Föstudagur 27.05.2011 - 18:53 - Rita ummæli

Að reikna RÉTT

Umboðsmaður skuldara kynnti niðurstöður sínar og Kristjáns Jónassonar og Stefáns Inga Valdimarssonar, stærðfræðinga við Raunvísindastofnun Háskólans um endurútreikning gengistryggðra lána.

Fyrst jákvæðu fŕettirnar. Útreikningar þeirra sýna að fjármálafyrirtækin kunna að leggja saman rétt. Bravó, klapp, klapp…

Hún staðfestir einnig að ekki er notuð saman aðferðafræðin hjá öllum fyrirtækjunum.  SP-fjármögnun, Lýsing og Íslandsbanki eru að reikna með öðrum hætti bílalánin sem gefur 3-5% hærri niðurstöðu en hin fyrirtækin.  Íslandsbanki virðist þannig vera að nota aðra aðferðafræði fyrir húsnæðislánin en bílalánin. Þessi fyrirtæki eru væntanlega með meginþorra bílalána á landinu.

En hver hefur ekki efni á því að lána þessum fyrirtækjum eins og nokkra þúsund kalla…

En hver skyldi vera skýringin? Umboðsmaður skuldara skrifar: „Helsti munurinn á aðferðafræði fjármálafyrirtækjanna er að flest fjármálafyrirtækin leggja vaxtavexti við höfuðstól einu sinni á ári. Þrjú síðasttöldu fyrirtækin leggja hins vegar vaxtavexti við höfuðstól bílalána við hvern áfallinn gjalddaga. Mismunurinn á þessum aðferðum virðist geta numið nokkrum prósentum af eftirstöðvum. Ef bílalánið var tekið fyrir 5-6 árum er munurinn líklega á bilinu 3-5% af upprunalegum höfuðstól. Af 3 milljón króna bílaláni gæti munað 100-150 þúsund krónum. Ef lánið var tekið síðar er munurinn minni en ef lánið var tekið fyrr er munurinn meiri.

Ok, – ég vann að vísu að þessu máli á Alþingi og man EKKI eftir að talað væri um að leggja ætti vaxtavexti við höfuðstól.  Við töluðum hvorki um einu sinni á ári né við hvern áfallinn gjalddaga. Reglan í 18. gr. laganna átti að vera tæmandi varðandi hvernig ætti að reikna lánin út.  Við tölum um 3.gr., 4.gr. og 10. gr. laganna en ekki orð um 12. gr. sem leyfir að leggja vaxtavexti við höfuðstól einu sinni ári. Enda bið ég menn um að benda mér á hvar tilvísun í 12. gr. laga um vexti og verðtryggingu er að finna í 18. gr. laganna (lög nr. 151/2010)…

Niðurstöðurnar staðfesta að mínu mati gagnrýni Gunnlaugs Kristinssonar og útreikninga hans.

Ég er einnig undrandi yfir fréttaflutningi RÚV af niðurstöðu umboðsmanns skuldara. Þeir fullyrða að reikniaðferðin sé rétt, en hvar kemur það fram í niðurstöðum umboðsmanns skuldara? Það að geta reiknað 2+2 = 4 er ágætt en til lítils gagns ef þú átt að reikna 2-2 = 0.  Ég reyndi að nota þennan rökstuðning í gamla daga við stærðfræðikennarann minn, en það skilaði litlu …

Aðferðafræðin skiptir hér öllu máli og skýrar leiðbeiningar.

Að allri kaldhæðni sleppt, – þá verður efnahags- og viðskiptaráðherra að kippa buxunum upp um sig og taka af skarið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og átta? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur