Mánudagur 26.09.2011 - 10:50 - 7 ummæli

Útlenska eða íslenska fjárfesta?

Afstaða Íslendinga til erlendrar fjárfestingar er mér ofarlega í huga eftir að ég kom aftur úr heimsókn til Azerbaijan í tilefni 20 ára afmælis sjálfstæðis landsins.

Þegar landið fékk sjálfstæði var nær nær helmingur þjóðarinnar undir fátækra mörkum og erfiðleikarnir miklir. Árið 1994 tóku þeir ákvörðun um að gera samning við nokkur af stærstu olíufyrirtækjum heims um að byggja upp olíuiðnað í landinu.

Heydar Aliyev, þáverandi forseti landsins, lýsti því jafnframt yfir að erlendir fjárfestar væru velkomnir. Punktur.

Nú nær tuttugu árum seinna telja stjórnvöld að þetta hafi verið rétt ákvörðun, þrátt fyrir að 60-70% af olíutekjunum fari til erlendra fyrirtækja. Þeir benda á að það hefði tekið þá 20-30 ár að byggja upp olíuiðnaðinn sjálfir, að nú eru tæp 10% þjóðarinnar undir fátækramörkum og að fjármunirnir séu nýttir til að fjárfesta í innviðum landsins og mannauði.

(Skilst að vísu að kona núverandi forseta sé með ríkustu konum í heimi…)

Við stöndum nú frammi fyrir mörgum sambærilegum spurningum. Íslenska ríkið, fyrirtæki og heimili eru meðal þeirra skuldsettustu í heimi. Að sama skapi búum við yfir töluverðum eignum og auðlindum. Hvernig er best að nýta þessar eignir og auðlindir í þágu lands og þjóðar? Eigum við að fjárfesta sjálf t.d. með lífeyrissparnaðinum eða eigum við að fá útlendinga til að fjárfesta? Eru erlend lán betri en erlend fjárfesting sbr. fjármögnun Landsvirkjunar og HS orku?

Eftir seinni heimstyrjöldina fengu Íslendingar mikla fjármuni frá Bandaríkjamönnum til að byggja upp innviði landsins, sjávarútveginn og virkjanir í gegnum Marshall aðstoðina. Í staðinn fengu þeir að vera með herinn hér.

Hvar eru mörkin, – ferðaþjónusta, heilbrigðisþjónusta, landbúnaðarfyrirtæki, orkufyrirtæki, sjávarútvegur?

Eða bara ekki neitt?

PS. Ég hvet lesendur til að skilja eftir ummæli eða tengja inn á Facebook. Ummæli eru samþykkt inn þannig að það getur tekið tíma fyrir þau að birtast. Ég áskil mér rétt til að birta ekki ummæli sem eru ómálefnalega.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Hallur Heimisson

    Athyglisverð pælin, Eygló. Það hefur löngun ríkt andúð á fjárfestingum útlendinga á Íslandi. Hugsanlega vegna þess hvernig einkaréttur okkar sjálfra hefur flutt fjármagna á fáar hendur. Hitt er ljóst að skapa verður þjóðarsátt um hver sé eðlilegur arður þjóðarinnar af auðlindum hennar. Umræðan um kvótakerfið vekur ekki upp bjartsýni í þeim efnum. Full ástæða til að taka þessa umræðu.

  • Bryndís Jónatansdóttir

    Við eigum að sjálfsögðu ekki að selja náttúruaðlindirnar okkar en við eigum heldur ekki að vera svona ofboðslega skeptísk í hvert sinn sem einhver útlendingur eða útlenskt fyrirtæki hefur áhuga á að fjárfesta á Íslandi. Við þurfum á erlendu fjármagni að halda og ef það helst í hendur við tilkomu nýrra starfa er það að sjálfsögðu mjög jákvætt.

    Við þurfum að horfa jákvætt fram á veginn og horfa hlutlægum augum á ný tækifæri á meðan við erum að skoða hvort þau séu hentug fyrir Ísland. Það eru nefninlega fullt af tækifærum, við megum bara ekki láta hræðsluna okkar við hið ókunnuga verða til þess að þau ganga okkur úr greipum.

  • Gunnar Alexander Ólafsson

    Sæl Eygló,
    Heyrði í þér í útvarpinu í morgun og þar fórstu með rangt mál þegar þú sagðir að Íslendingar hefðu endurnýjað togaraflota sinn með Marshall aðstoðinni. Endurnýjun fiskiskipaflotans eftir seinna stríð var gert með dýru fé sem safnast hafði saman vegna sölu á íslenskum fiski til Bretlands á stríðsárunum. Dýru fé, segi ég því þessar siglingar smátogara og báta voru háskaleikur og margir bátar fórust eða voru skotnir í kaf. Íslendingar notuðu fé sem fékkst með Marshall aðstoðinni með því að klára Sogsvirkjun og setja á laggirnar Sementsverksmiðjuna og áburðaverksmiðjuna í Gufunesi.

  • Sæl,
    Fyrst, helmingur Íslendinga er langt frá því að vera undir fátæktarmörkum. Samanburður við fyrrum skelfingarstrokin demi-lýðræðisríki þar sem borgarar dóu úr hor er í besta falli klúðurslegur.
    Annað, Aliyev var (og er nú í formi Aliyevs annars) í hópi leiðtoga sem risu upp úr falli sovét og hafa setið síðan, setið fast og lengi. Þrátt fyrir að hann hafi boðið erlenda fjárfesta velkomna, þá er það nú samt svo að SOCAR, ríkisolíufélag Azera, er eitt af stærstu olíufélögum í heimi.
    Að lokum, óhindruð erlend fjárfesting fjárfestingarinnar vegna á klakanum er galin. Risasamstæðum er skítsama (geng ekki út frá því að fyrirtæki séu eiginleg, þetta hljómar bara betur) um allt nema gróða, skítsama! Þess vegna er allt tal um fjárfesta með brennandi áhuga á „sögu lands og þjóðar, menningararfi og hinni ógnarfögru grænu óspjölluðu náttúru“ innantómt blaður, ætlað beint til að liðka fyrir aurnum… til að stytta og koma aftur að spurningu þinni Eygló, þá er svarið „bara ekki neitt“ – alls ekki neitt!

  • Það er einn gríðarlegur munur á Azerbaijan og Íslandi sem skiptir máli í þessu samhengi. Ísland er eitt ríkasta land í heimi, og á ekki í neinum teljandi efnahagsörðugleikum sem leystir yrðu með utanaðkomandi fjármagni. (Gleymum ekki að bankarnir hér hafa rakað saman ofsagróða á síðustu árum, og kvarta yfir að geta ekki komið því fé í umferð.)

    (Hins vegar ætla ég að hrósa þér, Eygló, fyrir að vera með málefnalegustu þingmönnum landsins, a.m.k. miðað við það sem ég sé um og eftir þig í fjölmiðlum. Það er gott að rökræða við fólk með andstæðar skoðanir sem kemur þeim málefnalega á framfæri. Betur að svo væri um fleiri í umræðunni, ekki síst meðal þeirra sem sitja í valda- og áhrifastöðum.)

  • Eygló Harðardóttir

    Eftirfarandi stendur í svari utanríkisráðherra um Marshall aðstoðina:
    “ Í samræmi við stofnskrá OEEC samdi Ísland framkvæmdaáætlun til fjögurra ára. Í henni var gert ráð fyrir kaupum á togurum, byggingu hraðfrystihúsa og fiskimjölsverksmiðja, byggingu áburðarverksmiðju, sementsverksmiðju og tveggja virkjana, Sogsvirkjunar og Laxárvirkjunar, svo það helsta sé nefnt.“ http://www.althingi.is/altext/115/s/0408.html

    Sömu upplýsingar fékk ég í námskeiðum í alþjóðasamskiptum og sögutímum í Bandaríkjunum á sínum tíma.

    Þannig að ég stend við orð mín.

  • Magnus Jonsson

    60 – 70% til annarra aðila finnst mér helst til of mikill fórnarkosnaður. Eiginlega fáránlega hátt. Það er ekki hægt að bera saman Azerbaijan og Ísland í þessum skilningi, fátækt á Íslandi er ef menn komast ekki 3 til útlanda og geta ekki borgað af Stöð 2, Skjánum og Sýn eða hvað þetta heitir allt. Í Azerbaijan er fátækt langvarandi sultur, bardagi að halda lífi.
    Held að stóra spurningin sé hversvegna eitt ríkasta svæði í heimi sé svo fjárþurfa eftir 20-30 ára hagsæld. ÞAð er hægt að heimfæra uppá stjórnmálin algerlega.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og tveimur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur