Miðvikudagur 03.08.2011 - 11:22 - 8 ummæli

Nauðgarinn ber ábyrgðina

Nauðganir eru hryllilegar og eiga ekki að líðast.  Þrjár nauðganir eru í rannsókn eftir Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.  Fleiri eiga hugsanlega eftir að koma fram.

Þeir sem komu að Þjóðhátíð í Eyjum harma þetta mjög.

Mér finnst þó umræðan vera á nokkrum villugötum þegar gagnrýnin í fjölmiðlum er fyrst og fremst farin að snúa að mótshöldurum.  Það voru ekki nefndarmenn í Þjóðhátíðarnefnd sem nauðguðu.  Það voru ekki gæslumenn í Herjólfsdal sem nauðguðu.

Það voru brenglaðir einstaklingar sem tóku ákvörðun um að nei væri ekki nei og að þeirra vilji skipti meira máli en fórnarlambsins.  Að þeirra væri valdið til að niðurlægja og misnota aðra manneskju kynferðislega.

Ábyrgðin á nauðgun er alltaf þess sem nauðgar.

Það er satt að ákveðnar aðstæður gefa þessum brengluðum einstaklingum frekar tækifæri til að ráðast á fórnarlömb sín.

Er lausnin þá að hætta að bjóða upp á þær aðstæður?  Eigum við að banna útihátíðir? Skv. Stígamótum voru fjórtán tilvik skráð hjá samtökunum á útihátíðum í fyrra. Eigum við þar með að loka öllum skemmtistöðum? Skv. Stígamótum voru tíu brot af þessu tagi framin á eða við skemmtistað í fyrra.  Á að banna fólki að vera utandyra? Skv. Stígamótum voru 32 kynferðisafbrot framin af þessu tagi utandyra í fyrra.

Heildarfjöldi mála hjá Stígamótum vegna kynferðisafbrota; sifjaspella, vændis og nauðgana í fyrra voru 350. Hvert og eitt þeirra alvarlegt, erfitt og sorglegt.

En eigum við að leysa þau með að hætta með útihátíðir, setja upp öryggismyndavélar í heimahús, skírlífsbelti á alla karlmenn eða loka kirkjunni?

Vegna óeðlilegrar hegðunar brenglaðra einstaklinga?

Tryggjum að ábyrgðin sé hjá þeim sem bera hana í raun.

Nauðgaranna sjálfra.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Elfa Jóns

    Ekki vill ég nú draga úr ábyrgð nauðgaranna á sínum gerðum.

    Það er þó greinilega eitthvað að í íslensku samfélagi, sem við getum ekki bara litið framhjá.

    Nauðganir eru ekki sjálfsagður fylgifiskur útihátíða … frekar en aðrir ofbeldisglæpir.

    Þar sem ég bý í Danmörku, þar sem fjölmargar slíkar hátíðir eru haldnar á ári hverju … þá veit ég að svo er ekki.

    Á Hróaskelduhátíðnni í ár voru 100.000 gestir og 1 nauðgun kærð. Hæstu tölur gesta á Þjóðhátíð eru 14.000 og 4 nauðganir kærðar. Það þýðir að það eru 28 sinnum meiri líkur á að lenda í nauðgun á Íslandi en í Danmörku. Svona er þetta á hverju einasta ári. Hverju einasta.

    Þetta er samfélagsvandamál sem þarf að taka á. Augljóslega stærra vandamál á Íslandi en á hinum Norðurlöndum.

    Mig hefur lengi dreymt um nauðgunarfræðslu sem beint er að ungum drengjum. Hætta að einblína á hvernig fórnarlömbin eiga að forða sér og fara að horfa á að breyta hugarfari gerendanna.

    Þú ert í ágætri aðstoðu til að koma slíku til leiðar.

  • Eygló Harðardóttir

    Sæl Elfa,
    Árið 2009 voru kærðar 418 nauðganir í Danmörku eða 0,00764% af íbúafjölda. Árið 2009 voru kærðar 99 nauðganir á Íslandi, eða 0,031% af íbúafjölda.

    Það er rétt að hlutfall nauðgana sem eru kærðar hér á landi virðist vera töluvert hærra en í DK. Einnig eru fleiri nauðganir hlutfallslega á útihátíðum hér en á Hróarskeldu. Hins vegar virðist hegðun nauðgaranna vera alltof lík, – að konur séu sérstaklega varnarlausar þegar þær víkja sér afsíðis til að pissa sbr. http://www.dr.dk/Nyheder/Kultur/2010/06/30/091133.htm?rss=true eða þegar þær leggjast til hvílu í tjöldum sínum. http://roskilde.lokalavisen.dk/festivalen-fire-anmeldelser-af-voldtaegter-/20110703/artikler/707049963/1620

    Hlutfall tilkynntra nauðgana hefur lækkað stöðugt í Danmörku, en haldist stöðugt hér á landi. Af hverju?

    Og hvað er til ráða? Ég tek undir þessar hugmyndir þínar. Einnig þurfum við að skoða hvað sé hægt að gera til að gera aðstæður erfiðari fyrir nauðgarana = betri lýsing, meiri gæsla, meiri upplýsingar á staðnum um sálgæslu, minni ölvun og að við gætum hvert og eitt að félögum okkar.

  • Mikil umræða hefur verið í samfélaginu um nauðganir á útihátíðum sem voru haldnar þetta árið. 5 í eyjum og 1 á akureyri, Nú hef ég aðeins verið að pæla í hlutum er varðar gæslu í dalnum og má með sanni segja að þó hún hafi verið mjög sýnileg og góð að þá má alltaf gera betur, T.d. væri ekki sniðugt að hafa sér gæsluhópa sem eru við tjadsvæðin alla nóttina og einnig að hafa gæslu allan sólarhringinn við salernin? Aðra hópa í brekkunni og svo aðra sem eru á röltinu um dalinn? Þetta er bara hugmynd til að auka gæslu svo hægt sé að reyna að hindra að þessar nauðganir eigi sér stað. Hér er ég aðeins að tala um á Þjóðhátíðinni en það verður að skoða þetta allt í heild hvar eru flestu tilræðin gerð á hátínum.

  • Sigríður Kristinsdólttir

    En þeir sem voru forsvarsmenn útihátíðarinnar voru mjög borugrattir um hvað allt hefði gengið vel í Herjólfsdal. Vitað er að forsvarsmenn hátíðarinnar hafa ekki viljað vita af Stígamótum þótt þar séu sérfræðingar með allt að 20 ára reynslu varðandi nauðgunarmál, sifjaspell og vændi. Sálfræðingurinn sem var að tala núna áðan á rás tvö (kl 16.35) var mjög ángæður með teimið og sagði að allt hefði gengið vel hjá þeim og búið væri að fara yfir öll mál, en viðurkenndi að hann hefði ekki haft hugmynd um hvað hann var að fara út í þegar hann tók að sér vakt á laugardagskvöldið. Hefði ekki verið betra að hafa þarna samtök sem er með 20 ára reynslu því þótt maður sé menntaður sálfræðingur veit hann ekkert endilega mikið um svona hluti.

  • Þórdís

    Gæslan er víst mjög sýnileg og er skipt niður eftir svæðum.

  • Sigríður Kristinsdólttir

    Þetta átti auðvitað að vera „borubrattir.“

  • Jóhannes Þór

    Góður pistill Eygló. Að sjálfsögðu ber glæpamaðurinn ábyrgðina.

    Hér í kommentum er talað um að það þurfi að uppfræða alla drengi til að koma í veg fyrir að þeir verði gerendur. Í sama streng tekur talskona Stígamóta í viðtölum. Það sé betri forvörn en að kenna stúlkum að verjast nauðgurum.

    Stóri vandinn við þessa orðræðu, núna eins og endranær í íslensku samfélagi, er að hún gerir exclúsíft ráð fyrir því að karlmenn séu gerendur kynferðisofbeldis og konur þolendur þess.

    Þetta er rangt. Alrangt. Svo ótrúlega rangt að það er fullkomin skömm að því að árið 2011 sé öll umræða um nauðgun og annað kynferðisofbeldi ennþá föst í þessum fordómahöftum.

    Það hvernig hugtakið kynbundið ofbeldi er notað í daglegri orðræðu er ágætt dæmi sem endurspeglar þennan skilning samfélagsins. Þegar rætt er um kynbundið ofbeldi er rætt um ofbeldi karla gegn konum, þrátt fyrir að skilgreining hugtaksins rúmi annað. Slík óleiðrétt notkun hugtaksins gerir ekkert nema styrkja þennan almenna, en því miður ranga skilning. Hugtakið sem ætlað er að berjast gegn ofbeldinu er þannig jákvæö styrking þess að eitt kynið fremji ofbeldisverk gagnvart hinu, karlar gerendur, konur þolendur. Þessari orðræðu, þessari röngu notkun þessa hugtaks, þarf að breyta.

    Konur eru líka gerendur. Karlar eru líka þolendur.

    En eins og glöggt má sjá af viðtölum og umræðu eftir útihátíðirnar um helgina er það ekki viðurkennt. Bara alls ekki.

    Það er mjög ánægjulegt að þeim konum fjölgar sem kæra naugun strax eftir að hún hefur átt sér stað. Vonandi mun sú þróun halda áfram. Nauðgun á aldrei að líðast. Sem betur fer hefur farið fram mikil umræða og forvarnir í samfélaginu á undanförnum árum til að hvetja konur til að kæra nauðganir. Sú jákvæða styrking virðist hafa borið árangur að einhverju marki.

    En rannsóknir sýna að karlar kæra mjög sjaldan nauðgun, og nánast aldrei ef gerandinn er kona. Af hverju ætli það sé gott fólk?

  • það verður samt sem áður að brýna fyrir fólki að ekki drekka yfir sig svo að það verði nánast rænulaust, það skapar hættu á að verða fórnarlamb varganna. (en eflaust vill drykkjuþjóðin ekki heyra slíkt því að þá er maður sakaður um að reyna að „kenna fórnarlambinu um“, sem er ekki raunin, maður er að reyna að hjálpa fólki að setja sig ekki í hættu með ákv. áhættuhegðun sem vitað er að hefur áhrif)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur