Miðvikudagur 14.09.2011 - 18:06 - 7 ummæli

Kæri skráningu bílsins

Í morgun var lögð fram stjórnsýslukæra til innanríkisráðherra vegna synjunar Umferðarstofu um breytingu á skráningu bifreiðar fjölskyldunnar í ökutækjaskrá. Í ökutækjaskrá er eiginmaður minn Sigurður E. Vilhelmsson skráður umráðamaður fjölskyldubílsins en SP fjármögnun eigandi.

Ég óska jafnframt eftir að heyra frá fleirum sem hafa áhuga á að skýra eignarhald fjölskyldubílsins.  Hægt er að senda mér tölvupóst á eyglohardar@althingi.is.

Kæran er svohljóðandi:

Sigurður E. Vilhelmsson keypti bifreiðina RT337 af Heklu með bílaláni frá SP fjármögnun árið 2004. Í kjölfarið var Sigurður skráður umráðamaður bifreiðarinnar hjá ökutækjaskrá í gegnum Heklu.  Kaupin fóru þannig fram að Sigurður fór til Heklu, valdi sér bifreið og keypti af Heklu og samdi um greiðslukjör og verð við Heklu án þess að SP fjármögnun kæmi þar nokkuð nærri.

Sigurður fór fram á við Umferðarstofu sem fer með stjórnsýslu ökutækjaskrár, með tölvupósti dagsettum 2. ágúst 2011, að skráningu ökutækisins RT337 yrði breytt í samræmi við dóma Hæstaréttar nr. 153/2010 og 92/2010 og reglugerð nr. 751/2003, en í þeim dómum tók Hæstiréttur efni svokallaðra bílasamninga/kaupleigusamninga umfram form og dæmdi að um væri að ræða lán en ekki leigu.

Þannig hafi SP fjármögnun ekki verið aðili að kaupunum og hafi því ranglega verið skráður eigandi bifreiðarinnar. Jafnframt er það skilningur Sigurðar að bifreiðin sé ekki skráð í efnahagsreikning SP fjármögnunar, heldur aðeins krafan á Sigurð.

Þegar Sigurður fór fram á að skráning ökutækisins væri færð í samræmi við dóma Hæstaréttar, lög og reglugerð um skráningu ökutækja var því hafnað.

Í tölvupósti dagsettum þann 11. ágúst 2011 hafnaði XX, lögfræðingur Umferðarstofu að breyta eigendaskráningu bifreiðarinnar.  Rökstuðningur Umferðarstofu var að í Hæstaréttardómunum hafi ekki verið véfengt að eigandi bifreiðar sé fjármögnunarfyrirtækið sjálft þegar um bíla- og kaupleigusamninga ræðir. Í dómunum hafi jafnframt verið viðurkennt að önnur ákvæði en þau sem lúta að gengistryggingu og vöxtum standi óbreytt á milli aðila.  Greiðsla endurgjalds fyrir afnot bifreiðarinnar í umsaminn tíma og kaupverð í lok samningstíma sé grundvallarforsenda þess að eignarréttindin geti færst yfir til kaupanda.

Því sé umrædd skráning í samræmi við þann samning sem liggi til grundvallar lögskiptum aðila og engar forsendur til þess að breyta þeirri skráningu fyrr en greiðsla endurgjalds og umsamið kaupverð hafi verið innt af hendi.

Slík breyting myndi fara gegn hinni ólögfestu meginreglu samningaréttar um skuldbindingargildi samninga, ásamt því að brjóta gegn eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

Þessu hafnar Sigurður og kærir ákvörðun Umferðarstofu til Innanríkisráðuneytisins.

Ákvörðunin sé efnislega röng og hana beri að leiðrétta.

Viðeigandi réttarheimildir

Í dómum Hæstaréttar nr. 153/2010 og 92/2010 var komist að þeirri niðurstöðu að bílasamningarnir/kaupleigusamningarnir hafi í raun verið lánasamningar, en ekki leigusamningar. Þetta var síðar staðfest enn frekar með lögum nr. 151/2010.

Í dómi nr. 92/2010 þar sem SP fjármögnun var aðili að var deilt um þrjú atriði.  Í fyrsta lagi hvort samningur málsaðila frá 5. maí 2007 hafi verið lánssamningur eða leigusamningur, hvort samningurinn hafi verið skuldbinding í erlendri mynt eða íslenskum krónum, sem bundnar séu gengi erlendra gjaldmiðla og loks hvort slík gengistrygging, sé um hana að ræða sé heimil að lögum.

SP fjármögnun hélt því fram að samningurinn frá 5. maí 2007 væri ekki lán, heldur leiga, og félli þar af leiðandi ekki undir reglur VI. kafla laga nr. 38/2001 um verðtryggingju lánsfjár.  Af þeim sökum hefði verið frjálst að semja um gengistrygginguna án tillits til þeirra, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar í máli nr. 98/1978.

Dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að bílasamningurinn hafi ekki verið leiga, heldur lán.  Rökstuðningur fyrir því er rakinn:

1) Í texta samningsins tekið fram að hann sé um kaupleigu, en allt að einu var þó í niðurlagi hans sagt að leigutaki gerði sér grein fyrir því að „lántaka í erlendum gjaldmiðli“ væri áhættusöm, því gengisbreytingar gætu leitt til „hækkunar á höfuðstól á lánstíma og þar með hækkun á afborgun höfuðstóls og vaxta.“

2) Í greiðsluyfirliti var jafnframt rætt um afborganir og sýnt hverjar yrðu „eftirstöðvar“ eftir hverja greiðslu. Í skilmálum, sem fylgdu samningnum, voru ákvæði um vexti, sem greiða skyldi samhliða afborgunum, en slíkt tíðkast í lánssamningum og á engan veginn við í leigusamningum.

3) Þá var þar jafnframt gengið út frá því að við vanefndir gæti stefndi rift samningi og allt að einu krafið gagnaðila um fullar greiðslur til loka samningstímans, en við riftun leigusamnings fellur niður eðli máls samkvæmt skylda leigutaka til áframhaldandi greiðslu á leigu, þótt leigusali geti eftir atvikum krafið hann um bætur vegna missis leigutekna að því afstöðnu.

4) Í samningnum var þessu til viðbótar gengið út frá því að áfrýjandi yrði eigandi bifreiðarinnar gegn greiðslu á 1.000 krónum eftir að hafa innt af hendi 84 mánaðarlegar afborganir, sem svo voru nefndar bæði í greiðsluyfirliti og greiðsluseðlum frá stefnda.

5) Auk alls þessa verður að gæta að því að eftir gögnum málsins leitaði áfrýjandi ekki eftir því að taka á leigu frá stefnda bifreið, sem sá síðarnefndi átti þá þegar, heldur valdi áfrýjandi bifreiðina og samdi um kaup hennar, þar á meðal um verð og greiðslukjör, án þess að stefndi kæmi þar nærri.

Segir í dómnum: „Þegar þetta allt er virt verður að líta svo á að stefndi hafi í raun veitt áfrýjanda lán til kaupa á bifreið, sem stefndi kaus í orði kveðnu að klæða í búning leigusamnings í stað þess að kaupa af áfrýjanda skuldabréf, sem tryggt væri með veði í bifreiðinni.

Af þessum sökum lagði Hæstaréttar til grundvallar að hér hafi verið um að ræða lánssamning í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001. Í framhaldinu komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að lánið væri í íslenskum krónum og að gengistrygging lánsins væri ólögmæt.

Í dómi Hæstaréttar nr. 153/2010 var tekist um nánast sömu deiluatriði og komist að sömu niðurstöðu.

SP fjármögnun ásamt öðrum fjármögnunarfyrirtækjum hafa farið í gegnum lánasöfn sín og greint hverjir samningar eru í raun lánssamningar og hverjir eru leigusamningar og fylgt þannig fordæmi Hæstaréttar og lögum nr. 151/2010.  Sönnun fyrir því er endurútreikningur á lánssamningi Sigurðar við SP fjármögnun og áréttað á vef umboðsmanns skuldara 21. febrúar og 19. maí sl.

Endurútreikningur jafngildir því að um lánasamning sé að ræða. Enginn endurútreikningur hlýtur að jafngilda því að fyrirtækið hafi metið svo að um leigusamning væri að ræða.

Þar sem SP fjármögnun var ekki aðili að kaupunum á RT 337 sbr. framangreinda atvikalýsingu og um að ræða lánssamning gagnvart SP fjármögnun sbr. dóma Hæstaréttar getur fyrirtækið ekki haft neinn stjórnarskrárvarinn eignarrétt.  Siguður hefur því réttmæta ástæðu til að líta svo á að hann sé raunverulegur eigandi bifreiðarinnar RT337. Skattaleg og bókhaldsleg meðferð bifreiðarinnar ætti einnig að staðfesta það, hvað varðar framtal til skatts og færsla í efnahagsreikningi fyrirtækisins.  Þar er aðeins krafan eignfærð en ekki bifreiðin, vaxtatekjur færða til tekna en ekki leigutekjur.  Í ársreikningum SP fjármögnunar er einnig ítrekað vísað til lántaka, útlána, lánsáhættu, lánaregla, lánveitinga o.s.frv.  Ekki er talað um leigu eða leigugreiðslur.

Skráning í ökutækjaskrá ætti að sjálfsögðu að endurspegla raunverulegt eignarhald bifreiðarinnar sbr. 4. gr. rg. nr. 751/2003.

Óásættanlegt er að röng skráning ökutækis í ökutækjaskrá sé notuð til að réttlæta ólögmætar  vörslusviptingar. Má þar benda á dóm Hæstaréttar í máli nr. 315/2010 þar sem fram kemur í héraðsdómi sem Hæstiréttur staðfesti: „Samkvæmt framlagðri útprentun úr ökutækjaskrá er gerðarbeiðandi skráður eigandi framangreindra ökutækja en gerðarþoli skráður umráðamaður þeirra.“  Ekki var deilt í málinu um þessi gögn og tók því dómurinn ekki afstöðu til lögmætis gagnanna.

Eignarréttarfyrirvari  er því þýðingarlaus enda í ósamræmi við 8. gr. og 9. gr. laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og lögum nr. 57/2005.

Hvað varðar ólögfesta meginreglu samningsréttar um skuldbindingargildi samninga þá er hún engan veginn frávikalaus og meðal annars er lögfest sú regla í 8. gr. laga nr. 57/2005 að viðskiptahættir eru óréttmætir ef þeir brjóta í bága við góða viðskiptahætti gagnvart neytendum og raska verulega eða eru líklegir til að raska verulega fjárhagslegri hegðun neytenda.  Í 9. gr. laganna er tilgreint að þar falli m.a. undir rangar upplýsingar um eðli vöru eða þjónustu, helstu einkenni vöru eða þjónustu, t.d. notkun, samsetning eða árangur sem vænta má af notkun hennar sem og lögbundin réttindi neytanda.

Í 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga segir jafnframt að samningi má víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig.  Við mat á þessu skal líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til.  Í 36. gr. a segir að þetta gildir um samninga, m.a. samningsskilmála sem ekki hefur verið samið um sérstaklega enda séu samningarnir liður í starfsemi annars aðilans, atvinnurekanda, en í meginatriðum ekki liður í starfsemi hins aðilans, neytanda.  Í 36. gr. b segir jafnframt að ef vafi kemur upp um merkingu samnings skal túlka samninginn neytandanum í hag.

Fullyrða má að allt þetta eigi við um ákvæði lánasamnings SP fjármögnunar og þeirrar þjónustu sem þeir buðu kæranda við fjármögnun á kaupum bifreiðarinnar þar sem Sigurður varð fórnarlamb tilrauna fyrirtækisins til að koma sér markvisst undan m.a. lögum um vexti og verðtryggingu, bókhald, skuldabréf og skattalög.

Kröfur

Kærandi kefst þess að Innanríkisráðuneytið fjalli um ákvörðun Umferðarstofu frá 11. ágúst 2011 sl. þess efnis að synja beiðni hans um að vera skráður eigandi bifreiðarinnar RT337 í ökutækjaskrá stofnunarinnar.  Jafnframt er þess krafist að ráðuneytið fjalli um efnislegt lögmæti ákvörðunarinnar.

Kærandi krefst þess jafnframt að Innanríkisráðuneytið beini því til kærða að kærandi verði skráður eigandi að bifreiðinni RT337.   Jafnframt áskilur kærandi sér rétt til að fá bætt það fjárhagslega tjón sem kærandi kann að hafa orðið fyrir vegna aðgerða eða aðgerðaleysis Umferðarstofu.

Kærandi áskilur sér rétt til að bæta við kröfur sínar, falla frá þeim að hluta eða breyta þeim á síðari stigum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Gísli Friðrik Ágústsson

    Afar fræðandi lesning og mun eflaust nýtast mörgum í baráttu sinni gegn fjármögninarfyrirtækjunum. Sjálfur á ég í stappi við fyrirtæki sem þykist eiga bifreiðina sem ég tók lán fyrir, þó eflaust fyrirfinnist engin kaupnóta.

  • Ég geri ráð fyrir að þessi sama bifreið sé forskráð af skattayfirvöldum á skattskýrslu ykkar hjóna sem eign á móti skuldum.

    Furðulegt.

  • Jón Jakob Jóhannesson

    Er í sömu stöðu en í skilum.

  • Ívar Sigurgíslason

    Í Danmörku getur umráðamaðurinn skilað bifreiðinni hvenær sem er, gegn niðurfellingu skuldarinnar, ef að fjármögnunarfyrirtækið er skráður eigandi. Það hefði getað komið mörgum vel hér á landi.
    Það er ansi undarlegt þetta svokallaða eignarhald lánafyrirtækjanna án allrar ábyrgðar.
    Sjá nánar um dönsku leiðina á:
    http://www.fdm.dk/biloekonomi/bilgaeld

    Gangi ykkur vel.

  • Eygló Harðardóttir

    Takk, – ég er að leita eftir að heyra frá fólki sem vill skýra eignarhaldið. Alveg óháð því hvort það sé í skilum eða ekki.

    Það hlýtur að þurfa að skýra þetta og tryggja samræmi innan stjórnsýslunnar hvernig þessi lán og eignir eru meðhöndluð.

  • Páll Jónsson

    Ég skil ekki haus né sporð í þessu hjá þér Eygló. Þið völduð að gera samninginn á þessum forsendum.

    Ef það er afleiðing dómsins að skrá eigi Sigurð sem eiganda þá er sjálfsagt og eðlilegt hjá ykkur að krefjast þess.

    En það er hins vegar ekki í samræmi við skilmálana sem þið samþykktuð. Þetta er ekki náttúrulögmál heldur lottóvinningur.

  • Páll Jónsson gleymir því að fjármögnunarfyrirtækið samdi samningsskilmálana einhliða. Þegar svo er gert ber því að sjá til þess að þeir allir standist lög undanbragðalaust. Neytandinn gat einungis valið um samningsform og hafði enga ástæðu til að ætla að skilmálarnir stæðust ekki lög að öllu leyti. Ég tel að þessi samningsskilmáli um að eignarhaldið haldist hjá SP á samningstímanum hafi einungis verið settur til að reyna komast framhjá ákvæðum laga um neytendalán um endurheimt eignaréttar þegar um „meint“ vanskil er að ræða.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og tveimur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur