Þriðjudagur 27.09.2011 - 10:32 - 17 ummæli

Hjörð vitleysingja?

Óánægja með störf stjórnmálamanna er mikil. Í síðustu könnun Fréttablaðsins vildi helmingur aðspurðra ekki svara til um afstöðu sína til stjórnmálaflokka. Í nýrri könnun MMR kom fram að 13% væru ánægðir með störf ríkisstjórnarinnar en aðeins um 7% með störf stjórnarandstöðunnar. Í annarri könnun MMR hefur einnig komið fram að stór hluti kjósenda hyggist kjósa Besta flokkinn, eða “eitthvað annað” á landsvísu.

Í leiðara DV er fjallað um þetta: “Það blasir við flestum hugsandi mönnum að álit þjóðarinnar á stjórnmálamönnum lýðveldisins er í lágmarki. Ofboðsleg þreyta er meðal venjulegs fólks með framgöngu þeirra sem eiga að fara fyrir þjóð sinni af visku og forsjá. Þingheimur er í dag að sumu leyti eins og þar hafi tekið sér bólfestu hjörð vitleysingja þar sem hver æpir upp í annan og málefnin fjúka út í veður og vind undan hrakviðri slagorðanna.”

Mikill órói hefur verið í landspólitíkinni og átök inn á Alþingi. Á síðasta kjörtímabili í Reykjavík var ástandið á margan hátt sambærilegt. Afleiðingin var að öllum þeim flokkum sem fyrir voru í borgarstjórn Reykjavíkur var refsað harkalega og Besti flokkurinn tók við stjórnartaumunum (í nánu samstarfi við Samfylkinguna).

Skýring þeirra sem kusu þá var oft að Besti gæti ekki gert verr en hinir flokkarnir.

Fólk kaus þá til að refsa hinum.

Þegar Davíð Oddsson var í minnihluta í borgarstjórn lagði hann áherslu á að gagnrýna allt sem kom frá meirihlutanum, jafnvel það sem hann var þó sammála. Aðlatriðið var að koma meirihlutanum frá, hugmyndir, hugsjónir og stefnumál skiptu þar minna máli.

Ég er ekki viss um að þessi aðferð virki í núverandi ástandi. Það er ekki nóg að vera bara á móti, til þess að vera á móti. Stjórnarandstaða verður að grundvallast á hugmyndafræði og stefnu, ekki því einu að vilja koma ríkisstjórninni frá völdum. Það er ekkert óeðlilegt við að þingmenn takist á, en þau átök verða að vera málefnaleg. Við eigum öll að bera hag þjóðarinnar fyrir brjósti, þó okkur greini á um hvernig best sé að tryggja hann. Þjóðin virðist bara ekki trúa því að svo sé.

Núverandi staða er því mikið áhyggjuefni.

Hvernig getum við sýnt íslensku þjóðinni að okkur er ekki sama?

Að við viljum gera betur?

PS. Ég hvet lesendur til að skilja eftir ummæli eða tengja inn á Facebook. Ummæli eru samþykkt inn þannig að það getur tekið tíma fyrir þau að birtast. Ég áskil mér rétt til að birta ekki ummæli sem eru ómálefnalega.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

  • Gunnar Bragi, Vigdís Hauksdóttir, Höskuldur Þórhallsson
    og að sjálfsögðu Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mynda þá veiku vonarglætu sem glitta má í á stjórnmálasviðinu. Andlegur gjörvuleiki þessa fólks er viðbrugðið; ungmennafélagsandinn, hæfileikinn til andsvara og smekkur þess fyrir íslenskri fæðu vekur hvarvetna eftirtekt.

    Þetta er fólkið sem getur komið landinu aftur á réttan kjöl, m.ö.o. dregið þjóðaskútuna upp úr djúpinu, stappað stálinu í þjóðina og leitt hana inn í nýja gullöld.

    Spurningin er bara hvort Þórólfur hafi bolmagn til að kosta kosningabaráttu þessa fólks til að tryggja því þingsæti í næstu kosningum…

  • Ástæða þreytunnar gæti til dæmis verið að hjá Framsókn, var jákvæðni til Evrópusambandsins fyrir kosningar og svona frekar ferskir vindar en U beygja eftir kosningar til klassískrar sveitamennsku og almennra leiðinda. Framsókn er með frekar skemmtilega hugsjónir og stefnuskrá sem er talað um á tillidögum. Ef það væri farið eftir hugsjónunum/stefnu og barist fyrir þeim og hagsmunum þjóðarinnar að heilindum í staðinn fyrir að vinna fyrir fámenna þrýstihópa peningamanna/bænda/útgerðarmanna sem hafa þröngra hagsmuna að gæta, ættuð þið kannski séns en ég held og vona hann sé liðinn.

  • Stjórnarandstaðan hefur hlutverki að gegna á þingi. Stundum þarf að grípa til aðgerða ef sitjandi ríkisstjórn fer að hennar mati útaf sporinu í málatilbúnaði sínum. Þannig tókst núverandi stjórnarandstöðu að koma í veg fyrir þær áætlanir ríkisstjórnarinnar að kollvarpa kvótakerfinu og eyðileggja þar með afkomu sjávarútvegsins. Einnig tókst stjórnarandstöðunni að vatna út hugmyndir ríkisstjórnarinnar um stjórnarráðið. Stjórnarandstaðan var með þessu að gegna þeirri lýðræðislegu skyldu sinni að vinna gegn málum sem samrýmdust ekki stefnu hennar og að hennar mati voru ekki þjóðhagslega hagkvæm. Í því felst ekki að vera á móti, bara til þess að vera á móti með það eitt að markmiði að leggja stein í götu ríkisstjórnarinnar. Ef sú hugsun nær að festa rætur stendur lýðræðið völtum fótum og stutt í alræðisvaldið.
    Neikvæð afstaða almennings til Alþingis og þingmanna byggist ekki síst á því að á sama tíma og atvinnulífið er í lamasessi og þúsundir á atvinnuleysisbótum; afkoma heimilanna í uppnámi og fjöldi þeirra á barmi gjaldþrots svo ekki sé minnst á alvarlegan niðurskurð í velferðarmálum þá er þingheimur upptekinn af ESB málum, stjórnlagaráði, breytingum á stjórnarráðinu þar sem gælt er við fjölgun ráðherra og aðstoðarmanna og nú síðast gæluverkefni utanríkisráðherra um Palestínu sem verður væntanlega enn eitt þrasefnið í þinginu.
    Blogghöfundur segir:“Við eigum öll að bera hag þjóðarinnar fyrir brjósti, þó okkur greini á um hvernig best sé að tryggja hann. Þjóðin virðist bara ekki trúa því að svo sé. Núverandi staða er því mikið áhyggjuefni“. Og spyr svo í örvæntingu:“Hvernig getum við sýnt íslensku þjóðinni að okkur er ekki sama“?
    Svarið er einfalt. Eyðið ekki tíma þingsins í einhver gæluverkefni sem eru ekki til annars ætluð en að drepa málum á dreif. Snúið ykkur af alefli að því, að byggja upp atvinnuvegina í landinu. Með öflugu atvinnulífi losnar um fjármuni til velferðarmála. Finnið þið leiðir til þess að tryggja afkomu heimilinna ekki síst að losa þau undan ofurvaldi bankanna.
    Ef þingmenn ná samstöðu um þessi meginmál þá mun Alþingi skora vel í næstu skoðanakönnun. Þingmaðurinn fjallar svo um hugmyndafræði og stefnu og er það vel. Framsóknarflokkurinn hefur úr ýmsum góðum málum að moða. Hvers vegna má ekki koma þeim á framfæri í þinginu og fylgja þeim eftir af staðfestu?

  • Eygló grundvöllur þess að traust skapist á stjórnarandstöðunni er að þið sem skipið þá flokka drattist til að standa saman. Prívat auglýsingapot eins og þau sem Siv Friðleifsdóttir hefur ítrekað uppi að ekki sé nú minnst á fyrrum félaga ykkar GS grefur undan trú á að þið getið gert betur sem stjórnarandstaða. Það skal líka viðurkennt Eygló að mér finnst þú hafa ákveðna tendensa til að spila frítt eins og Siv, slíkt skaðar heildina. Með kveðju HH

  • Sigurður E. Vilhelmsson

    Heiða, ertu þá að mælast til þess að þingmenn kasti sannfæringu sinni og jafnvel stefnu flokksins fyrir róða til þess að marsera í takt við trumbusláttinn? Eru þá ekki fleiri sem eiga að bætast á þennan lista, jafn vel allur þingflokkurinn, sem hefur oft greitt atkvæði út og suður í einstökum málum?

  • Hermann Ólafsson

    Sé að núna eru fleiri og fleiri að standa upp gegn þessum fúkyrðaflaumi og innihaldslausu skoðannaskiptum innan þings sem utan. Las í gær áhugavert viðtal við Gauk Úlfarsson og riftaði eftirfarandi hugleiðingu í kjolfarið:

    Er mjög sammála honum í því að þessi orrahríð gegn alþingisfólki er fyrir löngu orðin yfirgengileg. Nú er ég, sem margir aðrir, mjög andsnúinn ýmsu því fólki og þeirri hugmyndafræði sem sumt alþingisfólk stendur fyrir, en ég tel mig vita bæði af eigin raun og af afspurn að á alþingi og í stjórnkerfinu, eins og út um allt í samfélaginu, er ósköp venjulegt fólk sem er að vinna að því sem það telur best fyrir þann málstað sem það var kosið til. Nú er hinsvegar svo komið að það jaðrar við sjálfseyðingarhvöt að gefa kost á sér til stjórnmálastarfa, og hvað er það þá sem almenningur er að kalla yfir sig?

    Sem betur fer sjást þó nokkur merki þess í umræðunni að fleiri og fleiri eru að stíga upp gegn þessum fúkyrðaflaumi beina umræðunni í betri farveg. Fólk verður í fyrsta lagi einfaldlega að að læra að umbera skoðanir annara! Í stað illsku og reiði ætti hver og einn að spyrja sig sjálfan hvað geti valdið því að í landi, sem talið er hafa eitt besta lýðræðisþjóðskipulag í heimi, verði til alþingi sem í almennri umræðu er úthúðað og fulltrúar þess sömuleiðis. Ástæða hlýtur að liggja annarstaðar en í meintum illvilja og forheimsku alþingisfólks sem lýðræðið og kjósendur í sameiningu hafa skilað á þing.

    Mín skoðun er sú að við verðum að horfa til atriða eins og misvægi athvæða, fyrirkomulag prófkjöra, flokkshollustu og stjórnarfarshefðir (meiri-/minnihlutastjórnir).

    Vonandi tekst íslendingum, þar með töldu alþingisfólki, að lyfta sér upp á æðra umræðu- og samræðustig en það sem leiðarahöfundar Morgunblaðsins hafa innleitt þar sem háð- og nýðskrif eru kjarninn í málflutningi. Af því höfum við meira en nóg af í undirheimum nafnlausra netskrifa.

  • Valur Bjarnason

    Eygló þú ert einn af þeim þingmönnum sem ég ber ómælda virðingu fyrir vegna þeirrar einföldu staðreyndar að þú notar gagnrýna hugsun við störf þín í þinginu.

    En það er samt ekki bara sjálfstæðisflokkurinn sem hefur farið eftir þessari froskrift Davíðs, heldur líka framsóknarflokkurinn, því miður. Og einn og einn þingmaður sem ekki tekur þátt í þessu þarf að þola skammir þingflokksformanna sinna að launum.

  • Guðmundur Gylfi Guðmundsson

    Eygló þú átt þakkir skildar fyrir að taka umræðu þingflokksins út fyrir herbergið. Þetta er gert undir rós en þeir sem hafa t.d. fylgst með umræðunni um stjórnarráðið vita að þú ert að gagnrýna Davíðstaktik, vinsældarleiki og svik við samþykkta stefnu í eigin flokki.

  • Siggi Jons

    Eygló.
    Stattu þig stelpa.
    Það vantar fleiri þina líka á Alþingi.

  • Gunnar Skúli Ármannsson

    er ekki vandamálið að framkvæmdavaldið ræður flestu innan þings.Hegðun þingmanna ber þess oft merki.
    Annað er að stuðningur almennings við góða þingmenn og góðar hugmyndir kemur ekki fram sem þrýstingur á valdastéttina, sennilega er framkvæmdavaldið jafn ónæmt fyrir pöplinum og þingmönnum.

  • Hvernig breytum við kerfinu þannig að það virki og fólk hafi trú á því? Með því að dreifa völdunum, búa til þátttökuákvörðunarferli, stytta vinnutímann, koma á alvöru sjálfbærni, banna viðskipti með fjármagn sem fjármagn, gera upp skuldabullhrúguna eftir hrunið, hleypa öllum hópum samfélagsins að ákvörðunartökuferlinu og svo framvegis og svo framvegis:

    http://www.alda.is

  • Árni Evert Ingólfsson

    Vel gert Eygló. Málefnaleg umræða frekar en að skattyrðast um ekkert eins og siður er á alþingi. Umfram allt þurfa alþingismenn að hafa sannfæringu og fylgja henni eftir, en þeir þurfa líka að geta gert málamiðlanir sem ná fram einhverri vitrænni niðurstöðu í málefni.
    Niðurstaðan þarf að vera til bóta fyrir þjóð og land, flóknara er það ekki.

  • Leifur A. Benediktsson

    Við þurfum að ná fram þjóðarsátt hér í þessu landi. Hún ein mun leiða okkur áfram veginn. Til að svo megi verða er brýn nauðsyn að klára uppgjörið við Hrunið.Það hefur ekki farið fram. Hér leika lausum hala hópar manna sem nærast á afleiðingum geggjaðrar frjálshyggju sl. ára.Hrunkóngar hreykja sér og menga heilbrigða umræðu o.s.f.r.v. Hér hefur ekkert breyst til batnaðar,því miður Eygló okkur miðar ekkert.

  • Magnus Jonsson

    Á meðan er hægt að telja á fingrum beggja handa (og duga ekki til tvær hendur) hrunverja á Alþingi verður varla von til að virðing fyrir þessarri stofnun aukist.
    Á meðan „óvirtir“ þingmenn haga sér eins og börn í sandkassa sem uppnefna umbjóðendur sína er varla von til að virðingin verði til.

  • Í stuttu máli þá þarf fyrst að gera sér grein fyrir því hvað er vandamálið. Þetta eru þau viðhorf sem eru orðin almenn um Alþingi og Alþingismenn.
    1. Alþingismenn hafa ekki né vilja ekki axla ábyrgð vegna Hrunsins.
    2. Alþingismenn hafa ekkert lært af Hruninu og eru í afneitun á þætti síns fólks í því.
    3. Hálftími hálfvitanna með öllu sínu lýðskrumi og skotgrafapólitík er hið almenna yfirbragð þingmanna í umræðum þegar þeir nenna að mæta í þingsal til að vinna.
    4. Fólk finnst eins og Alþingi sé fyrst og fremst þjónustustofnun útrásarvíkinga, valdaætta, flokkshesta, kvótagreifa, auðmanna og bankamanna og taki afstöðu gegn heildarhagsmunum þjóðarinnar í flestum málum sem þessir aðilar tengjast.
    5. Algjört aðgerðarleysi og viljaleysi gagnvart því að grípa til aðgerða gegn Hrunvöldum.
    6. Alþingi er spilltasta stofnun landsins þar sem spilltustu dreggjar Íslands utan viðskiptalífs, verma stólanna.
    7. Alþingismenn vilja viðhalda hér óbreyttu samfélagi lénsherra og helmingaskipta fortíðar.
    Það er því ýmislegt sem þarf að gera svo hægt sé að reka þetta orðspor á brott og eitt af því fyrsta væru sjáanlegar afsagnir þingmanna með fortíð Hrunsins á samviskunni, styrkjamál o.fl. Þaðan af næst að farið verði í aðgerðir gegn Hrunvöldum sem fá enn að leika lausum hala og hafa fengið að halda öllum eigum sínum meðan fólki finnst það þurfa að eiga að sitja uppi með að borga allan skaðann af Hruninu.

    Þingmenn verða líka að fara að taka mark á Skýrslu RNA sem varla nokkur þingmaður virðist hafa lesið og tekið mark á og stjórnmálamenn hætta að láta eins og innihald hennar sé bara einhver „lygi vinstri manna“.

    Síðan verður þessi MORFÍS-ræðukeppni með öllu sínu lýðskrumi og hálfvitagangi að fara að hætta.

  • Til að þjóðin geti treyst því að þingmenn séu að vinna heilshugar og saman að þvi að koma Íslandi út úr þessari krísu á sem bestan hátt þá þarf að auka upplýsingaflæði.

    Það þarf meiri samskipti á milli þingmanna, ríkisstjórnar, ráðherra og þjóðarinnar. Ef þjóðin ekki veit hvað er verið að gera, hvað þarf að gera og hvers vegna, hvernig á þjóðin þá að geta myndað sér aðra skoðun en þá að ekkert sé að gerast og að svik þingmanna og ríkisstjórnar séu alger.

    Þingmenn og ráðherrar geta verið að vinna frábæra vinnu, slökkva elda daglega og taka réttar en erfiðar ákvarðanir, en ef þjóðin aldrei fær að vita hvað er verið að gera, þá hafa þessir hlutir aldrei gerst!

  • Eitt sem manni finnst sérkennilegt við störf Alþingis (og ég veit að ég er ekki einn um þá skoðun) er þetta eilífa og tímafreka þras um einhvern „tittlingaskít“ sem litlu eða engu máli skiptir, t.d. um fundarstjórn, þingsköp o.s.frv. Að ógleymdum fáránlegum uppákomum (a.m.k. séð „utan frá“) eins og mörgum ræðum og miklum deilum um hvort halda skuli kvöldfundi eða ekki. Sé deilt langtímum saman um slíkt verður niðurstaðan auðvitað sjálfkrafa kvöldfundur því enginn tími er að deginum í „eðlileg“ mál ef löngum tíma er sóað í deilur um hvort halda skuli kvöldfundi.

    Allskonar svona „vitleysisgangur“ eykur ekki álit fólks á Alþingi (og það má bæta ótal mörgu öðru við, málþófi, Morfísskrumskælingu, stórum þingmálum sem koma fáránlega seint fram o.m.fl).

    Og að þetta rugl haldi endalaust áfram er óskiljanlegt. Gera þingmenn sér ekki grein fyrir að við þetta fer virðing Alþingis niður í alkul, halda þeir að þetta sé bara eðlilegt og allt í lagi eða er þeim alveg sama? Eða telja kannski einhverjir þetta rugl sér beinlínis í hag? Sé það skýringin eru það stórhættuleg vinnubrögð og virkar eins og að hella olíu á eld miðað við ástandið í þjóðfélaginu núna.

    En það er þó a.m.k. örlítið hænufet í rétta átt ef einhverjum er ekki sama um þetta ástand.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og einum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur