Þriðjudagur 16.08.2011 - 18:29 - 6 ummæli

Skortir lagastoð fyrir verðtryggingunni?

Umboðsmaður Alþingis hefur kallað eftir gögnum frá Seðlabanka Íslands um hvort verðtrygging hafi verið reiknuð í samræmi við lög.

Verðtryggingu var komið á með Ólafslögunum.  Í 34. gr. laganna segir: „Stefna skal að því að verðtryggja sparifé landsmanna og almannasjóða. Í því skyni er heimilt, eins og nánar greinir í þessum kafla, að mynda sparifjárreikninga og stofna til lánsviðskipta í íslenskum krónum eða öðrum verðmæti með ákvæðum þess efnis, að greiðslur, þar með taldir vextir, skuli breytast í hlutfalli við verðvísitölu eða gengi erlends gjaldeyris, sbr. 39. gr.“

Í ákvæði til bráðabirgða (þetta er lykilatriði)  sem varð 13. grein laga nr. 10/1961 um Seðlabanka Íslands segir: „Vaxtaákvarðanir á árunum 1979 og 1980 skulu við það miðaðar, að fyrir árslok 1980 verði í áföngum komið á verðtryggingu sparifjár og inn- og útlána, sbr. VII. kafla þessara laga um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Meginreglan verði sú, að höfuðstóll skuldar breytist með verðlagsþróun en jafnframt verði nafnvextir lækkaðir. Afborganir og vextir reiknist af verðbættum höfuðstól. Verðtrygging verði reiknuð í hlutfalli við verðbreytingar. Samhliða verðtryggingu verði lánstími almennt lengdur og skal setja um þetta efni almennar reglur, þar á meðal um heimildir til skuldabréfaskipta af þessu tilefni.“

Almenna reglan var að verðbæta ætti greiðslur, ekki höfuðstól. Með bráðabirgðaákvæðinu var ákveðið að reikna afborganir og vexti af verðbættum höfuðstól.

Væntanlega til að forðast fjöldamótmæli og byltingu var ákveðið að lána fyrir verðbótunum og verðbæta höfuðstólinn, ekki greiðslurnar. Í staðinn fékk fólk sjálfkrafa lánað fyrir verðbótunum með vaxtavöxtum, aftur og aftur…

Þegar núverandi lög, nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu voru sett fylgdi þetta bráðabirgðaákvæði ekki með. Í 13. gr. laganna segir: „Ákvæði þessa kafla gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Með verðtryggingu er í þessum kafla átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu. Um heimildir til verðtryggingar fer skv. 14. gr. nema lög kveði á um annað. Afleiðusamningar falla ekki undir ákvæði þessa kafla.“

Í staðinn er reikniaðferðin útfærð í reglum Seðlabankans nr. 492 frá 2001 með síðari breytingum. Samkvæmt reglunum er verðtryggingin bundin við vísitölu neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar og birtir mánaðarlega. Einnig er heimilt að miða við innlenda eða erlenda hlutabréfavísitölu eða safn slíkra vísitalna. Lánstími verðtryggðra lána er minnst 5 ár og innlán aðeins verðtryggð sé binditími þeirra minnst 3 ár, sem þó má víkja frá í ákveðnum tilvikum, t.d. í tilviki reglubundins sparnaðar. Ekki er kveðið á um fasta eða breytilega vexti. Við útreikning á verðtryggðu láni breytist höfuðstóll þess í samræmi við breytingar á vísitölu milli mánaða. Höfuðstóllinn breytist á hverjum gjalddaga, áður en vextir og afborgun eru reiknuð út.

Nú er spurningin hvort þessi reglugerð hafi lagastoð og það er stórmál ef svo er ekki.

Ef ekki þá hefur útreikningur verðbóta frá 2001 ekki haft lagastoð…

LÖGFRÆÐIÁLIT HH

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • ees samningurinn átti að vernda okkar gegn ólöglegum afleiðusamningum sem verðtryggingin er.

  • Ómar Harðarson

    Ég velti fyrir mér hverng verðtrygging á sparifé er þá reiknuð út ef ólöglegt hefur verið að verðtryggja höfuðstólinn.

  • Grundvallar regla í lögfræði, reglugerð getur aldrei orðið rétthærri en lögin sem hún er samin eftir.
    Lögin segja að verðbæta ber allar greiðslur af láninu, og þegar síðasta greiðsla fer fram hefur lánveitandi, fengið lánið sitt að fullu verðbætt til baka. Alveg sama hvaða bull stendur í reglugerð um seðlabankann, þá getur það aldrei orðið rétthærra, en lögin sjálf, því lánveitandin fær lánið að fullu verðbætt til baka.

  • Eins og verðtryggingin er reiknuð í dag, þá er höfuðstóllinn fyrst verðbættur, í annan stað er greiðslan af höfuðstól verðbætt, og í þriðja lagi eru vextir verðbættir, sem sagt lánveitandinn þrí verðbætir lánið á hverjum gjalddaga.
    Mjög gott myndband um verðtrygginguna á
    Útvarp saga.is

  • Sæl Eygló
    Það er smá misskilningur í gangi í þessu bloggi af þinni hálfu sem ber að leiðrétta.

    þú segir;
    „Almenna reglan var að verðbæta ætti greiðslur, ekki höfuðstól. Með bráðabirgðaákvæðinu var ákveðið að reikna afborganir og vexti af verðbættum höfuðstól.

    Væntanlega til að forðast fjöldamótmæli og byltingu var ákveðið að lána fyrir verðbótunum og verðbæta höfuðstólinn, ekki greiðslurnar. Í staðinn fékk fólk sjálfkrafa lánað fyrir verðbótunum með vaxtavöxtum, aftur og aftur…“

    Það er ekki rétt að með bráðabirgðaákvæðinu hafi verið heimilað að verðbæta höfustólinn sjálfan, til þess hefur aldrei verið heimild. Það var heimilað til bráðabirgða að bæta verðbótunum sem reiknuðust á GREIÐSLUNA við höfuðstólinn sem aukalán … tímabundin aðgerð sem átti bara að vera tímabundin í óðaverðbólgu sem gekk yfir en ekki til langframa. ALDREI í neinum þessum lögum er heimilað að uppreikna höfuðstól lánsins í hverjum mánuði og verðbæta hann aftur og aftur.

  • Eygló Harðardóttir

    Í bráðabirgðaákvæðinu í Ólafslögunum sem varð 13.gr. laga nr. 10/1961 um SÍ segir: „…Meginreglan verði sú, að höfuðstóll skuldar breytist með verðlagsþróun en jafnframt verði nafnvextir lækkaðir. Afborganir og vextir reiknist af verðbættum höfuðstól…“

    Síðan er sett inn annað ákvæði í 2.mgr. 40. gr.laga nr. 13/1979: „Heimilt er að ákveða verðtrygginguna í því formi, að sérstakur verðbótaþáttur vaxta, sem sé tengdur verðlagsbreytingum með formlegum hætti, leggist við höfuðstól láns eða sé hluti forvaxta.“

    Þetta er heimildarákvæði sem SÍ útfærði væntanlega í reglugerð.

    Það sem mér finnst áhugavert er að það er alveg hætt að tala um höfuðstól í gildandi lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001 og aðeins talað um greiðslur, sbr. meginreglan og engin undantekning eða heimildarákvæði fyrir SÍ að hengja reglugerðina á.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og tveimur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur