Miðvikudagur 31.08.2011 - 07:03 - 19 ummæli

Ekki lánað til námsmanna erlendis

Ung íslensk kona hefur búið og starfað í Noregi í tvö ár.  Samhliða hefur hún ítrekað sótt um skólavist í draumaskólann sinn.  Í haust fékk hún loksins draum sinn uppfylltan, með jákvæðum svari um skólavist. Starfinu var sagt upp og næsta skref var að sækja um námslán til LÍN.

Þar brá henni harkalega í brún þegar henni var synjað um námslán.

Menntamálaráðherra (og samstarfsráðherra Norðurlanda) hefur gefið út nýja reglugerð um LÍN sem leyfir þeim ekki að veita námslán til Íslendinga sem búið hafa erlendis lengur en 12 mánuði.

Í 3.gr. nýju reglugerðarinnar segir:  „Námsmenn sem eru íslenskir ríkisborgarar eiga rétt á námslánum samkvæmt 13. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum: 1. Umsækjandi um námslán hafi verið við launuð störf hér á landi: a. síðustu 12 mánuði fyrir umsóknardag, hið skemmsta og haft samfellda búsetu hér á landi á sama tíma. b. í skemmri tíma en 12 mánuði og haft búsetu hér á landi í tvö ár samanlagt á samfelldu fimm ára tímabili.“

Ekki virðast vera samræmdar reglur á milli Norðurlandanna.  Skilst mér einnig að málið hafi ekki verið tekið upp í menntamálanefnd Norðurlandaráðs  né af samstarfsráðherra Norðurlanda.

Eftir stendur unga konan án skólavistar, án vinnu, án framtíðar.

Þetta er ekki í lagi. Ég hef ætíð talið mikla kosti fólgna í því að Íslendingar búi og mennti sig erlendis.  Þannig fáum við fólk heim með fjölbreytta menntun,  góða tungumálakunnáttu, víðtækt tengslanet og aukna víðsýni. Það getur ekki verið að við viljum loka fyrir aðgang að lánasjóðnum í miðjum niðurskurði í íslenska skólakerfinu, atvinnuleysi og kreppu.

Því hef ég ásamt Ragnheiði Ríkharðsdóttur óskað eftir því að menntamálanefnd fundi með ráðherra og LÍN um reglugerðina og skýri stöðuna varðandi réttindi íslenskra ríkisborgara erlendis gagnvart LÍN.

PS. Ég hvet lesendur til að setja inn athugasemdir eða tengja inn á Facebook.  Ég samþykki inn athugasemdir þannig að það getur tekið smá tíma fyrir þær að birtast.  Athugið að ég áskil mér rétt til að eyða út nafnlausum og ómálefnalegum athugasemdum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • Stefán Júlíusson

    Ég sendi þér tölvupóst fyrir nokkru síðan.

    Það sagði ég þér frá því að ég má ekki vinna á Íslandi og vera í sambúð erlendis.

    Það komu engin svör frá þér.

    Hvernig væri að skoða það í leiðinni.

  • Eftir tveggja ára starf í Noregi getur hún sótt um námsstyrk í Noregi.

    Meginreglan er sú að einungis norskir ríkisborgarar fá stuðning frá Lánasjóðnum.

    „Norrænir ríkisborgarar sem stunda nám í Noregi, eiga rétt á námsstuðningi frá Lánasjóðnum ef þeir… hafa búið og verið í fullu starfi í Noregi að minnsta kosti síðustu 24 mánuði áður en námið hefst og hafa greitt skatta í Noregi þann tíma“

    http://www.norden.org/is/nordurloend-fyrir-thig/nam-a-nordurloendum/nam-i-noregi/namsstyrkir-fra-noregi

  • Elfa Jóns

    Aldeilis innilega heimskuleg og skammsýn breytiing á útlánareglum. Þetta þarf að laga hið snarasta.

    Við eigum möguleika á ókeypis/ódýru námi á Norðurlöndum, íslenska ríkið sparar stórfé á því að önnur ríki kosti skólann. Það eina sem Ísland þarf að leggja til er lán til uppihalds nemenda.

    Takk fyrir að vekja athygli á þessu Eygló, vona innilega að þér verði ágengt með málið.

  • Hefur konan rétt á námslánum og/eða styrkjum í Noregi?

  • Steingrímur Jónsson

    Sæl Eygló

    Ég var varafulltrúi í stjórn LÍN veturinn 1998-1999 og sat í svokallaðri vafamálanefnd.

    Eitt fyrsta málið sem kom á borðið hjá mér var þegar það að ung kona hafði sótt um skólavist í Danmörku í tvö ár í röð og fengið inngöngu þriðja veturinn. Stjórn LÍN hafði áður úrskurðað áður en ég kom að þar sem meira en tvo ár voru liðin frá því að hún bjó á Íslandi þá ætti hún ekki rétt á námslánum. (Hún hafði væntanlega flust út til að eiga meiri möguleika á inngöngu – eða með maka sínum, ég man það ekki nákvæmlega)

    Danski námsstyrktarsjóðurinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að þar sem hún hafði sótt um skólavist tveimur árum fyrr þá hefði hún komið til Danmerkur til þess að hefja nám og sú staðreynd að hún hafi verið að vinna á meðan gæfi henni ekki réttindi til danskra námsstyrkja.

    Ég reyndi að gera allt sem ég gat til að benda Málskotsnefnd LÍN á að samnorrænar reglur hlytu að taka á svona málum – manneskjan gæti ekki lent svona á milli kerfa, en því miður komst nefndin að því að a.m.k. hvað LÍN varðaði þá ætti hún ekki rétt á lánum.

    Þannig að þetta dæmi sem þú nefnir er alls ekkert nýtt, síður en svo. Jú, tíminn virðist hafa verið styttur sem er bara til að bæta á skömmina en þegar valið stendur um vondan kost og verri kost ætla ég ekki að gagnrýna ákvörðunina – treystir þú þér til þess?

  • Hún er búinn að borga skatt í Noregi í tvö ár eftir gömlu reglunum ætti hún að vera kominn með full réttindi inn í Norska kerfið.
    Þannig virkar það allavega í Danmörku þannig að hún færi bara beint á SU.
    Ekkert að þessum reglum og engin ástæða fyrir íslenska ríkið að borga fyrir fólk sem borgar skatt í öðrum löndum.

  • Mér finnst þetta eðlilegt.

    Hvers vegna eiga íslenskir skattgreiðendur að niðurgreiða lán til fólks sem býr ekki í landinu?

  • Það má alveg benda þessari ungu konu á að fyrst hún hefur búið og starfað í Noregi síðustu tvö árin á hún rétt á námsaðstoð frá Noregi, sjá hér: http://www.lanekassen.no/Hovedmeny/Stipend-og-lan/Krav/Statsborgerskap/

    Og ef hún er heppin er hluti námsaðstoðarinnar í Noregi styrkur og ekki aðeins lán einsog íslenska námsaðstoðin

  • Eygló Harðardóttir

    Ég hef fengið svör frá ráðuneytinu um að ætlunin er að breyta reglugerðinni til að skýra hana betur. Mun hún verða birt við fyrsta tækifæri.

    Takk fyrir ábendinguna hvað varðar stúlkuna í Noregi og að þetta sé ekkert nýtt. Ég hef þegar sent henni upplýsingar um norska lánasjóðinn. Spurning er hvort norski sjóðurinn muni taka á þessu eins og sá danski?

    Ég hef lagt áherslu á það að samræma ber reglurnar á milli Norðurlandanna og á EES-svæðinu þannig að fólk lendi ekki á milli kerfa. Síðan má spyrja hvort fólk hafi einnig lent í þessu þegar það hefur verið búsett utan EES-svæðisins. Hvað með börn sem fara út í nám með foreldrum sínum og klára menntaskóla þar. Eiga þau ekki rétt á námslánum?

  • Alfred Jónsson

    Rósa þetta er svolítið vanhugsað komment hjá þér.

    Einstaklingur sem hefur unnið launað starf í mörg ár á Íslandi og borgað skatta af því og sennilega ekki kostað ríkið mikið þvi einstaklingar á þessum aldri þurfa almennt lítið á þjónustu ríkisins að halda, (hún hefur ekki verið í námi að því að best verður séð).
    Þegar hún flytur erlendis í stuttan tíma þá missir hún á undraskömmum tíma öll réttindi sem hún hefur áunnið sér (og unnið fyrir)
    Er þetta réttlæti? Þá held ég nú að það sé betra að vera þegn í landi með lága skattprósentu og fá að nota peningana í það sem mann langar frekar en að borga í samneyslu sem maður fær ekki að taka þátt í.

    Auk þess eru námsLÁN nákvæmlega það á Íslandi LÁN en ekki gjöf þau eru verðtryggð og bera vexti ólíkt hinum norðurlöndunum þar sem þetta er námsstyrkur.

    Loks er þetta mismunun, þeir sem eru tekjulausir á Íslandi í 12 mánuði, hugsanlega á atvinnuleysisbótum og flytja síðan til annars lands til að stunda nám þeir eiga rétt á námsláni en þeir sem flytja til annars lands 12 mánuðum fyrir námsbyrjun og stunda þar vinnu eiga ekki þennan rétt og það þótt að þeir hafi sennilega verið ódýrari fyrir íslenska ríkið en þeir sem sitja sem fastast.

    Er eitthvað vit í þessu? Það finnst mér ekki.

  • Alfred Jónsson

    Eygló ég tala af eigin reynslu þegar ég segi það að það er allt of mikið þetta að fólk detti milli kerfa þegar það flytur sig á milli norðurlanda.
    Þegar maður hefur borgað skatt árum og áratugum saman og ekki tekið mikið út þá er afar sárt að eiga hvergi neinn rétt, missa t.d. rétt til atvinnuleysisbóta og námslána alls staðar aðeins vegna þess að maður flutti til annars lands.
    Þetta er eitthvað sem þú og þið á þinginu verðið að laga.

  • Eygló Harðardóttir

    Ég fékk leyfi frá Elíasi Guðjónssyni aðstoðarmanni menntamálaráðherra að birta eftirfarandi úr tölvupósti hans:

    „1. Það hefur engum varið hafnað á grunvelli þessarar nýju reglugerðar. Það sem gerðist var að lögfræðingur LÍN túlkaði hana með öðrum hætti en ráðuneytið og því fékk stjórn sjóðsins nokkur mál af þessu tagi til meðferðar. Stjórnin hefur ekki lokið þessum málum en mun væntanlega gera það í þessari viku.

    2. Vegna þess að hægt var að túlka reglugerðina með mismunandi hætti var tekin sú ákvörðun að gera breytingu á reglugerðinni og mun hún birtast við fyrsta tækifæri. Það þýðir að stjórn sjóðsins mun geta samþykkt lán til þeirra námsmanna sem settir voru á bið vegna þessarar óvissu.“

    Hann benti jafnframt á að þeir sem hefðu upplifað synjun / fengið rangar upplýsingar ættu að vísa máli sínu til vafamálanefndar sjóðsins.

  • Alfred Jónsson

    Takk fyrir þetta Eygló
    Mig langar að segja að ólíkt flestum flokkssystkinum þínum og jafnvel flestum á þingi hefur svo til allt það sem þú hefur látið frá þér verið málefnalegt og skynsamt, takk kærlega fyrir það. Það er afar frískandi að sjá.

    Mig langar þess vegna að hvetja þig til að detta ekki í þessa klassísku íslensku gryfju að fara að reyna að spæla andstæðingana sama hvað það kostar. Við þurfum á viti bornum einstaklingum (eins og þér) að halda ekki tækifærissinnuðum lýðskrumurum eins og t.d. (en ekki takmarkað við)
    Sigurður Kári, Guðlaugur Þór, Ögmundur Jónasson, Sigmundur Davíð, Jón Bjarnason, Kristján Möller Þór Saari osfrv.

    Keep up the good work.

  • Elfa Jóns

    Ég þekki unga konu sem býr í Þýskalandi. Hún er núna í barnsburðarleyfi (launalausu). Maðurinn hennar spilar handbolta í þýsku deildinni (og íslenska landsliðinu).

    Hún hyggst hefja nám þegar barnsburðarleyfi lýkur … en nú á hún hvergi rétt á láni.

    Þetta par sér sannarlega framtíð sína á Íslandi, en annað hvort verða þau að sundra fjölskyldunni … eða þessi unga kona verður að bíða með nám þar til ári eftir að þau flytja heim.

    Hvenær sem það nú verður.

  • Vil bara vekja athygli á því að árið 2006 átti ég samband við LÍN og mér var sagt að ég gat ekki fengið námslán því ég var búsettur erlendis. Ég fékk þó norskt námslán.

  • Skv. minni persónulegu reynslu, þá hafði ég fullan rétt á styrk/láni frá norska Lånekassen, eftir að hafa búið 2 ár í Noregi.

    Það ætti enginn að kvarta yfir því að þurfa ekki að snerta eða vera í „viðskiptum“ við það ógeð sem LÍN er.

    Óska þessari stúlku alls hins besta og hún ætti að prísa sig sæla að vera í þeirri forréttindastöðu að „fá ekki“ að eiga „viðskipti“ við LÍN á þeim forkastanlegu láns-„kjörum“ og lágum greiðslum sem þar er boðið upp á.

    Hún lendir ekki á „milli“ kerfa í Noregi, sér í lagi þar sem hún hefur þegar fengið synjun hjá LÍN.

  • Mig langaði að bæta því við þessa umræðu að einstaklingur eða par sem flytur út í nám og vill koma heim til bæta við sig á ekki möguleika á því.

  • Sæll Alfred.

    Ég fellst á þessi sjónarmið þín varðandi námslán og atvinnuleysisbætur til þeirra sem starfað hafa á Íslandi og greitt sína skatta.

    Ég er líka sammála þér um að betra sé að vera þegn í landi með lága skatta en að vera þvingaður til að taka þátt í samneyslu sem síðan reynist veita lítil réttindi og skammvinn.

    Á Íslandi sætir fólk stöðugum þvingunum af hálfu ríkisvalds/stjórnmálamanna en réttindi almennings skipta valdhafa engu máli.

    Þar liggur hundurinn grafinn.

    Samfélag Íslendinga er einfaldlega svo lélegt.
    Kv.
    R

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sjö? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur