Þriðjudagur 12.04.2011 - 07:54 - 3 ummæli

Sjávarútvegsstefna Framsóknar

Flokksþing Framsóknarmanna samþykkti nýja sjávarútvegsstefnu.  Hún er svohljóðandi:

Framsóknarflokkurinn leggur mikla áherslu á að ná sem víðtækustu sátt meðal þjóðarinnar um stjórnun fiskveiða. Til að nauðsynleg sátt og stöðugleiki náist þarf að móta skýra stefnu til lengri tíma, segir í ályktun Flokkþings Framsóknarflokksins um sjávarútvegsmál.  Sú stefna byggir m.a á eftirfarandi;

1. Framsóknarflokkurinn hafnar fyrningarleiðinni sem fiskveiðistjórnunartæki.
2. Stjórnun fiskveiðanna verði blönduð leið, annars vegar á grunni aflahlutdeildar á skip og hinsvegar úthlutun veiðileyfa sem taki mið af sértækum byggðaaðgerðum, hvatningar til nýsköpunar og til þess að auðvelda aðgengi nýrra aðila að útgerð.
3. Tryggja verður sameign þjóðarinnar á sjávarauðlindinni m.a. með ákvæði í stjórnarskrá sbr. lög nr. 116 frá 2006. – 1. gr.- Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.
4. Úthlutun veiðileyfa verði gerð með þeim hætti að skilgreina tvo potta.

Pottur 1 þar sem gerður verði nýtingarsamningar á 20 ára, á grunni aflahlutdeildar á hvern bát. Samningurinn verði á milli ríkisins og íslenskra aðila með búsetu á Íslandi hið minnsta síðustu 5 ár. Samningurinn verði endurskoðanlegur á fimm ára fresti með möguleika á framlengingu til fimm ára í senn. Samningurinn skal taka mið af heildarstefnu framsóknarmanna í fiskveiðistjórnun þar sem móta skal takmarkað svigrúm til breytinga á samningstímanum. Nýtingarsamningurinn innhaldi m.a ákvæði um veiðiskyldu og takmarkað framsal.  Innleiða þarf varanlegt fyrirkomulag sem tryggir hreyfingu á aflaheimildum í framtíðinni. Skoða skal með hvaða hætti best sé að tryggja slíkt.  Settar verði takmarkanir við óbeinni veðsetningu aflaheimilda og leitað leiða til að draga úr veðsetningu greinarinnar. Breytingar verði þó ekki afturkræfar. Greitt verði fyrir nýtingarréttinn þ.e. svokölluð auðlindarenta eða árlegt veiðigjald. Gjaldið verði hóflegt og tengt afkomu greinarinnar.

Pottur 2 þar sem veiðileyfum verði úthlutað til;
a)      Fiskvinnslu. – Um er að ræða byggðaívilnun þar sem að aflaheimildum verði fyrst og fremst úthlutað á fiskvinnslur þar sem það á við. Fiskvinnslurnar semji við einstaka útgerðir um veiðar.
b)      Ferðaþjónustuveiða. – Þar sem þeim aðilum verði tryggð aflahlutdeild með því að landa aflanum sem VS-afla . Setja þarf sérstakar reglur um úthlutunina.
c)       Nýsköpunar. – Stuðningur við nýsköpun m.a. í meðafla leyfum, sérstökum úthlutunum auk beins fjárstuðnings.
d)      Strandveiða Nýliðunarpottur – Megin tilgangur strandveiða er að auðvelda nýjum aðilum að hefja útgerð og má hver aðili einungis halda á einu strandveiðileyfi. Varðandi nánari útfærslu strandveiðanna verði horft til tillagna SUF um strandveiðar.

Stefnt sé að því að Pottur 2 ýti undir nýsköpun og nýliðun, hvetji til frekari nýtingu auðlindarinnar, auk byggðatengdra aðgerða. Núverandi tilfærslur eru 3.5% af heildarþorskígildum og mjög mismunandi eftir tegundum allt frá 0-10%. Samhliða stofnstærðaraukningu einstakra tegunda vaxi Pottur 2 á allra næstu árum þannig að af tegundum sem engin tilfærsla er á í dag verði hann 3-5% og af öðrum stofnum allt að 10%.  Stefnt sé að Pottur 2 vaxi enn frekar, en þó aldrei meira en 15% af einstökum tegundum samhliða stofnstærðaraukningu og jákvæðari reynslu af úthlutunum til Potts 2.

5.  Veiðigjald/auðlindarentan sem greinin greiðir verði nýtt að hluta til nýsköpunar, rannsókna og markaðsstuðnings innan greinarinnar sjálfrar. Hluti renni til þess landsvæðis þar sem auðlindarentan verður til t.d. til atvinnuþróunarfélaga innan viðkomandi svæðis og hluti í ríkissjóð.

6. Sjávarauðlindin er í senn gjöful en takmörkuð. Því er mikilvægt að hlúa að nýsköpun og enn frekari nýtingu hráefnis til að skapa verðmæti og auka arðsemi. Setja þarf fram efnahagslega hvata til að auka nýtingu á hráefni sem í dag er illa eða ekki nýtt.

7. Mikilvægt er að nýta auðlindina sem skynsamlegast og byggja á grunni vísindalegrar þekkingar og sjálfbærni lífríkisins. Stefnt skal að því að setja fram langtíma nýtingarstefnu (aflareglu) um alla stofna sem miðist við að byggja þá upp til að þola hámarksnýtingu til langtíma.

8. Sjávarútvegur er grunn atvinnugrein þjóðarinnar. Mikilvægt er að menn átti sig á að sjávarútvegur er ekki bara veiðar heldur hátæknivæddur matvælaiðnaður sem byggir á öflugri  og þróaðri vinnslu og markaðsetningu. Hluti af því er nauðsynleg gæða- og umhverfisvottun.

9. Til að tryggja áframhaldandi forystu Íslendinga á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda hafsins verði sjónum í vaxandi mæli beint að umhverfislegum þáttum og augljósu samspili nýtingar hinna ýmsu tegunda hafsins.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Sæl og blessuð Eygló.

    Það getur bara ekki staðist að Framsóknarmenn séu með öllu mjalla frekar en yfirleitt á undanförnum áratugum.

    Hvaða fólki með viti dytti í hug að setja aðrar eins fullyrðingar á blað eins og þetta ?

    „Í greinargerð með drögunum segir: „Kvótakerfið felur í sér innbyggðan hvata til góðrar umgengni um fiskveiðiauðlindina og leggur grunn að ábyrgri og árangursríkri fiskveiðistjórnun. Með kvótakerfinu var böndum komið á ofveiði t.d. þorskstofnsins og grunnur lagður að arðbærum og sjálfbærum sjávarútvegi á Íslandi“

    Fyrir öllu hugsandi fólki er þetta eins og þegar því er haldið fram af geðsjúkum brjálæðingum að helförin hafi aldrei átt sér stað.

    Líklega hefur skýrsla Sjávarútvegsnefndar Framsóknarflokksins verið samin á kaffistofu Halldórs Ásgrímssonar.

  • Sjávarútvegsstefna Framsóknarflokksins er gott innlegg umræðuna. Annað er brýnna í augnablikinu fyrir Framsóknarflokkinn en það er að þétta eigin raðir og koma í veg fyrir að einstaka þingmenn komi fram með fráleitar og ótímabærar yfirlýsingar. Það liggur fyrir að Siv Friðleifsdóttir er á útleið eigi síðar en í næstu kosningum. Hún hefur með málflutningi sínum sýnt að hún er í mörgum veigamiklum málum andstæð stefnu flokksins; hún gegnir engu forystuhlutverki innan hans og hefur því ekkert umboð til þess að boða aðild flokksins að núverandi ríkisstjórn. Þessi hugmynd hennar sýnir líka hversu mjög hún hefur fjarlægst grasrótina í flokknum sem hafnar þessari fráleitu hugmynd með öllu. Aðeins að loknum þingkosningum kemur ríkisstjórnarþátttaka til greina.

  • halldór agnarsson

    Þessar tillögur eru gott innlegg í umræðuna. Það er ljóst að skapa þarf þjóðarsátt um fiskveiðar sem fyrst. En síðustu orðin í kaflanum um Pott 1 verður að fella út úr þessu. Það eru þessi orð:

    „og tengt afkomu greinarinnar“.

    Það má aldrei tengja slík gjöld við afkomu eins og skattar eru t.d. Þetta verður að vera fast gjald per kíló/fisktegund

    Kveðjur Bestar
    Halldór

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fjórum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur