Fimmtudagur 14.04.2011 - 08:21 - 17 ummæli

Siv, Guðmundur og Agnes

Agnes Bragadóttir ákvað að fjalla um Framsóknarflokkinn í Morgunblaðinu í gær og þá sérstaklega stöðu tveggja þingmanna okkar í framhaldi af flokksþinginu um síðustu helgi.

Ég er mjög ósátt við efni greinarinnar og vangaveltur um að Siv Friðleifsdóttir og Guðmundur Steingrímsson séu á leið út úr Framsóknarflokknum.  Að fólk vilji jafnvel sjá þau fara.

Siv og Guðmundur eru þingmenn Framsóknarmanna, voru valin í prófkjörum innan flokksins og voru kjörin á þing af kjósendum Framsóknarflokksins.  Afstaða þeirra varðandi helstu stefnumál flokksins lá fyrir áður en gengið var til atkvæða og þau hafa verið trú sinni sannfæringu líkt og eiður okkar að stjórnarskránni boðar.

Hver og einn flokksmaður skiptir máli og við getum umborið ólíkar skoðanir.

Bæði innan flokks og utan.

Af þessu tilefni vil ég því birta smá bút úr ræðu minni á flokksþinginu:

Samfélagsskipanin má ekki markast af misrétti þegnanna á grunni efnalegra, menningarlegra og félagslegra þátta, lítt heftu peningavaldi, skorti á raunverulegu virku lýðræði á nær öllum sviðum þjóðlífsins, skoðanamyndun sem fjármálavaldið ræður að miklu leyti, klíku– og smákóngaveldi.

En til að tryggja okkur stöðu til að breyta samfélaginu verðum við að endurheimta traust almennings. Við verðum að sannfæra almenning um að við meinum það sem við segjum. Við getum ekki skreytt okkur með hugtökum á borð við lýðræði, jafnrétti og sanngirni nema við lifum sjálf eftir þeim gildum. Við getum ekki sagt við almenning “gerið það sem við segjum, ekki það sem við gerum”. Samfélagsbreytingar þurfa að byrja hjá okkur sjálfum. Til að geta barist fyrir lýðræði, jafnrétti og sanngirni úti í samfélaginu þurfum við að tryggja að starfið í flokknum okkar byggi á raunverulegu lýðræði, jafnrétti og sanngirni.

Við verðum að virða rétt allra skoðana, líka þeirra sem eru í minnihluta og tryggja að rödd minnihlutans fái að heyrast.

Holdgervingur upplýsingarinnar, franski heimspekingurinn Voltaire, var baráttumaður í nafni skynseminnar. Hann barðist af mikilli hörku gegn ofstæki og hjátrú á öllum sviðum mannlegrar hugsunar og sýndi andstæðingum sínum oft litla miskunn. En einn réttur var honum þó heilagur. Það var réttur manna til að halda fram sínum skoðunum, hversu vitlausar sem honum þótti þær. Hann trúði því að hlutverk yfirvalda mætti aldrei vera að þagga niður skoðanir. Honum hafa jafnvel verið eignuð þau orð að hann myndi berjast fram í rauðan dauðann fyrir rétti fólks til að halda fram skoðunum sínum, jafnvel þótt hann væri því ósammála. Upplýst umræða um ólíkar skoðanir væri eina leiðin til að útkljá deilur og skoðanir yrðu einfaldlega að standa eða falla í upplýstri samræðu.

Á flokksþingi mótum við meginstefnu fyrir flokkinn og samfélagið sem heild, en við verðum að tryggja að einstaklingar haldi rétti sínum til að halda fram sínum skoðunum, þó við séum þeim ósammála.

Á sama hátt og við viljum tryggja að rödd Framsóknarflokksins hljómi úti í samfélaginu, jafnvel þó við kunnum að vera í minnihluta, verðum við að tryggja að ólíkar raddir fái að hljóma innan flokksins, líka þær sem eru í minnihluta.“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

  • Guðmundur Gylfi Guðmundsson

    Ég kaupi ekki Moggann og sá hann ekki í gær.

    Formaður þingflokks framsóknarmanna sagði ítrekað á flokksþinginu að þeir sem væru ekki sáttir gætu farið úr flokknum. Svona tal hefur ekki heyrst á flokksþingi svo elstu Skagfirðingar muna. Í mínum huga er þessum ummælum beint til Guðmundar og Sivjar og margra annnarra.

    Ritari flokksins, varaformaður og formaður hafa ekki mótmælt svona tali. Á meðan er það þegjandi samþykki.

  • Sigurður E. Vilhelmsson

    Guðmundur, hvað er Eygló að gera í þessari grein? Hvað gerði hún í ræðu sinni á flokksþinginu? Er hún ekki einmitt að mótmæla slíkum röddum?

  • Guðmundur Gylfi Guðmundsson

    Við betri yfirlestur sé ég að þú Eygló ert ekki sammála þingflokksformanninum en nefnir hann þó ekki. Það er bót í máli.

    Varaformaður og formaður hafa ekki tjáð sig enn.

  • Leifur Björnsson

    Sammála þér Eygló virðing fyrir skoðanaskiptum er grundvallaratriði.
    Vírðing fyrir skoðunum annarra ef þær eru öðruvísi en hennar eigin hefur ekki verið sterkasta hlið Agnesar Bragadóttur sama má segja um öfga hægri mennina Sigmund Davíð og Gunnar Braga Sveinsson svo maður tali nú ekki um Davíðsliðið í Sjálfstæðiiflokknum.

  • Eygló ég er ekki sammála þér því þó ég aðhyllist umburðarlyndi þá kemur að því að það er einfaldlega betra að leiðir skilji þegar einn eða tveir aðilar í hópi gera allt sem þeir geta til að skemma fyrir hinum. Það er altalað að öll leyndarmál leki úr þingflokksherbergi Framsóknarflokksins yfir til Samfylkingrinnar. Ég skil vel að hinir geti ekki búið við slíkt. Svo er það líka þannig að fólk á ekki að pína sjálft sig til að vera í hópi þar sem viðkomandi líður illa þá er mikið betra bara að fara. Siv mun ekki fara eitt eða neitt hún er bara Siv og á hana hefur enginn getað treyst, hvorki Steingrímur eða Halldór eða nokkur annar. Guðmundur Steingrímsson er augljóslega að skemma mikið fyrir Framsóknarflokknum það væri mikið betra fyrir Framsóknarflokkinn og vinnuandann ef hann bara færi. Guðmundur St. er og hefur alla tíð verið undir hælnum á Degi B Eggertssyni og liðinu í kring um hann. Þú hefur ekkert einkaleyfi á skoðnum fyrir framsóknarfólk Eygló.

  • Heiða mín komdu nú fram undir nafni og réttu kyni og hættu að kasta skít í fólk úr launsátri.

  • Hallur Magnússon

    Siv og Guðmundur Steingrímsson – og Eygló reynar líka – hafa það umfram suma þingmenn flokksins að þau hlutu sæti sín á framboðslista að undangegnu lýðræðislegu prófkjöri. Sumum var stillt upp af uppstillinganefnd – sem klofnaði reyndar 3/2 í tilfelli eins þingmanns.

    En Eygló – góður og málefnalegur pistill eins og þín er von og vísa – en því miður hefur Guðmundur Gylfi allt of rétt fyrir sér.

    Veit ekki hvort Heiða gekk yfir höfuð í Framsóknarflokkinn meðan hann starfaði með flokksformanninum á þeim vettvangi.

  • Eygló Harðardóttir er eins og góð og kærleiksrík móðir. Hún elskar öll börnin sín og ver þau með kjafti og klóm. Þó henni mislíki hegðun sumra í barnahópnum hvessir hún sig ekki heldur notar barnagælur og vonar að almættið leiði angana hennar inn á farsælli brautir.
    Í pólitík gilda því miður önnur lögmál og stundum verður að sverfa til stáls. Allir góðir menn virða að sjálfsögðu rétt manna til að vera frjálsir að skoðunum sínum. En það er líka sjálfsögð krafa til þeirra sem eru kosnir til ábyrgðarstarfa fyrir stjórnmálaflokk að þeir láti skoðanaskiptin koma fram í sínum hópi og reyni síðan að koma fram sem liðsheild. Það á ekkert skylt við hugtakið foringjaræði.
    Guðmundur Steingrímsson hefur í öllum meginatriðum farið gegn stefnu flokksins í störfum sínum á Alþingi. Hann hefur aldrei gagnrýnt svo neinu nemur ríkisstjórnina og hefur þó svo sannarlega verið tilefni til. Hann er Trójuhestur Samfylkingar í herbúðum framsóknarmanna.
    Siv Friðleifsdóttir samþykkti vantraust á ríkisstjórnina en lét þau orð fylgja sem sína skoðun að Framsóknarflokkurinn ætti að ganga inn í núverandi ríkisstjórn henni til styrktar og ekki kæmi á óvart, skilyrðislaust.
    Yfirlýsingar af þessu tagi eru óviðunandi og verða að vera í sátt við aðra í þingflokknum. Það er ekki ný saga í Framsóknarflokknum að einstaka þingmenn hafa farið eigin leiðir og þvert gegn markaðri stefnu flokksins sem mótuð er á fjölmennum þingum. Það hefur aldrei gefist vel og síður en svo orðið flokknum til framdráttar.
    Eygló Harðardóttir er góð kona, kærleiksrík og umburðarlynd. En á öllum sviðum mannlífsins er best að frelsinu fylgi dálítill skammtur af aga. Annars bíður upplausnin handan við hornið.

  • Gunnar Bragi Sveinsson

    Guðmundur Gylfi. Þú ættir að skammast þín fyrir svona lygaþvælu. Ég krefst þess að þú dragir þessi orð til baka. Þau er ósönn og gera ekki annað en að skapa illindi.
    Þú þú sért á annari skoðun en ég um ýmis mál þá ferðu yfir strikið með svona lygi.

    Gunnar Bragi Sveinsson framsóknarmaður.

  • Hallur Magnússon

    Gunnar Bragi.
    Gætir þú sagt mér hvað það er hjá Guðmundi Gylfa sem ekki er satt?

    Kveðja

    Hallur

  • Guðmundur Gylfi Guðmundsson

    Gunnar Bragi. Ég hélt í augnablik að ég væri orðinn vitlaus. Hringdi síðan í nokkra flokksbræður okkar sem voru á þinginu og þeir skildu orð þín alveg eins og ég. Ef þú hefur meint eitthvað allt annað er það fagnaðarefni.

    Mér líkar illa að vera vændur um lygi svo ég
    hringdi einnig á flokksskrifstofuna og það á að vera til upptaka af umræðum í aðalsal. Því ætti að vera hægt að fá þetta útskrifað með nákvæmum hætti ef þess væri óskað.

  • Gunnar Bragi Sveinsson

    Þá skulum við fá okkur popp og kók og horfa á þetta því ekki óttast ég hvernig sú mynd endar.

    Gunnar Bragi Sveinsson framsóknarmaður.

  • Hjálmar Bogi

    Kæru flokkssystkin

    Þessi umræða þjónar engum tilgangi öðrum en draga úr trúverðugleika okkar allra. Rannsóknir sýna að eitt það erfiðasta sem við fáumst við eru viðhorf fólks og þá skiptir engu hvaða rök eða staðreyndir eru bornar á borð, viðhorf fólks breytist ekki.

    Umræða er oftast drifin áfram af hagsmunum og því bið ég ykkur að hafa hagsmuni okkar allra í huga, hagsmuni Framsóknarflokksins, hagsmuni þess að vinna saman, tala saman, deila skoðunum og komast að niðurstöðu sem við getum vissulega verið ósammála um.

    Þessi pistill Eyglóar er ágætt innlegg til umhugsunar. Framsóknarfólki hefur auðnast að vera ósammála en vinna samt saman. Slíkt er talið skynsamlegt form stjórnunar. Því er Framsóknarflokkurinn skynsamlegt val enda flokkurinn fólkið sem í honum er. Hugsun okkar á að vera hvað við getum gert fyrir flokkinn en ekki hvað flokkurinn getur gert fyrir okkur, annars fer ég.

    Ég dáist að aðdáun Halls Magnússonar sem yfirgaf flokkinn en sótti samt flokksþing hans. Við skulum fara varlega í yfirlýsingar umhvað hver sagði, hvernig og hvar á flokksþinginu. Slíkt er hallærislegur málflutningur og þjónar engum tilgangi.

    Með vinsemd og virðing að norðan…

  • Það hlýtur að vera frábært að vera í þessum félagsskap ykkar framsóknarmanna og þá sérstaklega með Gunnari Braga, alltaf svo kurteis og hógvær, eða þannig.

  • Í mínum huga snýst starf Framsóknarflokksins um það hvað flokkurinn geti gert fyrir þjóðina en ekki um hann sjálfan eða fólk innan hans. Það er aðalmarkmiðið.

    Við höfum góð málefni, lausnir sem hafa sýnt sig með tímanum að hefðu verið rétta leiðin að fara og gott fólk sem er samt mjög ólíkt. Samvinna um sameiginlega hagsmuni þjóðarinnar, umburðarlyndi gagnvart því sem skilur okkur að og virðingu fyrir hverju öðru og skoðunum okkar er okkur nauðsynleg. Ég harma þá sýn fólks að ætla að úthýsa því fólki sem hugsar ekki með sama hætti og það sjálft. Það er styrkur okkar að hafa breidd.

    Sameinumst um að hafna gamaldags pólitík og þeim vinnubrögðum sem komu þjóðinni á kaldan klaka, lærum af reynslunni og uppfærum harða drifið í okkur yfir í nútímapólitík og þá fyrst fáum við alvöru Framsókn 🙂

  • Ragnhildur H.

    Gaman meðal málefnalegra framsóknarmanna sem mer likar betur með aldrinu . Allir hafa her skemmtileg og góð innlegg og ef eg má segja lika smá þá myndi eg byrja á að biðja Guðmund Steingrimsson að færa sig úr flokknum .þvi blessaður drengurinn sem ennþá er blautur á bak við eyrum veit ekki hvert hann er að koma eða fara ,en hann er frekar til ógagns en gagns . Siv er bara siv sagði einhver þarna i pisli á undan Hana dreymir um sól og vor i Brussel og hver vildi ekki sól og vor ,kanski ekki akkurat þar, en allaveg hef eg engar ´ahyggjur af henni Siv, þetta er ekki i fyrsta sinn sem hana dreymir ólikt öðrum i Framsón en jafnar sig oftast aftur ! En afur á móti árásir á Formann flokksin i blöðum i dag útaf menntun hans finnst mer ómaklegt og ómerkilegt En menn hafa ekki margt á Sigmund Davið þann góða dreng og það er sumum of mikið álag sem lætur undan stundum . En eg allavega vona að Sigmundur Davið láti það ekki trufla sig of mikið ,enda eru svona hluti komnir umdan rifjum VANSÆLLA SMÁMENNA !! Takk fyrir mig og áfram Framsókn i „FRAMSÓKN „!!

  • Hvaða fyrirbæri er þessi GVald sem sendir mér tóninn hér að ofan og krefur mig um nafn ? Hvaða nafn er það að segjast heita GVald ?
    Annars mjög góður pistill hér að ofan frá Ragnhildi H, Vegna umræðu hér að framan um Gunnar Braga Sveinsson sem ég þekki ekkert en get þó sagt að mér lýst afar vel á þann mann, kemur vel fyrir og lætur menn ekki eiga neitt inni hjá sér án þess að svara. Framsókn virðist eiga gott ráðherraefni í Gunnari Braga.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur