Viðtalið við Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur snerti mig djúpt. Ég trúi henni.
Það var tvennt sem gerði það sérstaklega að verkum. Skýring hennar á því af hverju hún varði föður sinn þegar hann var sakaður um kynferðisbrot árið 1996 og lýsing hennar á því þegar faðir hennar braut aftur á henni á fullorðinsárum.
Þarna var engin tilraun til að fegra sjálfa sig, aðeins skýr frásögn af ljótum veruleika.
Veruleika sem er erfitt að skilja.
Veruleika sem má ekki þegja um.
…má ekki sætta sig við.
Lífsreynslusaga Guðrúnar Ebbu er sorgleg og engin ástæða til þess að draga orð hennar í efa. Saga hennar er komin út á bók og tilgangurinn að sagt er ekki sá að leita hefnda heldur innlegg í þá baráttu að svívirðileg framkoma af þessu tagi fái þrifist. Að vera hvatning til allra þeirra sem verða fyrir svona lífsreynslu að stíga fram og segja frá, hiklaust og óttalaust. Þá fyrst er einhver von til þess að baráttan gegn glæpum af þessu tagi fái vind í seglin. „Hvílík skepna hefur þessi biskup verið“ segir prestur nokkur og var náinn samstarfsmaður hans um árabil.
Hann og aðrir sem dæma nú hart og af miskunnarleysi verða samt að gá að sér. Ólafur biskup er látinn og verður ekki úr þessu sóttur til saka nema fyrir hinum æðsta dómstól. En afkomendur hans líða og þjást og hafa þó ekkert til saka unnið. Þess vegna eiga menn að gæta hófs í orðavali. Aðalatriðið er og það er tilgangurinn með uppljóstrun Guðrúnar Ebbu og bókaskrifunum að svívirðileg framkoma af þessu tagi verði ekki þöggun að bráð.