Sunnudagur 05.06.2011 - 19:46 - Rita ummæli

Sjómannadagsræða í Eyjum

Ágætu sjómenn, fjölskyldur og aðrir Eyjamenn.

Fiskur hefur alltaf leikið stórt hlutverk í fjölskyldu minni. Við höfum fengist við útgerð, eldi, veiðar, vinnslu, sölu, matreiðslu og í raun flest allt sem viðkemur fisk og sjávarútvegi. Þegar við hittumst, hvort sem er í fjölskylduboðum eða við eldhúsborðið, líður því sjaldan á löngu þar til umræðan er farin að snúast á einhvern hátt um fisk.

Því er mér mjög minnisstætt þegar fjölskylduvinur greip einhvern tímann fram í djúpar samræður um kosti og galla ólíkra veiðarfæra og sagði með mikilli alvöru í röddinni: „Hvaða rugl er þetta að vera endalaust að röfla um fisk?  Framtíðin liggur í sölu á hlutabréfum, fjármálamarkaðnum.  Þar eru peningarnir. Eftir örfá ár eigum við eftir að horfa til baka og velta fyrir okkur hvernig við nenntum að standa í því að eltast við fisk út um allan sjó.“ 

Varla þarf að minnast á að þetta var fyrir hrun og lítið hefur heyrst frá þessum kunningja fjölskyldunnar síðan þá.

Þó þetta viðhorf hafi verið ríkjandi á árunum fyrir hrun eru Íslendingar sem betur fer að átta sig á því að sjávarútvegur er hin raunverulega undirstaða lífskjara í landinu.  Án sjávarútvegsins væri íslenska þjóðin væntanlega enn þá meðal fátækustu þjóða Evrópu. Þúsundir Íslendinga hafa beint framfæri af sjávarútvegi og tugþúsundir byggja framfærslu sína á ýmissi þjónustu við greinina. Í fyrra var verðmæti útfluttra sjávarafurða um 220 milljarðar króna og hafði aukist um 10% frá árinu áður.

Það eru því engar ýkjur að segja að sjávarútvegurinn sé fjöregg þjóðarinnar.

Því er gríðarlega mikilvægt að sjávarútvegurinn fái að vaxa og dafna og að blómleg útgerð geti um ókomna framtíð tryggt vinnu, vöxt og velferð, ekki bara í sjávarbyggðunum, heldur í landinu öllu.

Það kerfi fiskveiðistjórnunar sem við búum við er á margan máta gott, en engin mannanna verk eru svo fullkomin að þau megi ekki bæta. Reyndar tel ég að stærsti vandi kerfisins og það sem mestri ósátt hefur valdið, sé ímyndarvandi. Örfáir einstaklingar og fyrirtæki hafa með hegðun sinni og umsvifum dregið upp ranga mynd af ofsagróða og óráðsíu íslenskra útgerðarmanna og hefur það því miður bitnað á greininni allri. Þó tel ég að á kvótakerfinu okkar séu vissulega ýmsir vankantar sem sníða þarf af.

Þannig lögðu Farmanna- og fiskimannasambandið, Sjómannasambandið og Félag vélstjóra og málmtæknimanna fram sameiginlega bókun við nýlega skýrslu nefndar um endurskoðun á sjávarútveginum. Þar leggja þessi fagfélög fram tillögur þar sem þeir:

  • Fallast á að svokölluð samningaleið verði farin þar sem samið verði við útgerðir um nýtingarrétt á auðlindinni, til uþb 15 ára.
  • Leggja áherslu á að ákvæði komi inn í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins um þjóðareign á auðlindinni.
  • Leggja til að framsal á veiðiheimildum frá skipi verði bannað.  Geti útgerð ekki nýtt veiðirétt sinn sjálf ber að skila umframrétti til ríkisins, sem síðan endurúthlutar réttinum til annarra eftir fyrirfram ákveðnum reglum.  Þó verði heimilt að flytja veiðiheimildir milli eigin skipa og skipta við aðrar útgerðir á veiðiheimildum í einstaka tegundum.
  • Hvetja til að allur óunninn afli sem landað er verði seldur á markaði eða markaðsverð á innlendum fiskmörkuðum verði látið ráða í beinum viðskiptum.
  • Leggja til að í lög verði sett ákvæði um fjárhagslegan aðskilnað milli veiða og vinnslu, þar sem óheimilt verði, út frá samkeppnissjónarmiðum, að nýta aflaheimildir til niðurgreiðslu á hráefni í eigin vinnslur.

Ég tek heils hugar undir þessar tillögur sjómanna og mun berjast fyrir í þeirri rimmu sem nú stendur á Alþingi um framtíð fiskveiðistjórnunarkerfisins.

Við þurfum að tryggja að það fólk sem skapar verðmætin fái eðlilegan hlut í afrakstrinum. Ágóðinn af þessari mikilvægustu auðlind okkar á að skila sér í atvinnu og auknum lífsgæðum allra þeirra sem að nýtingu hennar koma.

Hlustum á raddir þeirra sem raunverulega skapa þau verðmæti sem samfélag okkar byggir á, þeirra sem leggja líf sitt að veði á degi hverjum í glímunni við Ægi svo við hin getum notið góðs af.

Sjómannanna sem við heiðrum hér í dag.

Því hvers virði er allur heimsins kvóti og öll heimsins skip ef við höfum ekki hinar sönnu hetjur hafsins til að bera fiskinn að landi?

Okkur ber ekki bara skylda til að tryggja þeim rekstrarlegt umhverfi til að sinna sínum störfum. Okkur ber skylda til að standa vörð um öryggi þeirra. Og öryggi sjómanna byggir á mörgum þáttum; góðum skipakosti, traustum öryggisbúnaði, reglulegum öryggisæfingum og nægri mönnun skipa.

En síðast en ekki síst byggir öryggi sjómanna á vel búinni Landhelgisgæslu.

Landhelgisgæslan hefur þurft að þola niðurskurð og þrengingar á síðustu misserum, líkt og við öll.  Skip Gæslunnar hafa verið í verkefnum erlendis til að reyna að fjármagna starfsemi hennar og óvíst er hvort nýtt og glæsilegt varðskip eigi eftir að nýtast sem skyldi, þar sem fé skortir til rekstrarins. Við höfum ekki efni á að skera öryggi sjómanna við nögl. Ef vel á að vera þurfa að vera hér fjórar þyrlur og þrjú varðskip í rekstri allt árið.

Þetta verður að tryggja sem og góða framtíðar starfsaðstöðu fyrir starfsemi Landhelgisgæslunnar.

Að lokum vil ég víkja að sjómönnum sem stundum gleymast í fiskveiðisamfélagi á borð við okkar hér í Eyjum. Það eru þeir sem tryggja okkur greiða leið til Norðureyjarinnar, hvort heldur er til vöruflutninga og viðskipta eða til að halda uppi straumi ferðamanna til Eyja og auðvelda okkur að sækja það sem við þurfum upp á land. Þar hefur áhöfn Herjólfs oft staðið í stafni í stórsjó, ekki hvað síst síðustu mánuði.  Áhöfn Herjólfs hefur að mínu mati unnið þrekvirki við mjög erfiðar aðstæður og staðið dyggan vörð um öryggi áhafnar og farþega.

Það ber að þakka og það ber að virða.

Að lokum óska ég sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn og þakka þeim kærlega fyrir að hafa lagt grunninn að því Íslandi sem við erum svo stolt af.

 (Ræða flutt á Stakkagerðistúni 5. júní 2011)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur