Fimmtudagur 28.04.2011 - 11:27 - Rita ummæli

Kristinn og LÍÚ

Á stundum verður maður sleginn yfir þeirri ósanngirni og ósannindum sem fólk leyfir sér að viðhafa um Framsóknarflokkinn, ekki hvað síst þegar um fyrrum flokksmenn er að ræða.

Kristinn H. Gunnarsson skrifar pistil undir fyrirsögninni Framsókn gengin í LÍÚ og fjallar þar um nýja sjávarútvegsstefnu Framsóknarflokksins.  Þar fullyrðir hann:  „Hin nýja forysta hefur gengið lengra í því en þeir sem ýtt var til hliðar gerðu að gera flokkinn að verkfæri fyrir fáeina eignamenn og sérhagsmunaaðila.“

Þetta er einfaldlega ósatt.

Framsóknarflokkurinn hefur beitt sér af einurð fyrir almannahagsmunum, ekki hvað síst í skuldamálum heimila og fyrirtækja og Icesave málinu á síðustu tveimur árum.  Það sama viljum við gera í sjávarútvegsmálum.

Söguleg sátt náðist á flokksþinginu um stefnu í sjávarútvegsmálum. Inn á flokksþingið komu drög að tveimur ályktunum, önnur frá sjávarútvegsnefnd flokksins og hin frá Sambandi ungra Framsóknarmanna. Niðurstaðan varð að sameina þessar tillögur og taka það besta úr þeim báðum. Megintillagan er að aflaheimildum verði skipt í tvo potta. Í pott 1 verði gerður nýtingarsamningur til 20 ára á grunni aflaheimildar á hvern bát. Samningurinn verði endurskoðanlegur á fimm ára fresti, með möguleika á framlengingu til fimm ára í senn.  Ekkert segir um að samningurinn verði sjálfkrafa framlengdur. Gerð verður krafa um veiðiskyldu og takmörkun á framsali.  Jafnframt þarf að takmarka óbeinar veðsetningar aflaheimilda til að draga úr skuldsetningu greinarinnar. Pottur 2 færi til fiskvinnslu, ferðaþjónustuveiða, nýsköpunarverkefna og strandveiða og vaxi í allt að 15 % af einstökum tegundum samhliða stofnstærðaraukningu.

Um þessar tillögur skrifaði Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri Grænna og varaformaður endurskoðunarnefndar ríkisstjórnarinnar um fiskveiðistjórnunarkerfið: „Framsóknarflokkurinn samþykkti á landsfundi sínum á dögunum tillögur í sjávarútvegsmálum sem falla vel að niðurstöðum endurskoðunarhópsins og því frumvarpi sem er í undirbúningi.“

LÍÚ sagði sig frá starfi endurskoðunarnefndarinnar og hefur barist hatrammlega gegn því frumvarpi sem er í undirbúning, m.a. með því að stöðva gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.

Hvernig getum við þá verið að gæta sérhagsmuna þeirra?

Okkar hlutverk er og verður að vega og meta hagsmuni heildarinnar. Það samræmist ekki hagsmunum heildarinnar að rústa lykilatvinnugreinum, ekki frekar að það samræmist almannahagsmunum að útgerðarmenn njóti alls ágóðans af sjávarauðlindinni.

Markmiðið er að finna sanngjarna niðurstöðu fyrir samfélagið og það teljum við að ný sjávarútvegsstefna Framsóknarmanna geri.

Menn skulu einnig varast að kasta steinum úr glerhúsi.  Kristinn H. Gunnarsson sat í fjöldamörg ár á Alþingi, m.a. sem formaður þingflokks Framsóknarmanna og varaformaður sjávarútvegsnefndar í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarmanna.

Þar studdi hann við óbreytt kerfi.

Með þeim rökstuðningi sem Kristinn setur fram mætti þá spyrja hvort hann sé þá loksins að tilkynna að hann hafi sagt sig úr LÍÚ?

Eða ekki?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sjö? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur