega ekki að virða þessa tilskipun, það mun reynast ríkinu dýrt þegar EFTA dómstóllinn verður búinn að dæma í málinu.

    Annars sammála því sem kemur fram hér að ofan.

  • Lög 151/2010 eru ólög og þau ætti að afnema.

    Umboðsmaður skuldara hefur til að mynda í umsögn sinni um lögin bent á að þau standist hugsanlega ekki neytendaverndartilskipun ESB sem lögleidd er hérlendis og eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

    Þetta hafa aðilar á borð við Hagsmunasamtök heimilanna einnig bent á.

    Þess vegna vinnur hópur fólks og félagasamtaka nú að því senda kvörtun til ESA og hefur Umboðsmanni skuldara verið boðið að gerast aðili að því máli. Ég vona að umboðsmaður taki því boði enda myndi slík aðild falla að hlutverki embættisins.

    Það að lögin sjálf standist vart stjórnarksrá og neytendaverndartilskipun er þó ekki nema hluti af vandanum. Hitt atriðið er að annað hvort eru fjármálafyrirtækin að framkvæma endurútreikningana eftir behag, því vitað er um mörg dæmi þess að fjármálafyrirtækin noti mismunandi aðferðir við endurútreikningana, eða þá að lögin sjálf eru ekki nógu skýr um hvernig á að framkvæma endurútreikninginn.

    Miðað við hvað kemur venjulega upp úr skúffunum hjá efnahagsráðherra liggur við að ég þori ekki að minna á að skv. 2 gr. b. í lögum 151/2010 er ráðherra ,,heimilt að kveða nánar á um framsetningu útreiknings á uppgjöri vegna ólögmætra vaxta og/eða verðtryggingar í reglugerð.“
    http://www.althingi.is/altext/stjt/2010.151.html

    Hvers vegna ráðherra hefur ekki nýtt þessa heimild get ég ekki svarað. Og enn síður af hverju hún er fyrir hendi ef ekki var ætlunin að nýta hana.

    Því markmiðið með lögunum var jú að tryggja að sambærileg mál fái sambærilega niðurstöðu.

  • Samtök lánþega eru að leggja lokahönd á mál sem varðar afturvirkni vaxta, nú er næst að óska eftir flýtimeðferð í genum héraðsdóm og Hæstarétt, því þetta gengur ekki svona lengur, og ætti Alþingi, eða ráðherra, að sjá til þess að þetta mál fái flýtimeðferð.

  • Gunnlaugur

    Eygló, mér þótti vænt um að sjá þig á fundi lánþega sem fram fór á Grand Hótel um daginn. Þar mættu um 4-5 hundruð manns. Umboðsmaður skuldara virðist vera að taka við sér og ætlar nú að láta Raunvísindastofnun fara yfir þessa ólögmætu útreikninga. Hinsvegar er það ljóst að áður hafði umboðsmaður skuldara komist að niðurstöðu eftir „ítarlega“ skoðun sína að útreikningar fjármálastofnana væru réttir! Þessu áliti umboðsmanns beita fjármálastofnanir nú fyrir sig máli sínu til stuðnings. Ég er með bréf í höndunum þess efnis. Bréfið móttók ég eftir að hafa harðlega mótmælt þessum útreikningum. Það má ljóst vera að lög nr 121/2010 stangast á við stjórnarská, evrópurétt sem og eignarétt. Það er ótrúlegt að þessi lög skuli hafa verið afgreidd í gegnum Alþingi, án þess að viðskiptanefnd hafi áttað sig á því að með afgreiðslunni, þá er nefnin að setja flesta þá sem skulda svokölluð gengistengd lán í gjaldþrot. Það á við um mig, því að í stað þess að borga 150 þús á mánuði í afborgun af 40 ára láni mínu, þá þarf ég að borga 300 þús á mánuði eftir ólögmætan endurútreikning. Útreikningar Raunvísindastofnunar munu væntanlega ekki breyta miklu í því efni, þar sem ólögin heimila okurvaxtaútreikning á greiðslur sem þegar hafa verið inntar af hendi. Það sjá allir að ekki er verið að gæta hagsmuna skuldara í þessum málum, heldur skuli þeir ólögum beittir. Ennfremur þá er athyglisvert ef skoðuð er atkvæðagreiðslan á Alþingi. Þar kemur í ljós að MINNIHLUTI þingsins samþykkir þessi lög nr 121/2010! Hvað er í gangi hérna? Jú, einungis 27 alþingismenn samþykkja ólögin. Nei segja einungis 3 alþingismenn. 22 alþingismenn GREIÐA EKKI ATKVÆÐI. 11 eru fjarverandi! Hver er ástæða þess að menn greiða ekki atkvæði í svona mikilvægu máli, ég bara spyr? Það er lágmarks krafa að menn greiði atkvæði og geri grein fyrir atkvæði sínu í máli sem þessu. Það þýðir lítið að koma fram síðar og gagnrýna þessi lög, þegar allur þessi fjöldi stjórnarandstöðuþingmanna hefur ekki burði til þess að standa gegn þessum ólögum. Ég skora á þig Eygló Harðardóttir að beita þér fyrir flutningi frumvarps til ógildingar á lögunum. Það er jú greinilegt að meirihluti kann að vera fyrir því ef menn sjá sóma sinn í að neyta atkvæðaréttar síns á Alþingi! Ef hinsvegar það verður ekki gert, þá er ljóst að um endalaus dómsmál verður að ræða.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fjórum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur