Fimmtudagur 07.04.2011 - 16:28 - 1 ummæli

Beina brautin ekkert bein..

Allir tala um mikilvægi þess að tekið verði hratt og vel á vanda starfandi fyrirtækja í fjárhagsvanda.  Núverandi staða er vítahringur hvort sem litið er til fyrirtækjanna sjálfra, bankanna, heimilanna eða hagskerfisins í heild.

Heildarfjöldi fyrirtækja í hlutafélagaskrá er 32.565, og þarf af eru um 15 þúsund fyrirtæki í virkri starfsemi.  Creditinfo heldur utan um vanskil, fjárnám og gjaldþrot fyrirtækja og af þessum fyrirtækjum eru um 6 þúsund á vanskilaskrá og áætlað er að 1350 fyrirtæki bætist við þann hóp á næstu 12 mánuðum.

Þetta endurspeglast  í að árið 2010 voru 982 gjaldþrot og 3818 árangurslaus fjárnám = ekkert til skiptanna.

Þrátt fyrir þennan mikla vanda tók tíma fyrir stjórnvöld að taka við sér, og var það ekki fyrr en í desember á síðasta ári sem undirritað var samkomulag um skuldaúrvinnslu lítilla og meðalstórra fyrirtækja, hin svokallaða Beina braut.  Samkomulagið gekk út að fjármálafyrirtækin ættu að hafa lokið skoðun á stöðu þessara fyrirtækja fyrir 1. júní 2011 og gert lífvænlegum fyrirtækjum í fjárhagsvanda tilboð um úrvinnslu skulda þeirra.

Allir áttu að vera vinir í skóginum…

Í upphafi var talað um 5000-7000 fyrirtæki, en nú er gert ráð fyrir að ca. 1700 fyrirtækjum verði boðið að fara Beinu brautina.  Í lok mars höfðu 363 tilboð verið send, þar af 190 sem afgreidd voru áður en verkefnið hófst.  Áætlað er að ef áfram verður unnið á þessum hraða verður búið að endurskipuleggja fjárhag þessara fyrirtækja í kringum 2050.

Alveg eins og í sértæku skuldaðalöguninni fyrir heimilin eru menn að uppgötva að það er ekki bara hægt að segja fólki að treysta hvort öðru.  Hagsmunirnir fara einfaldlega ekki saman þegar kemur að því að meta virði eigna og rekstrar og óvissa og reiði vegna gengistryggðra lána hjálpar ekki til.

Á meðan er atvinnulífið lamað.

Eftir fjöldamótmælin síðasta haust urðu stjórnvöld að horfast í augu við að úrlausnir þeirra fyrir heimilin voru ekki að virka.  Hvað þarf núna til?

Strax í febrúar 2009 bentu við Framsóknarmenn á mikilvægi þess að tekið yrði hratt og markvisst á skuldavanda fyrirtækja.  Ég hef ítrekað lagt fram þingsályktunartillögu um stofnun ráðgjafastofu fyrir fyrirtæki í greiðsluerfiðleikum, sem gæti gegnt hlutverki sáttasemjara á milli bankanna og fyrirtækja.  Tryggja þarf flýtimeðferð á gengistryggðum lánum í gegnum dómstóla landsins til að draga úr óvissu eða með því að koma á gerðardómi um ágreiningsmál, líka fyrir fyrirtæki.  Við verðum að taka á vanda þeirra fyrirtækja sem tekin voru til gjaldþrotaskipta á grundvelli ólögmætra lána. Útbúa þarf fjárhagslega hvata fyrir bankana til að hreinsa út lán í vanskilum úr efnahagsreikningi sínum og tryggja að þau komi afskriftum til þeirra fyrirtækja sem eru lífvænleg.

Allt þetta þarf að gera sem allra fyrst, ef við eigum að komast á þessa beinu braut!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og þremur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur