Miðvikudagur 25.05.2011 - 11:43 - 1 ummæli

Framsal og veðsetning

Ein gagnrýnin (af mörgum) á frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um fiskveiðistjórnun er að það taki hagræðið úr kerfinu þar sem ekki verður lengur hægt að framselja aflaheimildir á milli fyrirtækja né að veðsetja óbeint.

En er það svo?

Í 7.gr. frumvarpsins segir: „Varanlegt framsal aflahlutdeilda er óheimilt. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er framsal aflahlutdeilda heimilt sem hér segir:
1.      Framsal aflahlutdeilda milli skipa í eigu sama aðila, einstaklings eða lögaðila.
2.      Framsal aflahlutdeilda milli ótengdra aðila er þó heimilt, með þeim takmörkunum að um jöfn skipti sé að ræða milli aðila í þorskígildum talið.
3.      Krókaaflamarkshlutdeild verður aðeins flutt til báts sem er undir 15 brúttótonnum, enda hafi hann veiðileyfi með krókaaflamarki. Aðrar aflahlutdeildir verða ekki fluttar til báta með krókaaflamark.“

Ég get ekki séð að þetta ákvæði komi í veg fyrir að fyrirtæki með nýtingarsamninga gangi kaupum og sölu.  Þótt ákvæði yrðu sett í nýtingarsamningana um að ekki mætti skipta um kennitölu á þeim, þá væri hægt að reka viðkomandi fyrirtæki áfram undir sömu kennitölu, með kaupandann sem móðurfélag eða renna þeim svo saman.  Við það tæki nýtt félag við öllum skuldbindingum. Ef fyrirtæki eða einstaklingur hættir rekstri mun nýtingarsamningurinn falla niður og aflaheimildum verða úthlutað aftur.

Ekki er hægt að banna að fyrirtæki skipti um eigendur, því það myndi þýða að við gætum aldrei skráð sjávarútvegsfyrirtæki á markað þar sem hlutabréf skipta um eigendur daglega.

Þá stendur eftir bannið við veðsetningunni, beinni og óbeinni í 8. gr frumvarpsins. Gagnrýnendur segja að bannið við óbeinu veðsetningunni muni leiða til þess að enginn vilji lána sjávarútvegsfyrirtækjum.

Þessu er ég ósammála.

Gallinn við veðsetningu á óveiddum afla er braskið og áhrif þess á efnahagslegan stöðugleika.  Óbeina veðsetningin við framsal leiddi til verðbólu á aflaheimildum. Ekki virtist skipta máli hvernig fyrirtækin voru rekin heldur fyrst og fremst hversu miklar aflaheimildir það hafði. Þetta endurspeglaðist ekki bara í lánveitingum fjármálafyrirtækja til sjávarútvegsfyrirtækja heldur einnig í öðrum lánveitingum sbr. öll skúffufélögin sem fengu lán til kaupa á hlutabréfum eða einstaka eignum.

Afleiðingarnar þekkjum við öll.

Mín von er að í framtíðinni muni lánveitingar til sjávarútvegsins og annarra greina byggjast á mati á verðmætasköpun viðkomandi fyrirtækja, hæfni stjórnendanna, viðskiptatengslum og raunverulegu tekjustreymi.

Ekki væntingum og spákaupmennsku.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Þórdís Björk Sigurþórsdóttir

    Endurskoðandi nokkur sagði skýrsluna vera „algjört krapp“. Eigum eflaust eftir að heyra meira í honum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og einum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur