Af gefnu tilefni tel ég ástæðu til að endurbirta grein mína Hver á bílinn minn?
Hvers vegna eru þá ökutækin sem lánað var til enn skráð á fjármögnunarfyrirtækin hjá Ökutækjaskrá? Í kjölfar gengisdóma Hæstaréttar og lagasetningar í kjölfarið hafa tugþúsundir lántakenda fengið endurútreikning á lánum sínum, sem er viðurkenning fjármögnunarfyrirtækja á að samningarnir voru í raun lán en ekki leiga.
Þrátt fyrir þetta neita fyrirtækin og Ökutækjaskrá að breyta eigendaskráningu ökutækjanna í samræmi við dómana.
Forsendan fyrir ólögmæti gengistryggingarinnar var að samningarnir væru lán. Ástæðan var að gengistrygging leigu er lögleg, en ekki lána samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir: “Þegar þetta allt er virt verður að líta svo á að stefndi hafi í raun veitt áfrýjanda lán til kaupa á bifreið, sem stefndi kaus í orði kveðnu að klæða í búning leigusamnings í stað þess að kaupa af áfrýjanda skuldabréf, sem tryggt væri með veði í bifreiðinni.”
Fjármögnunarfyrirtækin keyptu aldrei viðkomandi ökutæki og voru ekki aðilar að kaupunum. Því geta þau ekki átt viðkomandi ökutæki. Eignarréttur færist frá seljanda til kaupanda, ekki fyrirtækjanna sem lána til kaupanna.
Þetta staðfestir skattaleg og bókhaldsleg meðferð viðkomandi ökutækja. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. X-532/2010 var bent á að í bókhaldi fjármögnunarfyrirtækisins var tækið aldrei fært sem eign, heldur hafi aðeins krafan verið færð til eignar samkvæmt samningi. Tekjur vegna samningsins voru færðar sem vaxtatekjur, en ekki leigutekjur. Sama virðist gilda um önnur fjármögnunarfyrirtæki við skoðun á ársreikningum.
Samningsákvæði um að eignarréttur haldist hjá einhverjum sem keypti aldrei ökutækið, eignaðist það aldrei, færði það aldrei til bókar né taldi fram til skatts er því merkingarlaust þegar það er lesið í tengslum við lög, önnur ákvæði samningsins, framkvæmd hans og túlkun dómstóla á innihaldi hans.
Fjármögnunarfyrirtækin geta ekki bæði sleppt og haldið. Annað hvort eiga þau ökutækin eða ekki. Hæstiréttur segir að þau eigi þau ekki og það hlýtur að gilda.
Rita ummæli