Mánudagur 04.07.2011 - 08:18 - Rita ummæli

Verðbólga, ekki mitt vandamál…

Í bítinu í morgun sagði Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar, að verðbólga væri komin til vegna þess að hagkerfið væri að taka aftur við sér. Hann virtist telja að stjórnvöld gætu lítið gert til að draga úr henni.  Vandinn væri helst Seðlabankans að leysa, enda gætu stjórnmálamenn ekki axlað ábyrgð á erfiðum aðgerðum eins og hækkun stýrivaxta.

Þetta var undarlegt að heyra, nánast deja vu 2007-2008…

Seðlabankinn segir að meginskýring á verðbólgunni sé hækkanir á hrávöru, olíu, húsnæði og sköttum.  Hagvöxtur hefur tekið eilítið við sér en fjárfesting er enn þá langt undir því, sem meira að segja forsætisráðherra vill sjá, eftirspurn eftir lánsfé er lítil og atvinnuleysi alltof hátt. Því stemmir það ekki að meginástæða verðbólgunnar sé að hagkerfið sé að taka aftur við sér.

Stýrivextirnir, aðalstjórntæki Seðlabankans, þykir ekki sérstaklega gott við þessar aðstæður.  Í skýrslunni Peningastefna eftir höft viðurkennir bankinn það sjálfur:

„Verðbólga getur aukist tímabundið af öðrum ástæðum en þegar eftirspurn er meiri en framleiðslugeta. Við þær aðstæður verður framkvæmd peningastefnunnar erfiðari. Þetta á sérstaklega við um verðhækkanir sem rekja má til framboðshliðar þjóðarbúskaparins, t.d. hækkunar olíu- eða hrávöruverðs. Í því tilviki fara jafnan saman aukin verðbólga og rýrnandi viðskiptakjör, sem að öðru óbreyttu draga úr efnahagsumsvifum. Aukið aðhald peningastefnunnar til að draga úr verðbólgu gæti þá aukið enn frekar á samdráttinn. Í því tilviki getur því verið rétt að leyfa verðbólgu að rísa tímabundið í trausti þess að það hafi ekki áhrif á langtímaverðbólguvæntingar og hafi því lítil áhrif á verðbólguþróun til lengri tíma litið.“

Mikil hækkun stýrivaxta (ef þeir virka…) getur þannig aukið á vandann, dregið enn frekar úr fjárfestingum og aukið atvinnuleysið.

Á árunum 1970-1980 stóðu stjórnvöld víðs vegar um heim frammi fyrir stöðnun og verðbólgu m.a. vegna mikilla hækkana á olíu.  Lausnin var m.a. lækkun skatta að hætti Reagans auk þess sem dregið var markvisst úr olíunotkun.

Við getum gert það sama.  Við getum lækkað gjöld á olíu, launatengd gjöld og farið markvisst í að draga úr olíunotkun í samfélaginu.

Eða við getum fundið fínan sandhaug, stungið hausnum í hann og vonast eftir því að vandinn hverfi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fimm? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur