Fimmtudagur 21.04.2011 - 10:44 - 2 ummæli

Fjölmiðlar og jafnrétti

Jakob Bjarnar Grétarsson skrifar grein í Fréttablaðinu undir fyrirsögninni Fáránleg fjölmiðlalög þar sem hann ergir sig sérstaklega á áherslu fjölmiðlalaganna um jafnrétti.

Þar segir hann:

„Algerlega burtséð frá því hvað fólki finnst um femínisma í sinni róttækustu mynd – í þessu kristallast grundvallarmisskilningur á eðli fjölmiðla. Þarna er verið að fara fram á að þeir séu einhverskonar gerandi í þjóðfélaginu; að þeim beri að taka virkan þátt í að betra þegnana í samræmi við hugmyndir þingmanna. En ekki bregða upp mynd af þjóðfélaginu eins og það er…“

Ég get tekið undir að já, ég tel að fjölmiðlar séu gerendur í þjóðfélaginu, – gerendur í aðhaldi við stjórnvöld, gerendur í að miðla upplýsingum og gerendur í að efla umræðu í lýðræðissamfélaginu Íslandi.

Þeir eru einnig gerendur í að viðhalda kynjaskekkju í samfélaginu.

Í rannsókninni Konur og karlar í fjölmiðlum. Ísland í alþjóðlegir fjölmiðlavöktun kemur fram að í aðdraganda bankahrunsins þá voru karlar 97% viðmælenda en konur 3%.  Önnur rannsókn um umfjöllun fjölmiðla um stjórnmálafólk fyrir alþingiskosningar 2009  sýndi að stjórnmálakarlar fengu meiri umfjöllun en fjöldi þeirra á framboðslistum gaf tilefni til og stjórnmálakonur fengu minni umfjöllun en fjöldi þeirra og staða á framboðslistum gaf tilefni til.

Sama kom í ljós í svörum sem Tryggvi Þór Herbertsson fékk við spurningu um viðmælendur í fréttum og fréttatengdum þáttum hjá RÚV.

Fjölmiðlar eru þannig ekki að sýna spegilmynd af samfélaginu,  – skipað konum og körlum svona cirka til helminga, hófsömu fólki og fólki fullu af vandlætingum, fólki með hugmyndir og fólki sem er fullkomlega hugmyndasnautt og allur skalinn þar á milli.

Fjölmiðlar sýna heiminn alltof oft í samræmi við þá sem hafa hæst, garga mest, eiga mest eða hafa mest völd.

Þar verða því sjónarmið kvenna alltof oft undir, heyrast ekki og sjást ekki.

Spegilmyndin sem birtist af samfélaginu er því bjöguð.

Því vil ég breyta.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Jakob Bjarnar Grétarsson

    Þú hefur ekki skilið orð af því sem ég hef verið að segja. Ekki staf.

  • Einar Steingrímsson

    Eygló: Telurðu rétt að reyna að breyta því sem þú vilt breyta í þessum efnum með lagasetningu og opinberu eftirliti?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fimm? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur