Mánudagur 11.04.2011 - 15:49 - 22 ummæli

ESB að gefnu tilefni

Ályktun sem Framsóknarmenn samþykktu er svohljóðandi:

„Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins.  Nú sem fyrr standa auðlindir þjóðarinnar undir velferð hennar og fullt og óskorað forræði á þeim er forsenda farsældar til framtíðar.  Framsóknarflokkurinn telur að þjóðin skuli ætíð eiga beina aðkomu með þjóðaratkvæðagreiðslu að ákvörðunum um stórmál eins og aðild að Evrópusambandinu og mun berjast fyrir þeim rétti að hagsmunum þjóðarinnar sé best borgið fyrir utan Evrópusambandið.“

Ályktanir sem var hafnað segja ekkert til um stefnu flokksins, aðeins sú ályktun sem var samþykkt.

Í ESB ályktun okkar er ekkert um að hætta eigi viðræðum við Evrópusambandið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (22)

  • Hvað með túlkun SDG í kvöldfréttum sjónvarps sl. Laugardagskvöld? Er hún ómarktæk?

  • Eygló, setningin ,,Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins,“ er skýr og ótvíræð. Stjórnmálaflokkur með þessa stefnu getur ekki verið hlynntur viðræðum við Evrópusambandið um aðild, nema – vel að merkja – flokkurinn sé meðvitað að blekkja almenning.
    Er Framsóknarflokkurinn að blekkja almenning?

  • Hvernig væri að þú skoraðir á Jóhönnu að endurtaka orð sín, að þjóðaratkvæðagreiðsla um esb geti ekki verið bindandi þe. það sé brot á lögum um Alþingi?

  • Sigurður E. Vilhelmsson

    Ég skildi hann þannig að hann hefði lýst þeim tveimur breytingartillögum sem felldar voru á þinginu, en sú ályktun sem samþykkt var hlýtur að standa sjálfstætt án vísunar í einhverjar breytingartillögur sem ekki voru samþykktar.

  • Ég vísa bara í ummæli Páls hér að ofan.

  • Eygló Harðardóttir

    Framsóknarmenn túlka ekki lýðræðið á þann hátt að aðeins eigi að kjósa um þau mál sem okkur hentar. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru ekki leið til að stöðva eða breyta niðurstöðum Alþingis, heldur leið til að leyfa þjóðinni að segja sína skoðun um stórmál sem varða þeirra framtíð óháð afstöðu okkar til málsins.

  • Eygló Harðardóttir

    Síðan er það okkar að færa fram málefnaleg rök fyrir okkar máli í lýðræðislegri umræðu, líkt og kemur fram í ályktuninni.

  • Hallur Magnússon

    Eygló.

    Hvernig sem þú reynir að snúa þér út úr því – þá er það staðreynd að tillaga um að draga skuli umsókn að Evrópusambandinu til baka var fellt á flokksþinginu.

    Það getur ekki þýtt annað en að flokksþingið hafi verið á móti því að draga umsóknina til baka.

  • Sigurður E. Vilhelmsson

    Hallur, var það ekki einmitt það sem hún benti á í pistlinum hér fyrir ofan? Ef þú lest pistilinn aftur, aðeins hægar og hugsar svo aðeins um það sem þú lest sérðu væntanlega standa þar:

    „Í ESB ályktun okkar er ekkert um að hætta eigi viðræðum við Evrópusambandið.“

    Hvernig getur þú túlkað þessi orð þannig að Eygló sé einhvern veginn að snúa sig út úr einhverju?

  • Hallur, þessi gagnályktun þín er merkingarlaus. Við skulum fjalla um ályktunina sem var samþykkt.
    Framsóknarflokkurinn segir í stefnuyfirlýsingu að hag Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Af því leiðir getur flokkurinn ekki stutt aðildarviðræður sem miða að því að Ísland gangi inn í Evrópusambandið.

  • Mér sýnist Eygló reyna að búa sér til stöðu þar sem hún sem þingmaður flokksins geti stutt aðildarviðræður en samt verið trú stefnu flokksins um að hag Íslands sé best borgið utan ESB. Hún getur það ekki frekar en bindindismaður getur notið áfengis en samt talið sig ástunda bindindi.

  • Sigurður E. Vilhelmsson

    Páll, Framsóknarflokkurinn telur að hag Íslands sé best borgið utan ESB en hann ályktaði ekki um að taka þann lýðræðislega rétt af þjóðinni að greiða atkvæði um aðild.

  • Hallur Magnússon

    Eygló.

    Fyrirgefðu – en ég mislas aðeins.

    Þú segir: „Í ESB ályktun okkar er ekkert um að hætta eigi viðræðum við Evrópusambandið.“

    Það er alveg rétt.

    Og það er ekki hægt að horfa framhjá því að það var EKKi vilji til þess að slík setning yrði í ályktuninni.

  • Sigurður E. Vilhelmsson

    Páll, bendi þér svo á eftirfarandi orð í ályktuninni:
    „Framsóknarflokkurinn telur að þjóðin skuli ætíð eiga beina aðkomu með þjóðaratkvæðagreiðslu að ákvörðunum um stórmál eins og aðild að Evrópusambandinu“

  • Sigurður, stjórnmálaflokkur sem láta taka sig alvarlega hefur eina stefnu í stórmálum eins ESB-málið er. Um það hljótum við að vera sammála.
    Ef stefna Framsóknarflokksins er að hag Íslands sé best borgið utan ESB þá getur flokkurinn ekki stutt aðildarviðræður sem hafa það markmið að Ísland gangi inn í ESB.
    Hér er ekki spurt um þjóðaratkvæði eða ekki heldur hvert á að stefna.
    Eygló svaraði mér ekki beint áðan en má ég biðja þig að gera það og svara eftirfarandi spurningu: Er það stefna Framsóknarflokksins að Ísland skuli standa utan Evrópusambandsins?

  • Sigurður E. Vilhelmsson

    Páll, svarið er já. Það má lesa beint í ályktuninni. Þar má einnig lesa að flokkurinn telur að þjóðin skuli hafa beina aðkomu að ákvörðun um ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu.

    Persónuleg skoðun þín á því hvenær hægt er að taka flokk alvarlega eða ekki skiptir einfaldlega engu máli.

  • Guðmundur Gylfi Guðmundsson

    Það var hart tekist á um málið í utanríkismálanefnd á flokksþinginu. Þeir sm vildu halda áfram viðræðum og láta þjóðina síðan kjósa gátu ekki séð þá leið í tillögu málefnanefndar. Evrópuandstæðingar með þingflokksformanninn í broddi fylkingar sögðu þetta sáttatillögu og neituðu að semja um málið og skrifa skiljanlegan texta. Þá bætti þingflokksformaðurinn um betur og sagði að þeir sem væru á annarri skoðun gætu bara gengið úr flokknum ef þeir vildu ekki sætta sig við samþykktar tillögur. Þetta endurtók þingflokksformaðurinn efnislega í ræðustól í aðalsal.

    Þá voru samdar tvær andstæðar breytingatillögur.

    Við afgreiðslu málsins í aðalsal stóð upp Sigurður Hannesson formaður málefnanefndar og sagði að tillögu málefnanefdar bæri að skilja svo að ekki væri verið að leggja til að hætta viðræðum. Það er sennilega sú túlkun sem Eygló er að vitna í. Ég verð að treysta á þessa túlkun þó svo ég eigi verulega erfitt með að lesa hana út úr textanum.

    Að lokum. Ég álit að þetta mál hefði getað fengið betri umfjöllun og meiri sátt ef t.d. formaður málefnanefdar hefi setið með nefndinni. Þá lét formaður flokksins hjá líða að skikka menn á sáttastól eins og dæmi eru um hjá fyrri formönnum. Þar var aðalverkefnið að segja þingflokksformanninum að sitja og haga sér eins og handhafa slíks embættis ber.

  • Takk Sigurður fyrir skýrt svar.
    Í mínum huga þýðir að vera á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu sjálfkrafa að maður sé á móti vegferð inn í Evrópusambandið. Mér heyrist þú vera á annari skoðun.
    Þegar Framsóknarflokkurinn hittir fyrir kjósendur verður ekki hægt að bera kápuna á tveim öxlum. Vinstri grænir reyndu að blekkja almenning og hafa verið afhjúpaðir.

  • Aðalatriðið í mínum huga er að þjóðin fái að ákvarða með upplýstum hætti um eigin framtíð í slíku stórmáli eins og í Icesave málinu. Ég sé það markmið ekki nást nema með því að hafa þann samning sem taka eigi afstöðu til á borði. Það er eina færa leiðin í þessu máli sem ég sé. Því miður er ESB þó alls ekki okkar aðalmál og vont hvað það þvælist fyrir öðrum grundvallarmálum eins og uppgjöri hrunmálanna, stjórnarfarsbreytingum og því að standa vörð um innviði samfélagsins og þegna þess.

  • Einar Freyr Elínarson

    Mesta hræsnin er sú að fólk sem að þurfti að taka sér nokkra daga til þess að lesa gaumgæfilega yfir skjöl áður en það tók afstöðu til Icesave 3 samningsins, þegar hann lá fyrir, skuli á sama tíma auðveldlega getað ákveðið að ísland eigi ekki heima í esb. Og það er meira að segja án þess að hafa nokkurn samning til þess að dæma út frá!

    Þessi tillaga málefnanefndar var engin málamiðlun.

  • Eygló, ég hélt að þú vissir betur, en samkvæmt 295. gr. stofnsáttmála Evrópusambandsins eru auðlindir þjóða undir forræði þeirra sjálfra og stofnsáttmála verður ekki breytt nema með þjóðaratkvæðagreiðslu ALLRA þjóða sambandsins. Leiðinlegt að sjá þingmann halda svona dellu fram og vita ekki betur, og það eina sem við Íslendingar þurfum að óttast er að sjálfstæðis og framsóknarflokkur fari saman og selji auðlindirnar vinum sínum, því sú vá kemur ekki frá ESB.

  • Ólafur Bjarni

    Maður hefur á tilfinningunni að þegar talað er um að hag þjóðarinnar sé betur borgið utan ESB sé átt við að kvótaeigendur og handhafar landbúnaðarkerfisins telji sínum hag betur borgið utan ESB. Hagur almennra borgara skiptir ekki máli.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og tveimur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur