Í ályktun flokksþings Framsóknarmanna um sjávarútvegsmál segir: „Tryggja verður sameign þjóðarinnar á sjávarauðlindinni m.a. með ákvæði í stjórnarskrá sbr. lög nr. 116 frá 2006. – 1.gr. – Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign þjóðarinnar.“
Þessi áhersla Framsóknarmanna á að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar er ekki ný.
Helsta gagnrýnin sem við höfum fengið á þetta er að erfitt sé að skilgreina hvað sé sameign þjóðarinnar eða þjóðareign. Því getur verið ágætt að rifja upp frumvarp sem þingflokkur Framsóknarmanna flutti á 135. og 136. löggjafarþingi um breytingar á stjórnarskrá Íslands.
Þar segir í 1. gr.: „…Náttúruauðlindir og landsréttindi, sem ekki eru háð einkaeignarrétti, eru þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Ríkið fer með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar.
Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila. Þó má veita þeim heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi, að því tilskildu að hún sé tímabundin eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Slík heimild nýtur verndar sem óbein eignarréttindi.
Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt og á grundvelli sjálfbærrar þróunar og skal arði af þeim varið til þess að vernda auðlindirnar, rannsaka þær og viðhalda þeim, svo og til hagsældar fyrir þjóðina að öðru leyti.“
Í greinargerðinni er m.a. fjallað um álitsgerð Sigurðar Líndal og Þorgeirs Örlygssonar, lagaprófessora þess efnis að ekkert er því til fyrirstöðu að innkalla úthlutaðar veiðiheimildir í áföngum á lengra tímabili og endurúthluta þeim, að því tilskildu að þeir, sem fengið hafa úthlutað slíkum heimildum í núverandi kerfi og öðlast hafa á þeim grundvelli stjórnarskrárvarin atvinnuréttindi fái sanngjarnan og hæfilegan frest til að laga rekstur sinn að breyttu laga- og rekstrarumhverfi.
Þessi áhersla okkar kom einnig fram í tillögu til breytinga á stjórnarskránni sem við stóðum að ásamt Samfylkingunni, Vinstri Grænum og Frjálslynda flokknum fyrir síðustu alþingiskosningar.
Niðurstaða síðasta flokksþings Framsóknarmanna byggði m.a. á þessari hugsun. Lagt er til að gerður verði nýtingarsamningur til u.þ.b. 20 ára á grunni aflaheimildar á hvern bát innan núverandi kvótakerfis (ca. 91% af aflaheimildunum). Samningurinn yrði endurskoðanlegur á fimm ára festi með möguleika á framlengingu til fimm ára í senn. Svigrúm til breytinga á samningunum yrði takmarkað. Jafnframt myndi nýtingarsamningurinn innihalda ákvæði um veiðiskyldu og takmarkað framsal. Heimild til óbeinna veðsetninga yrði takmarkað og greitt yrði fyrir nýtingarréttinn árlegt veiðigjald sem myndi byggjast á afkomu greinarinnar.
Útgerðarmenn myndu vita að hverju þeir ganga næstu 20 árin í nýtingu á sameign þjóðarinnar, sjávarauðlindinni.Von mín er að þeir nýti auðlindin sem við treystum þeim fyrir á sem hagkvæmastan máta og á grundvelli sjálfbærar þróunar.
Á móti verðum við að tryggja að arði af auðlindinni verði varið til að vernda auðlindirnar, rannsaka þær og viðhalda þeim, svo og til hagsældar fyrir þjóðina að öðru leyti.
Rita ummæli